21.04.1978
Sameinað þing: 69. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3696 í B-deild Alþingistíðinda. (2867)

140. mál, vegáætlun 1977-1980

Frsm. (Steinþór Gestsson) :

Herra forseti. Þáltill. um breytingu á vegáætlun var vísað til fjvn. að venju og hefur hún haft áætlunina til umfjöllunar um nokkurt skeið. Hún hefur notið aðstoðar Snæbjarnar Jónassonar vegamálastjóra, Helga Hallgrímssonar forstjóra tæknideildar og annarra starfsmanna vegagerðarinnar eftir því sem þörf hefur verið fyrir upplýsingar um ákveðin verkefni. Sú aðstoð hefur verið fljótt og vel af hendi leyst, jafnt við fjvn. í heild sem einstaka þm. og þingmannahópa kjördæmanna. Ég vil þakka þeim öllum þátt þeirra í gerð vegáætlunarinnar um leið og ég tjái samnm. öllum bestu þakkir fyrir samstarfið við gerð till. um endurskoðun vegáætlunar. Samkomulag varð í n. um skiptingu fjár milli kjördæma, en að venju hafa þm. einstakra kjördæma skipt ráðstöfunarfé á sérstaka verkþætti. Að sjálfsögðu hefur fjvn. farið yfir þær till. og stendur að þeim og ber þær fram.

Sú endurskoðun, sem nú hefur verið gerð á vegáætlun, er aðeins bundin framkvæmdum á árinu 1978 og er það í samræmi við yfirlýsingar hæstv. samgrh. á Alþ. 28. mars 1977 og eftir ákvörðun Alþ. við gerð fjárl. fyrir árið 1978, þar sem ráðstöfunarfé Vegagerðar ríkisins var ákveðið 9 300 millj. kr. á árinu 1978 í stað 7 þús. millj. kr. sem gildandi vegáætlun fól í sér. Ráðstöfunarfé er því 2300 millj. kr. umfram gildandi vegáætlun. Verkefni fjvn. var að skipta því viðbótarfjármagni, en þess var aflað eins og hér segir:

1. Markaðir tekjustofnar eru nú áætlaðir 1500 millj. kr. hærri en vegáætlun gerði ráð fyrir. Sú hækkun er að hluta til vegna sérstakrar hækkunar á bensíngjaldi sem ákveðin var með lögum fyrir áramótin síðustu ásamt tilsvarandi hækkun þungaskatts. Þá er enn fremur gert ráð fyrir að nýta heimild í lögum um hækkun gjaldstofna í samræmi við hækkun vísitölu byggingarkostnaðar eftir því sem þörf verður á til þess að ná á árinu 1978 ofangreindum tekjuauka af mörkuðum tekjum.

2. Ríkisframlag hækkar um 400 millj. kr. Sú ákvörðun var tekin við fjárlagagerðina fyrir árið 1978, enda er gert ráð fyrir að sú hækkun svari til þess tekjuauka af söluskatti sem leiðir af hækkun bensíngjalds á tímabilinu.

3. Lánsfjáröflun til vegagerðar er með tvennum hætti. Annars vegar er hin sérstaka fjáröflun til Norður- og Austurvegar aukin um 300 millj. kr. og hins vegar er almenn lántaka til vegamála aukin um 100 millj. kr. Eru þessar lántökur í samræmi við lánsfjáráætlun fyrir árið 1978.

Fjvn. leggur til, að þessu aukna ráðstöfunarfé verði varið þannig í stórum dráttum, sbr. einnig brtt. á þskj. 576:

Til stjórnar og undirbúnings framkvæmdum er gert ráð fyrir að framlag hækki um 138 millj. kr. Er það áætlað að svari til launa- og verðlagshækkunar á þeim grunni sem er í gildandi vegáætlun, en ekki reiknað með auknu starfsliði frá því sem þar var ákveðið.

Til viðhalds vegum á sumri og vetri er till. um hækkun um 537 millj. kr. Eftir áætlun Vegagerðar ríkisins mun sú fjárhæð hvergi nærri svara til þess sem áætluð heildarfjárþörf vegaviðhaldsins er, en mun þó verða nokkru nær raunverulegri áætlaðri fjárþörf en var á árinu 1977.

