21.04.1978
Sameinað þing: 69. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3768 í B-deild Alþingistíðinda. (2895)

221. mál, lax- og silungsveiði

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Ræðuhöld mín á þessum degi hér á hv. Alþ. eru nú orðin alllöng og um ólík efni, en það er mér til málsbóta að ég hef ekki tafið þingið með mörgum ræðum á þessu þingi. Hins vegar tel ég mér skylt að víkja nokkrum orðum að þeim tveim till., sem fjalla um sama efni. Þó að efninu sé komið með ólíkum hætti verður það sem ég segi raunar um báðar till., en þó fyrst og fremst um þá sem nú er hér til umr., vegna þess að hún er viðtækari og tekur yfir málið í heild.

Á mínu fyrsta þingi hér, 1956–1957, var frv. um lax- og silungsveiðar til meðferðar og það var eitt af mestu eða alvarlegustu málum sem ég tel mig hafa fjallað um sem þm., því það var að sjálfsögðu mjög viðkvæmt mál í heimahéraði mínu og var langt frá því, að bændur þess héraðs væru á eitt sáttir um hvernig með skyldi fara. Lögin um lax- og silungsveiðar frá 1957 eru að minni hyggju merkileg lög. Það sem réð afstöðu minni til málsins, þegar þar að kom að ég gerði það endanlega upp við mig, var að ég trúði því og taldi mig vera búinn að athuga málið það vel, að þetta stefndi að ræktun og aukinni lax- og silungsveiði, það að auka lax- og silungsveiði væri svo mikils virði, að þó að ég ætti á hættu að missa af einhverjum atkv., þá mætti það ekki ráða afstöðu minni, þó að ég hefði upp á lítið að hlaupa þar sem ég var kosinn með tveggja atkv. mun.

Ég efast ekki um að ég ákvað rétt. Það hefur afskaplega mikið áunnist á þeim rúmu 20 árum sem liðin eru síðan þau lög voru sett. Þeir ræktunarmenn, sem hafa haft forustu um þessi mál hér á landi, hafa unnið mikið og gott starf. Og ég er sannfærður um að við höfum hér í forustu þessara mála mjög færa vísindamenn, kannske er veiðimálastjóri þeirra allra fremstur í þessum efnum, en hann er án efa mjög fær vísindamaður. Hitt er svo annað mál, að um aðgerðir hans sem fleiri manna geta verið skiptar skoðanir, og það er aldrei hægt að gera ráð fyrir öðru ef menn aðhafast eitthvað.

Ég hafði hugsað mér að láta endurskoða lögin um lax- og silungsveiði á þessu kjörtímabili, þrátt fyrir að lögin hafi verið vel sett. Það kom fram áðan gagnrýni á ýmis ákvæði laganna, sem voru lagalegs eðlis, en ég hygg að þar hafi verið mjög færir menn að verki, því ég man ekki betur en fyrrv. hæstaréttardómari Gizur Bergsteinsson hafi verið einn af þeim sem sömdu lögin eða frv. á sínum tíma ásamt Gunnlaugi Briem. Þessir menn eru báðir mjög færir menn í lögum og meðferð þeirra.

Ástæðan m. a. til þess, að ég hef ekki horfið að því ráði að láta endurskoða þessa löggjöf nú, hún var síðast sett 1970, er sú, að það hafa ekki verið uppi hér á hv. Alþ. till. um það á þessu kjörtímabili. Það var á vissan hátt fleira en þetta sem kom þar til, en það eru nokkur atriði, og mér er fullkomlega ljóst að út í endurskoðun á löggjöfinni verður ekki farið nema hún verði nokkuð víðtæk. Ég er hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni sammála um að það ber auðvitað að endurskoða löggjöfina út frá þeirri reynslu sem fengist hefur af henni síðan hún var síðast endurskoðuð, og þó að lögin hafi á þeim tíma verði góð, þá hefur á þeim 8 árum, sem nú eru senn liðin, komið ýmislegt fram sem gerir það að verkum að nauðsyn ber til að skoða þetta mál áður en langur tími líður. Ég tel t. d. að raunverulega hafi verið farið til verri vegar í löggjöfinni 1970, um bætur til þeirra sem urðu fyrir tekjutjóni vegna verndunar fiskstofnsins og einnig hverjir greiða skulu. Ég álít að þarna sé veruleg veila í löggjöfinni, eins og hún er framkvæmd núna, og þurfi að athuga það.

Annar þáttur einnig, sem ég tel að geri það að verkum að þessi endurskoðun eigi að eiga sér stað, er aukin ræktun í eldisstöðvum. Á því er enginn vafi, að slíkri starfsemi fylgir viss áhætta og þessi áhætta er fólgin í sjúkdómum. Það hafa komið upp sjúkdómar í eldisstöðvum hér á landi, og þó að menn hafi verið að deila um það, þá hefur það ekki bætt neitt úr eða breytt neinu. Aðalatriðið er að það er alltaf hætta á sjúkdómum í ræktun, því að náttúran slátrar hinum sem veikgerðir eru þegar hún fjallar um uppeldið, eins og hún gerir í ám og vötnum. Og það, sem mestu máli skiptir, er að missa ekki þessa sjúkdóma út í árnar og vötnin og um það hefur á vissan hátt orðið deila.

