19.04.1978
Neðri deild: 79. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3655 í B-deild Alþingistíðinda. (2849)

245. mál, verðlag, samkeppnishömlur og óréttmætir viðskiptahættir

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósepsson) :

Hæstv. forseti. Eins og þegar hefur komið fram í umr. um þetta mál, þá varð fjh.- og viðskn. ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. n., sem er skipaður fulltrúum ríkisstj.-flokkanna, leggur til að frv. verði samþ. með nokkrum minni háttar breytingum. Ég er hins vegar andvígur frv. og legg til að það verði fellt. Nál. mitt er á þskj. 568, en fulltrúi Alþfl. í n. var ekki mættur við afgreiðslu málsins.

Ágreiningur sá, sem kom upp í n. um þetta mál, er í rauninni um þá stefnumörkun sem felst í þessu frv., en eins og kunnugt er, miðar þetta frv. að því að gerbreyta skipulagi á verðlagningar- og verðlagseftirlitsmálum okkar. Í frv. felst að það á að hverfa frá núverandi skipulagi þar sem byggt hefur verið á því, að sérstök verðlagsnefnd hefur haft vald til þess að ákveða hámarksálagningu eða hámarksverð á vörum og þjónustu og síðan hefur verið ætlast til þess, að sérstök stofnun líti eftir framkvæmd á þessum málum. En með þessu frv. er gert ráð fyrir að að því verði stefnt að gefa verðlagninguna frjálsa, þ. e. a. s. að þeir, sem hafa með að gera sölu á vörum og varningi og selja af hendi þjónustu, geti ákveðið verðlagninguna sjálfir. Að vísu er það bundið ákveðnum skilyrðum, þar sem miðað er við að nægileg samkeppni sé til staðar. En meginstefnan er sem sagt sú, að að því er stefnt að verslunarálagning verði gefin frjáls. Þar með er horfið frá verðlagseftirliti í þeirri merkingu sem verið hefur.

Ég hef bent á það í umr. um þetta mál, að þó að sitthvað megi finna að því skipulagi sem við höfum búið við varðandi þessi mál og það sé að mínum dómi fyllileg ástæða til að gera breytingar á því, þá séu ekki aðstæður til þess, eins og nú horfir í verðlags- og efnahagsmálum okkar, að hverfa frá þeirri meginstefnu, sem gilt hefur í þessum efnum, og gefa álagninguna frjálsa. Ég tel að aðstæður séu þannig nú, að miklu fremur hefði þurft að herða á þessu eftirliti, það hefði þurft að gera verðlagseftirlitið virkara en það hefur verið, vinna að því að fá almenning í landinu til þess að taka meiri þátt í almennu verðlagseftirliti en verið hefur nú um skeið og ganga miklu einarðara til verks en gert hefur verið til að halda niðri verðlagi, koma í veg fyrir verðlagshækkanir sem fastlega er sótt á um að fá fram í fjölmörgum tilvikum.

Við vitum að að undanförnu hafa samtök verslunarinnar gert miklar kröfur um að fá álagningu hækkaða. Forsvarsmenn þeirrar stéttar hafa talið að hlutur verslunarinnar væri of lítill og hann þyrfti að verða meiri. Ég held því að enginn vafi sé á því, að um leið og þessi mál verða gefin frjáls, þ. e. a. s. ákvörðun á verðlagningu við núverandi aðstæður, mundi það tvímælalaust leiða til hækkandi verslunarálagningar og til hækkandi verðlags.

Fínt þykir nú á tímum að tala um frelsi, að sjálfsagt sé að hafa frjálsa verðlagningu og þeir sem hafa með þessi mál að gera, verði að búa við fullkomið frelsi, þeir eigi að ákveða þetta sjálfir og frjálsræði muni vera best í þessum efnum eins og öðrum, eins og menn segja svo hátíðlega. En þá er ekki úr vegi að menn líti á það um leið, hvernig þetta frelsi er veitt í öðrum tilfellum, þar sem í rauninni er um sama mál að ræða að meira eða minna leyti.

