21.04.1978
Sameinað þing: 69. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3765 í B-deild Alþingistíðinda. (2894)

221. mál, lax- og silungsveiði

Flm. (Guðmundur H. Garðarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um endurskoðun á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76 frá 1970, en meðflm. með mér eru hv. þm. Stefán Jónsson, Jón Arm. Héðinsson, Gunnlaugur Finnsson, Eyjólfur K. Jónsson og Albert Guðmundsson. Í þáltill. segir svo:

Alþ. ályktar að fram skuli fara endurskoðun á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, með það höfuðsjónarmið fyrir augum að greiða í sundur veiðimálin og fiskræktarmálin.

Felur Alþ. landbrh. að skipa nú þegar nefnd manna til að framkvæma umrædda endurskoðun og sé nefndin skipuð eftirtöldum aðilum:

1. Formanni, skipuðum af ráðherra.

2. Fulltrúa Búnaðarfélags Íslands.

3. Fulltrúa Landssambands veiðifélaga.

4. Fulltrúa Landssambands stangaveiðifélaga.

5. Fulltrúa Veiði- og fiskiræktarráðs Reykjavíkurborgar.

6. Formanni veiðimálanefndar.

7. Veiðimálastjóra.

8. Fiskimálastjóra.

Nefndin ljúki störfum eigi síðar en í september 1978.“

Í grg. með þessari þáltill. segir m. a.:

Í júlímánuði s. l. sendi Veiði- og fiskiræktarráð Reykjavíkurborgar öllum þm. Reykjavíkur svo hljóðandi ályktun:

„Veiði- og fiskiræktarráð Reykjavíkurborgar samþykkir að beina þeirri eindregnu áskorun til allra alþm. borgarinnar, að þeir beiti sér fyrir því á Alþ. á hausti komanda, að gerðar verði grundvallarbreytingar á núgildandi lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76 frá 1970, á þann veg, fyrst og fremst, að í nýrri löggjöf verði sundurskilin veiðimálin annars vegar og fiskræktar- og fisksjúkdómamálin hins vegar, og traust og örugg stjórn þessara mála tryggð.“

Þessi ályktun var einróma samþ. í Veiði- og fiskiræktarráði. Það virðist því liggja ljóst fyrir, að hér er ekki um að ræða pólitískt mál, heldur málefni, sem Veiði- og fiskiræktarráð hefur, að fenginni reynslu og þekkingu, talið nauðsynlegt að koma á framfæri á Alþ. með þjóðarhag fyrir augum. Málið er því að þessu leyti sérstætt, og þess vegna má væntanlega ætlast til að Alþ. sjái sér fært að gefa því góðan meðbyr.

Ekki fer á milli mála, að fiskræktarmálin í vötnum og ám landsins hafa vakið sívaxandi eftirtekt og áhuga landsmanna. Um suma þætti fiskræktarmálanna hafa staðið alvarlegar deilur í fjölmiðlum um áraraðir, einkum á milli áhugamanna um fiskræktarmál og fiskræktaryfirvalda. Á fyrra ári, þ. e. a. s. árinu 1977, tóku deilur þessar á sig nýja mynd í sambandi við sjúkdóma er upp komu í laxaseiðum í Laxalónsstöðinni og klak- og eldisstöð Rafmagnsveitu Reykjavíkur við Elliðaárnar. Þessar deilur verða ekki frekar gerðar að umtalsefni hér, en á þær drepið til áminningar um það, hvað mál þessi virðast í eðli sínu alvarleg og viðkvæm, og vísa ég til þess sem um þetta hefur verið ritað í dagblöðum og einnig rætt í útvarpi.

