19.04.1978
Neðri deild: 79. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3679 í B-deild Alþingistíðinda. (2852)

245. mál, verðlag, samkeppnishömlur og óréttmætir viðskiptahættir

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Áður en ég vík að því efni, sem á að vera meginefni máls míns, vil ég upplýsa eftirfarandi í sambandi við það sem fram kom í ræðu hæstv. viðskrh. áðan.

Þau lög eru í Alþfl., að sá, sem er stjórnmálaritstjóri Alþýðublaðsins hverju sinni, á jafnframt sæti í þingflokki Alþfl. Ég var stjórnmálaritstjóri Alþýðublaðsins árið 1969, þegar frv. það var til meðferðar sem þeir hafa rætt nokkuð um, hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason og hæstv. viðskrh. Ég get fúslega upplýst það hér, að á þingflokksfundi Alþfl. kom það fram og var m. a. bókað, að ekki væri samstaða meðal þm. flokksins um afstöðu til frv. um verðlagsmál. Í þingflokknum kom m. a. fram, að einn af þeim þm., sem greiða mundi atkv. gegn frv., væri þáv. hæstv. sjútvrh. Eggert G. Þorsteinsson. Í þingflokki Alþfl. var einnig bókað að þm. tækju ekki flokkslega afstöðu til málsins. Á þessum þingflokksfundum, sem haldnir voru um þetta mál, kom einnig fram að þáv. ríkisstj. hefði verið gerð grein fyrir þessari afstöðu, m. a. afstöðu hæstv. þáv. sjútvrh. Það var svo að sjálfsögðu forráðamanna Sjálfstfl. í þeirri ríkisstj. að geta um þá afstöðu við sinn flokk, en ekki forráðamanna Alþfl. Það er því mikill misskilningur og beinlínis ranghermi, að einhver leynd hafi hvílt yfir afstöðu þm. Alþfl. til málsins á þingi 1969.

Ég vil einnig taka það fram, að ég man mjög vel eftir þeim umr., sem urðu í þingflokki Alþfl. um þetta mál veturinn 1969. Ég man einnig ákaflega vel, að þá kom fram fram undir síðustu stund að tilteknir þm. Framsfl. væru málinu samþykkir og líklegt væri að þeir hygðust greiða því atkv. við umr. og afgreiðslu málsins á þingi. Og ég get enn fremur upplýst að það er rétt, sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason sagði áðan, að það kom þm. Alþfl., bæði þeim, sem voru með frv., og hinum, sem voru á móti, mjög á óvart þegar sú fregn barst rétt áður en umr. hófst um þetta frv. í Ed., að Framsfl. hefði tekið flokkslega afstöðu til málsins, hvort hann gerði það formlega eða óformlega var mér ekki kunnugt, en á þá lund að allir þm. hans skuldbundu sig til þess að greiða atkv. gegn frv. — Þetta vildi ég taka fram.

Eins og ég hef þegar sagt, var tekin sú ákvörðun í þingflokki Alþfl. 1969 að taka ekki flokkslega afstöðu til þess frv. sem þá var lagt fram um sambærilegt efni og frv. það fjallar um, sem hér er til umr. Nú hefur þingflokkur Alþfl. einnig tekið sömu afstöðu. Hann tekur ekki flokkslega afstöðu til þess frv. sem hér er um að ræða. Hins vegar átti ég þess kost, bæði í þingflokki Alþfl. og í flokksstjórn Alþfl. árið 1969, að fjalla nokkuð um það frv. sem þá var lagt fram. Afstaða mín þá, bæði í þingflokknum og í flokksstjórninni, var sú, að ég var ekki samþykkur því frv. Við þá afstöðu mína stend ég nú þegar frv. það, sem hér er um að ræða, er lagt fram. Ég mun því ekki greiða því atkv. mitt, heldur þvert á móti greiða atkv. gegn frv. við afgreiðslu þess í þessari deild. Afstaða mín mótast fyrst og fremst af því, að ég tel að þær ráðstafanir, sem gerðar eru í verðlagsmálum, eigi fyrst og fremst að taka mið af því að tryggja fólki réttlátt vöruverð á nauðsynjavörum og þjónustu með eðlilegum viðskiptaháttum. Ég vil nota þennan mælikvarða sem mælikvarða á það, hvort ég fellst á að samþykkja mál sem lögð eru fyrir Alþ. í þessum dúr. Eftir þeim sama mælikvarða vil ég meta þetta mál, og ég tel að eins og sakir standa geri það hvorugt, að tryggja eðlilega viðskiptahætti né að tryggja fólki réttlátt vöruverð á nauðsynjavörum og þjónustu.

