22.04.1978
Neðri deild: 80. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3791 í B-deild Alþingistíðinda. (2957)

294. mál, almannatryggingar

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Hæstv. forseti. Skömmu fyrir síðustu jól lagði ég fram frv. til breytinga á lögum nr. 67 frá 20. apríl 1971 um almannatryggingar. Það frv. fjallaði aðallega um sameiningu slysatrygginga og annarra greina almannatrygginga. Þetta frv. er enn þá í meðförum Alþ. eða fyrir hv. heilbr.- og trn.

Frv. það, sem ég mæli hér fyrir, er ávöxtur framhaldandi starfsnefndar þeirrar sem ég skipaði á árinu 1975 til þess að endurskoða lög um almannatryggingar. Hefur nefndin haldið áfram í vetur að endurskoða gildandi ákvæði almannatryggingalaga um bætur sjúkratrygginga. Í nefnd þessari eiga sæti aðilar tilnefndir af þingflokkunum, auk nokkurra annarra aðila. Með þessu lagafrv., sem hér er lagt fram, má segja að lokið sé öðrum þætti starfs nefndarinnar en þessi þáttur hefur, eins og áður segir, fyrst og fremst snúist um ýmis bótaákvæði sjúkratryggingakafla almannatryggingalaga. Við þetta starf sérstaklega hefur nefndin verið þannig skipuð: Bragi Guðmundsson læknir, tilnefndur af Alþfl., Guðrún Helgadóttir deildarstjóri, tilnefnd af Alþb., Jón A. Ólafsson sakadómari, tilnefndur af Framsfl., Ragnhildur Helgadóttir alþm., tilnefnd af Sjálfstfl., Steinunn Finnbogadóttir ljósmóðir, tilnefnd af SF. Auk þess áttu sæti í nefndinni án tilnefningar Oddur Ólafsson alþm. og læknir, Sigurður Ingimundarson forstjóri, Sigurgeir Sigurðsson bæjarstjóri og Gunnar J. Möller framkvæmdastjóri, sem jafnframt var formaður téðrar nefndar. Jón Ingimarsson skrifstofustjóri í heilbr.- og trn. hefur verið ritari nefndarinnar frá upphafi. Enn fremur hefur Guðjón Hansen tryggingafræðingur verið henni til aðstoðar.

Helstu breytingar, sem í frv. þessu felast, eru: 1. Gert er ráð fyrir, að tekin verði upp greiðsla ferðakostnaðar sjúklinga sem þarfnast ítrekaðrar meðferðar á sjúkrahúsi vegna tiltekinna sjúkdóma.

2. Ákvæðum um greiðslur vegna tannlækninga er að ýmsu leyti breytt, m. a. með tilliti til fenginnar reynslu.

3. Gert er ráð fyrir breyttum ákvæðum um sjúkradagpeninga. Þess skal getið, að að nokkru leyti miðast þessar breytingar við þá forsendu, að áðurnefndar breytingar á slysatryggingum verði samþykktar, en auk þess má nefna breytt ákvæði um dagpeninga húsmæðra og dagpeninga til manna sem taka upp vinnu að hluta eftir veikindaforföll.

4. Lagt er til að fæðingarstyrkur falli niður, sjúkrasamlög greiði víst á fæðingarstofnunum og konur, sem fæða í heimahúsum, fái greiddan ljósmóðurkostnað ásamt dagpeningum.

5. Sett verði ákvæði um upphaf og lok sjúkratryggingar í sambandi við búferlaflutning til og frá landinu.

6. Gert er ráð fyrir að sett verði reglugerð um sjúkrahjálp er veitt verði umfram það sem lögboðin er, í stað þess að slík ákvæði séu í samþykktum einstakra samlaga.

