21.04.1978
Sameinað þing: 69. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3755 í B-deild Alþingistíðinda. (2889)

271. mál, flugöryggismál

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. — Ég vil taka það fram, ef það hefur ekki komið nógu skýrt fram í máli mínu áðan, að ég vildi ekkert vont segja um skýrslu flugvallanefndar — alls ekki. Það er einmitt mjög gott að hafa allt þetta efni hér saman komið á einum stað með þeim ágætu skýringum og vandlega unnu töflum og öðru efni sem þar fylgir til þess að hafa til hliðsjónar og til þess að miða stefnuna við. Í skýrslunni eru samandregin flest þau atriði sem menn gátu séð á þeim tíma þegar hún er samin, og nær hún sjálfsagt yfir langflest þau atriði sem einhverju máli skipta enn í dag og sennilega um allmargra ára skeið fram í tímann, því að það er nokkuð ljóst, hvað þarf að gera í þessum efnum á komandi árum og þá kannske ekki síst í því að endurnýja flugleiðsögukerfið. Sumt af því er að verða mjög gamalt og vantar slík tæki til þess að ná góðu sambandi milli ýmissa landshluta. Og það má kannske geta þess hér, að einmitt á Vestfjörðum er verið að gera gagngerar endurbætur í þessu efni með því að setja upp fjölstefnuvita í Ísafjarðardjúpi til þess að tryggja betur flug á þennan erfiða stað, þar sem landslagi er þann veg háttað, að blindflug er svo gott sem útilokað á flestalla staðina á Vestfjörðum, en meðan svo er þýðir afar lítið að lýsa upp flugvellina, ef menn komast ekki niður á þá.

Ég undrast það, þegar hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir vitnar hér í flugmálastjóra, að honum hafi ekki litist á þessa forgangsröðun. Það er ósköp einfaldlega vegna þess, að þessa upptalningu í þáltill. skil ég ekki þannig, að fyrst skuli taka a, síðan b og svo c, heldur verður að taka mið af þessum liðum eftir aðstæðum á hverjum stað, en kannske þarf fyrst og fremst að hafa þá alla í sjónmáli í senn, vegna þess að þeir verða ekki slitnir hver úr tengslum við annan. Það er nokkuð augljóst fyrir þá, sem þekkja til þessara mála. Og t. d. eru síðasti eða næstsíðasti liðurinn, mikilvægi flugs fyrir viðkomandi byggðarlag, kannske alltaf nr. eitt þegar öryggismálum hefur verið sinnt nægilega, því að það þýðir ekki að stefna áætlunarflugi á staði sem bjóða upp á hættulegar aðstæður. Fyrst þarf að leysa vandann varðandi öryggismálin, en síðan koma auðvitað staðasjónarmiðin næst. Það er einmitt það sem er brýnast, fyrir utan nauðsynlegar endurbætur á flugleiðsögukerfi og aðflugsskilyrðum, að taka þá landshluta, sem hafa vegna aðstæðna orðið út undan, vegna fjárskorts m. a. þá vil ég sérstaklega nefna Vestfirðina. Og ég tel að flestir hafi litið svo á, þegar þetta birtist hér, þessir 6 liðir, að það skuli ekki endilega taka þá í þessari röð, heldur séu þetta atriði sem öll verði að hafa í huga í senn og ekkert þeirra sé í rauninni mikilvægara en annað, eins og auðsjáanlegt er ef menn fara að athuga málin betur.

Mig minnir að ég hafi sagt eitthvað á þá leið í ræðu í haust eða í vetur, þegar þessi mál voru til umr., að auðvitað hefði verið útilokað að leysa fyrst vanda þeirra staða sem erfiðasta afstöðu höfðu, því að það eru í mörgum tilfellum sömu staðirnir og búa við tiltölulega litla flugumferð. Ef við hefðum byrjað á því í fluginu hjá okkur að leysa þennan vanda, þá hefði flugumferðin aldrei orðið nægileg til þess að standa undir fluginu í landinu, þá hefði ekkert flug upphafist í landinu. Fyrst var að ganga frá þeim stöðum, sem gátu skapað þá umferð sem nauðsynleg var til þess að standa undir flugrekstrinum. En nú er komið að því og að vista fyrir alllöngu byrjað að reyna að leysa með viðunandi hætti, eftir því sem mögulegt er, vanda þeirra sem hafa búið við erfiðust skilyrði.

Herra forseti. Ég þarf þá ekki að segja meira um þetta. En ég vil endurtaka, að ég fagna því, að þessi þáltill. hefur verið lögð fram. Hún sýnir þó a. m. k. að það er verið að hugsa um þessi mál og það ber að leiða þau fram í ljósið og sýna að menn vilji hafa þau með hinum. Þessi mál eru ákaflega mikilvæg fyrir okkur Íslendinga, vegna þess að ýmsar aðrar samgöngur eru ekki nándar nærri því í nægilega góðu lagi, eins og menn hafa séð af reynslunni. Samgöngur eru eitt af því nauðsynlegasta til þess að halda landinu öllu í byggð og þurfa svo sannarlega að vera aðaláhugamál allra hv. þm.