Eins og á stendur á Íslandi um þessar mundir stöndum við frammi fyrir því, að verðlag á ýmsum nauðsynjavörum er ákaflega hátt. Verðlag á matvælum og ýmissi nauðsynjaþjónustu er t. d. allt að tvisvar sinnum hærra á Íslandi en í ýmsum þeim löndum sem greiða tvisvar sinnum hærra kaupgjald en greitt er hér á landi. Þetta hefur gerst og þetta á sér stað þrátt fyrir það að lög um opinbert verðlagseftirlit hafi verið í gildi um langt árabil og þrátt fyrir að sett hafi verið lög um verðstöðvun — lög um að engar hækkanir á vörum og þjónustu megi leyfa nema með leyfi ríkisstj. Það er því ljóst, að þrátt fyrir verðlagseftirlit og þrátt fyrir lögin um verðstöðvun hefur ekki auðnast að tryggja hvort heldur eðlilega viðskiptahætti eða réttlátt vöruverð á nauðsynjavörum. Eins og verðlagslöggjöfinni á Íslandi er háttað er það beinlínis í hag versluninni, að um dýr innkaup sé að ræða, þar sem verðlagseftirlitið er ekki eftirlit með hámarksverði, heldur eftirlit með því að álagning fari ekki fram úr ákveðnum reglum miðað við innkaupsverð á vörunni. Þeim mun hærra verði sem varan er keypt við, þeim mun hærri verður því álagning í krónum, þeim mun meira bera seljendur úr býtum. Enn fremur hefur það verið venja, að þegar ríkisstj. eða ríkisvaldið telur sig knúið til þess að taka með sérstakri tímabundinni skattlagningu einhverjar upphæðir í formi vörugjalds eða jöfnunargjalds, þá hefur þessum aðilum verið heimilað að nota það sem tekjustofn. Þetta er gert með vörugjaldi sem átti að vera sérstaklega tímabundið gjald til þess að afla Viðlagasjóði tekna til þess að standa undir kostnaði vegna náttúruhamfara í Vestmannaeyjum. Þetta á að gera t. d. núna með jöfnunargjaldi sem leggja á á landbúnaðarafurðir til þess að mæta óhagstæðum lánakjörum Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Í háðum þessum tilvikum hefur heildsölum og smásölum, í síðara tilvikinu smásölum aðeins, í fyrra tilvikinu bæði heildsölum og smásölum, verið leyft að nota þessa skatta til þess að hækka álagningu sína og álagningartekjur og hafa samt sem áður ekki gerst brotlegir við verðlagsreglur. M. ö. o.: þrátt fyrir þá tilburði, sem uppi hafa verið hafðir af stjórnvöldum, hefur ekki verið unnt að tryggja fólki réttlátt vöruverð.

Sumar aðgerðir stjórnvalda hafa beinlínis stuðlað að því að hækka vöruverð að óþörfu, eins og þegar heildsölum og smásölum í landinu hefur verið leyft að hagnast á því, að ríkisvald telur sig tilknúið að leggja sérstaka tímabundna skatta á vörur og þjónustu, m. a. til þess að afla tekna til þess að standa undir kostnaði af tjóni vegna náttúruhamfara sem orðið hafa. Það hefur einnig komið í ljós, að eftirlitið, sem verðlagseftirlitið annast, er ekki nægilegt. Það er t. d. alkunna, að á vörum í verslunum eru oft 2, 3 og 4 verðmiðar með mismunandi verði. Áður fyrr var viðtekin venja í flestum verslunum, að þegar verðhækkun varð og þegar menn með ólöglegum hætti ákváðu að nota þær verðhækkanir til þess að hækka birgðir sem þeir höfðu þegar keypt inn og greitt fyrir, þá lögðu þeir þó á sig þá vinnu að taka gömlu verðmiðana af vörunni áður en þeir nýju voru límdir á. Nú telst slíkt ekki einu sinni nauðsynlegt lengur. Þannig er mjög algengt að fólk, sem kaupir lífsnauðsynjar, t. d. í matvöruverslunum, kaupi vöru sem á eru límdir tveir, þrír, fjórir eða jafnvel fimm verðmiðar hver ofan á annan, sem er óræk sönnun þess, að um verðlagsbrot sé að ræða. Engu að síður hefur verðlagseftirlitið ekki af einhverjum ástæðum getað spornað við þessum verðlagsbrotum sem eru þó opinber.