7. Nokkur ákvæði núgildandi laga eru gerð skýrari og færð til samræmis við núverandi framkvæmdir.

Eins og fyrr eru breytingar nefndarinnar, sem hér voru tíundaðar, byggðar á umfjöllun hennar á grg. Guðjóns Hansen tryggingafræðings, en honum var falið snemma á árinu 1975 að vinna að athugun á tilteknum þáttum löggjafar um almannatryggingar og skyld málefni.

Áður en vikið verður að hverjum einstökum þætti þeirra hreytinga, sem hér hafa verið taldar upp, þykir mér tilhlýðilegt að fara nokkrum orðum um sjúkratryggingar almennt, sérstaklega hvað snertir þróun þessara mála á undanförnum áratugum.

Á undanförnum árum hafa verið gerðar margar og veigamiklar breytingar á nær öllum greinum almannatrygginga. Ef við lítum á sjúkratryggingar sérstaklega, þá hafa þær algera sérstöðu þegar litið er á þróun útgjalda. Reiknað sem hundraðshluti af vergri þjóðarframleiðslu hafa útgjöld sjúkratrygginga meira en fjórfaldast á tímabilinu frá 1950–1974, þ. e. a. s. aukist úr 1.1% í 4.7%. Til samanburðar má nefna, að á þessu tímabili jukust útgjöld lífeyristrygginga vegna elli, örorku og dauða úr 1.9% í 3% af vergri þjóðarframleiðslu eða um því sem næst 60%.

Á þessum aldarfjórðungi hefur fjárhagsgrundvöllur sjúkratrygginga gerbreyst. Árið 1950 stóðu iðgjöld hinna tryggðu undir 60% útgjalda, ríki og sveitarsjóðir lögðu hvort um sig fram 20%, þó aldrei yfir tiltekna fjárhæð á hvern iðgjaldsgreiðanda. Árið 1971 var svo komið, að hluti iðgjalda nam 23%, framlag ríkissjóðs 57% og framlag sveitarfélaga 20%. Ástæðurnar fyrir þessu breytta hlutfalli milli iðgjalda og framlags ríkissjóðs voru fyrst og fremst tvær. Í fyrsta lagi, að ekki þótti rétt að láta afnám ríkisframfærslunnar hafa í för með sér hækkun iðgjalda. Í öðru lagi var niðurgreiðsla sjúkrasamlagsiðgjalda sem á tímabili þótti hentug aðferð til að halda verðlagsvísitölu í skefjum. Niðurgreiðslunum var síðan breytt í hækkaðan hundraðshluta ríkissjóðsframlagsins.

Árið 1972 voru iðgjöld felld niður og útgjöldum var síðan skipt þannig milli ríkis og sveitarfélaga, að framlag ríkis nemur nú tæpum 93%, þ. e. a. s. 90% af útgjöldum sjúkrasamlaga ásamt öllum útgjöldum sjúkratryggingadeildar Tryggingastofnunar ríkisins, en framlag sveitarfélaga nemur rúmum 7% af heildarútgjöldum. Þess skal getið hér, að ekki er tekið tillit til hins sérstaka sjúkratryggingagjalds sem komið var á frá og með 1. jan. 1976 til að lækka útgjöld ríkissjóðs og er allt annars eðlis heldur en hin gömlu sjúkrasamlagsiðgjöld.

Frá árinu 1951 var starfandi sjúkrasamlag í hverju sveitarfélagi og voru samlögin alls yfir 220 talsins. Árið 1956 var svonefndum félagssamlögum komið á fót og skyldu þau vera tengiliður hreppasamlaga innan hverrar sýslu, en síðan tóku þau jafnframt við verkefnum sem hreppasamlögin þóttu of fámenn til að geta sinnt. Tryggingastofnunin hafði umsjón með sjúkra- og héraðssamlögum. Með stórauknum kostnaði sjúkratrygginga, er ríkisframfærslan var afnumin, þóttu mörg héraðs- og kaupstaðarsamlög of fámenn til að taka á sig aukna áhættu. Var því komið á samtryggingu samlaganna vegna langlegu og annaðist sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunarinnar það verkefni. Frá og með árinu 1972 hefur ekki verið um slíka samtryggingu samlaganna að ræða, heldur hefur ríkissjóður einn staðið undir útgjöldum sjúkratryggingadeildar Tryggingastofnunarinnar.

