19.04.1978
Neðri deild: 79. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3661 í B-deild Alþingistíðinda. (2850)

245. mál, verðlag, samkeppnishömlur og óréttmætir viðskiptahættir

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þegar mál þetta var til 1. umr. hér í hv. d. hafði ég fjarvistarleyfi og gat af sömu ástæðu ekki tekið þátt í afgreiðslu fjh.- og viðskn., sem ég á sæti í, á málinu. Þess vegna leyfi ég mér að ræða málið almennt nú við þessa umr. Þar sem hér er um mjög merkilegt mál að ræða, algert nýmæli í íslenskri löggjöf á mjög mikilvægu sviði íslensks efnahagslífs, hlýt ég að ræða málið mjög ítarlega, og búast má því við því, að ég hafi talsvert um málið að segja sem muni taka talsverðan tíma. (Forseti: Ég vil benda hv. ræðumanni á að gert er ráð fyrir fundarhléi milli kl. 4 og 5 og ef hv. ræðumaður kýs heldur að fresta ræðunni þangað til kl. 5, þá verður við því orðið til þess að mál hans verði ekki rofið í miðjum klíðum.) Ég þakka það. Það er engin hætta, að það verði rofið í miðjum klíðum eftir fimm mínútur, ekki minnsta hætta á því. En það er rétt að ég noti þessar 5 mínútur, sem eftir eru, til þess að skýra hvers vegna ég tel nauðsynlegt að ræða þetta mál mjög ítarlega. Ég skal svo gera hlé á máli mínu um fjögurleytið.

Í fyrsta lagi er ástæðan sú, eins og ég sagði áðan og var búinn að segja, að hér er um mjög merkilegt mál að ræða og algert nýmæli á sviði íslenskrar viðskiptalöggjafar. Að hinu leytinu er forsaga þessa frv. með alveg einstökum hætti. Hér er ekki um að ræða nýtt frv. á Alþingi Íslendinga. Hér er um að ræða frv., sem er svo að segja alveg samhljóða frv. sem flutt var í Ed. um miðjan des. 1969 og kom þar til 1. umr. 17. des. 1969. Ég segi að um allt það, sem skiptir verulegu máli í frv. er þetta frv. algerlega samhljóða efnislega séð því frv, sem þá var lagt fram og ítarleg umr. fór fram um 17. des. 1969. Í þetta frv. hefur hins vegar verið bætt nýjum kafla sem ekki var í fyrra frv., um ólögmæta viðskiptahætti og neytendavernd. En um ákvæðin um ólögmæta viðskiptahætti er það að segja, að þau ákvæði eru endursamning á lögum frá 1938 um sama efni, endurbætur eins og við er að búast eftir jafnlangan gildistíma laganna, en ákvæði laga um neytendavernd eru sótt í frv. sem viðreisnarstjórnin svokallaða lét semja á þeim tímum sem ég gegndi starfi viðskrh., en var ekki flutt af þeirri ríkisstj. vegna ágreinings innan ríkisstj. um málið og hefur síðan legið í skúffu í viðskrn. allar götur síðan og ekki séð dagsins ljós enn, fyrr en örfá ákvæði úr þessu frv. eru tekin inn sem hluti af nýjum kafla í þessu frv. En þetta er aukaatriði. Kaflinn um ólögmæta viðskiptahætti og neytendavernd er aukaatriði í þessu máli, þótt hvort tveggja sé til bóta. Kjarninn er sú kerfisbreyting, sem þetta frv. gerir ráð fyrir á íslenskri verðlagslöggjöf, og að því leyti er þetta frv. efnislega séð bókstaflega alveg eins og frv. sem lagt var fram í miðjum des. 1969. Það eru hér eflaust ýmsir yngri þm. sem ekki er kunnugt um hver örlög þess frv. urðu. Sagan er orðin 8–9 ára gömul og því er von, að það séu margir hér á þingi og með þjóðinni sem ekki er kunnugt um þá sögu. En ég tel alveg nauðsynlegt, ég tel brýna nauðsyn bera til þess, að hún sé rifjuð rækilega upp. Það er ástæðan til þess, að ég tel rétt að gera þessu máli ítarleg skil.