Þá hefur einnig komið í ljós að nær engin áhersla hefur verið á það lögð af verðlagseftirlitinu að veita almenningi upplýsingar um vöruverð, leyfilegt vöruverð, hámarksverð og lágmarksverð. Nýr verðlagsstjóri, sem tók til starfa fyrir nokkru, hóf að vísu starfsferil sinn á því að láta verðlagsskrifstofuna gera slíkt og upplýsa almenning bæði um ólíkt vöruverð í verslunum innanlands og enn fremur vöruverð á innfluttum varningi miðað við smásöluverð á sama varningi í næstu nágrannalöndum. Þessu nýmæli verðlagsstjóra var strax ákaflega illa tekið af versluninni í landinu. Verslunarmenn höfðu ekki mikinn áhuga á þeim upplýsingum, sem verðlagsskrifstofan gaf með þessum hætti, og mótmæltu eindregið. Af einhverjum ástæðum hefur niðurstaðan orðið sú, að nú um nokkuð langt skeið hafa engar slíkar upplýsingar komið frá verðlagsstjóra eða verðlagsskrifstofunni, og virðist þar um að ræða að þessir aðilar, sem eiga að gæta hagsmuna neytandans fyrst og fremst, hafi tekið mótmæli verslunarinnar til greina. En ég vil aðeins benda á eina alkunna staðreynd, sem sé þá, að núverandi reglur um hámarksverð og verðlagseftirlit, núverandi verðlagslöggjöf kemur alls ekki í veg fyrir samkeppni. Hún kemur alls ekki í veg fyrir samkeppni um þjónustu og hún kemur alls ekki í veg fyrir samkeppni um lágt verðlag. Þær reglur, sem settar eru og verðlagseftirlitinu er ætlað að framfylgja, ern reglur um hámarksálagningu á vöru og þjónustu. Eftir því sem formælendur frjálsrar verslunar tala mætti þó alltént ætla að hugmyndir þeirra um frjálsa samkeppni séu hugmyndir um samkeppni um lægra vöruverð og aukna þjónustu. Það er að sjálfsögðu ekkert í núverandi verðlagslöggjöf sem stendur í vegi fyrir því, að slíka samkeppni sé hægt að viðhafa. Það er enginn, hvorki verðlagseftirlit né neinn annar opinber aðili né heldur lög sem sett hafa verið, sem banna t. d. matvöruverslun að selja vöru sína á lægra verði en næsta verslun í hverfinu, enda hefur þetta verið gert. Þeir stórmarkaðir á sviði matvöruverslunar, sem risið hafa upp í Reykjavík nú á síðustu árum, hafa risið á legg þrátt fyrir þessi ákvæði og þeir hafa boðið vörur sínar á lægra verði en matvörukaupmenn áður gerðu, með þeim afleiðingum að fjöldinn allur af Reykvíkingum, sennilega mikill meiri hluti, verslar nú í þessum stóru matvörumörkuðum. Því er mesta firra að halda því fram, að ákvæði um hámarksálagningu komi í veg fyrir að hægt sé að ástunda frjálsa samkeppni um bætta þjónustu og lægra vöruverð. Hins vegar koma ákvæðin um hámarksverð að sjálfsögðu í veg fyrir að hægt sé að stunda frjálsa samkeppni um hærra vöruverð en lög leyfa. Ef sá er tilgangur manna með talinu um frjálsa samkeppni, þá er auðsætt hvers vegna menn leggja svo mikla áherslu á að þessi lög um leyfilega hámarksálagningu séu afnumin. Eins og ég sagði áðan standa þær reglur ekki í vegi fyrir samkeppni um bætta þjónustu eða lægra vöruverð, þær standa aðeins í vegi fyrir samkeppni um hækkun á vöruverði.

Engu að síður er ljóst, eins og ég sagði áðan, að verðlagseftirlitskerfið er stórgallað, a. m. k. eins og það er framkvæmt. Það er ekki til þess fallið að ýta undir lægra vöruverð, því að það er beinlínis hagkvæmt fyrir verslunina að kaupa dýru verði þá vöru, sem hún selur, vegna þess að þeim mun dýrara sem keypt er, þeim mun meiri verða tekjur verslunarinnar í álagningu. Þetta kerfi, eins og það hefur verið framkvæmt, hefur ekki heldur ýtt undir vitund neytenda um vöruverð og hagkvæmni í innkaupum, heldur þvert á móti, því að fólk hefur nánast treyst á að verðlagseftirlitið sinnti eftirliti, sem lög gera því ekki að skyldu að sinna, þ. e. a. s. fólkið hefur búist við því, að með verðlagseftirliti væri tryggt að verð væri ávallt eins lágt og hægt væri að hafa það. En þó svo að verðlagseftirlitið hafi reynst gallað að þessu leytinu til, merkir það ekki að þá hljóti að vera sú niðurstaða fengin af slíku, að verðlagseftirlit í öllum myndum eigi að afnema. Við skulum taka dæmi: Það er á allra vitorði, að skattsvik eru mikið stunduð í þjóðfélagi okkar. Skattaeftirlitið er sem sé stórlega gallað. En finnst mönnum rökrétt, að ef á þetta er bent og allir viðurkenna að um galla sé að ræða í eftirliti með skattskilum, þá beri að afnema skatteftirlit og gefa mönnum frjáls skattskil? Ég efast um að menn séu almennt á þeirri skoðun, en það eru sambærileg rök við það, að vegna þess að framkvæmd verðlagseftirlits sé gölluð eigi að afnema allt eftirlit með vöruverði og þjónustuverði og taka í staðinn upp frjálsa samkeppnishætti. Ég tel að frekar hefði verið rétt, fyrst þm. eru yfirleitt allir sammála um að verðlagseftirlitíð í núverandi mynd sé gallað, að breyta þeim reglum sem verðlagseftirlitið starfar eftir, fremur en að afnema eftirlitið eins og till. er nú gerð um.

