22.04.1978
Efri deild: 84. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3787 í B-deild Alþingistíðinda. (2944)

212. mál, Ríkisendurskoðun

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen) :

Herra forseti. Það mál, sem hér liggur fyrir til umr., frv. til laga um ríkisendurskoðun, flutt af hv. 5. þm. Austurl., er að mínum dómi mjög þess virði að því sé gaumur gefinn. Þau lög, sem nú gilda um starfsemi ríkisendurskoðunar, eru lög um Stjórnarráð Íslands frá 31. des. 1969. Í reglugerð, sem byggð er á þeim lögum, er kveðið á um viðfangsefni þau sem ríkisendurskoðunin fjallar um, en þau eru: 1) Endurskoðun reikningsskila embætta ríkisstofnana og sjóða í vörslu ríkissjóðs. 2) Umsjón og eftirlit með endurskoðun á reikningsskilum ríkisstofnana, en endurskoðendur þeirra eru skipaðir eða kosnir samkv. sérstökum lögum. 3) Eftirlit með opinberum sjóðum. 4) Eftirlit með rekstri ríkisstofnana lögum samkv., sbr. II. kafla laga nr. 61 frá 1951 og 82. gr. laga nr. 52 1966.

Samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands er ríkisendurskoðunin sjálfstæð stjórnardeild sem fjmrh. fer með. Veigamesta breytingin, sem lögð er til í þessu frv., er að ríkisendurskoðunin heyri ekki undir fjmrh., heldur verði aðskilin frá framkvæmdavaldinu og heyri undir Alþ. sjálft. Það er tvímælalaust megintilgangur með þessu frv., ef að lögum yrði, að gera ríkisendurskoðunina óháðari en nú framkvæmdavaldinu og öðrum stofnunum sem háðar eru eftirliti hennar samkv. lögum. Um þetta eru sjálfsagt skiptar skoðanir, hvort rétt sé að gera þessa skipulagsbreytingu, þ. e. a. s. að ríkisendurskoðunin sé sjálfstæð stofnun löggjafarvaldsins, eða ekki. Á það má benda, að í Danmörku fóru fram fyrir nokkrum árum allmiklar umr. einmitt um þetta atriði, en niðurstaðan varð sú þar, að ekki væri talið heppilegt að færa ríkisendurskoðunina til þingsins. Í Noregi heyrir ríkisendurskoðunin hins vegar undir Stórþingið, og hefur komið þar fram að aðilar eru ánægðir með þá skipan.

Frá því að ég tók við starfi fjmrh. hefur starfsemi ríkisendurskoðunar oft komið til umr. og ég hef beitt mér fyrir því að gera starf ríkisendurskoðunarinnar sem virkast. Í því sambandi vil ég benda á, að fyrir fram og samtíma endurskoðun er orðin miklu meiri þar en áður. Enn fremur hef ég í mörgum tilfellum falið ríkisendurskoðun að gera sérstaka úttekt á rekstri og efnahag ýmissa stofnana ríkisins til þess að tryggja, stofnanir og fyrirtæki ríkisins fari eftir þeim fjárlögum sem þeim hafa verið sett, og ég er þeirrar skoðunar, að með virkari ríkisendurskoðun megi ná betra aðhaldi hjá þessum stofnunum í sambandi við útgjöld og að þær fari að þeim fjárlögum sem — eins og ég sagði áðan — þeim hafa verið sett.

Varðandi það atriði, hvort ríkisendurskoðun eigi að vera stofnun Alþingis eða ekki, þá er rétt að benda á atriði sem eru því samfara. Af sumum er talið heppilegra, þó að aðrir hafi þar andstæða skoðun. að ríkisendurskoðunin verði óháðari eða með öllu óháð framkvæmdavaldinu og Alþ. og fulltrúar þess fari með stjórn endurskoðunarinnar. Í öðru lagi fær Alþ. þá sér við hlið stofnun sem hefur eftirlit með því, að fjármálalegum ákvörðunum Alþingis sé framfylgt.

Í þriðja lagi er ætlað að koma á betra og virkara upplýsingastreymi um fjármál og rekstur ríkisins og ríkisstofnana til Alþ., og með bættri tækni hefur á undanförnum árum tekist að koma töluvert til móts við það sjónarmið, að upplýsingastreymi um fjármál og rekstur ríkisins og ríkisstofnana til Alþ. verði bætt. Held ég að þar hafi tekist að ná verulegum árangri. Í síðasta lagi gefur þessi skipan, ef að lögum yrði, Alþ. möguleika á að efla hlutverk sitt í sambandi við, eins og ég vék að áðan, aðhald og bættan rekstur ríkiskerfisins.