Árið 1973 var sjúkrasamlögum fækkað svo, að sjúkrasamlag skyldi vera í hverjum kaupstað og hverri sýslu. Almannatryggingalögin veita heimild til frekari sameiningar samlaga. Héraðssamlögin hurfu þá úr sögunni og eru sjúkratryggingar nú í höndum 40 sjúkrasamlaga og sjúkratryggingadeildar Tryggingastofnunarinnar. Þrátt fyrir þau stakkaskipti sem sjúkrasamlögin hafa tekið, bæði með hliðsjón af verkefnum og fjárhagsgrundvelli, hefur engin breyting orðið á stjórn þeirra. Þannig skipar ráðh. stjórnarformann, en bæjarstjórn eða sýslunefnd — í hreppasamlögum var það sveitarstjórn — kýs 4 stjórnarmenn.

Bætur sjúkratrygginga eru að mestu leyti lögákveðnar, en í samþykktum fyrir hvert einstakt samlag er heimilt að kveða á um víðtækari hjálp vegna veikinda. Samþykktir hafa ekki verið endurskoðaðar með tilliti til hinna breyttu viðhorfa í fjármálum samlaganna og ekki mun hafa verið gengið frá samþykktum fyrir hin nýju sjúkrasamlög utan kaupstaða. Auk mismunandi bótaréttar vegna samþykktar ákvæðanna kemur það í mörgum tilvikum í hlut sjúkrasamlagsstjórna að úrskurða um greiðslur samkv. almennum ákvæðum laganna.

Í framhaldi af athugun, sem heilbr.- og trmrn. og fjmrn. létu gera á hugsanlegum leiðum til lækkunar útgjalda ríkissjóðs til sjúkratrygginga á árinu 1976, fór fram könnun á því sama ári á vegum Tryggingastofnunar ríkisins á starfsemi sjúkrasamlaga, einkum með tilliti til afgreiðslu á læknareikningum og eftirlits með þeim. Niðurstöður þeirrar könnunar benda til þess, að mörg samlög telja sig vanbúin til nauðsynlegs aðhalds án frumkvæðis Tryggingastofnunarinnar. Með breyttum fjárhagsgrundvelli virðast sjónarmið hafa breyst mjög í þá átt, að hér sé um að ræða vandamál ríkisins. Hjá Tryggingastofnun ríkisins og ríkisendurskoðun kemur jafnframt fram sú skoðun, að treg innheimta framlaga sveitarfélaga til sjúkratrygginga eigi að nokkru leyti rót sína að rekja til svipaðra sjónarmiða.

Samkv. 40. gr. almannatryggingalaga eru allir landsmenn sjúkratryggðir í sjúkrasamlagi þar sem þeir eiga lögheimili. Þau biðtímaákvæði, sem giltu við búferlaflutning til landsins, féllu niður með afnámi iðgjaldagreiðslna, og sama gilti að sjálfsögðu um þá vísbendingu um raunverulegt búsetuland sem fólst í iðgjaldagreiðslum þeirra sem erlendis dvöldu. Þess munu jafnvel dæmi, að synjað hafi verið um greiðslu sjúkrahjálpar til handa íslenskum ríkisborgurum sem lögheimili eiga erlendis, en hafa komið hingað til dvalar um stundarsakir, e. t. v. í því skyni að njóta hér læknishjálpar. Til synjunar hefði hins vegar sennilega ekki komið ef hlutaðeigandi sjúklingur hefði gætt þess að skrá sér lögheimili við komu til landsins. Lög um lögheimili voru ekki samin með tilliti til núverandi aðstæðna í þessu efni og er því vandalítið fyrir íslenska ríkisborgara svo og erlenda ríkisborgara, sem einhver tengsl hafa við landið, að skrá sig hér, þó hvorki komi til raunverulegrar búsetu né skattgreiðslna. Misnotkun af þessu tagi getur í einstökum tilvikum skipt verulegum fjárhæðum, en góðar sjúkratryggingar í nágrannalöndum okkar og ákvæði í sjúkratryggingasamningum við Norðurlönd og ókunnugleiki á þeim lagaákvæðum, sem hér gilda, draga úr þeirri hættu sem af þessu stafar.