Þá komum við að annarri spurningu, en hún er: Hvers vegna að gera þá kerfisbreytingu, sem hér er stefnt að? Hverjir hafa óskað eftir því og hvers vegna hafa þeir óskað eftir því? Eins og þeir vita, sem lesa blöðin, líður vart sú vika að ýmsir aðilar, bæði opinberir aðilar og einkaaðilar í þjónustu og verslun, krefjist ekki stöðugra álagningarhækkana. Fjöldamörg mál af slíku tagi liggja nú á skrifstofu hæstv. viðskrh. með heiðni um ákvörðun. Og nú nýverið hafa dunið yfir talsvert mörg dómsmál og ákærumál, sem einmitt færa okkur heim sanninn um það, hvers vegna verið er að krefjast þessara álagningarhækkana. Fyrirtæki í Reykjavík hefur verið ákært fyrir að brjóta verðlagslöggjöfina og taka sér í ólöglegan hagnað margar millj. kr. á stuttum tíma. Fjöldamörg fyrirtæki sæta nú ákærum um söluskattssvik. Hvers vegna skyldi þetta vera svo? Hvers vegna skyldi heildsölufyrirtæki í landinu hafa sætt ákæru fyrir margra millj. kr. óleyfilega fjártöku? Hvernig skyldi á því standa, að fjölmörg stór innflutningsfyrirtæki skuli nú sæta ákæru fyrir söluskattsbrot, þar sem sagt er í blöðum að eitt þeirra hafi stungið undan söluskatti fyrir tugi millj. kr.? Skyldi það vera vegna þess að þessi fyrirtæki hafi sérstakan áhuga á að taka upp samkeppni sín á milli eða við sambærileg fyrirtæki til að tryggja neytendum lægra vöruverð, eða skyldu þessi brot hafa verið framin m. a. vegna þess að hæstv. viðskrh, hefur ekki fallist á þær beiðnir sem komið hafa fram um hækkun á álagningu hjá þessum og öðrum aðilum? Auðvitað getur hver svarað því sem hann vill við spurningum eins og þessum. En ég vil aðeins vekja athygli manna á því. að þeir, sem eindregnast óska nú eftir að samkeppni verði gefin frjáls undir því yfirskini að verið sé að tryggja hag neytenda og lægra vöruverð og bætta þjónustu, eru sömu aðilar og sitja nær daglega á biðstofu hæstv. viðskrh. með beiðnir og kröfur um það, að hæstv. ráðh. leyfi þeim ekki að auka samkeppnina sín á milli, heldur að auka álagninguna, auka tekjurnar sem þessir aðilar hafa af álagningu. Og trúi því svo hver sem trúa vill. að þegar búið er að afnema öll ákvæði um hámarksálagningu gagnvart þessum fyrirtækjum, þá muni þau nota tækifærið og lækka verðið á vöru sinni og þjónustu í anda frjálsrar samkeppni. A. m. k. fellst ég ekki á þá niðurstöðu, ekki er ég trúaður á hana og ekki eru heldur samtök launafólksins í landinu eða neytenda trúuð á að þetta sé hin rétta og eðlilega niðurstaða.