Það féll í minn hlut 11. des. 1969 að mæla fyrir frv. sem þá hét: Frv. um verðgæslu og samkeppnishömlur. Örlög þessa frv. urðu þau, að það féll við 2. umr. með jöfnum atkv. Það féll vegna þess að núv. viðskrh., sem flytur þetta frv., beitti sér fyrir því þegar við 1. umr. málsins, 17. des. 1969, eins og ég mun sýna fram á á eftir, að frv. yrði fellt, beitti sér gegn frv. og hélt þar langa og ítarlega ræðu sem búið er að prenta í Alþingistíðindum og ég tel nauðsynlegt að vitna til. M. ö. o.: það, sem hér er að gerast, er að frv. var fellt í mars eftir þinghlé, að þegar í des. 1969 beitir þáv. form. þingflokks Framsfl. sér fyrir því, að frv. um verðgæslu og samkeppnishömlur verði fellt og það tókst að fella það með jöfnum atkv. Nú 8–9 árum síðar flytur þessi sami þáv. form. þingflokks Framsfl. frv. sem er svo að segja nákvæmlega eins, og heldur, að því er lausleg skoðun á framsöguræðu hans — ég var fjarverandi eins og ég sagði áðan — sýnir, efnislega séð nákvæmlega sams konar ræðu og ég hélt 17. des. 1969. Efnislega séð alveg sams konar ræðu. (Gripið fram í.) Já, hún var ágæt, svo að þess vegna get ég afskaplega vel unnað núv. hæstv. viðskrh. að hafa notað þá ræðu efnislega séð sem uppistöðu í ræðu sína um daginn. Ég er ekki að telja það eftir, þvert á móti, ég tel honum það til lofs, að hann skuli nota þá ræðu, og þetta mun ég sýna fram á nánar með tilvitnunum hér á eftir. M. ö. o.: hér er um að ræða svo einstæðan atburð, að það er ástæða til þess að hann geymist í þskj. og í þingsögunni. Með þessum orðum tel ég rétt — með tilliti til tilmæla hæstv. forseta, — að láta ræðu minni lokið að sinni, en í því, sem eftir er af ræðunni, mun ég sýna fram á að bókstaflega allt það, sem hæstv. núv. viðskrh. hafði fram að færa 11. des. 1969, voru röng rök, ef hann í dag er tekinn alvarlega. M. ö. o.: það er bókstaflega ekkert, sem máli skiptir, sem samræmi er í milli skoðunar hæstv. ráðh. 17. des. 1969 og framsöguræðu hans núna. Það rekur sig bókstaflega allt á annars horn. Sem betur fer hafði hann rangt fyrir sér 1969, en hefur rétt fyrir sér núna. Og þess vegna skal ég strax láta þess getið, að það verður niðurstaða ræðu minnar á eftir, að ég ætla að hafa sömu skoðun á þessum málum núna og ég hafði 1969. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég lét þess getið í upphafi ræðu minnar, sem ég flutti fyrir kaffihlé, að þetta frv., sem hér væri til umr. væri merkt mál og í því fælust alger nýmæli í íslenskri viðskiptalöggjöf, en jafnframt að forsaga þess væri með alveg sérstökum og alveg einstæðum hætti, þar sem frv. efnislega séð alveg eins og þetta um öll aðalatriði málsins hefði verið flutt veturinn 1969, en fellt vorið 1970 fyrir frumkvæði þess stjórnmálaforingja á Alþ. sem nú flytur frv. og mælir með því — nákvæmlega sams konar frv. í öllum meginatriðum og hann beitti sér harkalega gegn á þinginu 1969–1910. Ég ætla að leyfa mér að lesa nokkrar setningar úr framsöguræðu minni fluttri l7. des. 1969, — með leyfi hæstv. forseta — nokkrar setningar sem taka af tvímæli um það, hver vorn aðalatriði þessa frv. sem ég flutti þá fyrir hönd þáv. hæstv. ríkisstj. Ég segi m. a. með leyfi hæstv. forseta:

„Frv. greinist í tvo þætti. Annars vegar er um að ræða ákvörðun um heimild til handa verðgæsluráði til þess að ákveða hámarksverð og/eða hámarksálagningu, til þess að kveða á um hvernig verðútreikningar skuli gerðir, til þess að mæla fyrir um verðstöðvun á vissum sviðum í allt að 6 mánuði í senn og til að setja reglur um flokkun, um söludreifingu og þess háttar á vörum eftir því sem nauðsynlegt þykir vegna ákvörðunar verðs og álagningar. Gert er ráð fyrir því, að til slíkra ráðstafana sé því aðeins gripið,“

— nú undirstrika ég. — „að til slíkra ráðstafana sé því aðeins gripið, að samkeppni sé takmörkuð eða ekki nægilega virk til þess að tryggja sanngjarnt verðlag eða þegar horfur eru á ósanngjarnri þróun verðlags og hringamyndunum.“

Kannast hv. þm., sem hlustuðu á framsöguræðu hæstv. núv. viðskrh., nokkuð við þennan hugsanagang? Síðari tilvitnunin í ræðu mína er svo, þetta var fyrra aðalatriðið:

„Hins vegar er hitt aðalatriði frv. ákvæði þess um samkeppnishömlur, algert nýmæli í íslenskri löggjöf. Í frv. er verðgæsluskrifstofunni“ — það er gert ráð fyrir öðru nafni en nú er gert, það er eina breytingin. — „Í frv. er verðgæsluskrifstofunni gert skylt að hafa eftirlit með einokunarfyrirtækjum og öðrum fyrirtækjum, sem eru mikils ráðandi á markaðinum, og ákvörðunum, sem þau hafa tekið um samkeppnishömlur. Með þetta eftirlit eiga að fara þrír menn í verðgæsluráði, formaðurinn og þeir tveir fulltrúar sem skipaðir eru af Hæstarétti. Þessir þremenningar geta krafizt þess, að til verðgæsluskrifstofunnar sé tilkynnt um einokunarfyrirtæki, markaðsráðandi fyrirtæki og ákvarðanir sem þau hafa tekið um samkeppnishömlur. Skal í tilkynningunni greina, hverjir séu eigendur fyrirtækisins, hvaða vörur eða þjónustu fyrirtækið framleiðir eða selur, svo og verðákvarðanir fyrirtækisins, viðskiptaskilmála og ákvarðanir um samkeppnishömlur. Einnig skal tilkynna verðgæzluskrifstofunni, ef þremenningarnir krefjast þess, alla samninga og samþykktir um samkeppnishömlur er varða verð, framleiðslu, sölu eða flutninga á öllu landinu og í einstökum landshlutum. Í tilkynningunni skal greina samninginn eða samþykktina orðrétt, nöfn og heimilisföng á þeim fyrirtækjum, sem samningurinn eða samþykktin nær til, svo og verðafslátt af viðskiptaskilmálum um samkeppnishömlur sem ákveðið er í samningnum eða samþykktinni.

Í frv. eru einnig ákvæði um að samningar og samþykktir, sem séu tilkynningarskyldar, en hafa ekki verið tilkynntar, séu ógildar og njóti ekki verndar fyrir dómstólum. Þremenningarnir geta ákveðið að verð og álagning, sem ákveðin hafa verið af einokunarfyrirtækjum eða markaðsráðandi fyrirtækjum eða með samningum eða samþykktum, megi ekki hækka án leyfis verðgæsluráðsins. Í frv. er kveðið svo á, að samkeppnishömlur teljist skaðlegar þegar þær hafa ósanngjörn áhrif á verðmyndun og atvinnustarfsemi frá þjóðhagslegu sjónarmiði eða koma í veg fyrir beztu hagnýtingu í framleiðslu, vörudreifingu og þjónustu. Skaðleg áhrif geta verið fólgin í ósanngjörnu verði, álagningu eða viðskiptaskilmálum, ósanngjarnri takmörkun á frelsi til atvinnurekstrar eða ósanngjörnum mismun á viðskiptakjörum. Skýr ákvæði eru um að óheimilt sé að ákveða, samþykkja eða semja um ófrávíkjanlegt lágmarksverð eða álagningu er gilda skuli við endursölu á næsta sölustað. Þá eru í frv. skýlaus ákvæði um að þremenningarnir geti skyldað fyrirtæki til að selja nánar tilgreinda vöru eða þjónustu til annars fyrirtækis, ef synjun um sölu telst skaðleg fyrir samkeppnishætti. Sala gegn óvenjulegum skilmálum jafngildir sölusynjun. Slík ákvæði hefur skort í gildandi lög og hefur það haft óheppileg áhrif.“