Hitt vil ég taka fram, að í raun og veru er alveg óhugsandi að slík ræktun geti átt sér stað nema sá, sem að henni stendur, hafi tryggingu fyrir áhættu sem af sjúkdómum leiðir. Hér getur verið um stórfellt eignatjón og tekjutjón að ræða og það mikið að það getur algjörlega kollvarpað fjárhagslegri getu þess sem fyrir verður. Þetta finnst mér að reynslan hafi sýnt og sannað mér á s. l. sumri þegar þurfti að fjalla um eitt slíkt mál. Og ég beitti mér fyrir því í ríkisstj., að tekið yrði tillit til þess arna, þó ekki væru lagafyrirmæli þar um.

Nú veit ég að það verður deilt um hvort þessu sé sinnt sem skyldi, en um það þýðir ekki að fást. En ef fiskeldi á að eiga sér stað í eldisstöðvum, þá verður að vera trygging fyrir þessu atriði. Annað er óframkvæmanlegt. Þess vegna tel ég að brýna nauðsyn beri til að taka þetta mál til athugunar.

Ég vil segja það út af því, sem sagt hefur verið um eftirlit með þessu máli, að hér eru mjög færir menn, og nefni ég þar t. d. mann eins og dr. Guðmund Pétursson á Keldum. Ég vil líka segja frá því, að nú hefur verið ráðinn til starfa hjá ríkinu fyrsti sjúkdómafræðingurinn í lax- og silungssjúkdómum, sem er doktor í þeirri fræðigrein og tók til starfa á s. l. hausti. Þetta sýnir að áhugi er á því að reyna að taka á þessum málum. Ég hafði áður unnið að því og landbrn. að taka sýni og senda til Danmerkur og gera samninga við þekkta vísindastöð til þess að rannsaka m. a. regnbogasilunginn. En betur er fyrir málinu séð með því að færa þessa þekkingu hingað heim, eins og nú hefur verið gert.

Mér er fullkomlega ljóst að löggjöf eins og lax- og silungsveiðilöggjöf, hvort sem við skiljum að ræktunina og veiðina, verður hér alltaf deilumál og ýmsum þykir að sér þrengt í meira lagi, eins og kom fram hjá hv. 5. þm. Norðurl. v. að þeim fyndist norður þar. En ég vil einnig segja það, að Landssamband veiðifélaga, formaður þess, hefur leitað til mín út af því, að laxveiði í sjó væri að verða geysilega mikil og það svo, að þeir bátar sumir, sem væru á venjulegum fiskveiðum með nót, næðu laxinum., fyrir því væru, að hann taldi, nokkuð trygg sannindi bæði sunnanlands og norðan. Það hefur verið nokkuð unnið að því að rannsaka þetta mál og reyna að finna sannindin í því, að því leyti sem slíkt er hægt. Og ég held að það fari nú svo með eftirlit með veiðum, að það verði aldrei hægt að koma því við nema að ónáða þá sem grunaðir eru um að hafa brotið löggjöfina. Það sé ég ekki að sé framkvæmanlegt öðruvísi, og þarf engum orðum að því að eyða, að þeir, sem það gera vegna starfs síns, verða ekki vel séðir af þeim sem verða fyrir slíkum heimsóknum. En þrátt fyrir það er það svo, að eftirlitið verðum við að efla, eins og við verðum að efla ræktunina, því aðalatriðið er að við erum að efla ræktun á laxi og silungi til þess að skapa þjóð okkar auknar tekjur og það stórauknar tekjur, sem ég trúi að hægt sé.

Ég vil nú segja það, að veiðimennskan hefur ekki verið mitt fag og ég hef því enga sérstaka andúð á eða samúð með veiðimönnum. Það, sem mér hefur fundist aðalatriðið, er að greiðsla hefur farið fram og það hefur verið veruleg tekjusköpun í sambandi við þetta. Ef á að afgreiða þetta mál á Alþ. nú, þá verður það náttúrlega með því að endurskoða laxveiðilögin í heild, því ég hef ekki trú á því að fara að tina út einn þátt og það kannske hæpinn þátt til þess að endurskoða hann einan. Um það má deila, þó ég hafi ekki gert mér grein fyrir því fullkomlega, sem bent er á í þessari þáltill. á þskj. 422, hvort þeir ættu þar allir að vera eða aðrir að koma til. Þetta er orðin átta manna nefnd, svo það er nokkuð stór hópur. Hitt sýnist mér, að nefndin mætti vera allafkastamikil ef hún ætti að ljúka störfum fyrir haustið, og ég hef ekki trú á því.

Ég skal ekki orðlengja þetta, en ég vi1 að lokum segja það, þó að það sé endurtekning, að hér hefur mikið áunnist í þessum málum á s. l. 20 árum. Ég vona að ef farið verði út í þessa endurskoðun, sem ég tel um margt vera þess efnis að nauðsyn beri til að gera hana, þá takist svo vel til að ekki verði minni árangur á næstu tveim áratugum frá því að þau lög öðlast gildi sem út úr því kynnu að koma. En þessi atriði sem ég hef hér drepið á, eru meðal þeirra sem ég tel að verði að endurskoða eða taka inn í þessa endurskoðun og einnig það, hvort við erum komnir á það stig að aðskilja ræktunina og vísindastarfsemina og veiðina. Það er mál sem ég get nú ekki tjáð mig um, enda tel ég mig ekki dómbæran um það á þessu stigi málsins nema gera mér ljósa grein fyrir því. En það er ekki heldur það sem skiptir máli, því það verður þeirra sem um fjalla, ef til þess kemur að þetta mál verður afgreitt og í endurskoðunina verður farið. Hér er um stórt mál að ræða og það er stórmál fyrir íslensku þjóðina að halda vel á möguleikum sínum til að auka lax- og silungsveiði í ám og vötnum. Hún má ekki sofna á verðinum í sambandi við þau mál.