21.04.1978
Sameinað þing: 69. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3732 í B-deild Alþingistíðinda. (2876)

363. mál, framkvæmd grunnskólalaga

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. góðar undirtektir við flutning þessarar skýrslu. það liggur töluverð vinna að baki þegar svona skýrslur eru gerðar og settar fram. Og eins og ég gat um, þegar ég gerði grein fyrir skýrslunni, má náttúrlega vænta þess, þegar svona skýrslur eru unnar í fyrsta sinn, — það hefur ekki áður verið gerð hliðstæð skýrsla í menntmrn., — að henni sé í einhverju áfátt. En verulegar upplýsingar ætti hún þó að geta gefið. Mig langar svo til að víkja örfáum orðum að atriðum sem fram hafa komið við þessar umr., án þess þó að fara langt út í einstök þeirra.

Það var dálítið rætt um það í framhaldi af því sem ég sagði, hvenær eðlilegt væri að Alþ. ályktaði að nýju um 9 ára skólaskylduna, eins og segir í lögunum. Ég vil árétta það, sem ég held að hafi komið fram í fyrstu ræðu minni, að ég tel eðlilegt, áður en ákvörðun er tekin um þetta hér á Alþ.,hv. alþm. og auðvitað öðrum gefist tóm til þess að íhuga vel þær upplýsingar, sem nú eru lagðar fram og aðrar, sem þeir kynnu að óska eftir eða afla sé, og svo að ræða um þessi mál, brjóta þau til mergjar rækilega. Og ég tel að það væri óráð að ætla sér að álykta um þetta efni nú án þess að hafa kynnt sér fram komnar upplýsingar betur en tóm gefst til á þessum tiltölulega fáu dögum sem væntanlega eru eftir af þinghaldinu.

Ég árétta einnig, að ég tel eðlilegt og blátt áfram nauðsynlegt að ákvörðun um þetta sé tekin um leið og fjallað er um framhaldsskólastigið, vegna þess að það er eitt þýðingarmesta atriðið í sambandi við 9. skylduárið, hversu grunnskólastigið tengist framhaldsskólastiginu. Í grunnskólalögunum 1974 er sagt, að gert sé ráð fyrir að full skólaskylda, þ. e. 9. árið, taki gildi 6 árum eftir setningu laganna, þ. e. a. s. árið 1980. Mér sýnist þess vegna ekkert liggja á að fjalla um þetta atriði nú, það sé nógur tími að gera það á næsta þingi. En þá, ef breyta ætti frá ákvæðum laganna, er nauðsynlegt að gera það, þá má það ekki dragast lengur. Og ég verð nú að segja það, að ég álít nánast óhjákvæmilegt einnig að vinda sér í það á næsta þingi að afgreiða löggjöf um framhaldsskólastigið. Það er búið að vinna það lengi að því máli og það „opið“ vil ég segja, a. m. k. allt síðasta ár eða nú um eins árs skeið, að það ætti ekki að vera neitt í veginum fyrir Alþ. að taka það mál til umfjöllunar, þegar þing kemur saman að nýju eftir kosningar, og afgreiða það þá.

Ég vil láta það koma fram, að ég er þeirrar skoðunar að ákvæði grunnskólalaganna frá 1974 um að gefa Alþ. kost á að fjalla að nýju um 9 ára skylduna leggi engar sérstakar skyldur á herðar menntmrn. eða menntmrh. né ríkisstj. í heild um að leggja fyrir Alþ. í einu eða öðru formi till. til ályktunar um þetta efni. Hins vegar getur auðvitað hver alþm. sem vill breyta frá ákvæðum laganna, sem nú gera ráð fyrir 9 ára skólaskyldu, tekið það mál upp. Ég er ekki viss um að þetta hafi komið nægilega glöggt fram þegar ég gerði grein fyrir skýrslunni, en ég vil að þetta komi fram nú, og að þessu leyti er ég alveg sammála hv. þm., fyrrv. menntmrh. Magnúsi T Ólafssyni, í því sem hann sagði um þetta efni áðan.