Við vitum að núverandi hæstv. ríkisstj. hefur t. d. talið að við núverandi aðstæður væri ekki hægt að virða frjálsan samningsrétt launþega, þó gengið hafi verið út frá því í lögum að samningsréttur um launakjör væri frjáls og aðilar vinnumarkaðarins gætu gert með sér bindandi samning um launakjör. Ríkisstj. hefur talið nauðsynlegt að grípa þarna inn í og hefta frelsið á þessu sviði, neita því að í gildi megi vera samningar sem gerðir voru þó samkv. réttum eða gildandi lögum. Ef frelsið ætti að vera jafnmikið til handa launþegum í landinu og þarna er gert ráð fyrir að eigi að verða handa þeim sem hafa með höndum sölu á varningi og þjónustu, þá ættu launþegar í landinu að hafa fullkomið frelsi til þess að ákveða kaup sitt sjálfir án allra samninga, því að auðvitað er álagningin, sem verslunin fær í sambandi við sölu á vörum, að verulegu leyti ákvörðun um launakjör þeirra sem með verslunina hafa að gera.

Ég tel að við þær aðstæður, sem við búum nú við í verðlagsmálum, sé hrein fjarstæða að ætla að gefa verðlagið frjálst hér á landi. Ég trúi því ekki, að það fái staðist til lengdar að gefa alla verslunarálagningu frjálsa, en ætla á sama tíma að standa gegn því að frjálsræði gildi á vinnumarkaði um gerð launasamninga. Og þó trúi ég því enn síður, að það fái staðist þegar ríkisstj. er búin að koma því í gegn að verslunin í landinu geti ákveðið álagninguna að eigin vild, að þá skuli rífa upp það kerfi, sem í gildi hefur verið hér um langan tíma varðandi verðtryggingu á launum, þannig að þau laun, sem ákveðin hafa verið í kaupgjaldssamningum, skuli breytast í hlutfalli við verðlagið í landinu. En það virðist vera að hæstv. ríkisstj. hugsi sér að koma þessu öllu í gegn. Verðlagningin á að vera frjáls, verðlag má hækka eftir því sem þeir ákveða, sem með vörusöluna hafa að gera. Launþegar mega ekki semja bindandi um launakjör sín við vinnuveitendur, og það má ekki vera í gildi, að þeir verðtryggi laun sín gegn hækkandi verðlagi. Mér sýnist að eins og þessi mál liggja fyrir ætlist ríkisstj. til þess, að frelsið sé aðeins á aðra höndina, en á hina höndina megi frelsið ekki gilda.

Það þykir auðvitað alveg óhjákvæmilegt líka að ákveða í lögum að bændur geti ekki heldur ákveðið launakjör sin. Þeir verða að fylgja ákveðnum reglum í sambandi við verðlagningu á framleiðslu sinni og söluvöru sinni. Þeir eiga ekki að fá sjálfdæmi í þeim efnum. En verslunarstéttin á að fá sjálfdæmi og ákveða sjálf hverju sinni hvað hún leggur mikið á þá vöru sem hún selur.