Eins og allir þeir hv. þm., sem hafa kynnt sér þetta frv., sjá gætu þessi orð veríð framsöguorð fyrir þessu frv., því að þau ákvæði, sem lýst var í þessum tveimur tilvitnunum, eru bókstaflega öll í því frv. sem hér liggur fyrir. M. ö. o.: þessi 7–8 ára gamla framsöguræða mín hefði eins getað verið flutt fyrir nokkrum dögum sem framsöguræða fyrir þessu frv. hér.

En hvað gerðist 17. des. 1969 í hv. Ed.? Annar höfuðleiðtogi þáv. stjórnarandstöðu, þáv. form. þingflokks Framsfl„ núv. hæstv. viðskrh., hélt langa ræðu sem tekur nokkrar blaðsíður í þingtíðindum þess árs. Hún er margir dálkar í þingtíðindunum. Ég mun að sjálfsögðu ekki lesa þá ræðu alla, enda væri það óþarflega leiðinlegur lestur satt að segja, en mig langar til þess að drepa, á nokkur aðalatriði úr ræðunni, þar sem fram kemur andstaða, eindregin andstaða og sumpart háð um þau sömu ákvæði sem sami ræðumaður nú flytur og óskar eftir því að Alþ. afgreiði á síðustu starfsdögum sínum. En hv. þáv. formaður þingflokks Framsfl. sagði m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„En einn aðalgallinn á þessu máli, sem hér er lagt fram, og það, sem gerir það ógeðfellt, er það, að það segir í raun og veru undir fölsku flaggi. Það er verið að láta líta svo út að það eigi að halda hér áfram verðlagseftirliti og verðgæzlu, en meiningin er sú, og raunveruleikinn er sá, að með þessu frv. er verið að afnema verðlagseftirlit, og þess vegna hefði verið skemmtilegra og meiri manndómur að því, að menn hefðu í því efni komið til dyranna eins og þeir eru klæddir og sagt það hreint út en ekki verið að klæða málið í það dulargervi sem hér er gert.“ — Og þetta er frv., sem hann flytur nú! (Gripið fram í: Hver segir þetta?) Ég er búinn að taka það fram. Ég held tilvitnuninni áfram: „En þó að þetta mál sé vafið í talsverðar umbúðir og frv. sjálft sé flókið, óskýrt og teygjanlegt,“ — þá er þetta frv., sem nú er flutt, kallað flókið, óskýrt og teygjanlegt, — „þá er það þó ekki vafamál, þegar það er skoðað niður í kjölinn, að það, sem vakir fyrir höfundum þessa máls, er það að afnema verðlagseftirlit í raun og veru.“ — Það er innskot hér til hæstv. núv. ráðh., sem sagði þessi orð 1969: Er það, sem vakir fyrir honum, að afnema allt verðlagseftirlit í raun og veru? Ég held tilvitnuninni áfram: „En þetta er látið líta svo út, að í stað verðlagseftirlits eigi að taka hér upp varnir gegn samkeppnishömlum,“ — hér er enn notað sama orðið og við fundum upp á sínum tíma: samkeppnishömlur. Ég held áfram: „og um þær er sérstakur kafli í frv. En áður en ég kem að þeim kafla, vil ég finna þessum orðum mínum stað með því að vitna í 7. gr. þessa frv. en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar samkeppni er takmörkuð, eins og nánar er tilgreint í IV. kafla, eða samkeppni er ekki nægilega virk til að tryggja sanngjarnt verðlag, eða horfur eru á ósanngjarnri þróun verðlags og álagningar, getur verðgæsluráð ákveðið“ o. s. frv.

M. ö. o.: það á aðeins að koma til aðgerða í sambandi við ákvarðanir á verðlagi þegar þannig stendur á sem í þessari grein segir, að samkeppni sé ekki nægilega virk.“ — Nú skýt ég hér enn inn: Kannast menn nokkuð við ummæli í ætt við þetta úr framsöguræðu hæstv. viðskrh. núna? Tilvitnunin heldur áfram: „Nú verður ekki farið í grafgötur með það, að það er yfirlýst stefna hæstv. ríkisstj., að hér skuli vera það sem kallað er frjáls verzlun, þ. e. a. s. hér eigi að vera frjáls samkeppni ráðandi og ríkjandi. Og sú stefna er vissulega í samræmi við þann anda, sem býr að baki þess bandalags sem ætlunin er að tengjast innan skamms.“ — Hérna er átt við EFTA eflaust. Ég held áfram: „Það er því augljóst, að hæstv. ríkisstj. hlýtur að gera ráð fyrir því, og hún hlýtur að ætla sér að stefna að því, að hér verði samkeppni og að hér verði ótakmörkuð samkeppni og hér verði ekki settar samkeppnishömlur. Þetta er sú stefna sem ríkisstj. ætlar að stefna að, og þar af leiðandi hlýtur hún að gera sér það ljóst, að samkv. þeirri stefnu eiga ekki að vera fyrir hendi þau skilyrði sem hún ætlast til að þurfi að vera til þess að til raunverulegrar verðgæzlu geti komið. Það er því enginn vafi á því, að ætlunin er að hafa aðeins verðlagseftirlit eða verðgæzlu, eins og þeir kalla, hér framvegis til að sýnast, en ekki til þess að hennar gæti í reyndinni.

