01.11.1977
Sameinað þing: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (284)

325. mál, aðstoð Þjóðleikhússins við áhugaleikfélögin

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég hef reynt að afla mér upplýsinga svo að ég geti svarað þessari fsp., en þó mun henni vart verða að fullu svarað hér af minni hálfu. Rn. hefur leitað upplýsinga hjá þjóðleikbússtjóra um þau atriði sem fsp. fjallar um. Svar hans er á þessa leið:

Aðstoð hefur verið sexþætt:

1. Leikárin 1975–1976 og 1976–1977 störfuðu 7 fastráðnir listamenn leikhússins með áhugaleikfélögum, ýmist sem leikarar eða leikstjórar, og eru þó ótaldir tveir leikstjórar sem störfuðu með Leikfélagi Akureyrar. Hér eru hins vegar ekki taldir með listamenn hússins sem starfað hafa aukreitis á höfuðborgarsvæði með Leikfélagi Kópavogs ellegar með æðri skólum eða leikfélögum þeirra. Allir þessir listamenn héldu óskertum launum sínum hjá Þjóðleikhúsinu þennan tíma.

Hér vil ég skjóta því inn í, að um greiðslur félaganna til þessara listamanna, þessara leikara, er mér ekki kunnugt og ég tel varla í mínum verkahring í raun og veru að grafa það upp þar sem hér er ekki um ríkisstofnanir að ræða, þar sem eru hin frjálsu félög. Þá tek ég aftur til við að kynna upplýsingar þjóðleikhússtjóra.

2. Verulegur hluti starfs á saumastofu í Þjóðleikhúsi er aðstoð við áhugaleikflokka og skóla vegna búninga. Að mati forstöðukonu saumastofu er slík þjónusta ársstarf eins manns í hálfu starfi. Þar við bætast að sjálfsögðu ráðleggingastörf og fleira þess háttar.

3. Mjög oft er leitað til Þjóðleikhússins í sambandi við verkefnaval. og lán á handritum til áhugaleikflokka er mjög algengt.

4. Algengt er að lána leikmuni og búnað í heilar leiksýningar úti á landi, Stöku sinnum hafa leiktjöld verið seld gegn vægu verði, en minna er um það vegna stærðarmismunar húsanna.

5. Þjóðleikhúsið veitir iðulega tæknilega aðstoð og ráðleggingar. Ekki á þetta síst við um ljósadeild þess.

6. Í samvinnu við Bandalag ísl. leikfélaga hefur verið efnt til námskeiða í leikhúsinu á vorin undanfarin ár, sérstaklega í tæknilegum efnum. Samvinna milli Þjóðleikhússins og bandalagsins hefur undanfarin ár verið mjög góð, segir þjóðleikbússtjóri að lokum í sínum upplýsingum.

Þetta, að þarna sé góð samvinna á milli, álít ég mjög mikilvægt einmitt núna eftir að leiklistarstarfsemi áhugafólks hefur tekið slíkan fjörkipp sem hún hefur gert og Bandalag ísl. leikfélaga í raun og veru blómstrað.

Ég vil í tilefni af þessari fsp. aðeins rifja það upp sem hv. fyrirspyrjandi kom að, að í frv. til Þjóðleikhúslaga, sem hefur legið fyrir Alþ. og verður endurflutt á þessu þingi, eru bein fyrirmæli um samstarf og stuðning Þjóðleikhússins við leikfélög áhugamanna. Vel má vera að við athugun þingsins þyki rétt að gera þessi ákvæði eitthvað skýrari. En fyrirmæli um þetta er m.a. að finna í 15. gr. frv., sem fjallar um leikmunasafnið, og svo í 16. gr, þess, en þar segir m a. orðrétt:

„Þjóðleikhúsið skal kappkosta að hafa samstarf við leikfélög áhugamanna og láta þeim í té gistileikara og leikstjóra til leiðbeininga, eftir því sem unnt er. Gera skal leikfélögum áhugamanna kleift að fylgjast með starfi Þjóðleikhússins. Á vegum Þjóðleikhússins skulu árlega farnar á starfstíma þess leikferðir sem víðast um landið.“

Það má vel vera, eins og ég sagði, að ástæða þyki til að hafa þessi ákvæði nokkru fyllri, nokkru skýrari, færa þau meira út, en þó held ég að menn verði að hafa nokkurt hóf á því í löggjöfinni, en gera það þá að nokkru leyti kannske í reglugerð. Ég vil sem sagt ekki þvertaka fyrir það, að ástæða kynni að vera til að fara ofan í þetta með þetta sjónarmið í huga.

Ég vil enn geta þess, fyrst farið er að spyrja sérstaklega um starfsemi Þjóðleikhússins utan veggja þess, að Þjóðleikhúsið hefur um árabil staðið fyrir árlegum leikferðum um landið. Að vísu raskast þessar áætlanir stundum, t.d. féll niður ferð um Vestfirði s.l. vor vegna óvissu um samgöngur vegna vinnudeilna sem þá stóðu yfir. Menn óttuðust verkfall, sem ekki varð þó af. Í haust hefur „Nótt ástmeyjanna“ verið sýnd á allmörgum stöðum úti á landi. Ég gæti einnig upplýst það hér, að áformað er að frumsýna á Vestfjörðum í vetur gamanleikinn „Á sama tíma að ári“ og í vor er svo áformað að fara sýningarferð með leikritið „Grænjaxla“. Mér sýnist því að það standi sem ég sagði í umr. um Sinfóníuhljómsveitina, að hvað snertir leikferðir út á land sé um að ræða vaxandi þjónustu Þjóðleikhússins við dreifbýlið.

Ég vil að lokum vekja athygli á því, að með bættum samgöngum aukast möguleikar fólks víðs vegar um land til að sjá leiksýningar í Þjóðleikhúsinu og nýta þannig þá merku starfsemi sem þar fer fram. Fólk notar þessa möguleika í hópferðum sem farnar eru til Reykjavíkur og þá m.a. stefnt að því að sjá sýningar í Þjóðleikhúsinu. Það hefur aukist mjög mikið hin síðari ár.