01.11.1977
Sameinað þing: 12. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í B-deild Alþingistíðinda. (286)

41. mál, sérfræðiþjónusta á heilsugæslustöðvum

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég hef leyft mér, ásamt hv, þm. Stefáni Jónssyni, að endurflytja frá síðast þingi till. til þál. um skipulag sérfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum. Tillgr. er svo hljóðandi:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að skipuleggja þjónustu sérfræðinga í sem flestum greinum læknisfræðinnar á heilsugæslustöðvum landsbyggðarinnar og auka og bæta þannig þá þjónustu, sem heilsugæslustöðvarnar eiga að veita skv. 21. gr. laga um heilbrigðisþjónustu.

Áætlun um þessa sérfræðiþjónustu verði gerð af heilbrrn. og liggi fyrir eigi síðar en 1. maí 1978 og jafnframt verði gerðar nauðsynlegar ráðstafanir til að hrinda áætluninni í framkvæmd þegar á næsta ári.“

Aðalorsök þess, að við flm. viljum ýta hér á eftir svo sem mögulegt er, er sú að við höfum hér tvívegis flutt frv. til breyt. á lögum um almannatryggingar þar sem kveðið var á um þátttöku sjúkratrygginganna í kostnaði fólks við að sækja sérfræðiþjónustu og fara í rannsókn hingað til Reykjavíkur. Sumt af þessu fólki fer reglubundið, ef sjúkdómur þess er þess eðlis að nauðsynleg meðferð eða eftirlit er álitið knýjandi, alltaf öðru hvoru. Við fluttum þetta frv. þó þannig, að ákvæði öll voru rúm fyrir rn. til að setja í reglugerð nánari ákvæði eða reglur um hlutdeild og hversu með skyldi farið. Við gerðum það vegna þeirrar mótbáru, sem mest hefur á borið, um hættu á misnotkun, en vorum þó með beint inn í frv. okkar allströng skilyrði, sem uppfylla þurfti ef sjúkratryggingarnar áttu að taka þátt í kostnaði.

Hér er hins vegar um mjög tilfinnanleg útgjöld að ræða, ferðir og kostnað ýmsan og beint vinnutap einnig. Allur þessi kostnaður er auðvitað því meiri sem oftar þarf að fara, en um það þekkja flm. mörg dæmi að menn þurfi að fara síendurtekið í þessar ferðir, þó ekki sé um að ræða varanlega örorku af völdum sjúkdóms. Við vissum og vitum mætavel að sérfræðiþjónusta og rannsóknaraðstaða er langsamlega hest hér í höfuðborginni og því von að hinir almennu læknar úti í héruðunum sendi fólk gjarnan í rannsóknir og eins til nauðsynlegrar meðferðar hingað, þó eflaust sé stundum of mikið að því gert einnig varðandi rannsóknirnar, enn þá sem betur fer, vil ég segja.

Nú er það svo, að við lifum á öld sérfræðinnar í flestum greinum og ekki síst á sviði læknisfræðinnar, þar sem sá virðist nú vart talinn maður með mönnum í læknastétt sem ekki getur skreytt sig einhverjum sérfræðititli, og flestir eru þeir búsettir hér á þessu svæði. Nú skal enginn skilja orð mín svo, að ég geri lítið úr, þó ég haldi því fram að hinar almennu heimilislækningar hafi að nokkru lotið í lægra haldi og þar hafi röng stefna verið uppi. En eðlilegt hlýtur það að vera, að þar sem aðstaða til rannsókna jafnt sem aðgerða er best og fullkomnust, eins og hér, þar vilji þeir starfa, sem best ern menntaðir og mesta þekkingu hafa í hverri einstakri grein.

