24.04.1978
Neðri deild: 81. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3845 í B-deild Alþingistíðinda. (3004)

276. mál, vöruhappdrætti Sambands íslenskra berklasjúklinga

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Í þessu frv. felst heimild til þess að framlengja megi vöruhappdrættisleyfi Sambands ísl. berklasjúklinga um 10 ár, þ. e. a. s. til ársloka 1989.

Þetta leyfi var fyrst veitt 1949 og hefur svo verið framlengt á 10 ára fresti. Hagnaður af þessu happdrætti fer til þess að standa undir byggingarframkvæmdum og starfrækslu Reykjalundar og Múlalundar og auk þess annarri starfsemi á vegum þessara samtaka sem ríkisstj. samþykktir. Það þarf ekki að fjölyrða um þessa starfsemi og hversu mikilvæg hún hefur verið, en það fylgdi með nokkuð ítarleg grg. frá stjórn sambandsins um fyrirhugaðar framkvæmdir og lýsing á starfseminni. Þá grg. afhenti ég formanni viðkomandi n. Ed., og ég geri ráð fyrir því, að viðkomandi n. hér í d. geti fengið það til meðferðar. Þetta frv. fór athugasemdalaust í gegnum Ed.

Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.