Ég þarf nú kannske ekki að víkja að mörgum atriðum sem fram hafa komið í máli hv. þm., þeirra sem tekið hafa til máls um skýrsluna, en mig langar þó aðeins til þess að drepa á fleiri.

Í sambandi við 9. skylduárið varð nokkur umr. um þá breytingu sem orðið hefur á skólasókn á þessu tiltekna ári, þ. e. a. s. að þeim, sem hverfa frá námi eftir 8. skylduárið, hefur fækkað frá því að vera um 15%, þegar grunnskólalögin voru seti, og niður í um 5% nú. Hv. þm. ræddu nokkuð um ástæður, og mér virtist það allt eðlilegt og skynsamlegt, sem fram kom um það, í raun og veru. Það var tekið undir það, sem ég hef áður sagt, að almennur skilningur á þörf fræðslu á þessu ári hefði valdið miklu um. Einnig bendi a. m. k. einn hv. þm. á það, og ég held að fleiri hafi tekið undir, að auk þessa almenna skilnings kæmi þarna einnig til nokkuð útbreiddur misskilningur um að 9. árið væri skylduár. Það má vel vera að þetta sé rétt, en ekki kannast ég þó við það. Ég þekki ekki persónulega dæmi um það. En hitt held ég svo líka að valdi mjög miklu um þessa þróun, að það hefur fjölgað mjög þeim stöðum, þeim skólum sem veitt gátu kennslu á 9. árinu, og það hefur verið unnt að bjóða nokkru fjölbreyttara nám á þessu skólaári en áður. Allt þetta og vafalaust eitthvað fleira held ég að hafi hjálpað til að beina þróuninni í þessa átt sem hún nú hefur orðið. Ég árétta það, sem ég sagði þegar ég talaði fyrir skýrslunni, að ég tel að þessi þróun hljóti að slæva þær skörpu andstæður sem komu fram á Alþ. þegar rætt var um grunnskólalögin og þetta atriði þeirra sérstaklega. En ég vil líka árétta það, að ég tel mjög eðlilegt að skiptin á milli grunnskóla- og framhaldsskólastigsins séu nokkuð afmörkuð og m. a. að því leyti, að skólaskylda fylgi grunnskólastigi, en falli þá niður þegar framhaldsskólastigið tekur við.

Ég sagði áðan að ég teldi að þessi þróun hlyti að slæva þær skörpu andstæður sem upp komu 1974, og þá tel ég að bæði þessi breyting á hundraðshlutanum og svo sú sveigja, sem grunnskólalögin gera ráð fyrir varðandi þetta efni, ætti hvort tveggja að koma nokkuð langt til móts við þá sem stytta vilja skólaskylduna.

Þegar fjallað er um þessi mál, þá er jafnan nokkuð rætt um árlegan námstíma, lengd hans. Það er eins með hann, að þar er um verulega sveigju að ræða samkv. grunnskólalögunum og ég tel eðlilegt að sú sveigja sé notuð innan skynsamlegra marka. Aðstaða í landinu er mjög misjöfn eftir héruðum og landshlutum, eftir atvinnuháttum á þessum eða hinum staðnum o. s. frv. Í þessu efni tel ég að það sé í raun og veru meginatriðið að halda við þeirri virku þátttöku skólafólks í atvinnulífi landsmanna sem auðkennt hefur íslenskt skólastarf að þessu leyti frá skólastarfi og skólaskipan a. m. k. ýmissa nálægra landa, þar sem þessi þátttaka er að mestu og sums staðar að öllu leyti niður fallin. Ég held að þetta sé meginatriðið. Ég tel að ákvörðunin um lengd skyldunnar í árum sé að vísu markverð og eðlilegt að menn velti vöngum yfir henni, þó mér sýnist að þær athuganir hljóti, eins og nú er komið, að leiða að einni ákveðinni niðurstöðu. Ég tel enn fremur mjög eðlilegt að menn velti vöngum yfir því og hugleiði mjög hinn árlega tíma skólanna. En ég árétta það, að þarna er um vandasamt viðfangsefni að ræða, m. a. út af hinni mjög svo misjöfnu aðstöðu sem fyrir hendi er hér hjá okkur. En þó að þetta sé vandasamt og mikilvægt, þá held ég að innri gerð og starf skólanna sé enn þá mikilvægara.

