24.04.1978
Neðri deild: 82. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3854 í B-deild Alþingistíðinda. (3016)

200. mál, sala eyðijarðanna Kroppsstaða og Efstabóls í Mosvallahreppi

Gunnlaugur Finnsson:

Hæstv. forseti. Mér þótti hlýða að ég gerði grein fyrir viðhorfi mínu til þessa máls nú við 2. umr. Að vísu kom það fram hjá hv. frsm. n., hvernig þessum málum er háttað og hver niðurstaða landbn. og Landnáms ríkisins varð. Hv. síðasti ræðumaður í þessu máli, hv. 5. þm. Vestf., bætti þar nokkru við, en þó gætti þar eins mjög veigamikils misskilnings, þar sem það kom fram í ræðu hans, að Kirkjuból bæri u. þ. b. tvöfalt vísitölubú. Hér er mjög ranglega með farið. Hins vegar hef ég heyrt talað um að ef þessar jarðir þrjár yrðu sameinaðar, þá kynni svo að fara að þær allar sameinaðar með ræktunarmöguleikum á svokölluðum eyrum eða engjum kynnu að gefa möguleika til þess. Þetta vil ég leiðrétta, því það er rétt að það komi fram sem réttast er.

Ég vil þá segja að það er ýmislegt sem kann að mæla með því, að þessar jarðir verði sameinaðar. Það er skoðun mín. En ég tel hins vegar að málið hafi enn ekki fengið þann undirbúning og þá vinnu skipulagslega séð sem það hefði þurft að fá áður en endanleg ákvörðun var tekin.

Ég tek undir það, sem kemur fram í umsögn Landnáms ríkisins, sem raunar komst ekki að endanlegri niðurstöðu, að hér er verið að breyta því búskaparmynstri sem fyrir er í sveitinni. Hér er dýrmætt að halda í hvern ábúanda, þar sem um mörg ár hefur verið um fólksflótta að ræða. En þróun hefur snúið nú á hinn betri veg. Þess vegna er það einmitt ábyrgðarhluti fyrir sveitarstjórn og jarðanefnd, að hún athugi alla þætti þessa máls, svo að vel megi fara og einn þurfi ekki að hrekjast í burt fyrir það að annar kemur og e. t. v. hyrfu svo báðir af vettvangi.

Af þessum ástæðum, sem ég hér nefni, — ég sé ýmislegt jákvætt og eðlilegt við það og nauðsynlegt raunar að aukið sé við jarðnæði Kirkjubóls, — þá tel ég mig að svo komnu ekki reiðubúinn til þess að standa að samþykkt þessa frv. En ég vil ekki heldur leggjast gegn því með því að greiða atkv. á móti því, ef það mætti skilja svo að andstaða væri við þessa hugmynd þegar til framtíðar horfir. Ég vil aðeins leyfa mér að láta það í ljós, að ég lít svo á, ef Alþ. samþ. þessa heimild til ríkisstj., að ég tel vera eðlilegt, áður en hún notar þessa heimild, að rn. beiti sér fyrir því, að lausn verði fengin á þessu máli í heild.

Það hefur verið rakið hér af öðrum ræðumönnum, hvernig eignarhaldi er háttað. Það kann að koma upp önnur staða ef Bjarni Kristinsson, sem ábúandi er á Kirkjubóli nú, verður eigandi þeirrar jarðar, en ég verð að segja það eins og er, að mér þætti að ýmsu leyti eðlilegt að á meðan svo er ekki yrði um ábúð að ræða, að sjálfsögðu með ákveðnum tryggingum, þannig að búskaparáætlanir hans þurfi ekki að raskast vegna þess að hann verði sviptur jarðnæði, svo sem nú blasir við að hinu leytinu í títt umræddum búskap á Veðrará.

Þetta vildi ég, virðulegi forseti, láta koma fram, ástæðuna fyrir því af minni hálfu, að ég mun sitja hjá þegar frv. þetta verður borið undir atkv.