02.11.1977
Efri deild: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

36. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir að hafa eytt fáum orðum að þessu frv., því að það er þó alltaf betra að heyra sjónarmið manna frekar en að þögnin ein ríki, það er betra að veifa röngu tré en öngu, eins og segir í máltækinu, þó að ég fái að vísu ekki séð að athugasemdir hans risti mjög djúpt. Ég vil þó leyfa mér að vekja sérstaklega athygli á þeim ummælum hans, að auðvaldið á Íslandi sé einna helst að finna í verkalýðshreyfingunni og samvinnuhreyfingunni. Þetta finnst mér mjög athyglisverð yfirlýsing sem rétt er að staldra við og vekja athygli á. Hann mun þá hafa átt við hina digru sjóði þessara aðila.

Ég vil hins vegar fullvissa hann um það, að það frv., sem hér er flutt, er býsna langt frá því að vera frv. um framkvæmd sósíalisma á Íslandi, eins og hann gaf hér í skyn. Og ég vil þá fyrst og fremst minna á að meginefni frv. er ekki að skerða rétt sem einstaklingar eiga í dag, heldur að setja eignarrétti einstaklinga eðlilegar og skynsamlegar skorður, eðlileg takmörk. Þessi reginmunur verður að vera mönnum ljós, að hér er ekki um að ræða skerðingu eignarréttar nema þá að mjög óverulegu leyti. Eins og ég vakti athygli á áðan, þá gæti það fyrst og fremst átt við um það ákvæði frv. sem snertir námur og námuréttindi, en ekki að öðru leyti, því að frv. er að öðru leyti fyrst og fremst um eðlileg takmörk eignarréttar.

Ég get ekki fallist á að með þessu frv. sé réttur borgarbúa í einu eða neinu skertur, eins og þm. vék þó að. Ég kannast ekki við að þeir eigi nein þau hlunnindi almennt sem um er getið í þessu frv. Þó að það kunni að vera að einhverjir borgarbúar telji sig eiga jarðhita nokkra km eða kannske tugi km niðri í jörðinni, undir yfirborði lands sem þeir eiga, þá er þetta sjónarmið þeirra byggt á misskilningi og frv. okkar miðar einmitt að því að eyða misskilningi af þessu tagi.