22.04.1978
Efri deild: 84. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3785 í B-deild Alþingistíðinda. (2939)

253. mál, Samábyrgð Íslands á fiskiskipum

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Í þessu frv. um Samábyrgð Íslands eru þau nýmæli, að niður er lögð svonefnd bráðafúadeild Samábyrgðarinnar, en hún var sett á fót með lögum sem tóku gildi 1. maí 1958. Þessi bráðafúadeild á töluverðan sjóð nú, vegna þess að tjón hafa farið minnkandi af völdum bráðafúa. Eignir bráðafúadeildarinnar eru, ef ég man rétt, liðlega 200 millj. eða um 206 millj. kr. Er ætlað við gildistöku þessa frv., ef að lögum verður, að Aldurslagasjóður fiskiskipa taki við öllum eignum og skuldbindingum bráðafúadeildarinnar. Því verður komið á með þessu frv. að greiða fyrir því með bótagreiðslum, að gömul og óhentug fiskiskip verði tekin úr notkun og eyðilögð.

Landssamband ísl. útvegsmanna hefur átt aðild að samningu þessa frv. eða fulltrúi frá því, enn fremur forstjóri Samábyrgðar Íslands og fulltrúi í rn. Hefur orðið að samkomulagi að allir eigendur fiskiskipa, sem eru stærri en 12 rúmlestir, bæði stálfiskiskipa og tréfiskiskipa með þilfari, annarra en súðbyrtra skipa, samþykki og séu aðilar að því og styðji að því, að skylt verði að greiða árleg iðgjöld til Aldurslagasjóðs með þeim hætti sem segir í 10. gr. frv.

Stjórn Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum hefur einróma fallist á þessa breytingu og því er þetta frv. flutt. Um frv. var full samstaða í Nd., bæði í þeirri n., sem hafði með frv. að gera, og eins meðal dm. almennt.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.