Hins vegar virðist augljóst að líta svo á, að nánar athuguðu máli, að löggjafinn hafi sýnt þessu þýðingarmikla máli of mikið sinnuleysi og að við svo búið sé ekki lengur hægt að una. Það er því í sjálfu sér tilefni til þess að lýsa ánægju sinni yfir því, að veiði- og fiskiræktarráð Reykjavíkurborgar skuli hafa einróma staðið að þeirri ályktun, sem er forsenda fyrir þessari þáltill. Og um leið má gjarnan vekja athygli á því, að borgarstjórn Reykjavíkur hefur sýnt fiskræktarmálum mikinn og verðskuldaðan áhuga og skilning, m. a. með stjórnun Veiði- og fiskiræktarráðs í nóv. 1974, en það var gert með 15 shlj. atkv. allra borgarstjórnarmanna. Umrætt ráð á að vísu ekki langan starfsferil að baki, en það hefur ekki að mati okkar flm. brugðist skyldu sinni, heldur tekið fiskræktar- og fisksjúkdómamálin allföstum og ákveðnum tökum á hlutlægan hátt, m. a. með því að beita sér fyrir rannsókn fisksjúkdómamála á vísindalegum grundvelli, eins og skýrsla, sem fylgir þessari þáltill., ber með sér. Skýrsla þessi er grg. úr enskri skýrslu, sem kunnur kanadískur vísindamaður gerði í sambandi við fisksjúkdómamálin, en það er dr. Trevor P. T. Evelyn, sem er frá Pacific Biological Station í Kanada.

Þegar leikmaður les og kynnir sér þessa rannsóknarskýrslu eftir þennan umrædda vísindamann á hlutlausan hátt um þá fisksjúkdóma sem hafa herjað í fiskræktunarstöðvum í nágrenni Reykjavíkur á s. l. ári, þá hlýtur manni að verða ljóst að hér er um mjög alvarlegt mál að ræða og alvörumál. Í þessum efnum hefur ríkt að undanförnu og ríkir enn frekar bágborið ástand í fiskræktar- og fisksjúkdómamálum. Það er því augljóst, að Veiði- og fiskiræktarráð hefur lagt fram merkan skerf til fiskræktar- og fiskeldismálanna á Íslandi með því að láta umrædd fisksjúkdómamál til sín taka á grundvelli vísindalegra rannsókna. Þetta sýnir hvað slíkur aðili getur raunverulega verið áhrifaríkur aðhaldsþáttur gagnvart fiskræktaryfirvöldum landsins þegar rétt er að málum staðið, og einnig er með þessum hætti hægt að vekja upp ákveðið almenningsálit til stuðnings jafnmiklu þjóðþrifamáli og hér er á ferðinni. Ég vil því segja það, að Veiði- og fiskiræktarráð hefur í máli þessu sýnt ákveðna víðsýni og það hefur einnig sýnt ákveðinn samvinnuvilja við fiskræktaryfirvöld um þýðingarmikil grundvallaratriði í fiskræktar- og fiskeldismálum landsins með því beinlínis að óska eftir og bjóða nána samvinnu við umrædd fiskræktaryfirvöld. En ég mun ekki ræða það neitt nánar hér.

Á sama tíma hefur Veiði- og fiskiræktarráð Reykjavíkur lagt á það mikla áherslu í samþykktum sínum, að stjórnvöld bættu til stórra muna skilyrði til rannsókna og þekkingar á fisksjúkdómum og meðferð þeirra mála samkv. heimild í lögum um lax- og silungsveiði. En þrátt fyrir það er augljóst af því, sem fram hefur komið í þessum málum á undangengnum árum, að úrbóta er þörf. Einsýnt er að Alþ. verður að skerast í leikinn og beita sér fyrir leiðréttingu í fiskræktarmálum á breiðum grundvelli með sérstakri löggjöf er tryggi öryggi og sterka stjórnun fiskræktarmála með framtíðarheill og hag að grundvallarsjónarmiðum. Til þess þarf og aðstoð færustu manna, er bæði hafa reynslu og þekkingu á þessum málum. Þess vegna er í þessari þáltill. bent á þá aðila og hagsmunasamtök, er hlut eiga að málunum, og þeim gert að vinna að undirbúningi þeirrar löggjafar, er þáltill. gerir ráð fyrir. Sú upptalning, hverjir skuli vera í umræddri nefnd, er auðvitað ekki tæmandi og er hægt að nefna t. d. í því sambandi tvo aðila, sem kæmu til greina til viðbótar, þ. e. Hafrannsóknastofnunina og samtök fiskeldisstöðva, sem verið er að stofna, og má í því sambandi vekja athygli á þeirri merkilegu starfsemi, sem nú er hafin á nokkrum stöðum á landinu, sem er laxeldi í sjó á vegum aðila sem standa að þeim samtökum er ég nefndi áðan, samtökum fiskeldisstöðva. Möguleikar á þessu sviði virðast vera mjög miklir og því nauðsynlegt að þessum þætti fiskræktarmálanna verði gerð glögg og góð skil í nýrri löggjöf um fiskræktarmálin.