Hv. þm. Pálmi Jónsson minntist á að breytingar þær, sem nú væri verið að gera, t. d. í námsmati og raunar tilhögun náms þá um leið, kynnu að verka í þá átt að slæva metnað nemendanna. Þetta er á vissan hátt rétt. Með þessum breytingum er gert ráð fyrir að draga úr prófunum, og það er ekki ætlast til þess blátt áfram, að það sé aðalhvati nemandans til þess að duga í námi sínu eða skólastarfi að hafa yfir sér ströng próf. Á hitt er lögð megináhersla og að því lúta þær breytingar, sem leitast er við að gera á námsefni og innra starfi skólanna, megináherslan er lögð á að glæða starfslöngun og efla starfsgetu einstaklinganna. Ég fer ekki lengra út í þetta, en ég vil segja að ég fyrir mína parta styð heils hugar þær tilraunir sem nú er verið að gera í þessa átt. Og ég held að það væri alveg fráleitt að hverfa frá þeim í miðjum klíðum. En árangur af viðleitni sem þessari kemur ekki í ljós í fljótu bragði, nema þá að nokkru leyti. Þarna hlýtur að vera um langtímamál að ræða.

Það var rætt nokkuð um skólaskipanina, skólahverfin. Það eru miklir erfiðleikar í sambandi við þau mál og það bæði í dreifbýll og þéttbýli. Það hefur hægt á mannfjölguninni, og þeir reiknimeistarar okkar, sem vinna að áætlanagerð, hafa ekki séð það fyrir og sjálfsagt sjá það ekki frekar fyrir nú hvað fram undan er á næstunni í því efni. Tilfærslurnar, sem orðið hafa á þéttbýlisstöðunum á milli bæjarhverfa og borgarhverfa hér í Reykjavík, eru kunnari en svo, að ég þurfi að eyða orðum að því, og hafa valdið miklum erfiðleikum á þeim stöðum þar sem þær eiga sér stað. Og enn er eitt, sem gerir þetta mál viðurhlutameira en ella, þ. e. skólaskipanina, skipan í skólahverfi og skóladeildir. Gífurlega miklar viðhorfsbreytingar hafa átt sér stað á undanförnum árum. Hugmyndir manna um skólagerðir og tilhögun náms á hinum ýmsu skólastigum hafa tekið ótrúlega örum stakkaskiptum. Um tíma var lögð gífurleg áhersla á sérhæfða kennslu og toppaðstöðu fyrir hana á hverjum stað. Síðar fara menn aftur að huga að öðrum þáttum og sýnist þá að samkennsla komi til greina í meiri mæli en menn höfðu talið um hríð. Og eins er það, að það verða töluverðar breytingar á hugmyndum manna og viðhorfum til þátta eins og aksturs skólabarna. Ég álít að þar hafi menn lent nokkuð langt í því að aka nemendum langar leiðir. Eins er það varðandi heimavistir, að þar hafa viðhorf mjög verið að breytast. Og t. d. á þessum síðustu árum kemur það inn í og færist enn í vöxt, að ekki er kennt á laugardögum, helgarnar lengjast. Einnig þetta veldur breytingum og gerir uppgjör þessa dæmis, um skólahverfin og skólaskipanina, flóknari en ella.