Samkv. almannatryggingalögum skal ákveða daggjöld og gjaldskrá sjúkrahúsa þannig, að samanlagðar tekjur stofnunar standi undir eðlilegum rekstrarkostnaði á hverjum tíma miðað við þá þjónustu sem heilbr: og trmrn. hefur ákveðið að viðkomandi stofnun veiti. Samanburður milli Norðurlanda sýnir, að tilhögun þessara mála er þar með mjög ólíkum hætti. Þar eru útgjöld sjúkratrygginga vegna sjúkrahúsavistar, miðað við hundraðshluta af heildarútgjöldum sjúkratrygginga í hverju landi, mismunandi. Í Danmörku er talan 4%, Noregi 52%, í Svíþjóð 4% og í Finnlandi er hún ekki, meðan sama tala á Íslandi er 73%. Þess skal getið hér, að eingöngu á Íslandi og í Noregi taka sjúkratryggingar verulegan þátt í greiðslu kostnaðar við sjúkrahúsvist. Það er engan veginn að ástæðulausu, að aðlögun þessara mála er með öðrum hætti hér á landi en í nágrannalöndunum. Í nágrannalöndunum er sjúkrahúsreksturinn að mestu í höndum sveitarfélaga og í langflestum tilvikum njóta menn sjúkrahúsvistar á því svæði, sem þeir eiga heima á. Utansveitarmenn eru sendir til heimasjúkrahúsa um leið og einhver tök eru á eða greiðslu krafist á útreiknuðum kostnaði við víst þeirra. Vegna fámennis þjóðar okkar og smæðar sveitarfélaga er slík tilhögun ekki hugsanleg hér á landi.

Hér á landi rekur ríkið 48% af sjúkrahúsum, sveitarfélög 37% og aðrir aðilar 15%, og er þá miðað við skiptingu heildarkostnaðar við sjúkrahúsakerfið. Á árinu 1975 námu útgjöld sjúkratrygginga tæpum 10 milljörðum kr. Aðeins 5% þeirrar fjárhæðar var varið til greiðslu dagpeninga, skrifstofukostnaðar og varasjóðstillags, en 95% voru greiðslur fyrir læknishjálp og ýmiss konar vörur og þjónustu. Þegar enn fremur er litið á hinn öra vöxt þessara útgjalda á undanförnum árum og önnur atriði, sem hér hafa mörg verið rakin að framan, þá er ekki ólíklegt að margur kunni að draga í efa að núverandi kerfi valdi því verkefni að halda útgjöldum í skefjum og tryggja góða nýtingu þess fjármagns sem til þessara mála er varið. Telja verður þátttöku sveitarfélags í útgjöldum sjúkratrygginga, þ. e. a. s. 7% af heildarútgjöldum. gagnslitla. Mætti eins stíga skrefið til fulls og láta ríkissjóð einan standa undir útgjöldum, en flytja í þess stað tekjustofn, sem svarar til útgjaldaaukningarinnar, frá sveitarfélögum til ríkisins. Virðist þetta vera á stefnuskrá samtaka sveitarfélaga. Með tilliti til þess, að rekstur og fjárhagsleg ábyrgð þurfa að fara saman, væri rökrétt afleiðing að ríkið stefndi síðan að því að taka við rekstri sem flestra sjúkrahúsa og að sjúkrasamlög yrðu þá lögð niður, en við tæki umboðsskrifstofa Tryggingastofnunar ríkisins. Annað mál er, hvort þetta þykir fýsileg lausn. Að þessu máli verður að vinna miklu betur áður en hægt verður að taka afstöðu til þess, hvað þá að leggja fram frv. Ekki er ætlunin með þessum breytingum, sem hér liggja frammi, að hrófla neitt við því kerfi, sem þegar er til, heldur er hér aðeins um ábendingar um hugsanlega lausn að ræða.