Þegar litið er á IV. kaflann og þau ákvæði, sem hann hefur að geyma, verður þetta, sem áður var sagt, enn ljósara, — þ. e. þegar litið er á þær reglur, sem eiga að gilda því til varnar, að hér verði settar samkeppnishömlur. Ég verð satt að segja að taka það fram,“ — og nú bið ég hv. þm. að taka vel eftir: „Ég verð satt að segja að taka það fram, að mér finnst sá kafli ákaflega einkennilegur og nánast sagt barnalegur, því að hann hefst á því, að þau fyrirtæki, sem kynnu að gera með sér samkomulag um einhverjar sameiginlegar verðákvarðanir, eða, eins og hér segir, samninga eða samþykktir um samkeppnishömlur — þau fyrirtæki eiga að vera svo elskuleg að senda verðgæzluskrifstofunni eftirrit af þessum samningi.“ — M. ö. o.: ákvæði í gamla frv. frá 1969 um þetta eru einkennileg. nánast sagt barnaleg, en nákvæmlega sömu ákvæðin eru í þessu frv. M. ö. o.: hæstv. núv. viðskrh. gerir sig sekan um það að flytja frv. með setningum, með greinum sem hann fyrir 7–8 árum kallaði einkennilegar, nánast barnalegar. Þau orð, sem þarna er vitnað til, er að finna óbreytt í þessu frv. Ég held tilvitnuninni áfram: „Já, það þarf víst ekki að efast um það, að þau eru ekki að fara neitt leynt með það, þó að þau geri svona samkomulag sín í milli. Það þarf ekki að efast um það, að þau sendi verðgæzluskrifstofunni slíka samninga. Það liggur svo sem auðvitað í augum uppi. Ég hef satt að segja sjaldan séð barnalegri lagaákvæði heldur en þetta.“ — Hér stansa ég aftur og ætla að gera ofboð lítið hlé til að menn geti hugsað um hvað hæstv. ráðh. sagði þá. Hann hefur sjaldan séð barnalegri lagaákvæði heldur en þetta. Þessu er hann auðsjáanlega búinn að gleyma nú, því að hann hefur lagt fyrir okkur þessi barnalegu lagaákvæði til samþykktar á hinu háa Alþingi. Þarna hefur verið gripið fram í ræðuna. Ég veit ekki hver það hefur gert, hvort það hef verið ég eða einhver annar. Frammígripið er svona: „Það verður ekkert smáræði sem þeir fá sent inn.“ — Þetta hefur örugglega ekki verið ég. Ég held tilvitnuninni áfram. Hæstv. núv. ráðh. svarar: „Nei, það verður ekki mikið. Þetta minnir svona einna helst á þá hugsjónastefnu sem einu sinni var ríkjandi í þjóðaréttinum, að það ætti að afnema allt leynilegt diplómatí, en það lifir víst svona dálítið enn þá þrátt fyrir slíkar yfirlýsingar.“ — Þarna verður formaður þingflokksins bara fyndinn. En engu að síður, þrátt fyrir skopið að þessu á sínum tíma, er þessar setningar að finna óbreyttar í frv. núna. Svo heldur þáverandi formaður þingflokksins áfram:

„Nei, ég er hræddur um það, að fyrirtækin kunni nú að gera — (Menntmrh.: Hefur þm. lesið greinina rétt?) Ég sagði það nú, hæstv. ráðh., áðan, að mér hefði nú ekki unnizt nægur tími til þess að lesa þetta og ég veit að hæstv. ráðh. tekur það til greina þó að mér verði það þá á að fara ekki nægilega rækilega með það. En hins vegar er þetta rétt sem ég var að segja. Að vísu getur sjálfsagt nefndin haft frumkvæði um það að ganga eftir þessum samningum, ef henni þykir ástæða til þess. En ég held að það sé ákaflega vægilega — svo að ég taki nú vægilega til orða — kveðið á í þessu frv. um skyldur nefndarinnar til þess að hafa eftirlit með og kynna sér hvort gerðir hafi verið einhverjir samningar eða samtök um samkeppnishömlur.“ — Þrátt fyrir þennan fyrirvara er engin breyting gerð á þessu í frv. eins og það liggur fyrir núna. Enn heldur þingflokksformaðurinn áfram:

„Nei, aðalreglan er sem sagt sú, að verðgæzluskrifstofan á að vera róleg og verðgæzlunefndin á að bíða eftir því, að þau samtök, sem kynnu að gera með sér samninga eða samkomulag um verðsamkeppnishömlur, sendi það til skrifstofunnar. Og ef nú fyrirtækin skyldu vera svo væn að gera þetta,“ — menn heyra hæðnina í ummælunum. — „Og ef nú fyrirtækin skyldu vera svo væn að gera þetta, þá á ekki að fara neitt hart í sakirnar, og bið ég þá hæstv. viðskrh. aftur afsökunar, ef ég hef kannske ekki lesið þetta nægilega vel, en það, sem ég hef komizt að við mjög fljótlegan yfirlestur, er þetta: Ef þetta kemur nú fyrir, þá á verðgæzlan ekki að skerast í það af neinni hörku. Nei, hún á að taka upp samninga við þessi fyrirtæki og reyna að fá þau með góðu til að láta af þessari fyrirætlan sinni að vera að beita svona samkeppnishömlum. Ég held að ég hafi lesið þetta rétt. Það stendur hérna í 16. gr., hæstv. ráðh.: „Skal hún þá fela verðgæzluskrifstofunni að reyna með samningum að binda enda á þau“. — Og þetta er sérstakt tilefni, þetta er aðaltilefnið til hæðniyrða og andmæla hæstv. ráðh. við ákvæðunum um þetta efni. En nú flettum við upp á bls. 4 í frv. hæstv. ráðh. núna. Þar stendur í 19. gr.: „Nú telur samkeppnisnefnd, að samkeppnishömlur hafi skaðleg áhrif, og skal hún þá fela verðlagsstofnun að reyna með samningum að binda enda á þau: Sama setningin, nákvæmlega sama orðalagið. M. ö. o.: það, sem var ástæða til ekki aðeins að andmæla, heldur hreinna hæðniyrða 1969, er núna tilmæli hæstv. núv. viðskrh. Hann heldur áfram: „Og ef fyrirtækin vilja nú ekki sinna þessum tilmælum gæzlunefndarinnar um að láta af fyrirætlunum sínum og það tekst ekki að koma á samningum á milli þessara aðila um það efni, hvað á þá að gera? Ja, það veit náttúrlega hæstv. viðskrh., því að hann hefur lesið frv. vel. Mér sýnist það standa hér, að þá á að senda viðskmrh. skýrslu um málið. Það segir ekkert, hvað hæstv. viðskmrh. á að gera af því tilefni. Mér sýnist þess vegna þetta frv. vera talsvert óljóst og óákveðið, og efa ég þó ekki, að í því sé margt annað, sem ég hef ekki komið auga á við fljótlegan yfirlestur, sem athuga þyrfti betur heldur en gert hefur verið.“

