02.11.1977
Efri deild: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

36. mál, stjórnarskipunarlög

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði raunar ekki ætlað mér að taka þátt í 1. umr. um lagafrv. nú, en tel mig ekki geta hjá því komist vegna ræðu hv. síðasta ræðumanns, utanrrh. Formaður Alþb. hefur náttúrlega ekki lýsa yfir þeirri skoðun, hvorki sinni né flokksins, að það hljóti úrtakslaust og ævinlega að vera rangt að ríkið eigi allt land. Við aðstæðurnar eins og þær eru nú er engin þörf á slíku — og það sem meira er: það væri rangt við aðstæðurnar eins og þær eru nú. En það eru meira en hugsanlegar þær aðstæður, að við hlytum að álykta að rétt væri að landið yrði allt þjóðareign. En að áliti okkar Alþb. manna er það síður en svo forgangsverkefni núna að setja lög um að landið sé allt eign þjóðarinnar, að þjóðnýta landið. Það er álit okkar að eins og ástandið er í dag væri slíkt til hins verra, beinlínis vegna þess að það er skoðun okkar, að vernd landsins, gæsla þess og nýting þess væri verr komin undir hatti eins ráðh. eða ráðuneytisstjóra suður í Reykjavík heldur en nú, þar sem varsla þess er þó í höndum 4000–5000 bænda. Bújarðirnar okkar eru mun nær því að vera í almannaeigu nú með einkaeignarrétti bændanna, eins og er í dag, heldur en yrði ef landið yrði allt þjóðnýtt og sett á vald eins embættismanns eða fárra suður í Reykjavík.

Uppi eru ýmis vandamál í íslenskum landbúnaði, ýmis vandamál á höndum bænda, sem stafa af einkaeignarréttinum, af einkaeignarrétti bændastéttarinnar. Vel er það kunnugt að góðar bújarðir hafa lent í braski vegna ýmissa hlunninda, þ. á m. veiðihlunninda og hækkað svo óhóflega í verði, að ógerlegt er fyrir bændasyni að eignast þær eða komast yfir þær til búskapar af þeim sökum. Þetta er ekki nýtt vandamál, þ.e.a.s. vandamál jarðabrasksins er ekki nýtt. Á síðustu árunum fyrir seinni heimsstyrjöldina ræddu bændur þetta vandamál mjög einarðlega sín í milli, til hvaða ráða skyldi gripið til þess að stemma stigu við jarðabraskinu, til þess að tryggja að jarðir gætu áfram verið í ábúð. Og ég hef vakið athygli á því fyrr hér í þessari hv. d. og því hefur ekki verið andmælt, að þá höfðu forustumenn bænda þegar unnið talsvert að samningu lagafrv. sem miðaði að því að landið yrði allt, til sjávar og sveita, hver ferþumlungur lands yrði eign ríkisins, en bændur héldu áfram fornum rétti sínum til nytja á landinu, til búskapar með — ef svo má segja — járnbentri erfðafestu og töpuðu einskis í nema réttinum til þess að selja landið. Af því varð að vísu ekki að frv. þessarar tegundar yrði lagt fram á Alþ. og ollu því ýmsar aðstæður á þeim tíma.

Af hálfu Alþb. er það ljóst, að ríkiseign á öllu landinu kemur mjög svo til greina þegar aðstæður krefjast slíks. En eins og nú er í pottinn búið hjá okkur yrði þjóðnýting lands býsna aftarlega á verkefnaskrá. Við Alþb.-menn teljum aðrar eignir miklu girnilegri til þjóðnýtingar til þess að fremja með hag almennings á þessu landi.