24.04.1978
Neðri deild: 82. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3852 í B-deild Alþingistíðinda. (3015)

200. mál, sala eyðijarðanna Kroppsstaða og Efstabóls í Mosvallahreppi

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Mig langar til að segja nokkur orð vegna þess frv. sem hér er til umr. Ég held að nauðsynlegt sé að víkja örfáum orðum að málinu eins og það blasir við mér a. m. k. og ég hygg að það blasi almennt við heimamönnum á þessu svæði.

Hér er um það að ræða, að ríkisstj. verði heimilað — frv. gengur út á það — að selja Bjarna Kristinssyni eyðijarðirnar Kroppsstaði og Efstaból í Mosvallahreppi. Nú er það svo, eins og fram kom í framsögu hv. þm. Pálma Jónssonar fyrir nál. landbn., að ekki er um það að ræða að Bjarni Kristinsson eigi Kirkjuból. Í öðru lagi er það svo, að bóndinn á Veðrará í Önundarfirði, Jón Guðjónsson, hefur á leigu hluta af landi Kroppsstaða og er með leigusamning til ársins 1981. Ég held að nauðsynlegt sé að hugleiða aðeins frekar hvernig þessu er varið. Nú er það upplýst að bestu manna vitund, að býlið Veðrará, sem Jón Guðjónsson hefur búið á og býr á, mun ekki bera að búgildi nema um tæplega hálft vísitölubú eða í kringum hálft vísitölubú, — ég skal ekki fara nákvæmlega með það. En land Kirkjubóls, landið sem því búi fylgir nú án þess að það yrði nokkuð víkkað út, er nær því að geta borið tvöfalt vísitölubú. Ef þetta frv. verður samþ. og hæstv. ríkisstj. fer eftir þeirri samþykkt, þá tel ég alveg fullvíst að þetta yrði til þess, ef þessi jörð; t. d. Kroppsstaðajörð, yrði seld núverandi bónda á Kirkjubóli og lögð þar með undir Kirkjuból, þá yrði það til þess að hrekja frá búskap bóndann á Veðrará, Jón Guðjónsson, a. m. k. mundi hann hætta mjólkurbúskap sem hann nú hefur nokkurn. Og slíkt væri neikvætt ef gerð yrði þessi ráðstöfun. Það þarf miklu fremur að stuðla að auknum kúabúskap og mjólkurframleiðslu á þessu svæði en beinlínis gera ráðstafanir til að draga úr slíku, þ. e. a. s. að ríkisvaldið gerði beinlínis ráðstafanir til þess að draga úr kúabúskap og mjólkurframleiðslu á þessu svæði.

Nú er það einnig ljóst, að fengnum upplýsingum hjá bóndanum Jóni Guðjónssyni á Veðrará, að hann hefur í hyggju að festa kaup á bæði Kroppsstaðalandi og Efstabóli. Ég held því, a. m. k. er það að mínu viti þess eðlis, að ekki sé ástæða til þess síður en svo — að þetta frv. fái afgreiðslu á þessu þingi.

Ég held einnig, án þess að ég vilji um það fullyrða, að ýmislegt hafi komið upp heima fyrir, eftir að jarðanefnd og hreppsnefnd Mosvallahrepps veittu umsagnir sínar, sem gæfi tilefni til þess að endurskoða þetta mál. Það er greinilegt á fskj., sem prentuð eru með frv., þ. e. a. s. fskj. I og fskj. II, að um þetta er ágreiningur heima fyrir. Að vísu verð ég að viðurkenna að ég skil ekki fullkomlega það orðalag sem er í fskj. I, þar sem segir: „Hreppsnefnd Mosvallahrepps hefur samþykkt með samhljóða meiri hl.“ Ef ekkert mótatkvæði hefur verið gegn þessari ákvörðun, þá er einungis um að ræða að málið hafi verið samþykkt samhljóða, en ekki með samhljóða meiri hl. Þetta orðalag gefur því til kynna að ágreiningur hafi verið um málið í hreppsnefndinni, eða ég skil það a. m. k. svo. En auðvitað leiðrétta mér snjallari menn í fundarsköpum og orðavali þetta hér á eftir ef ég misskil þetta orðalag.