Almennt um þá kerfisbreytingu, sem hér er að stefnt, vildi ég segja eftirfarandi:

Við höfum nú þegar talsverða reynslu af frjálsri samkeppni, af samkeppni þar sem hámarksálagning hefur verið felld niður, af samkeppni þar sem menn eru frjálsir að því hvað þeir taka í formi álagningar eða þjónustugjalda. Til dæmis um þjónustu, sem ekki er háð verðlagsákvæðum, er þjónusta tannlækna. Telja menn að sú þjónusta hafi verið rekin með mikilli frjálsri samkeppni til hagsbóta fyrir launþega í þessu landi? Við skulum taka verslun þar sem álagning var gefin frjáls en var áður undir ákvæði um hámarksálagningu, þ. e. verslun með bifreiðavarahluti. Skyldi reynslan af því hafa fært mönnum heim sanninn um að líklegt væri að verslun, sem losnaði undan ákvæðum um hámarksálagningu, mundi nota tækifærið til að auka samkeppni sína og afleiðingarnar mundu verða lækkað vöruverð og bætt þjónusta? Nei, einfaldlega vegna þess að um leið og ákvæðin um hámarksálagningu á bifreiðavarahluti voru afnumin snarhækkuðu bifreiðavarahlutir í verði og eru nú einhver dýrasta vara sem íslenskur neytandi kaupir. Þarna er um að ræða ákveðin, áþreifanleg dæmi um verslun, þar sem hámarksálagningarákvæðum var aflétt. Og hver er reynslan sem almenningur hlýtur að horfast í augu við?

Einn snarasti þáttur í viðgerðarkostnaði á bifreiðum, sem nú eru orðnar almenningseign, er einmitt varahlutakostnaðurinn. Það er ekki orðið óalgengt, að ef farið er með bifreið á verkstæði, þá komi eftir daginn reikningur fyrir viðgerðarþjónustu, kannske milli 70 og 80 þús. kr. Mjög stór hluti af þessum viðgerðarkostnaði er kostnaður vegna keyptra varahluta. Það væri full ástæða fyrir Alþ., áður en það afgreiðir mál eins og þetta, að kanna hvaða áhrif það hafði á verð á bifreiðavarahlutum þegar hámarksálagningin var afnumin og upp teknir þeir frjálsu viðskiptahættir sem svo mjög er af gumað að muni færa landslýð mikla hagsæld eftir því sem ætla má af tali þeirra sem mæla fyrir og mæla með þessu frv.

Þetta er fyrsta ástæðan fyrir því, að ég er almennt andvígur kerfisbreytingu eins og þeirri sem hér um ræðir. Við höfum reynsluna af slíku. Við höfum gert þetta gagnvart einstökum vörutegundum og það hefur komið í ljós, að ekki er áhugi hjá þeim aðilum, sem fengið hafa undanþágu, á því að fara í frjálsa samkeppni um verðlag og þjónustu til hagsbóta fyrir neytendur. Þvert á móti virðist vera talsverður áhugi fyrir samstarfi, beinu eða óbeinu, um miklar og allverulegar hækkanir á álagningu, eins og virðist t. d. hafa verið reynslan í bifreiðavarahlutaversluninni. Það leiðir okkur beint að þeirri einföldu staðreynd, að eftir að hafa búið við gallaða verðlagslöggjöf, eins og við höfum gert og eins og ég lýsti hér áðan, jafnlengi og við höfum gert, þá held ég að óhætt sé að fullyrða að meginhluti þeirra manna, sem stunda verslunar- og þjónustustörf, skilji ekki enn hvað fetist í orðunum frjáls samkeppni. A. m. k. þurfa menn ekki að kynna sér lengi umsagnir neytenda og neytendafélaga til þess að komast að raun um þetta eða lesa lesendadálka blaðanna ýkjalengi, en þar kemur mjög greinilega í ljós, að flestallir verslunareigendur t. d. í Reykjavík, sem almenningur á mikil skipti við, virðist ekki skilja hvað liggur í orðunum frjáls samkeppni, því að margir þeirra virðast halda því fram að rétturinn sé allur þeirra, en ekki neinn réttur sem neytandinn geti gert tilkall til. Ég er ekki að segja þetta til þess að ásaka þessa menn á einn eða annan veg fyrir að þeir séu eitthvað verr innrættir en verslunarmenn meðal annarra þjóða. En þetta er allténd sú reynsla sem við höfum á borðinu fyrir framan okkur, og hún hlýst að mínu viti m. a. af því, að við — bæði neytendur og seljendur — höfum í svo langan tíma búið við gallaða verðlagslöggjöf, að hún hefur haft þessi áhrif, bæði á neytendahópinn og seljendahópinn, að ekki er hægt að líkja ástandinn — hvorki hjá neytendum né seljendum — við það sem gengur og gerist í nálægum löndum.

