22.04.1978
Efri deild: 84. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3789 í B-deild Alþingistíðinda. (2945)

212. mál, Ríkisendurskoðun

Flm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins þakka hæstv. fjmrh. fyrir góðar undirtektir varðandi þetta frv. Mér er ljóst að hér er um svo mikla breytingu að ræða og svo stórt mál í mínum huga að ekki er hægt að búast við því, að slíku máli verði lokið á þessu þingi. Hins vegar legg ég á það áherslu, að haldið verði áfram því starfi sem ég veit að hefur verið unnið á vegum rn. í þessum efnum, og eins því starfi, sem ég hef unnið í sambandi við athugun á þessum málum.

Það er mikil hreyfing á öllu eftirliti alls staðar, bæði hér á landi og annars staðar, og við þurfum að fylgjast vel með í þeim efnum. Það er væntanlegt nýtt lagafrv. í Noregi um þessi efni, þar sem er komin löng og góð reynsla á skipan þessara mála á þennan hátt. Það er einnig alveg rétt, eins og hæstv. fjmrh. tók fram, að fram fór mjög ítarleg athugun á þessu atríði og skipulagi ríkisendurskoðunar í Danmörku fyrir stuttu. Niðurstaða þeirrar athugunar og endurskoðunar leiddi til lagasetningar árið 1975, þar sem gert var ráð fyrir því, að ríkisendurskoðun heyrði áfram undir ráðh. Það voru að vísu uppi ýmsar skoðanir um það, undir hvaða ráðh. þessi stofnun skyldi heyra. Mig minnir að sú hafi veríð niðurstaðan, að stofnunin var ekki sett undir fjmrh., heldur það sem er kallað „konom“-rn. Það voru líka uppi hugmyndir um að setja stofnunina undir forsrh. Hins vegar taldi minni hl. þeirrar nefndar, sem vann að endurskoðun þessara mála, að ríkisendurskoðun skyldi heyra undir þing Dana, en það náði ekki fram að ganga, þar sem það var aðeins minnihlutaálit. Einnig má geta þess, að nú alveg nýlega var samþ. í kanadiska þinginu að ríkisendurskoðun Kanada heyrði undir þjóðþing Kanadamanna.

Mér er alveg ljóst, að það er athugunarefni hvernig stjórn þessarar stofnunar skuli komið fyrir. Í mínum huga var nokkurt vandamál, á hvern hátt skyldi skipað í stjórn ríkisendurskoðunar. Mín vegna má breyta því í frv. Ég komst að þessari niðurstöðu eftir nokkra athugun, en satt að segja var það allmikið vandamál í mínum huga, hvernig þessu væri best fyrir komið. Það er ekki nauðsynlegt, að í þessari stjórn sitji þm. Ég taldi þó að það mundi verða til þess að tengja þessa stofnun betur við Alþ. Hins vegar var í mínum huga svo mikið starf að gegna formennsku í svo mikilvægri stofnun, að ekki var hægt að hugsa sér að gegna slíku starfi ásamt þingmannsstarfi.

Mér er einnig ljóst, að fjárlaga- og hagsýslustofnun hefur unnið að skipulagsmálum á vegum ríkisins. Það er að sjálfsögðu rannsóknarefni, hvort slík skipulagsstarfsemi skuli heyra áfram eingöngu undir fjárlaga- og hagsýslustofnun eða hvort ríkisendurskoðun skuli í einhverjum mæli yfirtaka þá starfsemi. Ég býst við því, að ljóst sé að ríkisendurskoðun er í mjög nánum tengslum við viðkomandi stofnanir, þekki þær stofnanir e. t. v. betur en nokkur annar. Þess vegna held ég að nauðsynlegt sé að ríkisendurskoðun hafi að einhverju leyti með slík skipulagsmál að gera. En allt slíkt er að sjálfsögðu til nánari athugunar. Jafnvel þótt ríkisendurskoðunin yfirtaki slíka starfsemi í nokkrum mæli, eins og hefur verið þróunin víða, t. d. í Svíþjóð og Bandaríkjunum og víðar, þá er ekki þar með sagt að fjárlaga- og hagsýslustofnun gæti ekki unnið að þeim málum í einhverjum mæli áfram.

Ég legg einnig mikið upp úr því, að það verði unnið að því, að reikningsskilakerfi á vegum ríkisins veiti nánari upplýsingar annars vegar um þann kostnað, sem af útgjöldum leiðir, og hins vegar þau afköst og árangur, sem þessum sömu útgjöldum tengjast. Mér er ljóst að þetta er gert í nokkrum mæli, og sú stofnun, sem e. t. v. er komin lengst í þessu efni, er Vegagerð ríkisins. Þar eru beinlínis haldnar skýrslur um það á hverjum degi, hvað viðkomandi vinnuflokkur vinnur yfir daginn, og það borið saman við þá áætlun sem var gerð í sambandi við ákveðinn vegarkafla. Á þennan hátt er hægt að fylgjast miklu betur en ella með notkun fjármuna og með þessu er komið á mjög virku kostnaðareftirliti. Ég held að það sé mikil þörf á slíku sem víðast í ríkisrekstrinum. Ekki er hægt að koma því við alls staðar í eins ríkum mæli, en ég legg á það áherslu, að ef ríkisendurskoðun undir stjórn Alþ. yrði að veruleika einhvern tíma, þá yrði lögð rík áhersla á skýrslugerð um þetta atriði og Alþ. fengi sem gleggstar upplýsingar um þau afköst og þann árangur sem hefur orðið af fjárframlögum til hinna ýmsu verka í þjóðfélaginu.

Ég vil aðeins að lokum, herra forseti, þakka hæstv. fjmrh. góðar undirtektir í sambandi við þetta mál.