19.04.1978
Neðri deild: 79. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3689 í B-deild Alþingistíðinda. (2856)

142. mál, geymslufé

Frsm. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. til l. um geymslufé og leggur til samhljóða að frv. verði samþykkt. Fjarverandi afgreiðslu málsins var einn nm., hv. 9. þm. Reykv.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða mikið um þetta mál. Það fylgir frv. mjög greinargóð grg., sem gerir grein fyrir því hvers vegna verið er að festa í lög nánari ákvæði um geymslufé. Þetta frv. er að meginstofni sniðið eftir norrænum lögum í þessum efnum og er flutt til þess að eyða réttaróvissu sem fylgir því að ekki skuli vera nánari ákvæði um geymslufé í lögum en nú er.

Það kemur fram í grg. fyrir frv., að ekki hafi verið talin ástæða til þess að taka í lögin ákvæði um þóknun til banka fyrir geymslu fjár eða um vexti af því, þar sem Seðlabanka Íslands beri að setja reglur um þau atriði samkv. lögum. N. kallaði á sinn fund lögfræðing hjá Landsbanka Íslands, Reinhold Kristjánsson, til þess að fá frekari upplýsingar um hvernig með þessi mál væri farið. Hann upplýsti n. um það, að greiddir væru vextir af geymslufé í ríkisviðskiptabönkunum, en það eru eingöngu ríkisviðskiptabankarnir sem lögum samkvæmt hafa heimild til þess að taka við geymslufé. Með tilliti til þess, að það er orðin föst venja að greiða vexti af geymslufé, sem sjálfsagt er, þá þótti n. ekki ástæða til þess að gera um það sérstaka brtt., að það væri fest í lög.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess, herra forseti, að lengja mál mitt um þetta efni, þar sem nm. voru allir einróma samþykkir því að leggja til, að frv. yrði samþykkt.