Í þriðja lagi tel ég mjög vafasamt að á Íslandi séu aðstæður til frjálsrar samkeppni með svipuðum hætti og í nágrannalöndunum nema á mjög takmörkuðu sviði. Ég get orðið mjög stuttorður um þetta, því að það hefur komið fram, m. a. hjá hv. þm. Lúðvík Jósepssyni, hvað hér er við átt, en það er einfaldlega að a. m. k. utan Reykjavíkursvæðisins eru fyrirtæki, matvöruverslanir, bifreiðaverkstæði og önnur fyrirtæki svo fá og svo dreifð, að nánast er ógerningur að búast við því, að um neina frjálsa samkeppni geti verið að ræða á milli þessara aðila. Ég er sjálfur ættaður og uppalinn í talsvert stóru bæjarfélagi úti á landi, en samt veit ég og hafði sannar fregnir af að þar voru samtök, óformleg að vísu, á milli verslana, bæði félagsverslana og einstaklingsverslana, um vöruverð, þar sem segja mátti að vörulisti gengi á milli verslana þannig að það verð, sem var á einni vörunni í einni versluninni, var það sama í öllum öðrum. Undir slíkum kringumstæðum, þegar verslanir eru fáar er að sjálfsögðu ekki hægt að búast við þeirri frjálsu samkeppni sem menn hafa t. d. í fjölmennari löndum.

Í fjórða lagi verðum við að gera okkur grein fyrir því, að í öllum þeim löndum, þar sem frjáls samkeppni á sér stað, hafa neytendamál lengi verið í mótun. Neytendur eru sér mjög vel vitandi um þjónustu og vöruverð og sækja ósjálfrátt þangað sem þjónustan er best og verðið lægst. Hér á landi hefur almenningur ekki verið alinn upp við þessi viðhorf. Hann er ekki undir það búinn að taka á sig sama hlutverk og þeir neytendur í nálægum löndum sem eru aldir upp í því kerfi frjálsrar samkeppni, sem þar hefur reynst vel til þess að tryggja lágt vöruverð og góða þjónustu. Þannig tekur talsvert langan tíma hér á Íslandi, bæði fyrir neytendur og seljendur, að venja sig við þá kerfisbreytingu, sem hér er stefnt að að gerð verði. Það er ekki hægt að ætlast til þess. að hægt sé að gera slíka breytingu í einni svipan. Ég er sannfærður um. að ef það verður gert eins og stefnt er að þá verður reynslan af því mjög slæm. Þá verður reynslan þveröfug við það sem að er stefnt.

Þetta vil ég almennt segja um þá kerfisbreytingu sem hér er stefnt að að gera. Þar til viðbótar koma svo aðstæðurnar eins og þær eru nú. Aðeins þær einar út af fyrir sig gera það að verkum, að jafnvel þeir, sem annars væru almennt fylgjandi þeirri kerfisbreytingu sem frv. felur í sér, hlytu að taka afstöðu gegn því, að þær breytingar yrðu gerðar nú.

Í fyrsta lagi er nýbúið að ógilda frjálsan samningsrétt verkalýðsfélaga með lögum frá Alþingi. Er þá réttlátt að fá verslunarstéttinni, heildsölum, kaupmönnum og þeim, sem selja þjónustu, sambærilegan rétt og jafnvel mun meiri rétt en verkalýðshreyfingin hefur verið svipt? Ég tel að það sé mjög varasamt og vafasamt að gera slíka ráðstöfun svo skömmu eftir að verkalýðshreyfingin hefur verið svipt frjálsum samningsrétti um kaup sitt og kjör og þegar það er mikið atriði í augum verkalýðshreyfingarinnar að hægt sé að halda vöruverði og verði á þjónustu niðri.

Í annan stað hafa neytendur ekkert verðskyn í verðbólgu af því tagi sem verið hefur undanfarin ár og er enn, þegar verðlag hækkar á ári frá 35% og allt upp í 55%. Það hefur m. a. komið í ljós í því, sem ég nefndi hér áðan, að verslunareigendur gera sér ekki einu sinni lengur það ómak, þegar þeir hækka verð í leyfisleysi á þeirri vöru sem þeir liggja með, að taka gamla verðmiðann af til þess að líma þann nýja á, heldur líma hvern verðmiðann ofan á annan þangað til loks, þegar neytandinn kaupir vöruna, eru kannske komnir fimm eða sex verðmiðar hver ofan á annan með mismunandi háu verði. Undir slíkum kringumstæðum er að sjálfsögðu ekki hægt að sleppa verðlagi lausu og þá síst þegar jafnmikill þrýstingur er af seljendum vöru og þjónustu á að fá hækkun á vöruverði og álagningu eins og nú á sér stað. Jafnvel blindur maður hlýtur að sjá til hvers leikurinn er gerður. Það er verið að krefjast þess nær daglega af ríkisstj., að hún heimili hækkanir á vöruverði og þjónustu. Ef þeim hemli, sem ríkisstj. og verðlagseftirlitið hafa haft til þessa dags, verður aflétt, þá hlýtur jafnvel blindur maður að sjá hvað gerist.