Ég held að menn hafi ekki alltaf gert sér næga grein fyrir þörfum skólans, hvers einstaks skóla, stöðu hans sem stofnunar. Það hlýtur að veikja hvern skóla sem stofnun, ef hann byggir að miklu leyti á t. d. eins árs nemendum eða nemendum sem dvelja mjög stutt í stofnuninni. Og einnig held ég að stundum hafi verið lítið fram hjá því félagslega atriði, að ekki er unnt að skipta upp einu sveitarfélagi, sem er félagsleg heild með tilliti til skólasóknar í grunnskóla, fyrr en sú skipting kemur eðlilega vegna þess að menn leita í breytilegar skólagerðir.

Það var aðeins vikið að héraðsskólunum. Ég held að það hafi verið hv. þm. Páll Pétursson sem sagði að sér virtist það væri stefnt að því beinlínis að rýra hlut héraðsskólanna. Hann er nú ekki við, enda ástæðulaust að við förum að karpa um þetta. En ég vil í tilefni af þessum orðum minna á það annars vegar, að héraðsskólarnir voru byggðir fyrir stór svæði og upphaflega áttu þeir að starfa með eins konar lýðháskólasniði að hætti nágranna okkar á Norðurlöndum. Síðan féllu þeir inn í almenna skólakerfið. Svo gerist það, að barnaskólarnir, grunnskólinn sem nú er kallaður, byggjast upp lengra og lengra í hinum einstöku skólahverfum. Þar er bæði um að ræða stóra og öfluga heimavistarskóla eða heimanakstursskóla í sveitunum og einnig þar sem þorp hafa stækkað og skólar vaxíð upp við þær aðstæður. Þetta hlaut að valda erfiðleikum fyrir héraðsskólana gömlu sem voru byggðir upp og þeim valinn staður við allt aðrar kringumstæður. Hitt er svo, að engum kemur til hugar að stefna að því vísvitandi að gera hlut þessara skóla lítinn, að gera þessum skólum, sem sumir eru allvel búnir og sumir vel, illmögulegt að starfa, að stefna að því að nýta ekki þá aðstöðu sem þarna hefur verið byggð upp og er fyrir hendi. Það er auðvitað alveg fráleitt. Þvert á móti fara nú fram athuganir á því á hinum ýmsu stöðum, hver verkefni skuli fá þessum stofnunum í framtíðinni. Þetta getur verið breytilegt eftir staðháttum. En ég hygg að í langflestum tilvikum reynist það létt verk, þó það verði ekki unnið alveg í skjótu bragði, að fá þessum stofnunum eðlileg verkefni að vinna innan íslenska skólakerfisins. Það er stundum vitnað í það, að þessir skólar séu ekki nefndir t. d. í frv. um framhaldsskólana, en það frv., eins og það var lagt hér fyrir, fjallar ekki um skólastaðina. Því er ekki eðlilegt að nefna fremur þessa skólastaði heldur en aðra.

Þegar ég flutti kynningu mína á þessari skýrslu, þá hlaut ég að stytta hana nokkuð, því það er auðvitað ástæðulaust undir þeim kringumstæðum að endurtaka það sem fyrir liggur í prentuðum heimildum. Ég vakti athygli á nokkrum þáttum sem mér þóttu sérstaklega eftirtektarverðir við framkvæmd grunnskólalaganna síðan þau tóku gildi fyrir 4 árum. Kannske hef ég látið ógert að nefna ýmsa þætti sem ekki eru síður eftirtektarverðir en þeir sem ég nefndi. Mér kemur til hugar þáttur eins og félagsstörf í skólum. Um þetta atriði er fjallað í skýrslunni á þremur bls. En þessi þáttur er vissulega mjög merkur og mjög tímabært einmitt nú að leggja aukna rækt við þennan þátt, félags- og tómstundastörfin. Á bls. 40 í skýrslunni er dregið saman nokkuð um þennan þátt og segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í grunnskólalögunum er lögð áhersla á breytta kennsluhætti og víðara verksvið skólans sem uppeldisstofnunar, og er þar m. a. gert ráð fyrir að með skólastarfinu sé leitast við að þjálfa nemendur þannig að þeir geti með eðlilegum hætti tjáð skoðanir sínar og unnið í samstarfi við aðra að þroskandi viðfangsefnum í tómstundunum. Með þessu er að því stefnt að nemendur öðlist félagslegan þroska og verði hæfari til að lífa og starfa í lýðræðisþjóðfélagi.

