24.04.1978
Efri deild: 85. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3828 í B-deild Alþingistíðinda. (2973)

170. mál, Þjóðleikhús

Frsm. (Axel Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef fáu við þau orð að bæta sem ég lét falla fyrr á þessum fundi. Ég vil taka undir með 1. landsk. þm., að menntmn. þessarar hv. d. hefur eins og hann tók fram, haft allmikinn tíma til þess að hugleiða þetta mál. Það er því alls ekki um það að ræða, að nein fljótaskrift sé á afgreiðslu þess.

Eins og ég tók fram og komið hefur fram hjá fleirum, þá komu ákveðnar óskir um breytingar sem n. sá sér ekki fært að verða við. Ég tek undir það, að það hlýtur að gilda nokkuð annað um Þjóðleikhús heldur en leikhús sem er sjálfseignarstofnun. Ég tel, að við séum að feta okkur áfram á þessari braut, og tek undir það, sem sagt hefur verið, að mikil nauðsyn væri á að lög um Þjóðleikhús yrðu afgreidd nú þrátt fyrir það að ýmsum þyki að þau mættu vera betur úr garði gerð, þá er þó margt í eldri lögum sem nauðsynlegt er að verði breytt og fært til samræmis við breytta tíma.

Varðandi áhrif starfsmanna á fyrirkomulag og rekstur vil ég aðeins bæta því við það sem ég sagði áður, herra forseti, að í 20. gr. frv. er gert ráð fyrir að menntmrn. setji í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga. Hæstv. menntmrh. hefur lýst því yfir í umr. á hv. Alþ., að vilji hans sé að nota einmitt þetta ákvæði til þess að gera Starfsmannafélagið virkara að innanhússtjórn — ef svo mætti segja — í þessari stofnun.

Ég sé svo ekki ástæðu, herra forseti, til þess að fara um þetta fleiri orðum, en tek undir það sem hér hefur verið sagt, að það er þó einróma álit allra, að mikil nauðsyn sé að fá fram þessa lagabreytingu, þó að ýmsir vildu gjarnan hafa hana í öðru formi.