Við síðustu endurskoðun lax- og silungsveiðilaganna, á árunum 1968–1970, kom fram till. er beindist í svipaða átt og felst í þáltill. þessari. Þá náðist ekki samstaða í endurskoðunarnefndinni um svo gagngerðar breytingar á lax- og silungsveiðilögunum, þrátt fyrir að fyrir lægi vitneskja um slíka löggjöf margra forustuþjóða í fiskræktarmálum, fiskasjúkdóma-, fiskeldis- og fiskakynbótamálum.

Nú eru senn liðin 8–9 ár síðan endurskoðun á lax- og silungsveiðilöggjöfinni fór fram. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, erfiðleikar orðið á vegi fiskræktar vegna ýmissa áður óþekktra fisksjúkdóma og vaxandi umhverfismengunar í heiminum, en samtímis orðið stórmiklar og merkar framfarir vegna aukinnar þekkingar og rannsókna á vísindalegum grundvelli. Þetta allt kallar á ítarlega endurskoðun lax- og silungsveiðilaganna, ef við Íslendingar eigum ekki að standa í stað og verða eftirbátar annarra og daga að lokum uppi eins og nátttröll.

Hér er því ekki um neitt smámál að ræða, heldur þjóðhagslegt stórmál, sem án efa á í sér fólgið milljarða kr. þjóðartekna, ef rétt er að staðið og framfarasjónarmið höfð að leiðarljósi. Mætti nefna ótalmörg dæmi þessu til sönnunar um útflutningstekjur nágrannaþjóða okkar af fiskrækt og fiskeldi, einkum regnbogasilungs og núna síðustu árin af laxeldi í sjó. Til fróðleiks í þessu sambandi má geta þess, að frændur okkar Færeyingar rækta nú og selja úr landi fyrir hundruð millj. kr. regnbogasilung, en stofnfiskinn keyptu þeir á sínum tíma frá Laxalónsstöðinni, samkvæmt því sem upplýst hefur verið í fjölmiðlum.

Kunnáttumenn eru yfirleitt þeirrar skoðunar, að veiðimálin og fiskræktarmálin fari ekki vel saman undir einni og sömu stjórn. Í eðli sínu eru þetta næsta ólík mál, sem á stundum geta beinlínis stangast á, þótt í grundvallaratriðum séu fiskræktarmálin undirstaðan undir því að tryggja veiði í ám og vötnum og auka hana. En fiskræktar- og fiskeldismálin spanna langt út fyrir þau mörk. Og einmitt þessi staðreynd staðfestir nauðsyn þess að slíta sundur þessa tvo þætti í löggjöf okkar. Það er því deginum ljósara, að við Íslendingar erum orðnir á eftir öðrum þjóðum í þessum miklu hagsmunamálum. Við eigum yfir að ráða glæsilega fögru og víðfeðmu vatnasvæði, ómenguðu, með úrvals fiskstofnum, en þar að auki jarðhita til hjálpar, svo að segja í hverri sveit. Með réttlátri og viðsýnni fiskræktarlöggjöf mun löggjafinn leggja hornstein að yfirgripsmiklum fiskeldisatvinnuvegi í landinu sem færa mun þjóðinni og ótal einstaklingum björg í bú. Að því ber að stefna að leiða þannig þessi mál til farsælla lykta og setja niður deilur.

Ég mun ekki tala fyrir þessari þáltill., en vísa að öðru leyti til þess, sem kemur fram í skýrslu um rannsókn á fisksjúkdómum, því til staðfestingar hvað hér er um mikilsvert og þýðingarmikið mál að ræða. Ég treysti því, að þetta mál fái skilning hér á þingi og að það verði samþ. þannig að hægt verði að skipa þá nefnd, sem þáltill. gerir ráð fyrir, hið fyrsta. Ég vil leyfa mér, herra forseti, að óska þess, að að lokinni umr. verði þessari till. vísað til allshn.