21.04.1978
Sameinað þing: 69. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3771 í B-deild Alþingistíðinda. (2896)

221. mál, lax- og silungsveiði

Flm. (Guðmundur H. Garðarsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir þau jákvæðu ummæli sem fram komu í ræðu hans áðan í sambandi við þessa þáltill. Án þess að hann tæki beina afstöðu með till. voru efnisatriði ræðu hans með þeim hætti, að greinilega kom fram að hann er því hlynntur, að þessi mál séu athuguð með tilliti til þess, að sú löggjöf, sem við búum við, á sér nokkurn aldur.

Ég vil taka undir þau orð hæstv. ráðh., að sú löggjöf, sem við höfum búið við, hefur að mörgu leyti reynst vel. Ég tek einnig undir þau ummæli hans, að þeir menn, sem hafa unnið að fiskræktarmálum, hafa unnið ágætt starf. Það er einnig rétt, að mikið hefur áunnist. En það er nú einu sinni svo, að framþróun á þessu sviði eins og mörgum öðrum hefur verið geysilega mikil, og er það skoðun okkar flm., að þrátt fyrir að sú löggjöf, sem við höfum búið við, hafi reynst vel þurfi að gera á henni ákveðnar breytingar, eins og þáltill. gerir ráð fyrir.

Það er staðreynd, að á þeim áratugum, sem núgildandi löggjöf hefur gilt, hefur orðið mikil umhverfisbreyting, svo dæmi sé nefnt. Sú umhverfisbreyting hefur skapað ný vandamál sem ekki þekktust hér áður fyrr. Nefni ég sem dæmi, að hin mikla umferð um landið, sem bifreiðaeign landsmanna hefur framkallað nú á síðustu árum, svo ekki sé farið lengra aftur í tímann en síðustu 5 eða 10 ár, skapar auknar og nýjar hættur í sambandi við umgengni landsmanna við ár og vötn. Það er ekki nokkur vafi á því, að mengunarhætta eykst gífurlega mikið við þetta eitt út af fyrir sig.

Ráðh. kom inn á annað atriði sem ekki hefur verið mikill gaumur gefinn, sem er í sambandi við það, að ný og breytt veiðitækni kemur einnig til skjalanna við strendur landsins. Við höfum eignast fjölbreytilegan fiskiskipaflota og breytt fiskveiðilögsögunni þannig, að gera má ráð fyrir að íslenski veiðiflotinn í framtíðinni muni stunda veiðar nær landi og nýta þau mið, sem við nú einir ráðum yfir, með öðrum og skipulögðum hætti. Það þýðir það einnig, að hin nýja veiðitækni og hinn mikilvirki floti skapa ákveðnar hættur í sambandi við veiðarnar og einnig í sambandi við það, hvernig við umgöngumst stofninn þegar hann er að færast nær landinu og inn í árnar, en ráðh. minntist þar sérstaklega á laxinn. Þetta gerir það auðvitað að verkum, að sjúkdómahættan eykst í stofninum, sérstaklega í hinum frjálsa stofni, þar sem eru þessir förufiskar sem laxinn er sérstaklega.

Ráðh. minntist á að fiskeldið hefur stóraukist hérlendis á síðustu árum, en samfara því eykst einnig hættan á því, að sjúkdómar komi fram í stofnunum þegar í eldisstöðvunum. Ég efast ekki um að þeir sérfræðingar okkar, sem nú fást við þessi mál, geri sitt besta með fyrirbyggjandi aðgerðum. Hins vegar er það skoðun mín, að það beri að gera enn betur, og það segi ég án þess að vera með gagnrýni á störf þeirra ágætu manna sem við þessi mál fást. En ráðh. benti réttilega á að þáltill. gerði ráð fyrir mjög skömmum tíma, að sú nefnd, sem hún gerir ráð fyrir, skuli skila áliti fyrir september í ár. Því er auðvitað hægt að breyta. Hins vegar reyndum við að gera till. um fulltrúa frá þeim helstu stofnunum eða áhugamannasamtök um sem hér eiga hlut að máli, og er sjálfsagt í meðferð þessa máls í n. að bæta við fleiri nefndarmönnum ef mönnum þykir þess þurfa við. Ég held að með því að hafa nefndina vel skipaða, og ég tala nú ekki um ef jafnágætur maður og hæstv. landbrh. kemur þar síðar við sögu, sem ekki er nú að vita, kosningar fara nú í hönd í sumar, og ef hæstv. ráðh. fjallar um þessi mál að kosningum loknum, þá muni sú nefnd, sem þáltill. gerir ráð fyrir að verði skipuð, fá öruggt aðhald og forustu frá hæstv. núv. landbrh.

Ég segi fyrir mitt leyti og segi það nú ekki til þess að mæla neitt fagurlega í eyra hæstv. ráðh., að ég treysti honum manna best til þess að hafa forustu um að sú nefnd, sem hér er gert ráð fyrir að verði skipuð, fjalli um þessi mál með þeim hætti, að það verði þjóð vorri til sóma og ég tala nú ekki um þjóð vorri til mikils framdráttar í stórauknu fiskeldi á heilbrigðum stofnum. Fiskeldi nær auðvitað ekki aðeins til lax og silungs, heldur er það mun víðtækara. Í nágrannalöndum er farið að rækta ýmsa nytjafiska, sjávarfiska, og ég efast ekki um að sú nefnd, sem mundi fjalla um þetta, mundi koma inn á þau mál einnig, þótt það sé ekki beinlínis ætlast til þess í þáltill.

En ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir hin mjög jákvæðu orð hans, sem hér féllu áðan, og vænti þess, að þau styðji þetta mál og það fái brautargengi í n. og hér á þingi.