Þegar framansögð atriði eru höfð í huga, er eðlilegt að grunnskólalög kveði á um að nemendur skuli eiga þess kost að taka þátt í tómstunda- og félagsstarfsemi á vegum skólans, og að úr ríkissjóði skuli greidd ákveðin fjárhæð vegna starfa að umsjón og leiðbeiningum við skipulegt félagslíf nemenda:

Ég legg ríka áherslu á að þessi þáttur í starfi skólanna, sem reynt er að efla nú á síðustu missirum, er mjög merkur, stuðlar að því að tengja skólana betur en áður umhverfi sínu og því lífi sem lifað er allt um kring.

Það er annað atriði sem þarna kemur til greina og er gífurlega þýðingarmikið, auk þess sem drepið var á í tilfærðum ummælum. Það eru þær ákaflega miklu og snöggu breytingar sem orðið hafa á tómstundum með því að taka upp tveggja daga helgi. Það er ekki lítið atriði að reyna að stuðla að því strax í skyldunámi á grunnskólaaldrinum að búa nemendur undir það sérstaklega að nýta sér til gagns hinar löngu tómstundir sem gert er ráð fyrir í lögum, í kjarasamningum o. s. frv., enda þótt mér sé auðvitað ljóst að margir nýta þær til lífsbjargar einnig meira og minna. En hinir eru margir sem taka þessar tómstundir, og öll þurfum við auðvitað á því að halda að geta þá nýtt okkur þær til lífsfyllingar á skynsamlegan og jákvæðan hátt.

Það gildir vitanlega sama um annan þátt í skólastarfi, umferðarfræðsluna, að honum er beint að því að tengja skólann sem allra best umhverfinu og því lífi sem fram fer utan við skólalóðina.

Það hefur verið reynt á síðustu árum að auka skipulag og bæta á þessu sviði og auka þetta starf og er vikið að því í skýrslunni. Og ég vil enn sérstaklega vekja athygli á örstuttu yfirliti um skólaíþróttir, um íþróttastarf í skólum, sem er að finna í þessari skýrslu. Við höfum þar nokkra sérstöðu, Íslendingar. Við höfum almenna sundskyldu. Okkur hefur tekist að framkvæma hana svo til út í æsar, vil ég segja, og höfum þar náð forskoti fram yfir ýmsar aðrar þjóðir. Því er nú síður haldið á lofti heldur en hinu, þar sem við erum sögð 20–30 árum á eftir öðrum. En það hefur mér nú raunar heyrst í viðtölum, að við munum vera nánast á öllum sviðum, þegar sá gállinn er á mönnum.

En þessir þættir, sem ég minnti á núna, þegar þetta allt ber á góma, gefa mér tilefni til þess rétt að nefna það gífurlega vandamál sem við er að etja í námsskrárgerð og uppbyggingu og innra starfi skólanna, að finna rúm fyrir allt það sem við viljum taka til meðferðar á vegum skólans, greinar eins og íþróttir, félagsstörf, heimilisfræðakennslu, aðra verklega kennslu, tónmenntakennslu o. s. frv., o. s. frv., sem misjafnlega mikið og í mörgum tilvikum of lítið hefur verið sinnt á undanförnum árum. Auðvitað útheimta þær allar sitt rúm í stundaskrá skólans. Við stöndum þarna í raun og veru frammi fyrir miklum vandamálum, og ég held að það fari ekki hjá því, áður en langir tímar líða, að við þurfum að draga nokkuð úr ýmsum þeim hefðbundnu og í sjálfu sér ágætu námsgreinum, sem kenndar hafa verið í skólanum, til þess að rýma fyrir þessum þáttum.