Í frv. er m. a. fjallað um að færa eigi alla endurskoðun á vegum ríkissjóðs og ríkisstofnana á eina hendi og jafnframt að leggja þær skyldur á ríkisendurskoðun, að mat sé á það lagt, hvort fjárhagslegt og rekstrarhagfræðilegt markmið sé ráðandi við ráðstöfun fjármuna. Sú þróun hefur átt sér stað hin síðari ár, að starfssvið endurskoðunar hefur í síauknum mæli færst í það horf að fjalla um, hvort ráðstöfun fjármuna sé sem hagkvæmust. Ég tel mjög mikilvægt að þessi þróun nái einnig hingað til okkar, og ég tel enn fremur eðlilegt að öll endurskoðun ríkisins sé færð undir eina stofnun. Það mundi skapa samræmi innan ríkiskerfisins við alla endurskoðunarvinnuna.

Það ákvæði í frv., er fjallar um að ríkisendurskoðun skuli leggja fyrir Alþ. endurskoðunarskýrslu um ríkisreikning, tel ég vera mjög mikilvægt, þar sem það ætti þá að gefa gleggra yfirlit yfir ríkisfjármálin og skapa grundvöll að virkari umr. um þau á Alþ. Ég vek athygli á því, að ég hef reynt að koma þessum hugmyndum í framkvæmd, m. a. með því að leggja fyrir Alþ. eftir hver áramót bráðabirgðaskýrslu um stöðu ríkissjóðs og fjármál ríkissjóðs til þess að Alþ. hafi eins fljótt og auðið er tækifæri til þess að tjá sig um þau mál, eflir því sem efni og ástæða er til.

Annað veigamesta atriðið í þessu frv. er að efla skuli til muna hlutdeild ríkisendurskoðunar í skipulagningu á starfsemi stofnana ríkisins. Í núverandi skipulagi er gert ráð fyrir að fjárlaga- og hagsýslustofnun hafi þetta viðfangsefni með höndum. Að mínum dómi hefur fjárlaga- og hagsýslustofnun komið með margar góðar og raunhæfar tillögur til úrbóta á starfsemi ríkisstofnana á undanförnum árum. Hins vegar er því ekki að leyna, að oft hafa þær till. ekki komist í framkvæmd. Ég er þeirrar skoðunar, að til þess að hagsýsla verði enn virkari þurfi að efla fjárlaga- og hagsýslustofnunina. Að mínum dómi væri mögulegt að ná fram meiri hagræðingu með því að efla þá stofnun sem fyrir er. Það er hins vegar spurning um það, hvort sú till., sem er gerð í þessu frv. um starf ríkisendurskoðunar með þessum hætti. væri virkari í þessari hagræðingu, þannig að till., sem kæmu frá stofnun Alþingis, næðu frekar fram að ganga. Mér er það ekki fullkomlega ljóst. Þetta fer að sjálfsögðu mjög eftir því, hvernig viðkomandi stofnanir eru búnar að mannafla til vinnslu, og svo því, hvernig þeir, sem eru ráðamenn viðkomandi stofnana, taka á málunum. Ég held að með því að gera ríkisendurskoðunina virkari í samtíma og fyrir fram endurskoðun og ríkisendurskoðunin sé notuð til þess að gera úttekt á framkvæmd fjárlaga viðkomandi stofnunar, þá megi ná fram töluvert miklum bótum í þessum efnum. Ég held að á síðari árum hafi það sýnt sig með þeirri breytingu sem á ríkisendurskoðun hefur verið gerð.

Ég tel enn fremur að þær hugmyndir, sem settar eru fram í þessu frv. um stjórn ríkisendurskoðunar, séu þess eðlis að þær, ef frv. yrði að lögum, þyrftu nánari athugunar við. Í því sambandi vil ég vekja athygli á því, hvort rétt sé að forustumaður stofnunarinnar eigi sæti í stjórn hennar. Svo er að sjálfsögðu íhugunaratriði, hver fjöldi stjórnarmanna eigi að vera. Ég held líka að það væri til athugunar, hvernig stjórn ríkisendurskoðunar tengist fjárveitingarnefndarstörfum, en í þessu frv. er fjallað um hvernig kosið skuli til stjórnar og hvaða þm. verði þar að öllum jafnaði valdir til starfa. Ég held að það væri mun skynsamlegra að tengja saman fjvn. sem slíka heldur en binda í frv. hverjir eða hvaða þm. skuli að jafnaði vera kosnir í stjórn þessarar stofnunar. Hér er að sjálfsögðu um minni háttar atriði að ræða.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri. Ég vildi aðeins með orðum mínum vekja athygli á þessari hugmynd, sem hér er fram sett, tel hana þess virði, að hún verði athuguð, og það, sem við getum gert best í því að fá virkt aðhald í stjórnun hins opinbera og best eftirlit með því, að ákvörðunum fjárveitingavaldsins sé framfylgt, eigi að framkvæma. Menn eiga ekki að vera með fordild um það, hvort ein eða önnur stofnun eigi að heyra undir rn. eða Alþ. Það, sem okkur finnst skynsamlegast og best og öruggast, eigum við að gera. Frá mínum bæjardyrum séð kemur þessi hugmynd, sem sett er fram í þessu frv., mjög til álita í þeim efnum.