Til nýrra þjóðvega er till. um að ráðstöfunarfé hækki úr 2 560 millj. kr. í 3 721 millj. kr. eða um 1161 millj. kr. Fjvn. gerði till. um að því skyldi skipt milli kjördæma í sömu hlutföllum og skipt er í gildandi vegáætlun. Unnu þm. hópar hinna einstöku kjördæma eftir því við ákvörðun um framlög til einstakra verka í nýbyggingu vega, og vísast til þskj. 576 um þær skiptingar.

Till. er gerð um að framlög til brúagerða hækki úr 33l millj. kr. í 563 millj, kr. eða hækkun frá gildandi vegáætlun um 226 millj. kr. Þegar tillit hafði verið tekið til áætlaðra kostnaðarhækkana við þær brúabyggingar sem eru á gildandi áætlun, þá taldist fært að byggja að auki brú á Víðidalsá í Húnavatnssýslu, brú á Heydalsá á Ströndum og á Markarfljót við Emstrur. Er till. gerð um það á þskj. 576.

Til fjallvega er áætluð hækkun um 7 millj. kr. og er það til samræmis við verðlagshækkanir.

Framlög til sýsluvega hækka um 31 millj. kr. Að nokkru er hækkunin afleiðing kjarasamninga og annarra hækkana til 1. des. 1977. Einnig hefur heimild til að auka framlag sveitarfélaga leitt til hærra ríkisframlags en gert hafði verið ráð fyrir.

Til vega í kaupstöðum og kauptúnum verður hækkun um 168 millj. kr., sem verður í samræmi við lögákveðinn hluta af mörkuðum tekjustofnum til vegagerðar.

Til vélakaupa og áhaldahúsa er till. um lækkað framlag um 6 millj. kr. Má segja að þar sé um þann eina niðurskurð að ræða sem fjvn. sá sér fært að gera frá því sem er í gildandi vegáætlun.

Fjárveiting til tilrauna er ákveðin í lögum ákveðinn hundraðshluti af mörkuðum tekjum Vegasjóðs og hækkar um 8 millj. kr.

Til greiðslu á halla fyrri ára var á gildandi vegáætlun gert ráð fyrir 30 millj. kr. sem gengju upp í hann, en sú upphæð er aukin um aðrar 30 millj. kr., svo að til ráðstöfunar í þessu skyni verða 60 millj. kr. á árinu 1978. Eigi að síður standa eftir 176 millj. kr., eins og sjá má á þskj. 576. Það er álit fjvn., stutt upplýsingum frá Vegagerð ríkisins, að áætlanir um framkvæmdakostnað séu svo traustar að ekki komi til óvænts halla á þessu ári af þeim sökum.

Eins og fram kom í upphafi máls míns er að þessu sinni einungis fjallað um skiptingu á því aukna ráðstöfunarfé, sem kemur til nota á árinu 1978 umfram gildandi vegáætlun fyrir það ár. Regluleg endurskoðun vegáætlunar kemur ekki til fyrr en á næsta þingi og verður að sjálfsögðu viðameiri en sú endurskoðun sem verið er að ljúka með þessari umr.

Fjvn. gerði till. um skiptingu fjárins milli kjördæma, eins og ég gat um áðan, en að auki lagði hún til að ákveðnum fjárhæðum skyldi varið til nokkurra sérstakra verkefna, en þau eru Borgarfjarðarbrú, Holtavörðuheiði, Vesturlandsvegur á Kjalanesi og Þingvallavegur. Allt eru þetta verkefni sem þannig eru sett, að þau geta tæplega verið áhugaverð fyrir eitt kjördæmi öðru fremur og eru auk þess kostnaðarsöm. Mér þykir líklegt að til álita komi að framvegis þurfi að hafa sama hátt á um stór verk sem ráðast þarf í og annað tveggja teljast tæpast til eins kjördæmis eða eru þá svo stór að þau rúmast ekki innan þeirrar hefðbundnu skiptingar milli kjördæma sem að mestu leyti er farið eftir viðgerð vegáætlunarinnar núna.

Herra forseti. Ég tel ekki þörf á að rekja hér úr ræðustóli skiptingu framkvæmdafjárins í smáatriðum eða til einstakra verka. Skýrsla um það atriði er greinilega sett upp á þskj. 576 og vísa ég til hennar. Ég get því látið máli mínu lokið um störf fjvn. að þessu sinni. Eins og fram kemur í nál. hennar á þskj. 579 stendur hún öll að og ber fram brtt. á þskj. 576 og leggur til að þær verði samþykktar. Fulltrúar Alþb. og Alþfl. í n. hafa þó þann fyrirvara á, að þeir áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma við afgreiðslu málsins.