22.04.1978
Efri deild: 82. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3773 í B-deild Alþingistíðinda. (2900)

291. mál, umhverfismál

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Vorið 1975 skipaði ríkisstj. nefnd til að endurskoða og samræma ákvæði laga um umhverfisog mengunarmál í því skyni að sett yrði heildarlöggjöf um þau efni og kveðið á um hvernig stjórnarfyrirkomulagi skuli háttað á þessu sviði. Nm. voru Gunnar G. Schram prófessor, sem var formaður nefndarinnar, Knútur Hallsson skrifstofustjóri, Árni Reynisson framkvæmdastjóri, Edgar Guðmundsson verkfræðingur, Hjálmar B. Bárðarson siglingamálastjóri, Páll Líndal borgarlögmaður, Páll Sigurðsson ráðuneytisstjóri, Sveinbjörn Dagfinnsson ráðuneytisstjóri og Þórður Ásgeirsson skrifstofustjóri.

Nefndin lauk samningu frv. og gerði till. um stjórnsýsluþátt umhverfismála í aprílmánuði 1976. Frv. var sent allmörgum s'ofnunum og félagasamtökum og bárust umsagnir frá 15 þeirra. Eru þær stofnanir og félagasamtök talin í grg. bls. 6. Nefndin fjallaði svo að nýju um frv. og endurskoðaði það í ljósi þeirra umsagna, sem borist höfðu, og er það nú lagt fram í lokagerð frá nefndarinnar hálfu.

Tildrög þess, að til frv. þessa var stofnað. vorn að heildarákvæði skorti í íslenskri löggjöf á þessu mikilvæga sviði. Einu lögin, sem alfarið lúta að þessum málum í dag, eru lög um náttúruvernd frá 1971, en önnur lög, sem taka að nokkru til þeirra vandkvæða og hættu, sem umhverfinu stafar af mengun og hættulegum efnum, eru m. a. lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit frá 1969 og lög um eiturefni og önnur hættuleg efni frá 1968. Hér var við brýnt verkefni að fást, að semja frv. um almenna umhverfisvernd sem tæki til vettvangsins alls og fyllti upp í þær eyður sem nú eru í löggjöf hér á landi í þessum efnum. Á grundvelli slíkra heildarlaga er síðan unnt að setja reglugerðir um einstök framkvæmdaatriði. Það er slíkt frv. að heildarlögum um umhverfið og varnir gegn mengun sem hér liggur fyrir.

Frv. er fyrst og fremst ætlað að reisa skorður við skaðlegum áhrifum á hið svonefnda ytra umhverfi, þ, e. náttúru landsins og þá starfsemi sem að henni lýtur. Frv. nær hins vegar ekki nema að litlu leyti til matvælaeftirlits og öryggis á vinnustöðum, svo að dæmi séu nefnd.

Meginverkefni frv. er tvíþætt. Í fyrsta lagi er þar að finna ýmis ákvæði um umhverfis- og mengunarvarnir. Í öðru lagi er yfirstjórn umhverfismála sameinuð í höndum eins stjórnsýsluaðila. Í frv. eru samræmdar þær reglur íslenskra laga um umhverfis- og mengunarvernd, sem fyrir eru, og settar fram nýjar þar sem á hefur þótt skorta.

Í 1. gr. frv. er tilgangur laganna markaðir á þá lund, að hann sé að afla alhliða umhverfisvernd, varnir gegn hvers konar mengun og öðrum skaðlegum umhverfisáhrifum og vinna að varðveislu náttúrugæða landsins. Lögunum er ætlað að stuðla að sem bestri sambúð lands og þjóðar með því að vernda þau lífsgæði, sem felast í óspilltri náttúru landsins, hreina lofti og tæru vatni.

Hér er um að ræða málefni, sem verður æ þýðingarmeira eftir því sem iðnþróun vex og þéttbýli eykst. Markmið frv. er að stemma á að ósi í þessum efnum, efla alhliða umhverfisvernd og koma á virkum vörnum hegn mengun og öðrum skaðlegum umhverfisáhrifum. Með ákvæðum frv. er leitast við að tryggja sem besta sambúð lands og þjóðar, sem fólgin er m. a. í varðveislu og viðgangi náttúrugæða landsins. Í iðnríkjum heims nær og fjær hafa víða orðið veruleg spjöll á náttúru og umhverfi, vegna þess að umhverfissjónarmiðum hefur ekki verið nægur gaumur gefinn á liðnum árum. Af reynslu þessara þjóða má sannreyna mikilvægi þess, að brýn nauðsyn er að festa nú þegar með íslenskum lögum réttarreglur er vernda þau lífsgæði, sem fólgin eru í óspilltri náttúru landsins, og hindra mengun og önnur umhverfisspjöll eftir því sem föng eru á. Íslensk náttúra og lífríki hennar eru mjög viðkvæm fyrir umhverfisáhrifum sökum landfræðilegrar legu landsins og loftslags. Hér er því sérstök nauðsyn að haga búsetu og atvinnustarfsemi á þann veg, að fullt tillit sé tekið til umhverfisverndar.

Nefnd sú, sem frv. samdi, lagði til að komið yrði á sameiginlegri yfirstjórn umhverfismála í sérstöku nýju rn. Jafnframt benti nefndin þó á að vista mætti umhverfismálin í einhverju þeirra rn. sem fyrir eru, sem yrði þá ráðuneyti umhverfismála jafnframt núverandi verkefnum. Þessi síðarnefnda leið var valin og hefur ríkisstj. samþykkt að félmrn. verði falið þetta verkefni. Meginatriði málsins er að yfirstjórn umhverfismála verði á einum stað í stjórnarkerfinu. Í samræmi við það er síðan lagt til, að einstakir þættir umhverfismála, sem nú eru dreifðir um mörg rn., verði fluttir að því er yfirstjórn varðar til þessara nýju heimkynna. Þess er að vænta, að með slíkri samræmdri yfirstjórn og þeim nýju réttarheimildum á sviði umhverfismála, sem frv. geymir, verði kleift að koma fram þeim markmiðum sem liggja til grundvallar virkri umhverfismálastefnu á komandi árum.

Þar sem svo áliðið er þings er þetta frv. lagt fram fyrst og fremst til kynningar og umr. Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.