Nú viljum við flm. síður en svo gera lítið úr starfi læknanna úti í héruðunum. Þeir eru flestir mjög hæfir og verða af margþættri reynslu ríkari að almennri þekkingu, að við hyggjum, en sumir starfsbræður þeirra, sem ævinlega fást við það sama. En læknar heilsugæslustöðvanna nýju og landsbyggðarsjúkrahúsanna, þó ágætir séu, hljóta þó lengi enn að senda fólk til sérfræðinga hér í Reykjavík og það í svo ríkum mæli, að einhverja lagfæringu gegnum sjúkratryggingar hlýtur fólk að þurfa að fá til að komið sé í einhverju til móts við kostnað þann sem af því leiðir, og því er þetta frv. flutt í annað sinn. Þrátt fyrir till. af þessu tagi, sem hér er til umr., og góða og skjóta framkvæmd hennar, þá verður áfram rík þörf fyrir það sem þetta frv. gerði ráð fyrir þátttöku sjúkratrygginga í þessum kostnaði.

Ég sé raunar að í Nd. er komið fram frv. mjög áþekkt að eðli og frv. okkar var, frá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, nema þar er ákveðinni kostnaðarhlutdeild slegið fastri. En tvennt veldur þessu tillöguformi nú. Annars vegar það, að við afgreiðslu frv. okkar til ríkisstj. var beint að því vikið, að unnið væri að endurskoðun tryggingalaganna, og eins það, að stefnt væri að því, að færa þessa þjónustu í auknum mæli inn á heilsugæslustöðvarnar nýju og á landsbyggðarsjúkrahúsin. Hvorugt hefur gerst að neinu marki. Það sannar m.a. frv.-flutningur hv. þm. Sighvats Björgvinssonar nú, og auðvitað er okkur það ljóst að enn er skammt komið framkvæmd laganna frá 1973 um heilsugæslustöðvar, þó þar hafi nokkuð miðað.

Og þá er að hinni ástæðunni komið. Lög um heilbrigðisþjónustu frá 1973 stefndu að því marki sem till. okkar beinist að. Aðaltema þeirra laga var um sem fullkomnasta heilsugæslu í heilsugæslustöðvunum, jafnt hvað snertir fyrirbyggjandi aðgerðir, sem megináhersla var á lögð, svo og meðferð sjúkdóma og þjónustu alla á sviði heilbrigðismála. Í 21. gr. þessara laga eru upp talin þau verkefni sem heilsugæslustöðvarnar eiga að annast, og það er langur listi og fjallar um mörg svið og mikilvæg, en þar segir m.a. í 21. gr., að á heilsugæslustöð skuli veita þá þjónustu, eftir því sem við á, sem hér segir:

1. Almenna læknisþjónustu, vaktþjónustu og vitjanir til sjúklinga.

2. Lækningarannsóknir.

3. Sérfræðilega læknisþjónustu og tannlækningar.

4. Heilsuvernd, sem síðan er talin upp í mörgum liðum.

Í þessa grein vitnum við flm. einnig alveg sérstaklega. Við óskum ákveðins, skipulegs átaks til að koma sérfræðiþjónustu sem fyrst og víðast út í héruðin, að svo miklu leyti sem fært þykir. Mér hefur þótt þess gæta í síauknum mæli, að sjúklingar kæmu á læknisfund í stað þess gagnstæða, sem áður var ríkjandi við ólíkt erfiðari aðstæður þó fyrir læknana. Sjálfur hef ég kynnst héraðslækni sem heimtaði alla til síu á stofu, hversu veikir sem þeir voru, nema honum væru færðar óyggjandi sönnur á að sjúklingurinn væri algjörlega óferðafær, og hrökk þó tæpast til. Sem betur fer hafði sá stuttan stans austur þar. En að hinu gagnstæða lýtur einmitt till. okkar, þ.e. að færa sérfræðiþjónustuna sem mest heim til sjúklinganna, þar sem unnt er, í stað þess að þeir þurfi nær ævinlega að sækja hana á annað landshorn með ærnum kostnaði og vinnutapi, sem oft vegur þungt einnig og kemur þannig fram sem tvöfaldur viðbótarþungi á viðkomandi sjúkling.