Sama er að segja um fskj. II. Þar stendur að meiri hl. jarðanefndar Vestur-Ísafjarðarsýslu hafi samþykkt kaup Bjarna Kristinssonar á jörðunum Efstahóli og Kroppsstöðum í Mosvallahreppi. Þannig er engin samstaða um þetta mál heima fyrir.

Þó að ég vilji á engan hátt leggja stein í götu þess, að umræddur bóndi á Kirkjubóli geti byggt upp aðstöðu sína og búskap sinn með þeim hætti sem hann telur skynsamlegastan, þá fullyrði ég að það er síður en svo, að nokkur samstaða sé um þetta mál í heimabyggðinni. Og meðan málin eru þannig vaxin, að bóndinn á Kirkjubóli hefur til umráða nú þegar það land sem fylgir Kirkjubóli og nægir til að framfleyta allt að tveimur vísitölubúum, þá sé ég ekki ástæðu til að gera til þess sérstakar ráðstafanir að landsvæði hans verði sérstaklega stækkað með það fyrir augum að taka hluta af því jarðnæði sem bóndinn á Veðrará hefur nýtt á undanförnum árum. Ég held að ef farið yrði eftir þessari ákvörðun, sem mér skildist á frsm. n. að hann teldi sjálfsagt, og hæstv. ríkisstj. framkvæmdi þessa samþykkt og söluheimild, ef að lögum yrði, þá yrði það til þess að hrekja annan bóndann frá búi. En það er ekkert sem bendir til annars en að miðað við óbreytt ástand geti báðir þessir einstaklingar haldið áfram búskap eins og mál horfa nú.

Ég held að það sé full ástæða til þess að flana ekki að neinu í þessu máli. Full ástæða er til þess að athuga það betur, því að það er ekkert sem kallar sérstaklega á nú að af þessu verði, nema þá það verði til þess, sem allt bendir til, að bóndinn á Veðrará verði a. m. k. að verulegu leyti að bregða búi.

Það kom fram í máli frsm. landbn., hv. þm. Pálma Jónssyni, að rn. er andvígt þessari sölu, a. m. k. eins og málum er nú háttað — það er neikvætt. Og mér skildist að Landnámið segði hvorki já né nei. Mér sýnist því allt benda til þess, að til þess sé full ástæða, þar sem ekkert knýr á um samþykkt þessa máls á þessu þingi, að lesa þetta ofan í kjölinn með tilliti til þess, að ýmislegt hefur komið fram og komið upp, eftir að umsagnir fengust um málið, sem gefur tilefni til þess að það væri athugað betur. Og það kæmi mér ekki á óvart þó að einhverjir nm. í landbn. væru frekar á því og frekast kannske, að þetta mál bæri að íhuga betur en gert hefur verið. En fari svo að þetta mál komi hér til afgreiðslu, þá vil ég lýsa þeirri skoðun minni, að ég mun greiða atkv. gegn þessu frv. og byggja á því sem ég hef hér sagt, sem sagt því, að það er ekkert sem knýr á um að gera út um þetta nú. Verði það gert, eins og málum er nú háttað, þá bendir allt til þess að framkvæmdin stuðli að því, að mjólkurframleiðsla á þessu svæði minnki, en að mínu viti þarf að stefna að því, að hún vaxi. Það stefnir líka að því, að bóndi, sem haft hefur með höndum búskap í Önundarfirði um a. m. k. nokkurt árabil, verði að bregða búi vegna þessarar ráðstöfunar, en báðir þessir bændur gætu haldið með eðlilegum hætti áfram búskap að óbreyttum aðstæðum.

Ég endurtek það því, að ég tel fullkomlega eðlilegt, miðað við það sem fram hefur komið, eins og málinu er nú háttað, að það yrði ekki afgreitt á þessu þingi. En verði svo, að það verði knúið í gegnum þingið á síðustu dögum þingsins, þá mun ég greiða atkv. gegn þessu frv.