24.04.1978
Neðri deild: 81. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3844 í B-deild Alþingistíðinda. (3002)

241. mál, manneldisráð

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Hæstv. forseti. Til manneldisráðs var upphaflega stofnað á árinu 1939, en þá fól dóms- og kirkjumrn. 7 manna nefnd, að rannsaka mataræði landsmanna. Ráðið skilaði af sér störfum árið 1944, en þá lágu fyrir niðurstöður rannsókna í sérstakri bók sem framkvæmdastjóri ráðsins, dr. Júlíus Sigurjónsson, síðar prófessor, hafði tekið saman. Kom í ljós að mataræði landsmanna var á margan hátt mjög ábótavant, sérstaklega skorti vítamín í fæðuna.

Manneldisráð gerði það að till. sinni, að sett yrði á laggirnar sérstakt ráð kunnáttumanna til þess að vera heilbrigðisstjórninni til ráðuneytis um ýmis mál er vörðuðu manneldi. Var landlækni falið að semja frv. til laga um þetta efni í samráði við læknadeild Háskóla Íslands. Það frv. varð að lögum snemma árs 1945 og hafa þau lög verið í gildi síðan.

Samkvæmt þessum lögum eiga sæti í manneldisráði auk landlæknis, sem er lögskipaður forseti ráðsins, 4 læknar er ráðh. skipar til 5 ára í senn. En samkvæmt þessu frv. er gerð sú breyting á manneldisráði, að í því eigi sæti 5 menn, sem ráðh. skipar til fjögurra ára í senn, og 5 til vara. Þessari grein breytti Ed. á þann veg, að í manneldisráði eigi sæti 5 menn, er ráðh. skipar til fjögurra ára í senn. Skal skipa einn ráðsmanna samkvæmt tilnefningu læknadeildar Háskóla Íslands, annan samkvæmt tilnefningu verkfræði- og raunvísindadeildar Háskóla Íslands, en hina þrjá án tilnefningar. Skipa skal 5 varamenn með sama hætti. Til setu í ráðinu skal skipa menn með sérþekkingu í manneldismálum. Þessi breyting var gerð með samhljóða atkvæðum í Ed. Ég fyrir mitt leyti féllst á þessa breytingu og legg til eindregið að við henni verði orðið hér í þessari hv. þd.

Á þeim tíma sem lög um manneldisráð voru sett var matvælaframleiðsla fremur einföld í sniðum og algengustu neyslumatvæli skiptu tugum frekar en hundruðum. Nú er þessum málum á annan hátt farið. Framleiðsluhættir á matvælasviðinu eru miklu flóknari nú en þeir voru fyrir 30 árum. Skipta algengustu neyslumatvæli hundruðum og eiga þar innfluttar vörur stóran hlut að máli. Tekin hefur verið upp kennsla í ýmsum æðri skólum í manneldis- og matvælafræðum. Í landinu starfa nú þegar nokkrir sérfræðingar á sviði manneldisfræði, matvælafræði, matreiðslu o. s. frv. Á læknasviðinu hafa einnig orðið umtalsverðar breytingar með aukinni áherslu á manneldisfræði og skyld fræði innan læknadeildar Háskóla Íslands og reyndar annarra háskóla á þessu sviði í nágrannalöndunum.

Nú er það svo, að æ verður ljósara að milli mataræðis og heilsufars eru mikil tengsl. Með hliðsjón af þessu telur heilbr.- og trmrn. nauðsyn á áframhaldandi starfi manneldisráðs, en að taka beri tillit til breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu og þess vegna þurfi að breyta lögum um manneldisráð og færa þau í raunhæfara form. Þess vegna skipaði heilbr.- og trmrn. snemma á s. l. sumri nefnd, sem áttu sæti í dr. Jón Óttar Ragnarsson matvælaefnafræðingur, Ólafur Ólafsson landlæknir og Vigdís Jónsdóttir skólastjóri, til þess að endurskoða gildandi lög um manneldisráð. Nefndin skilaði áliti snemma, í lok fyrsta mánaðar þessa árs, og frv. það, sem hér liggur fyrir til umr., er að verulegu leyti byggt á till. þeirrar nefndar.

Hæstv. forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.