Við flm. gerum okkur mætavel ljóst að auðvelt eða auðsótt er þetta ekki, og þetta skilur landsbyggðarfólkið mjög vel. Það er orðið þessu svo vant að nærri lætur að það taki þessu sem sjálfsögðum hlut. Ekki þar fyrir, að landsbyggðarfólkið þekki ekki dæmi um slíka þjónustu. Augnlækningaferðalögin um landið hafa gert geysimikið gagn og sparað ótaldar fjárhæðir. Sama er raunar að segja um starfsemi Heyrnarhjálpar, sem hefur gefið sérlega góða raun. Hvort tveggja hefur líka oft komið í veg fyrir beint tjón á þessum mikilvægu skynfærum, þar sem í mörgum tilfellum hefði annars orðið um óbætanlega töf og drátt að ræða þar sem fólki vex oft í augum kostnaður og fyrirhöfn, sem fylgt hefði suðurferð af þessum tilefnum.

Við flm. erum sannfærðir um að fleiri svið megi taka fyrir á svipaðan hátt, og helst enn tíðari og betri en hér hefur verið að staðið með augn- og heyrnarlækningar. En millileið væri eflaust fær ef of stórt stökk þætti að færa þjónustuna inn á stöðvarnar í næstu framtíð, og við vitum vel um annmarka þess og erfiðleika. Við vitum einnig fullvel að margar — ég viðurkenni meiri hluti heilsugæslustöðva í dag er aðeins nafnið enn ef miðað er við endanlegt markmið, en æ fleiri rísa þær af grunni og aðstaðan batnar til þess að spanna fleiri svið og veika aukna þjónustu. Vart verður því trúað, að á sérfræðingunum standi að heimsækja stöðvarnar og liðsinna fólki þannig. Vonandi eru þeir ekki það bundnir höfuðstaðarylnum og aðstöðu sinni þar, að þeir fáist ekki til þessa mikilvæga þjónustustarfs. Þó höfum við flm. heyrt það sem veigamikla mótbáru við till. okkar, að ekki muni sérfræðinga að fá til að sinna þessu á mjög mörgum sviðum. En á það verður þá að reyna. Illa trúi ég a.m.k. á það, að augnlæknarnir okkar séu algert einsdæmi, svo mjög sem öll aðstaða þeirra hefur löngum verið ófullkomin og erfiði mikið samfara þeirra ferðum, einkum áður. Við leggjum a.m.k. til að á þetta reyni, áætlun verði gerð um skipulagningu þessarar þjónustu í sem flestum greinum svo unnt verði að láta í té bætta þjónustu til öryggis og hagræðis fyrir íbúana.

Um tímamörk áætlunar erum við flm. til viðræðu að sjálfsögðu um breytingar og eins um upphaf framkvæmda enda ekki aðalatriði, heldur að eitthvað verði gert raunhæft sem fyrst í þessum efnum. Ekki dettur okkur heldur í hug að þetta leysi allan vanda þó í framkvæmd komi. Ferðir sjúklinga utan af landsbyggðinni til meðferðar eða rannsóknar hér í Reykjavík verða ævinlega ríkjandi, en úr þeim má draga og á að draga svo sem unnt er. Þeim þarf hins vegar að mæta með vissri aðstoð einnig, eins og frv. okkar gerði ráð fyrir og frv. í Nd. nú lýtur einnig að.

Í lok grg. okkar segjum við flm.

„Efalaust eru margir annmarkar á þessari framkvæmd, bæði hvað snertir vilja sérfræðinga í þessum efnum og rannsóknaraðstöðu á heilsugæslustöðvunum. En hér er um hvort tveggja að ræða: öryggismál fyrir íbúana, einkum hvað snertir fyrirbyggjandi aðgerðir, og gífurlegt fjárhagslegt hagræði, og ef við viljum framfylgja lögunum og anda þeirra ber einskis að láta ófreistað til að hrinda þeim í framkvæmd sem fyrst og best.

Jöfn aðstaða allra landsmanna til heilsugæslu byggist ekki hvað síst á þessum þætti, og ef okkur er alvara í þeim efnum, þá hljótum við að stuðla hér að sem skjótast. því er till. þessi flutt.“

Ég hygg að fleiri orð séu óþörf, en legg til, herra forseti, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn.