21.04.1978
Sameinað þing: 69. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3754 í B-deild Alþingistíðinda. (2888)

271. mál, flugöryggismál

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Út af því, sem fram hefur komið síðan ég talaði áðan, vil ég taka það fram, að mér er auðvitað ljóst að hv. flugráðsmenn, sem hér eru einnig alþm., eru þessum málum best kunnugir af þeim mönnum sem setið hafa á þingi. Það er ekki nema eðlilegt, því að þetta er eitt af þeim störfum sem þeir sinna sérstaklega. Hins vegar vil ég segja, að það var í samráði við ályktun flugráðs að þessi nefnd var skipuð. Ég tel að það muni sannast, að starf þessarar nefndar hafi verið happadrjúgt, og það er tilgangurinn með þessari till., eins og kom fram hjá hv. 5. þm. Suðurl. og 12. þm. Reykv., að marka stefnu um framkvæmd í flugmálum. Þetta var verkefni, sem nefndin átti að leggja grundvöll að og þarf að staðfesta.

Það, sem einnig kemur fram í grg. þessarar till., er um fjármálin. En þá er rétt að hafa í huga að flugvallaskatturinn var ekki tekinn upp fyrr en á þessu kjörtímabili. Eins og hann var, þá var hann lægri en það sem veitt var til uppbyggingu á flugvöllum, og þrátt fyrir hækkunina, sem gerð var í lok afgreiðslu fjárl. að þessu sinni, þá er þetta þó lægra miðað við áætlun og ekki alveg öruggt að sú áætlun standist. Þó getur auðvitað verið að áætlunin geri það og vel það. Ástæðan til þess að bent er á þetta í grg. þáltill., sem hér er til umr., er einmitt sú, að þarna getur verið að skapast möguleiki sem hyggilegra væri að nota til uppbyggingar á flugvöllunum heldur en ákvörðun í fjvn. hverju sinni.

Þess vegna er bent á þessa leið og er það í samræmi við þá viljayfirlýsingu, sem kom fram hjá þessum tveim hv. þm. og rétt er að athuga.

Ég skal geta þess, að ég hugleiddi mjög, þegar var verið að taka ákvörðun um að hækka skattinn, hvort ekki ætti að breyta yfir á þetta svið, en taldi að það væri ekki rétt fyrr en séð væri hvernig þessu reiddi af. Ég benti á þetta út frá því sem einmitt kom fram hjá þessum hv. þm. tveim.

Um röðun verkefna í þáltill. er það að segja, að þetta er eins og hvert annað þingmál, sem hv. alþm. geta breytt ef þeim sýnist annað hentugra í röðuninni. En ég held að við verðum allir sammála um að öryggismálin eigi að koma í fyrstu linu, vera nr. eitt, og því verði ekki breytt. Þess vegna fagna ég því sem þeir tveir hv. þm., sem töluðu um þetta, sögðu, því það var byggt á skilningi á þessum málum.

Út af því. sem hv. 9. landsk. þm. sagði og vitnaði í samtal við flugmálastjóra, þá vil ég taka fram, að ég hef ekki vanið mig á, hvorki í þingræðum né öðrum pólitískum málflutningi, að vitna í samtöl við einstaka menn, því að mér finnst það ekki viðeigandi og allra síst á hv. Alþ. Enda segir ekki um það, sem fram kom í þessu tali hv. 9. landsk. þm., að flugráð geti ekki gert till. um aðra meðferð á einstökum flugvöllum en kemur fram í áliti flugmálanefndarinnar. Það dettur engum annað í hug en hér sé um ábendingu að ræða, en ekki ákvörðun, því að endanleg ákvörðun hlýtur að verða á hv. Alþingi.

Á því að vísa máli úr Sþ. til n., sem ekki er til í Sþ., kann ég ekki skil. Það er engin n. í Sþ„ sem heitir samgn. Það er vinnulag, m. a. fjvn., að láta samgn. beggja d. fjalla um eina þátt í fjárlagaafgreiðslunni, sem er úthlutun á stuðningi við flóabáta og ferjur. En mál slíkt sem þetta, sem varðar alla þjóðina, verður að sjálfsögðu að meðhöndla eins og þingsköp gera ráð fyrir, og þess vegna er till. mín miðuð við það, að fjvn., sem um þetta mál fjallar þangað til annað kann að verða ákveðið í þingsköpum, eigi um till. að fjalla. Að öðru leyti ætla ég ekki að ræða þetta mál frekar, en þakka undirtektir þær sem till. sjálf hefur fengið.