Margt af því, sem ég hef þegar tíundað hér, hefur nefndin fjallað um og lagt til að sumu verði breytt með þessu lagafrv. Skal nú leitast við að gera grein fyrir þeim breytingum, sem frv. þessu er ætlað að hafa í för með sér, á lögum um almannatryggingar.

Eins og þjóðfélagsháttum er nú komið fara fæðingar, með örfáum undantekningum, fram á fæðingarstofnunum, en núgildandi reglur eru miðaðar við að heimafæðingar séu allmargar. Er löngu orðið tímabært að aðhæfa reglurnar breyttum tímum. Því er lagt til að greitt verði fyrir fæðingarvist á stofnunum eftir sömu reglum og sjúkrahúsvist, en fæðingarstyrkur verði þá ekki greiddur. Hins vegar er gert ráð fyrir, að greidd verði ljósmóðurhjálp við heimafæðingar og að auki styrkur, er nemi fjárhæð sjúkradagpeninga í 10 daga, með hliðsjón af þörf fyrir aukna heimilisaðstoð þann tíma. Vísast nánar um þetta til 5. gr. frv., sbr. f-lið 43. gr. gildandi laga.

Í 39. gr. gildandi laga er kveðið á um hlutverk sjúkratryggingadeildar Tryggingastofnunarinnar. Lagt er til að lögfestar verði þær reglur, sem myndast hafa hjá tryggingaráði um framkvæmd b-liðar 39. gr., þannig að styrkir nái ekki eingöngu til greiðslna vegna hjálpartækja og æfingameðferðar, heldur einnig til styrkja til æfingameðferðar eða þjálfunar vegna afleiðinga alvarlegra, langvinnra sjúkdóma eða slysa. Jafnframt skal veita styrk til aðgerða hjá tannlækni umfram það sem 43. gr. nær til þegar um er að ræða meðfædda galla, svo sem klofinn góm eða meiri háttar tannvöntun. Gert er ráð fyrir að tryggingaráð geti sem áður sett reglur um greiðslu þessara styrkja. Hér er raunverulega ekki um annað að ræða en að lögfesta venja, sem tryggingaráð hefur mótað og farið eftir á undanförnum árum.

Lagt er til að stuttar biðtími, 6 vikur, fyrir réttindi hjá sjúkrasamlögum verði upp tekinn við flutning til landsins. Þessi biðtími á ekki að ná til þjónustu í skyndilegum veikindatilfellum. Eins og áður hefur verið rakið hér að framan, veita núgildandi reglur allt of auðveldan aðgang til misnotkunar. Hins vegar er lagt til að maður, sem flytur af landi brott eftir a. m. k. tveggja ára dvöl, haldi sjúkratryggingu sinni í 6 mánuði. Er þetta gert til þess að umþóttunartími gefist til að kynnast reglum og afla sér tryggingar á nýjum búsetustað. Hvað snertir flutninga til Norðurlands og frá þeim, þá hafa þessar breytingar engin áhrif vegna þeirra. samninga sem um þessi má1 gilda milli Norðurlandanna allra.