Hér lýkur þessari tilvitnun. Nú hleyp ég yfir langan kafla, en tel rétt að það, sem hv. þáv. form. þingflokks Framsfl. taldi vera meginatriði í sínu máli, komi fram, þ. e. undir lok ræðunnar, en þá segir hann með leyfi hæstv. forseta:

„En svo að ég haldi mig við þetta mál, sem hér liggur fyrir þá er spurningin þessi, — hvort það er rétt að afnema verðlagseftirlit eða draga úr því, ef menn vilja heldur hafa það, eins og hér er gert ráð fyrir. Það er að vísu svo, að það má sitthvað segja um verðlagseftirlitið, og ég get ekki sagt það, að ég sé sérstakur talsmaður verðlagseftirlits. Ég hef takmarkaða trú á gildi þess á venjulegum tímum, En það er samt enginn vafi á því, að þegar sérstaklega stendur á á verðlagseftirlit fullan rétt á sér, og það hefur verið viðurkennt hér á landi.“ — Ég les þetta til þess að sýna hæstv. núv. ráðh. fyllstu sanngirni varðandi málflutning hans á sínum tíma. „Það hefur verið hér verðlagseftirlit, ja, allar götur a. m. k. frá því í heimsstyrjöldinni síðari og reyndar fyrr, og það hefur verið talið eðlilegt og sjálfsagt. Auðvitað er það eðlilegt og sjálfsagt að halda uppi verðlagseftirliti þegar takmarkað framboð er á vörunni. Hins vegar má segja það, að þegar nægilegt framboð er á vörum geti verið minni ástæða til verðlagseftirlits af því að samkeppnin muni þá halda verðlaginu nokkuð í skefjum — og þá muni ekki vera þörf á verðlagseftirliti. Og það má segja það, að það sé stefnt að því nú með þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið og boðuð hefur verið að hér verði nægilegt framboð á vörum, svo að af þeim ástæðum mætti að vísu orða það, hvort það væri þá ekki skilyrði nú fyrir afnámi á verðlagseftirliti. Að vísu er það rétt, eins og hæstv. viðskrh. hefur einhvern tíma sagt í einni ágætri ræðu sem hann flutti, að fólkinu hérna yrði ekki mikið gagn að því að sjá stásslegar vörur í búðargluggum, ef það hefði enga peninga til þess að kaupa þær vörur fyrir. En það er einmitt þannig ástatt nú, að lífskjör fólksins, lífskjör alls almennings hér á landi eru einmitt bág um þessar mundir. Ég býst við því, að það stæði í okkur báðum, hæstv. viðskmrh. og mér, að reikna það út, hvernig fjölskylda, sem hefur venjulegar daglaunatekjur, fari að því að láta enda ná saman. Ég treysti mér ekki til þess að reikna það út. Ég veit ekki hvernig hún fer að því að komast af. Ég segi það alveg eins og það er. Og það eru æðimargir, sem búa við þau lífskjör nú hér á landi. Kaupgeta almennings er vissulega mjög takmörkuð nú um þessar mundir, og þess vegna er það lífsatriði fyrir almenning, að honum sé tryggt og það séu gerðar allar þær ráðstafanir sem hægt er að gera til þess að hann fái lífsnauðsynjar sínar með því lægsta verði sem hugsanlegt er, og að því á verðlagseftirlit þó að miða.“

Skyldi ekki vera hægt að segja nokkuð svipað um ástandið nú í dag, og skyldi það ekki eiga enn frekar við ástandið í dag en það átti við 1969 þegar þessi orð voru mælt?

Niðurstaða hv. form. þingflokks Framsfl. þann 17. des. 1969 felst því í þessari einu setningu undir lok ræðunnar: „Eins og ég hef sagt, þá er ég, eins og á stendur, persónulega andvígur þessu frv.“ Hann er persónulega andvígur þessu frv.

Menn heyra væntanlega á þessum tilvitnunum hver er kjarninn í röksemdum hæstv. núv. viðskrh. þá gegn frv. Þær eru mjög svipaðar þeim röksemdum sem hv. 2. þm. Austurl. Lúðvík Jósepsson, flutti áðan. Ræða hans þá var í raun og veru mjög svipuð Þeirri ræðu sem hv. þm. Lúðvík Jósepsson flutti áðan. Með líkum hætti var framsöguræða hans nú mjög svipuð þeirri ræðu sem ég flutti fyrir þessu frv. fyrir 8–9 árum. Hv. þm. Lúðvík Jósepsson má eiga það, að hann hefur ekki skipt um skoðun síðan. Hann hefði getað haldið þá ræðu, sem hann flutti áðan, nákvæmlega eins fyrir 7–8 árum. Ég lét þess getið áðan og mun koma nánar að því hér á eftir, að ég hef ekki skipt um skoðun á þessum tíma, og þess vegna mun ég styðja þetta frv. eins og ég flutti það þá. (Gripið fram í: En Alþfl.?) Ég kem að því síðar. En það furðulega hefur gerst, sem er nær einsdæmi um mikils háttar stjórnmálamenn, nær einsdæmi í þingsögunni um mikils háttar stjórnmálamann, að hann skuli á einum tíma, eins og átti sér stað 1969–1970, beita sér fyrir því með alveg sérstökum hætti, sem ég vík nánar að á eftir, að tiltekið frv., sem tvímælalaust hefði þá verið til bóta og er enn til bóta, sé fellt, en það skuli síðan falla í hlut hans að flytja frv. svo að segja alveg óbreytt 8–9 árum síðar og mæla þá með því og halda þá sömu ræðuna sem hann ekki aðeins andmælti, heldur fór hæðniyrðum um fyrir 8–9 árum. Það er þetta sem er einstakt varðandi þetta mál og er þess virði að sú saga gleymist ekki, heldur geymist.