Í þriðja lagi er ég andvígur þessu við núverandi aðstæður vegna þess að neytendahreyfing er raunar ekki til í landinu og Alþ. hefur svikist um — m. a. við afgreiðslu fjárl. — að styrkja þau vanmáttugu neytendasamtök sem af veikum burðum hafa verið að reyna að gæta hagsmuna neytenda í þessu landi.

Í fjórða lagi er ég á móti þessari breytingu nú vegna þess m. a. að allir aðilar á Alþ., allir stjórnmálaflokkar, þ. á m. ríkisstj. sjálf, hafa lagt á það höfuðáherslu að nú sé rík nauðsyn til þess að takast á við verðbólguvandann með hörðum aðgerðum og af stjórnsemi, þar sem þátt hins opinbera í stjórnun á fjárfestingar- og verðlagsmálum beri að efla. Ég tel að það sé ekki verið að því með því að sleppa verðlaginu lausu með þeim hætti. sem hér er gerð till. um, og það sé því ábyrgðarleysi að vera í öðru orðinu að segja að nú beri brýna nauðsyn til að takast á við verðbólguna með aukinni opinberri stjórnun og í hinu orðinu að fá samþykkt frv. eins og þetta, sem þýðir að ríkisstj. beinlínis afsalar sér stjórnun á einum þýðingarmesta þætti efnahagsmála og efnahagslífs í þessu landi, þ. e. a. s. vöruverði. Ég tel þvert á móti að nú hafi átt að gera ákveðna breytingu á verðlagseftirliti og verðlagsreglum innan ramma þess kerfis sem við búum nú við. Ég tel að í áföngum eigi að efla samtök neytenda og tryggja hag þeirra, m. a. með neytendavernd og með því að þroska verðskyn neytandans, t. d. í þá átt, að í stað þess að verðlagseftirlitið ástundi það takmarkaða og misheppnaða eftirlit sem það stundar nú, þá ýti það undir verðskyn neytenda með því að birta örar en það hefur gert og betur upplýsingar um verðlag, leyfilegt hámarksverð, og jafnframt að starfsmenn verðlagseftirlitsins gangi í verslanir og birti kynningarauglýsingar um lægsta og hæsta vöruverð, t. d. á stærstu stöðunum. Í þessum anda tel ég að hefði átt að gera þær breytingar, sem nú er verið að gera, og stefna síðan að því smátt og smátt að taka upp kerfi frjálsrar samkeppni, þegar bæði neytendur og seljendur eru undir það búnir.

Að lokum langar mig til þess að víkja að fimm atriðum. Ég tek undir það sem komið hefur fram hjá hv. þm. Lúðvík Jósepssyni, að þau ákvæði um neytendavernd, sem eru fólgin í þessu frv., eru ákaflega lítilvæg og skipta raunar engu máli. Svo nefnt sé eitt atriði sem að sjálfsögðu er ekki stórvægilegt, þá er t. d. í einni greininni kveðið á um að leiðbeiningar skuli vera veittar um vöru og þjónustu eða annað slíkt sem í té er látið. Þar er t. d. ekki sagt að þær leiðbeiningar skuli vera á íslensku eða skriflegar, en með mörgum dýrum heimilistækjum, sem fólk þarfnast í daglegu lífi og seld eru í verslunum, eru engar leiðbeiningar til. Í besta falli eru leiðbeiningar á erlendum málum. Ég hef jafnvel séð mjög dýr tæki, sem kostað hafa hundruð þúsunda, sem seld eru íslenskum verslunum, sem hafa haft leiðbeiningar, að því er ég ætla, einna helst á kóreönsku eða einhverju slíku máli. Getur hver sagt sér sjálfur hvaða gagn slík upplýsingastarfsemi hefur. Ég tel þetta að vísu smáatriði. Ég tel að inn í þessa grein frv. ætti tvímælalaust að koma ákvæði um að þær leiðbeiningar, sem veittar væru við sölu á meiri háttar varningi, t. d. heimilistækjum og öðru slíku, ættu að vera skriflegar og á íslensku.

Í annan stað — það er stærra atriði — gerir frv. t. d. engin skil nauðsyn þess að veita neytendum lögfræðihjálp eða hjálpa þeim í sambandi við kvartanaþjónustu, en þetta er eitt af meginverkefnum neytendasamtakanna sem hefur reynst þessum samtökum bæði dýrast og erfiðast. Frv. hefur ekkert um þessi atriði að segja.

Í þriðja lagi gerir frv. ekki ráð fyrir því, að neytendum verði veittar neinar verðupplýsingar eins og ég gat um áðan, en það hlýtur þó að teljast mjög stórvægilegt atriði í sambandi við neytendamál.