Að sjálfsögðu á einnig að vera í gildi að þessi sama verslunarstétt hafi fullt frjálsræði til þess að fá gjaldeyri til að flytja inn þær vörur til landsins sem hún biður um á hverjum tíma. Það þykir einnig sjálfsagt núna, að eini aðilinn í þjóðfélagi okkar, sem hafi alveg óbundnar hendur um að taka erlend lán umfram þann almenna lánaramma sem settur hefur verið, sé verslunarstéttin. Hún má halda áfram að taka svonefnd vörukaupalán og bæta þar við milljarða lántöku á ári, eins og verið hefur að undanförnu. Hún má halda áfram að taka slík lán til innflutnings á vörum. Þessi svonefndu vörukaupalán hafa farið ört hækkandi. Slíkar erlendar lántökur þykja sjálfsagðar af því að innflutningurinn á í hlut, verslunin á í hlut. En ef hins vegar er um að ræða aðra aðila í þjóðfélaginu, t. d. þá sem ætla sér að flytja inn framleiðslutæki eða annað slíkt fyrir atvinnuvegina, þá er sagt við þá: Það kemur ekki til mála að þið fáið leyfi til að taka lán til að flytja inn slíka hluti umfram það sem gert er ráð fyrir með hinum almenna lánaramma varðandi töku á erlendum lánum. — Það er orðinn æðimikill munur á þeim rétti sem ríkisvaldið býr þarna hinni almennu verslun í landinu og kaupsýslustéttinni og t. d. launþegum og hinn almenna atvinnulífi landsmanna.

Ég veit að talsmenn þessa frv. halda því fram, að nokkrar hömlur eigi að vera á því, hvað verslunarstéttin geti tekið í sinn hlut í gegnum frjálsa álagningu, þar sem miðað sé við að álagningin verði gefin frjáls þar sem nægileg samkeppnisaðstaða er fyrir hendi. Það hefur hins vegar verið upplýst, að talið er að við núverandi aðstæður sé nægileg samkeppnisaðstaða fyrir hendi í þýðingarmiklum greinum verslunarinnar, enda held ég að það megi öllum vera alveg ljóst mál, að ef ekki telst vera samkeppnisaðstaða nú, t. d. varðandi hina almennu matvörusölu í landinu, miðað við það frelsi sem er til þess að flytja inn þessar vörur, þá verður þessi samkeppnisaðstaða aldrei til. Það er líka fyllilega ætlun þeirra, sem standa að þessari löggjöf, að gefa verslunarálagninguna í þessum greinum frjálsa, þó að þetta sé vafið í þann búning að nú eigi að athuga um samkeppnisaðstöðu.

Ég hef áður í umr. um þetta mál bent á, að þó að hægt sé að benda á að t. d. í Reykjavík geti verið nokkur samkeppni á milli verslana í ýmsum greinum verslunarinnar, þá er ekki um neina teljandi samkeppni að ræða í hliðstæðri vörusölu víða annars staðar á landinu. Við höfum allstór byggðarlög á okkar mælikvarða víða á landinu — byggðarlög sem hafa 500 til jafnvel 1500 íbúa. Þar er svo að segja aðeins um eina verslun að ræða. Auðvitað er ekki hægt að tala um neina teljandi samkeppni á slíkum stöðum. En verði verslunarálagning gefin frjáls, t. d. í matvörusölu, svo að við tökum hana sem dæmi vegna samkeppnisaðstöðunnar í Reykjavík, þá verður verslunarálagningin í þessari grein gefin frjáls um allt land. M. ö. o.: þar sem svo stendur á að aðeins ein verslun er eða þó að þær væru tvær, þá telst samkeppnin ekki ýkjamikil, þá hafa verslunaraðilar á slíkum stöðum fengið býsna þægilega aðstöðu til þess að taka þá álagningu sem þeim hentar að taka hverju sinni. En öryggi hinna, sem teljast neytendur og þurfa að skipta við þessar verslanir, er ekki mikið.