Einhver veigamesta breyting, sem lagt er til að gerð verði með frv. þessu, er breyting á 43. gr. gildandi almannatryggingalaga. Um breytingu á f-lið 43. gr. skírskotast til þess sem ég hef áður sagt. Gert er ráð fyrir viðbót er fjalli um ferðakostnað sjúklinga. Til þessa hefur verið óheimilt að greiða annan ferðakostnað sjúklinga en sjúkraflutninga til innlagningar í sjúkrahús í nánar afmörkuðum, bráðum tilfellum. Ætlast er til að þetta verði áfram aðalregla, fyrst og fremst vegna augljósra erfiðleika á að halda skýrum mörkum milli ferða, sem eru nauðsynlegar vegna þarfa fyrir sjúkrahjálp, og annarra, sem farnar eru meðfram og jafnvel aðallega í öðrum erindum. Einn hópur sjúklinga hefur þó sérstöðu að því leyti, að þörf fyrir ferð til lækninga verður hvað eftir annað og jafnvel óumdeilanlega brýn, svo að vart er undanfæri, hver sem kostnaðurinn er. Er þá yfirleitt um að ræða langvinna, stundum alvarlega sjúkdóma.

Ef taka ætti upp greiðslu ferðakostnaðar í slíkum tilvikum, er nauðsynlegt að afmarka þau skýrt. Því er valin sú aðferð að hafa hér opna leið sem hægt er að tryggja frekar með reglugerðarákvæði. Að öðru leyti er ekki lagt til að hróflað verði við núgildandi reglum að því leyti, þó að tekinn sé af vafi, sem valdið hefur mismunandi framkvæmd, og ákveðið að sjúkraflutningur innanbæjar skuli ekki greiddur. Ágreiningur hefur verið uppi um það, hvort greiddur skuli flutningur frá einu sjúkrahúsi í annað. Talið er eðlilegt að ákvörðun um slíkan flutning og kostnað af honum verði á einum og sama stað. Þess skal getið, að oftast mun það vera sjúkrahúsið sjálft, sem sendir sjúkling frá sér — eftir atvikum í samráði við sjúklinginn — sem ákvörðun tekur. Ekki er talið æskilegt að almannatryggingalög kveði á um skyldur sjúkrahúsa og er því látið nægja að vísa í greininni til þess, sem ákveðið kunni að verða í lögum um heilbrigðisþjónustu, en eins og þm. mun kunnugt hefur þegar verið mælt fyrir nýju frv. til l. um heilbrigðisþjónustu á þessu þingi.

Að lokum er lagt til í 5. gr. frv., um breytingar á 43. gr. gildandi laga, að ákvæði um frekari bætur en hinar lögákveðnu megi setja með reglugerð í stað samþykktar samlaga. Þetta hlýtur að teljast eðlilegt á meðan fjármögnun sjúkratrygginga er ekki gerbreytt í átt við það sem áður var, sbr. það sem ég áður greindi frá hér fyrr í ræðu minni. Jafnframt er sleppt ákvæði sem undanþiggur samlög greiðslu sjúkrakostnaðar er greiða beri samkv. sóttvarnalögum, og er það gert þar sem slíkt hefur enga þýðingu lengur.

Á árinu 1972 voru gerðar viðamiklar breytingar á lögum um almannatryggingar í þá átt, að teknar voru inn í almannatryggingalög greiðslur fyrir tannlæknaþjónustu miðað við viss skilyrði. Það er álit nefndarinnar, að þegar hafi myndast nokkur reynsla á þessu sviði, og leggur nefndin til, að 44. gr., sem fjallar um greiðslu fyrir tannlæknaþjónustu, verði breytt með hliðsjón af þeirri reynslu sem fengist hefur á undanförnum árum. Helstu breytingarnar eru þessar:

Lagt er til að neðra aldursmark barna, sem nú er 3 ár, verði fellt niður, en það hefur reynst óheppilegt. Enn fremur er gert ráð fyrir að þátttaka í tannlækningum barna 5 ára og yngri verði hækkuð úr 50% í 75%. Er þetta gert til þess að reyna að koma í veg fyrir að hinn mikli munur á greiðslum vegna 6 ára barna og yngri valdi skaða með hliðsjón af drætti á tannlækningum yngstu barna. Að mati tannlækna er hér um brýnt hollustumál að ræða.