Það var á síðasta starfsdegi þingsins fyrir jól sem þessar umr. fóru fram. Málinu var vísað til n. og kom til umr. aftur 19. mars 1970. Frsm. meiri hl. fjhn. var Jón Þorsteinsson. Og hann segir í byrjun framsöguræðu sinnar, með leyfi hæstv. forseta, þessi orð:

„Herra forseti. Frv. til l. um verðgæzlu og samkeppnishömlur, sem hér er til 2. umr., hefur legið fyrir allshn. til meðferðar. N. hélt marga fundi um þetta mál og ræddi það við ýmsa aðila sem hlut eiga að máli. N. varð ekki sammála um afstöðu til frv. Meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþykkt í aðalatriðum, en þó verði gerðar á því nokkrar breytingar. Við, sem skipum meiri hl. allshn., höfum lagt þessar brtt. fram á þskj. nr. 435. Skömmu áður en þetta frv. var lagt fyrir Alþ. var efni þess rætt í þingflokki Alþfl. Þar komu fram skiptar skoðanir. Niðurstaða þingflokksins varð sú að gera ekki samþykkt um sameiginlega afstöðu til málsins, þannig að þm. flokksins gætu hver um sig án flokksfyrirmæla greitt atkv. með eða móti frv. í samræmi við persónulegar skoðanir sínar. Af þessu leiðir, að sú afstaða, sem ég hef tekið hér til þessa frv., er persónuleg afstaða mín, þó að ég að sjálfsögðu vænti þess, að sem flestir Alþfl.-menn verði mér sammála eftir að hafa kynnt sér efni frv. vel og þá kosti sem það hefur að bjóða. Það styrkir mig svo í þeirri skoðun að styðja þetta mál, að frv. miðar að því að koma upp svipuðu verðlagskerfi og jafnaðarmannaflokkarnir á Norðurlöndum hala beitt sér fyrir.“

Hér lýkur tilvitnun í framsöguræðu frsm. meiri hl. fjhn. 19. mars 1970. Lokaatkvgr. um málið fer þannig, segir hér í þskj., með leyfi hæstv. forseta:

„1. gr., svo breytt, felld með 10:10 atkv., að viðhöfðu nafnakalli og sögðu

já: Jón A, JAH, JÞ, MJ, VB, StG, SvG, AuA, AJ, JR.

nei: ÁB, BGuðbj, BFB, BJ, EggÞ, EÁ, GilsG, KGuðj., OlJ, TA.“

1. gr. frv., þ. e. a. s. frv. sjálft, var felld við 2. umr. með jöfnum atkv.

Það er augljóst hvernig atkv. falla. Allir þm. Sjálfstfl. greiða atkv. með því. Tveir af þm. Alþfl. greiða atkv. með því. Samtals 10. Allir þm. Framsfl. greiða atkv. á móti því, allir þm. Alþb. og einn þm. Alþfl. af þremur í deildinni. Ég vil skjóta því hér inn í alveg sérstaklega, að sú afstaða, sem Jón Þorsteinsson frsm. lýsti í upphafi framsöguræðu sinnar, hafði áður verið gerð kunn í ríkisstj. Ég hafði skýrt ríkisstj. frá því, að ágreiningur væri um málið í Alþfl. og ekki yrði tekin flokksafstaða, heldur greiddi hver þm. atkv. eftir samvisku sinni eins og hann teldi vera rétt. Ég tók það sérstaklega fram að Eggert G. Þorsteinsson, sem átti sæti í Ed., væri andvígur frv, og myndi greiða atkv. gegn því. Það fór ekkert á milli mála, það var allt á hreinu hvað því viðvék og sérstök nauðsyn til þess að þetta lægi ljóst fyrir þar sem hann var, einn af þremur ráðh. Alþfl. En jafnframt tók ég fram — eins og ég vissi — á ráðherrafundi, að bæði Jón Þorsteinsson og Jón Árm. Héðinsson væru frv. fylgjandi. Það skyldi heldur ekkert fara milli mála um það. Og þetta var tilkynnt öllum þeim sem höfðu áhuga á vitneskju um hugsanleg örlög frv. Hér var engu leynt og atkvgr. að þessu leyti, að því er okkur snerti, Alþfl.-mennina þrjá, kom engum á óvart. Það vissu allir fyrir fram, að tveir þm., Jón Ármann og Jón Þorsteinsson, mundu vera með því, og það vissu allir fyrir fram, að Eggert G. Þorsteinsson mundi vera á móti því. Og það var einmitt þessi vitneskja sem var upphaf að einu lúalegasta atferli sem ég minnist frá því að ég kom á þing.