Vissulega hefði mátt segja að við aðrar aðstæður í verðlagsmálum okkar og efnahagsmálum en þær, sem við búum við í dag, hefði mátt gera tilraun í þessa átt og sjá hvernig henni hefði reitt af. Ef hér hefði verið tiltölulega stöðugt verðlag og tiltölulega auðvelt fyrir þá, sem kaupa þurfa vöruna, að átta sig á réttu og röngu verðlagi og ef kaupgjaldsmálin hefðu einnig verið tiltölulega frjáls, þannig að það hefði verið nokkuð auðvelt fyrir launþega að svara þeim verðlagshækkunum, sem orðið hefðu, með því að gera nýja kaupgjaldssamninga eða ákveða laun sín sjálfir til hækkunar, hefði mátt reyna þetta. En ekkert af þessu er til. Málin liggja fyrir á allt annan veg. Hér sveiflast verðlag í ríkum mæli frá degi til dags, verðhækkanir eru mjög miklar, erfitt er fyrir menn að átta sig á hinu rétta verði, og kaupgjaldsmálin eru þannig, að þar eru uppi harðar deilur nú einmitt um verðtryggingarþáttinn í launamálunum. Ríkisstj. hugsar sér að ganga enn þá lengra á þeirri braut og vill breyta vísitölugrundvellinum í sambandi við verðtrygginguna.

Undir þessum kringumstæðum hugsar hún sér að gefa verslunarálagningu frjálsa, segja við þá sem með þau mál hafa að gera: Gerið svo vel. Takið þá álagningu, sem ykkur sýnist. Við nennum ekki að eltast við þetta. Það er sjálfsagt að þið ákveðið álagninguna sjálfir eftir því sem þið teljið ykkur henta.

Satt að segja finnst mér ótrúlegt að ríkisstj. skuli þora að taka svona ákvarðanir og það rétt fyrir kosningar. Það er satt að segja að storka almenningi í þessu landi. Og þó að talsmenn ríkisstj. séu nú liprir í því að segja: Já, þetta á nú að verða frjálst, en þó eru hér á ýmsir skildagar, þá getur það samt ekki farið fram hjá neinum manni, að við það er miðað í þessu frv. að þessi álagning verði gefin frjáls. Til þess er leikurinn gerður, enda hefur það að mínum dómi komið greinilega fram, bæði í umr. hér á Alþ. og þá ekki síður í þeirri n. sem hefur fjallað um málið.

Varðandi þetta frv. er því að mínum dómi fyrst og fremst tekist á um stefnumarkandi atriði. Spurningin er: Á að breyta um grundvallarstefnu í þessum verðlagsmálum og verðlagningarmálum frá því sem verið hefur? Á að taka upp þessa nýju frjálsræðisstefnu í verðlagsmálum eða ekki? Ég er algerlega andvígur því, að þessi nýja stefna verði tekin upp, einkum og sérstaklega við núverandi aðstæður. Af því legg ég til að frv. verði fellt, en flyt ekki neinar brtt. við það. Hér er fyrst og fremst tekist á um stefnumarkandi atriði. Spurningin er um það, hvort menn vilji taka upp þessa nýju stefnu eða ekki. Minni háttar breytingar fram og til baka um einstakar undirgreinar, sem er að finna í þessu frv., út frá þessu meginatriði skipta mig ekki máli. Og það hefur líka lítið að segja varðandi þetta höfuðatriði, þótt búið sé að blanda inn í þetta frv. liðum gersamlega óskyldum þessu aðalatriði, eins og því sem er verið að kenna við neytendavernd og eftirlit með óréttmætum verslunarháttum og öðru slíku. Ég álít að öllum þeim atriðum, eins og kemur líka fram í grg. frv. frá þeim sérfræðingum sem unnu að málinu, þegar lítið er á hvernig þessum málum er skipað hjá öðrum þjóðum, þyki yfirleitt ekki hæfa að blanda saman á þann hátt sem gert er í þessu frv. Þau atriði frv., sem fjalla því um þessa þætti, skipta sáralitlu máli varðandi meginatriðið sem er að finna í frv.