Í fjórða lagi gerir frv. ekki heldur ráð fyrir því, að neins konar mat, vörumat eða gæðamat, verði lagt á vöru eða þjónustu, eins og gert er í neytendastofnunum í öllum nálægum löndum og síðan gefið út og kynnt almenningi, hverjar niðurstöður eru.

Í fimmta lagi eru engin ákvæði í þessu frv. um afborgunarkaup, en einmitt þau kaup, afborgunarkaup, eru hvað víðast stunduð um þessar mundir hér í voru landi. Er mjög oft gengið svo freklega á rétt neytenda, sem kaupa vöru með afborgunarkjörum, að það nær engri átt.

Þetta eru aðeins nokkur atriði, sem ég tel upp af handahófi, sem vantar algerlega inn í ákvæði frv. um neytendavernd, en eru það stórvægileg, að ég tel að án ákvæða um slík atriði sé neytendavernd ekki borgið og raunar langt í frá. Ég tel að þau ákvæði, sem fram koma í þessu frv. um neytendavernd, séu raunar litlu betri en þau takmörkuðu ákvæði sem nú eru í gildi í lögum þar að lútandi.

Að lokum þetta: Í 54. gr. þessa frv. eru talin upp þau lög, sem eiga að falla úr gildi, ef frv. þetta verður samþ. Ég veitti því athygli, að þar er ekki gert ráð fyrir að úr gildi falli 10. gr. í lögum um launajöfnunarbætur, bætur almannatrygginga, verðlagsmál o. fl., sem eru nr. 13 frá 23. maí 1975. Þessi 10. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Frá 1. okt. 1974 til 31. maí 1975 og þar til öðruvísi verður ákveðið má ekki hækka verð vöru eða þjónustu eða endurgjald fyrir afnot af fasteign eða lausafé frá því sem var 23. sept. 1974 nema að fengnu samþykki réttra yfirvalda og skulu þau ekki leyfa neina hækkun nema þau telji hana óhjákvæmilega. Leyfi til hækkunar tekur þó ekki gildi fyrr en það hefur hlotið staðfestingu ríkisstj.

Síðan heldur 10. gr. áfram og ræðir um hundraðshluta álagningar á vöru í heildsölu, smásölu eða öðrum viðskiptum sem ekki verði leyft að hækka nema til komi samþykki ríkisstj. og sama máli gegni um vöru og þjónustu sem ríki, sveitarfélög og stofnanir láti í té. Þessi lagagrein segir sem sé að þessi atriði, sem ég hef hér talið upp, megi alls ekki undir neinum kringumstæðum hækka í verði nema með leyfi hæstv. ríkisstj. Þetta eru þau lagaákvæði sem yfirleitt hafa verið kölluð „verðstöðvunarákvæðin“ og eru enn í gildi að því er ég best veit. Ef þessum ákvæðum verður ekki breytt, sem ég fæ ekki séð að frv. geri ráð fyrir, þá er raunar ekki um neina kerfisbreytingu að ræða, vegna þess að þá hljóta allar hækkanir, af hvaða toga sem þær eru spunnar að vera háðar því að ríkisstj. heimili þær. Þá er ekki um þá frjálsu samkeppni að ræða sem hér er um fjallað, heldur raunar um tiltölulega litla breytingu, að vísu nokkra breytingu á yfirborðinu, en ekki neina raunverulega breytingu, því að ég held að það hljóti svo að vera, að eftir sem áður verði að leita til viðkomandi ríkisstj. um leyfi til hækkunar og það er þá á hennar valdi, en ekki á valdi hinnar frjálsu samkeppni, hvort þessi hækkun verði veitt. Ef hins vegar ákvæðið í 54. gr., — að önnur ákvæði, sem fari í bága við þessi lög, falli niður, — ef það ákvæði — á að taka til þessarar 10. gr., þá þýðir það að fella á niður ekki aðeins að leyfi ríkisstj. þurfi til þess að hækka álagningu eða verð á vöru og þjónustu einkaaðila, heldur jafnframt að leyfi falli niður frá ríkisstj., sem til þurfi til þess að hækka megi endurgjald fyrir afnot af fasteign eða lausafé, umboðslaun eða verð á hvers konar vöru eða þjónustu sem ríki, sveitarfélög og stofnanir þeirra láta í té. Ég tel nauðsynlegt til þess að komast hjá misskilningi að á milli 2. og 3. umr. fjalli sú n., sem um þetta mál hefur höndum farið, um þessa ábendingu og geri þær breytingar á 54. gr. frv. sem taki af öll tvímæli um það, hvaða atriði í 10. gr. laga nr. 13 frá 1975 eigi að standa, ef frv. þetta verður samþ., og hvaða atriði í þessari grein eigi að falla úr gildi.