Fyrir börn og unglinga á aldrinum 6 –15 ára hafa hvers konar tannlækningar verið greiddar að fullu, þ. e. a. s. að hálfu af sjúkrasamlögum, en að hálfu af sveitarfélögum. Er þetta eini hópurinn sem rétt hefur átt til nokkurrar þátttöku í hinum dýrustu tannaðgerðum, svo sem krónum, brúm og gullfyllingum. Þetta hefur í mörgum tilvikum leitt til geysilegs kostnaðar og er dæmi um kostnað allt upp í 2 millj. fyrir einstakling. Þykir ástæðulaust og reyndar óviðunandi að ákvarðanir um slíka fjárfestingu séu teknar án nokkurrar íhlutunar greiðsluaðila. Í þessu tilviki er um tvo valkosti að ræða, annaðhvort að áskilja samþykki trygginganna, þ. e. a. s. trúnaðartannlæknis, áður en til aðgerða kemur, eða láta hina tryggðu sjálfa taka þátt í kostnaðinum. Nefndin mælir með síðari kostinum, enda eru augljósir erfiðleikar á framkvæmd þess fyrri. Verður þátttaka hinna tryggðu samkv. frvgr. 25% kostnaðarins. Hvað snertir almennar tannlækningar fyrir þennan hóp er ekki ætlunin að breyta neinu.

Tannréttingar skal eftir gildandi lögum greiða að fullu að 16 ára aldri, en að hálfu fyrir l6 ára aldurshópinn og ekki fyrir eldra fólk. Þessi ákvæði hafa verið óvirk að mestu, þar sem sérfræðingar í tannréttingum hafa verið ófáanlegir til að starfa á samningi. Sú ástæða hefur verið tilfærð, að kostnaðarþátttaka sjúklings sé mikilvæg til þess að hann fáist til nægilega góðrar samvinnu um meðferð. Sömuleiðis hafa sérfræðingar bent á að það hafi óheppileg áhrif, að greiðslur breytist eða falli niður á tilteknum afmælisdögum án tillits til þess hvað meðferð líður, en hún stendur oft í meira en eitt og jafnvel upp í tvö ár. Með hliðsjón af þessu er lagt til að tannréttingar greiðist að 3/4 hlutum og það í lok meðferðarinnar, enda hafi hún hafist áður en sjúklingurinn varð 17 ára. Með þessu er talið að gengið sé til móts við röksemdir tannréttingasérfræðinga með von um að þá verði ákvæðin virk.

Enn fremur er gert ráð fyrir því hvað snertir breytingar á 44. gr., að heimila megi þátttöku í tannlæknakostnaði 17–18 ára unglinga samkv. fyrir fram gefnu samþykki, þegar rétt er talið að fresta nauðsynlegri aðgerð, m. a. til þess að fullum vexti verði náð.

Einnig er gert ráð fyrir því, að heimilt verði samkv. reglum, settum af tryggingaráði, að hækka greiðslur vegna elli- og örorkulífeyrisþega svo og fyrir vangefna. Er þetta fyrst og fremst gert með það fyrir augum, að það fólk geti haft fjárhagslegt bolmagn til þess að gangast undir slíkar aðgerðir.

Að lokum er lagt til að felldar verði niður greiðslur tannlækninga fyrir vanfærar konur. Það er að heita ágreiningslítið álit tannlækna, að ekki séu nægjanleg rök til slíkra greiðslna og að þær geti jafnvel haft óæskilegar verkanir, auk þess sem vissar grunsemdir hafa vaknað um að þær séu misnotaðar.