Þá vil ég einnig minna á að nú um nokkurt skeið hefur þótt eðlilegt að hafa ákveðið samkomulag við aðila vinnumarkaðarins varðandi skipan þessara verðlagsmála. Það var tekið upp það kerfi til samkomulags við aðila vinnumarkaðarins, að í verðlagsnefndinni skyldu vera 4 fulltrúar frá hálfu launþega, aðrir 4 fulltrúar frá hálfu vinnuveitenda og oddamaðurinn, formaður nefndarinnar, skyldi síðan skipaður af viðskrh. Við þetta skipulag höfum við búið í allmörg ár. Þetta samkomulag tókst upp úr allhörðum vinnudeilum og því hefur verið haldið síðan og ekki hefur þótt rétt að raska þessu samkomulagi. Auðvitað hafa þessir aðilar, aðilar vinnumarkaðarins, fulltrúar launþega og fulltrúar vinnuveitenda, einna mestra hagsmuna að gæta varðandi það, hvernig á þessum málum er haldið, hvernig fer með þróun verðlagsmála í landinn, því að vitanlega er alveg augljóst að fari svo, af hvaða ástæðu sem það er, að verðlag fari ört hækkandi, sem leiðir þá venjulega af sér tilheyrandi launahækkanir og hækkanir á almennum rekstrarkostnaði, þá umturnar það fljótlega öðru skipulagi í efnahagsmálum þjóðarinnar, kallar t. d. á gengislækkanir og aðrar slíkar ráðstafanir eða leiðir til annarra meiri háttar deilna. Því er ofureðlilegt, að einmitt fulltrúar vinnumarkaðarins fái að hafa mikið að segja um gang þessara mála. Og séu þeir skyldugir til þess að miða hömlur sínar í sambandi við verðákvarðanir, eins og t. d. reglur um það að setja hámarksverð eða hámarksálagningu, við það að hægt sé þó að reka vel skipulagða verslun eða fyrirtæki á þann hátt að reksturinn fái borið sig, séu þeir bundnir af þessu með lögum, þá er ekki hægt að halda því fram, að þeir hafi fengið vald til þess að hafa áhrif á þróun þessara mála umfram það sem eðlilegt er. Ég held líka að reynslan hafi sýnt á undanförnum árum, að þó að nokkuð hafi verið reynt að standa gegn verðhækkunum með því kerfi sem hér hefur verið í gildi, þá hafi síst verið gengið of langt. Ég held að það teljist til undantekninga, að verðlagsyfirvöld hafi ákveðið svo lága þóknun fyrir það að selja vöru að ekki hafi átt að vera hægt að halda þeirri starfsemi í gangi með eðlilegum hætti. Miklu fremur væri hægt að finna dæmi um að verðlagsyfirvöld okkar hafi gefið um of eftir fyrir þeim þrýstingi sem jafnan er á um það að koma fram meiri verðlagshækkunum.

Stundum eru færðar fram röksemdir fyrir því, að við eigum að hverfa alveg frá því kerfi sem við höfum búið við, því að við höfum búið við meiri verðhækkanir og meiri verðbólgu á Íslandi en flestar aðrar þjóðir hafa. búið við, a. m. k. í nágrenni við okkur, þrátt fyrir verðlagseftirlit okkar. Þetta segir vitanlega ekki nokkurn skapaðan hlut um að þessar verðhækkanir séu því skipulagi að kenna. Auðvitað vitum við að hvorki frjáls álagning, sem yrði tekin upp, né verðlagsákvæði af þeirri tegund, sem við höfum búið við, geta ráðið verðlaginu að fullu og öllu. Þar koma önnur atriði inn í, sem vitanlega ráða miklu. Verður t. d. ekki undan því víkist, að þegar verðfall verður á gjaldeyri okkar hækkar í íslenskum krónum verðlag á innfluttum vörum. Hafi stjórnvöld gripið til þess að fella gengi krónunnar leiðir af því ákveðna verðhækkun. Verðlagsyfirvöld geta ekkert í slíkum tilfellum annað en reynt að hamla gegn óeðlilegri verðhækkun í kjölfar gengislækkunar. Og við vitum að þau hafa að undanförnu, hvað sem um þeirra starf má að öðru leyti segja beitt slíkum hömlum í sambandi við verðhækkanir í kjölfar gengislækkana að verslunarstéttin hefur almennt deilt harðlega á þessar hömlur og talið að hún hefði átt að fá að hækka vörurnar meira í verði en henni var heimilað. Því er vitanlega alger fjarstæða að fordæma verðlagseftirlitskerfi okkar með því, að hér hafi verið mikil verðbólga. Það er allt annað, sem þar hefur ráðið ferðinni, og hefur oft verið minnst á það hér í umr. Ég held hins vegar að enginn vafi sé á því, að þetta kerfi okkar hefur þó gert nokkurt gagn og hægt væri að bæta þetta kerfi þannig að það gerði meira gagn. En að gefast upp með öllu og gefa álagninguna frjálsa við núverandi aðstæður tel ég að jafngildi því að ganga beint út í fenið.