Þegar þessi vitneskja lá fyrir, þá hófust um það umr. í þingflokki Framsfl. og fleiri stofnunum hans, hvernig afstaðan skyldi vera til málsins. Ég hafði áður, meðan málið var í undirbúningi, rætt þetta við ýmsa forustumenn Framsfl. og skal þar engin nöfn nefna, nema ég kannske nefni eitt nafn á eftir, og hafði verið tjáð það og frá því skýrði ég í ríkisstj., að ágreiningur væri í þingflokki Framsfl. og flokknum yfirleitt um afstöðu til málsins, eins og var í Alþfl. Það var einhugur í Sjálfstfl. með, einhugur í Alþb. á móti, en ágreiningur í Alþfl. og Framsfl. En ég vildi auðvitað vita þetta og taldi mig eiga rétt á því og var svarað þar af fullri kurteisi þegar ég spurði: Hvar er meiri hl.? Og mér var tjáð að meiri hl. væri með frv., meiri hl. þm. mundi greiða atkv. með því. Það hafði verið haldinn fundur í fulltrúaráði Framsfl. í Glaumbæ á sínum tíma, þar sem þetta mál var m. a. rætt, og sá fundur var jákvæður fyrir frv. Það var eðlilegt, að deila væri um stórmál eins og þetta þá eins og nú — ekkert eðlilegra. En ég hygg mér sé óhætt að segja það, skal þó hafa fyrirvara ef ég kynni að hafa rangt fyrir mér í því, því að það er ekki opinbert mál, að sá fundur hafi gert ályktun til stuðnings frv. Þegar svo var komið þótti mér vissast að grennslast fyrir um það hjá öðrum en þm., hver afstaða til frv. væri, og átti í því sambandi samtal við einn af mestu valdamönnum Framsfl., einn af mestu valdamönnum í íslensku viðskiptalífi, sem ég vissi að mundi láta málið áreiðanlega til sín taka, þ. e. a. s. forstjóra Sambands ísl. samvinnufélaga, Erlend Einarsson, og bað hann ráða um það, hvernig ég og þar með ríkisstj. ætti að meta þá stöðu sem þarna væri komin upp. Og hann fullvissaði mig um það, sagðist hafa fulla vitneskju um það, að ágreiningur væri um málið í flokknum og í þingflokknum, en ég gæti treyst því, að meiri hl. þm. Framsfl. mundi styðja málið, a. m. k. svo margir að frv. væri tryggð framganga. Á þessi orð vil ég leggja alveg sérstaka áherslu og tel mig ekki rjúfa neinn trúnað eftir þennan tíma, þó að ég skýri frá þessu eins og öllum málavöxtum var háttað og er háttað. Ég hef ekki skýrt frá þessu áður.

Frá þessu skýrði ég ríkisstj., að ég væri í góðri trú um að annaðhvort meiri hl. eða a. m. k. nógu margir þm. Framsfl. mundu styðja frv., ef það yrði lagt fram. Þess vegna var ákvörðun tekin um að leggja það fram. Ef mér hefði verið sagt það áður, að Framsfl. mundi sem heild snúast gegn því, þá hefði ég lagt til í ríkisstj. að frv. yrði ekki lagt fram. Það var beinlínis lagt fram, auðvitað með fullri vitneskju um afstöðuna innan annars stjórnarflokksins, í góðri trú samkv. bestu hugsanlegum upplýsingum um, og ég skal haga orðum mínum varlega, að a. m. k. nægilega margir þm. Framsfl. mundu styðja málið þannig að því yrði tryggður framgangur. Þess vegna kom mér satt að segja mjög á óvart þegar mér barst sú vitneskja tveim dögum áður en þessi umr. fór fram, þ. e. a. s. 15. des. 1969, að líklegt væri að allur Framsfl. mundi snúast gegn þessu máli. Þá vildi ég ekki setja form. Framsfl. í neinn vanda og spyrja, hvað væri að gerast innan þingflokks hans, en sneri mér til þess sama manns sem ég hafði fullkomið traust á að kynni að meta stöðuna rétt, þ. e. a. s. Erlends Einarssonar forstjóra Sambandsins, til þess að tjá honum þessi tíðindi. Hann var þá í Bandaríkjunum. Ég hringdi til Bandaríkjanna til hans til að segja honum frá því, að mér hefði borist til eyrna og vildi bara að hann vissi það, að Framsfl. mundi snúast gegn frv. allur. Hann ætlaði ekki að trúa eigin eyrum og sagði: Þetta getur ekki verið rétt. En ég skal kanna málið. — Og hann kannaði málið — og nú geri ég langa sögu stutta — og reyndi að hafa áhrif, en án árangurs. Því fór sem fór, að allur Framsfl. í Ed. — og það sama hefði eflaust gerst í Nd. — snerist gegn málinu, eflaust samkv. flokkssamþykkt. M. ö. o.: einhver í þingflokki Framsfl., ég veit ekkert hver það er og vil ekki vita hver það er, því að það er ljótt verk sem þar var unnið, hefur beitt sér fyrir því, að gerð yrði flokkssamþykkt um að snúast gegn málinu og þar með að fella það. Og það er þetta sem ég kalla eitt skýrasta dæmið um stjórnmálalegt siðleysi sem ég minnist á undanförnum áratugum að gerst hafi við meðferð máls á hinu háa Alþingi. M. ö. o.: hlutaðeigandi ráðh. er sagt það vikum saman, málið hafði veríð í undirbúningi í mörg ár, hann er látinn standa í þeirri trú í langan tíma og ríkisstj. í heild, að það sé fyrir hendi viss stuðningur við málið. Þau orð reynast svo ómerk, þau eru ósönn, þau reynast ósannindi. Það mætti kannske segja að þetta væri ekki mikilvægt ef hér væri um eitthvert smámál að ræða. En hér var um stórmál að ræða og hér er enn um stórmál að ræða, og þegar um stórmál er að ræða á slíkt ekki að geta gerst. Ég er ekkert hissa á því þótt Framsfl. þá snerist gegn málinu, en þá átti hann að segja það, þegar hann var spurður, hver afstaða hans væri, þá átti hann að segja heiðarlega: Við munum ekki samþykkja málið. — En það var sagt annað. Það var sagt eitt og gert annað. Og það er það sem er það alvarlega í meðferð málsins. Það er þessi saga sem þarf að geymast.