Ég vil svo að lokum segja það, að ég tel að þessi skýrsla, sem hér er til umr., bendi til þess fremur en hitt, að ekki sé bruðlað með fé almennt í skólakerfi okkar Íslendinga. Hún bendir einnig til þess, að á þeim 4 árum, sem liðin eru frá því að lögin um grunnskóla voru sett, hafi tekist að efla verulega ýmsa þætti í skólastarfinu, t. d. þann þátt sem ég ræddi um núna rétt áðan, félagslega þáttinn, t. d. sérkennslumálin, og fleira mætti nefna. En þó skyldu menn gera sér ljóst, að hvergi er komið á leiðarenda að þessu leyti, þó að nokkuð hafi áunnist. Ég tel líka að þessi skýrsla bendi til þess, að við eigum mjög mikið ógert í uppbyggingu grunnskóla okkar. Ég nefni fyrst menntun kennaranna. Aðstaða hennar hefur verið ákaflega örðug mörg undanfarin ár, bæði hvað snertir húsnæðið sjálft og svo búnað og skipulag. Við höfum vissulega hug á því að bæta úr þessu, og má minna á að nú er fjárveiting til framkvæmda við Kennaraháskólann og til hönnunar við annan kennaraskóla og fyrir Alþ. liggur frv. til endurskoðaðra laga um Kennaraháskóla Íslands. Við eigum einnig mikið ógert í gerð skólamannvirkja fyrir grunnskóla almennt, en þó alveg sérstaklega við gerð mannvirkja sem þjóna eiga einstökum þáttum skólastarfsins einkum sérgreinakennslu ýmiss konar og þá ekki síst t. d. íþróttum og verklegri mennt. Þar eigum við ákaflega mikið ógert í að byggja upp aðstöðu. Okkur þýðir ekkert að horfa fram hjá því, t. d. varðandi íþróttirnar, að við búum við slíkt loftslag, að okkur er mikil nauðsyn á að geta stundað íþróttir innanhúss að vetrinum þegar af þeirri ástæðu. Og sama er auðvitað að segja um það, að við búum ekki verkmenntun þann sess í grunnskólunum sem við viljum að hún skipi nema með því að byggja upp aðstöðu fyrir hana.

Svo að ég nefni þá aðeins þriðja atriðið þar sem við eigum gífurlega mikið ógert, þá er það innri gerð skólanna og starf þeirra inn á við. Það er mikill vilji til þess að breyta þar til, og það er unnið að því. Og ég held að þó að menn ræði nokkuð um þetta til og frá og gagnrýni stundum, ef þeir þykjast finna snögga bletti á því starfi sem verið er að vinna, þá séu menn almennt nokkuð sammála um að viðleitnin stefni í rétta átt. Ég held það. Og menn eru nokkuð óþolinmóðir yfir því að hægt gangi með þetta eða hitt og þá ekki síður í sambandi við kennsluna sjálífa og námsefnið, en ég held að hvort tveggja sé, að það sé kannske ekki æskilegt að taka þetta allt í heljarstökkum, heldur verði þetta að fá að þróast og í raun og veru sé þarna um mál að ræða sem alltaf hljóti að taka sinn tíma.

En þó ég ekki nefni nema þessa þrjá þætti, þá held ég að það fari ekki á milli mála, að við eigum þarna gífurlega mikið verk óunnið. Við þurfum mikla fjármuni til þess arna og við eigum mikið undir því, að þeim fjármunum, sem við eigum kost á að fá, sem auðvitað eru alltaf takmarkaðir, því fé verði skynsamlega varið. Ég held að það fari ekki á milli mála, að svo best tökum við á viðfangsefni þessu með öðrum, að við höfum um það nokkuð góðar upplýsingar. Ég vona að þessi skýrslugjöf geti skoðast nokkurt innlegg í nauðsynlega upplýsingamiðlun að þessu leyti og hún geti orðið til þess að vekja menn til umhugsunar og umræðu og eftir því sem við á athafna á þessu sviði.