En þetta er að mínum dómi allt í samræmi við stefnu þá sem fram kemur hjá núv. hæstv. ríkisstj. Afstaða hennar virðist vera sú, að halda þurfi launum niðri, það verði að banna frjálsa samninga og koma í veg fyrir að verðtryggingarreglur gildi. Henni þykir hins vegar sjálfsagt að ýmiss konar milliliðir, sem hafa með höndum margvíslega starfsemi, bæði gagnlega og vafasama eða starfsemi sem ekki verður talin verulega nauðsynleg, megi hafa sem mest frjálsræði. Í þessu sambandi skal ég taka það fram, að mér dettur vitanlega ekki í hug að halda því fram, að verslunin sem heild sé ekki nauðsynleg atvinnugrein í landi okkar og það verði ekki að ætla versluninni almennt séð þá þóknun sem þarf til þess að hægt sé að halda uppi vel reknum fyrirtækjum á því sviði. Ég viðurkenni algerlega þennan grundvöll. En hitt viðurkenni ég ekki, að vænlegt sé við núverandi aðstæður að gefa þarna tauminn gersamlega frjálsan, á sama tíma sem að hinu leytinu á að halda fast í víð þá sem þarna eiga líka hagsmuna að gæta.

Ég hef gert grein fyrir því í aðalatriðum, hver er skoðun mín á þessu máli, og ég endurtek það, að eigi að gera tilraunir í þessa átt þurfa skilyrði að vera fyrir hendi önnur en þau sem eru til staðar í efnahagsmálum okkar nú og búa þarf á allt annan hátt um hnútana en gert er í þessu frv.

Um þær breytingar, sem meiri hl. fjh.- og viðskn. flytur við frv. og er að finna á þskj. 559, hef ég lítið að segja. Þær miða í rauninni allar í þá átt að gefa eftir, slaka á öllu eftirliti og við skulum segja tryggja það enn betur, að verslunarálagningin verði gefin frjáls og það sem allra fyrst. Till. miða yfirleitt að þessu.

Það atriði, sem er býsna sérkennilegt í þeim till. sem hv. meiri hl. fjh.- og viðskn. flytur, er að leggja jafnframt til að fella úr gildi allmörg lög sem ekkert koma við þessum atriðum. Það er afar einkennilegt að fara að pota þeim inn í þessa löggjöf. Þar er fjallað um að fella niður ýmiss konar lagasetningu sem er sumpart orðin óvirk og í annan stað þannig, að ekki er sjáanlegt að þau lög verði notuð, a. m. k. í bráð, þó að til þess gæti komið. Mér finnst till. þessar vera furðulegar og eigi þarna í rauninni ekki heima.

Ég skal svo ljúka máli mínu. Ég sem sagt hef gert grein fyrir því, vegna hvers ég er á móti þessu frv. Ég vara við afleiðingum þess að fara inn á þá hraut sem þarna er verið að fara inn á, því að þarna er verið að hleypa af stað að mínum dómi verðhækkunarskriðu með sínum miklu afleiðingum í efnahagskerfi okkar.