Þegar þetta frv. var lagt fram, var það að sjálfsögðu rætt í þingflokki Alþfl. þegar ég var við. Og ég lagði þá til að sami háttur yrði hafður á núna og hafði verið hafður á veturinn 1969, að flokkurinn tæki ekki flokkslega afstöðu til málsins, heldur skyldi hverjum þm. vera frjálst að taka afstöðu til þess eins og honum sýndist. Ég lýsti yfir strax að ég mundi að sjálfsögðu, ef það væri ákveðið að þm. hefðu frjálsar hendur, styðja þetta frv., af þeirri einföldu ástæðu að ég tel það rétt, ég tel stefnu þess vera rétta og frv. særi til mikilla bóta. Hins vegar er sjálfsagt að það komi alveg skýrt fram, að í þingflokknum komu fram andmæli gegn frv. byggð á mjög svipuðum rökum og hv. þm. Lúðvík Jósepsson flutti áðan. Var alveg sérstaklega lögð áhersla á í því í sambandi, að þótt menn væru allir sammála, eins og þingflokkurinn reyndist vera, sem virtist allur vera sammála um að hafa litla trú á verðlagseftirliti í hinu áratugagamla formi, það væri gagnslaust, væri hætt að gera neytendum það gagn sem það í upphafi átti að gera — þó við værum allir sammála um það, þá vildu sumir þm. láta koma skýrt fram, að þeir teldu tímann núna vera næstum því hinn versta hugsanlega til þess að gera slíka breytingu, vegna þess að hætta væri á því, að frelsi til þess að ákveða álagningu yrði misnotað, vegna þess að hér væri núna óðaverðbólga.

Nú er verðbólgan á Íslandi 30–40%, og vissulega er rétt, að slíkir tímar eru ekki vel til þess fallnir að slaka á verðlagshömlum, enda geri ég ekki ráð fyrir að það verði gert í neinum verulegum mæli meðan ástandið í verðlagsmálum er eins og það er núna. En meginreglan í frv. er jafnrétt fyrir því, og við skulum vona að við þurfum ekki til lengdar að búa við 30–10% verðbólgu. 1969–1970, þegar þáv. ríkisstj. flutti sams konar frv., var verðbólgan milli 10 og 15%. Það kalla allir núna viðráðanlega verðbólgu, svo að það má segja að þessi rök hafi ekki átt við þá, þessi andmæli hafi ekki átt við þá. Á árunum 1969–1970 var ekki um að ræða þess konar ólgu á verðlagsmarkaðinum, þess konar tilhneigingu til verðhækkunar, að það gæti talist varhugavert að fá stjórnvöldum eðlilegar heimildir til þess að slaka á gamaldags og skaðlegu verðlagseftirliti, ef menn treysta því, að um nægilega og heilbrigða og eðlilega samkeppni væri að ræða. En sem sagt, þó að verðbólgan núna sé þrisvar sinnum meiri en hún var þegar fyrra frv. var flutt, þá var þetta frv. samt sem áður lagt fram. En engu að síður — ég segi það aftur — tel ég meginregluna svo mikilvæga, að ég fyrir mitt leyti mun styðja frv.

Annað atriði á hins vegar líka við núna sem þeir þm. míns flokks, sem eru andvígir frv., lögðu alveg sérstaka áherslu á í umr. innan þingflokksins, og það er sama atriði og hv. þm. Lúðvík Jósepsson gerði að umræðuefni í ræðu sinni áðan. Það kom fram strax í umr. í þingflokki okkar, að segja má að það skjóti skökku við, þegar Alþ. er nýbúið að samþykkja takmarkanir á launahækkanir, að þá skuli því um leið vera ætlað að fjalla um lagafrv. sem geri a. m. k, mögulegt, þó að ég geri því ekki skóna að því verði beitt á stundinni, að breyta álagningarreglum, að losa um álagningarhöft. Þessi skoðun kom fram innan þingflokks Alþfl. Ég get vel skilið þá skoðun út af fyrir sig, þó að ég telji hana ekki svo mikilvæga að ég vilji láta hana ráða úrslitum um afstöðu mína til málsins.

Með þessum orðum fer ég að geta látið máli mínu lokið. Ég er búinn að gera það sem ég hefði gert við 1. umr. ef ég hefði ekki verið fjarverandi með leyfi þá, láta það koma fram, að ég tel hér um merkilegt frv. að ræða og mun styðja það, að ég hef óbreyttar skoðanir á grundvallaratriðunum í þessu máli og ég hafði veturinn 1969–1970 og mun vera þeim skoðunum trúr, mun standa við þær. En jafnframt taldi ég óhjákvæmilegt að vekja athygli á þeim leik sem af hálfu Framsfl. hefur verið leikinn í sambandi við þetta mál. Hann beitir sér fyrir því fyrir 8 árum, að frv. sé fellt, eftir að hafa flutt þáv. ríkisstj. þau boð, að hann — a. m. k. sumir þm. hans — muni styðja frv. Og svo gerist það 7–8 árum síðar, að sá forustumaður Framsfl., sem hafði forustuna um að fella frv., flytur það svo að segja alveg óbreytt. Þetta hefur auðvitað svolítið grátbroslegan blæ allt saman. Sagan verður að dæma um það, hve gráturinn í sambandi við það þarf að vera sár og hvað brosið í sambandi við það má vera glannalegt, en staðreyndirnar eru þessar, sem ég tel nauðsynlegt að bæði þing og þjóð fái fyllstu vitneskju um.

Ég skal gjarnan ljúka þessum orðum mínum með vinsamlegum ummælum í garð hæstv. núv. viðskrh., eins og hann raunar lauk ræðu sinni með vinsamlegum orðum í minn garð 17. des. 1969, með því bara að segja að auðvitað harmaði ég þá mjög afstöðu hans og hafði satt að segja alltaf á tilfinningunni að hann talaði þar gegn betri vitund. Þessar umr. voru þannig, bæði í des. og mars, að mér fannst eins og hann talaði gegn betri vitund. Auðvitað eiga menn ekki að gera það. Þó kann að vera fyrirgefanlegt að menn geri það ef þeir eru að framfylgja flokkssamþykkt. Hvort hann hefur staðið að flokkssamþykktinni eða ekki, það veit ég ekki. En ég segi: mér fannst enginn þungi í málinu, rökin ólík honum, ósannfærandi, sumpart röng, sumpart kjánaleg. Ég fékk það sem sagt á tilfinninguna, að andmælin þá væru reist á mjög veikum grunni. Og sem betur fer hefur þetta komið í ljós núna. A. m. k. má segja, og það skulu vera síðustu orð mín, að batnandi manni er best að lifa. Það er þó alltaf gott, að svo skuli fara á síðustu dögum þessa þings að hann flytji frv., þó að hann hafi talið það óalandi og óferjandi fyrir 7–8 árum.