02.11.1977
Efri deild: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

36. mál, stjórnarskipunarlög

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls um þetta frv. við þessa umr„ en umræður hafa nú eigi að síður hneigst í þá átt að ég kann því ekki að láta ekki heyrast frá mér hljóð um þetta efni sem ég læt mig nokkru skipta. En ég verð því miður að hryggja hv. 1. flm. þess, hv. 5. þm. Norðurl. v„ með því, að ég mun ekki vera í þeim trausta þingmeirihl. sem hann hyggur að hann eigi með þessu frv.

Hv. þm. taldi í sinni síðustu ræðu að formlegur eignarréttur afréttarlandanna væri miklu betur kominn í höndum þjóðarinnar allrar heldur en skipan haldist með þeim hætti sem verið hefur að undanförnu og sveitarstjórnarmenn og bændur hafa yfirleitt viljað leggja áherslu á. Ég er þeirrar skoðunar, að menn stjórni málum best þar sem þeir eru á vettvangi og erfiðara sé fyrir þá, sem eiga heima fjarri þeim slóðum sem ráðstafa skal, að stjórna þeim svo að af viti sé. En ég viðurkenni að það er mikill bagi, að lögfræðingar hafa tekið upp þrætu um hver væri hin eðlilega staða og löglega staða varðandi eignarrétt afréttanna. Og mig furðar á því, sem stendur í grg. með frv„ sem ég efa ekki að er rétt tekið upp úr forsendum dóms Hæstaréttar, þar sem sagt er um mál Landmannaafréttar og Holtamannaafréttar: „Hæstiréttur komst einróma að gagnstæðri niðurstöðu við undirrétt og taldi að ekki hefðu verið leiddar sönnur að því, að Landmanna- og Holtamannahreppur hefðu öðlast eignarrétt að afréttinum, hvorki fyrir nám, löggerninga, hefð né með öðrum bætti.“ Ég skal ekki segja að þeir hafi öðlast eignarrétt á af réttinum fyrir hefð. En á það vil ég benda, að það munu vera 60–70 ár síðan sveitarstjórnir þessar, sem töldu sig eiga umráð yfir þessum afréttum, afhentu með kaupgerningi eða sölusamningi landssvæði á þessum afréttarlöndum, og það var ekki vefengt af stjórnvöldum ríkisins. Alveg sami háttur var á hafður um sölu á afréttarlandi Gnúpverjahrepps í Árnessýslu, og var ekki einungis að það væri látið óátalið af umboðsmönnum ríkisvaldsins, heldur var einn af hæstaréttardómurunum fenginn til þess að skrifa á kaupsamninginn að hann teldi hann vera með eðlilegum hætti. Mig furðar á því, ef það er rétt, að Hæstiréttur segir hér að um hefð gæti ekki verið að ræða í þessu efni.

Ég tel ekki ástæðu til þess að svo komnu máli að halda um þetta langa ræðu, en ég get ekki lýst yfir ánægju minni með frv„ það sé gott og muni leiða til farsældar fyrir alþjóð. Ég veit ekki betur en öllum almenningi séu opin afréttarlöndin til umferðar eftir því sem hann óskar og mundi með þessum hætti engan frekari rétt öðlast. (RA: Það eru verðmæti í jörðu.) Já, það er einmitt það sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson, 2. þm. Vestf., sagði áðan að nú væri frv. komið niður á jörðina, en það er náttúrlega komið niður í hana og það veit ég ekki hvort er nokkuð til bóta. Ég ætla ekki að lýsa ánægju minni yfir því, að frv. er fram komið, að öðru leyti en því, að það getur verið gott að taka upp öðru hverju umr. og rökræður um þessi mál. En ég hafði haldið að það væri ekki langt síðan þær fóru síðast fram og væri óhætt að bíða með það í bili. En ég er tilbúinn ef áfram verður haldið.