Þær breytingar, sem nefndin leggur til að gerðar verði í sambandi við tannlæknaþjónustuna, eiga ekki að valda neinum kostnaðarauka svo að heitið geti, þar sem bæði verður um hækkanir greiðslna að ræða og lækkanir. Er ekki ólíklegt að þær jafnist nokkuð upp, nema hvað tannréttingar munu valda kostnaðarauka ef breytingar verða þess valdandi að sérfræðingar í tannréttingum fari að starfa samkv. samningi og samlögin greiði þær eins og gildandi lög gera reyndar ráð fyrir.

Lagt er til, að 45. gr. laganna, sem fjallar um sjúkradagpeninga, verði breytt allverulega. Núgildandi reglur hafa reynst erfiðar í framkvæmd og hefur þar miklu valdið að fjárhæð dagpeninga hefur verið jafnhá, hvort sem hinn sjúki hefur misst tekjur af fullu starfi, af minna starfi eða ekki orðið fyrir neinum beinum tekjumissi af því að niðurfellt starf var ólaunað, t. d. störf að heimilishaldi. Það hefur svo verið afleiðing af þessum reglum, að þau störf, sem eru grundvöllur fulls dagpeningaréttar, útiloka dagpeningarétt ef þau eru unnin. Hvað þetta snertir er lögð til sú aðalbreyting, að meira samband en áður verði milli þess vinnumagns, sem niður er fellt, sem og þess, hvort niðurfellingin hefur bein áhrif á tekjur eða gjöld annars vegar og dagpeningarétt hins vegar. Hvað þetta snertir vísast nánar til aths. með 7. gr. frv.

Lagt er til það nýmæli, að heimilt verði að greiða sjúklingi í afturbata hluta af dagpeningum um tíma þótt hann taki upp allt að hálfu starfi.

Felldar hafa verið inn í greinina bætur á dagpeningaákvæðum, sem felast í slysatryggingafrv. sem lagt var fram hér fyrir áramót. Hinar tilgreindu dagpeningafjárhæðir eru jafnar slysadagpeningum eins og þeir eru í marsmánuði á þessu ári. Í aths. við slysatryggingafrv. var gerð grein fyrir áætlaðri aukningu útgjalda til sjúkradagpeninga vegna þeirra breytinga er í því frv. fólust. Hið nýja ákvæði meðfylgjandi frv. um greiðslu ferðakostnaðar sjúklinga mun að sjálfsögðu hafa í för með sér aukin útgjöld sem á þessari stundu er erfitt að reikna nákvæmlega. Fullyrða má að útgjaldaaukning samkv. frv. verði mjög lítil í hlutfalli við heildarútgjöld sjúkratrygginga. Um er að ræða nokkrar tilfærslur útgjalda frá lífeyristryggingum til sjúkratrygginga er fæðingarstyrkur fellur niður sem sjálfstæð bótategund.

Að svo stöddu sé ég ekki ástæðu til þess að fjalla frekar um efnisatriði frv., en ég vil geta þess, að fulltrúar Alþfl., Alþb. og SF hafa sett fram nokkrar brtt. umfram þær till. sem nefndin í heild lagði til. Þær brtt. þessara flokka verða að sjálfsögðu sendar n. sem fær frv. til meðferðar.

Hæstv. forseti. Ég legg mikla áherslu á það við hv. n., að hún sameini þessi tvö frv. um almannatryggingar í eitt frv., sem er mjög til hægðarauka fyrir okkur. En hins vegar er því ekki að leyna, að hér er ekki gerð till. um neinar breytingar á lífeyristryggingum, enda er það varla hægt vegna þeirrar miklu endurskoðunar sem þar á sér stað. Verður sennilega nokkuð enn að bíða, að liggi fyrir grg. frá þeirri stóru og mannmörgu nefnd, sem fjallar um endurskoðun lífeyrissjóða og lífeyrisreglna.

Ég legg svo til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.