24.04.1978
Neðri deild: 82. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3859 í B-deild Alþingistíðinda. (3020)

200. mál, sala eyðijarðanna Kroppsstaða og Efstabóls í Mosvallahreppi

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Eins og fram kemur í grg. með þessu frv., fylgja því meðmæli frá þeim aðilum heima í héraði, sem um slík mál eiga að fjalla. Í fyrsta lagi er samþykkt frá hreppsnefnd Mosvallahrepps, undirrituð af Guðmundi Inga Kristjánssyni oddvita, og ég vil taka það fram, sem ég vænti að fram hafi komið, að hreppsnefndin gerði þessa samþykkt ekki aðeins með samhljóða meiri hl. atkv., heldur einnig án mótatkv., þannig að meðmæli hreppsnefndarinnar eru án mótatkvæða. Í fskj. II kemur einnig fram að hinn umsagnaraðilinn heima fyrir sem um málið á að fjalla, jarðanefnd Vestur-Ísafjarðarsýslu, hefur mælt með samþykkt þessa frv. Ég vil láta það koma fram, að sá meiri hl. samþ. það mótatkvæðalaust, þannig að þeir tveir aðilar heima í héraði, sem um þessi mál eiga að fjalla lögum samkv., hafa báðir mælt með því, að frv. þetta næði fram að ganga, og þeir minni hl., sem í báðum n. hafa verið, jarðanefnd og hreppsnefnd, sátu hjá þegar um málið var fjallað; en greiddu ekki atkv. gegn því.

Í annan stað vil ég einnig láta það koma fram, að mjög vafasamt er að leigusamningur sá á jörðunum Efstabóli og Kroppsstöðum, sem heimilað hefur nytjar á þeim, sé í gildi einfaldlega vegna þess að neðst í þeim leigusamningi segir, að hann öðlist ekki gildi fyrr en hreppsstjórn Mosvallahrepps hafi áritað samninginn. Af einhverjum ástæðum hefur hreppsstjórn Mosvallahrepps aldrei áritað þennan samning, þannig að því atriði til þess að hann hljóti gildi hefur ekki verið framfylgt. Ég vil ekkert um það fullyrða, hvort það stendur í vegi fyrir gildistöku þess leigumála sem gerður var um leigu á jörðunum Efstaból og Kroppsstöðum, en hins vegar liggur ljóst fyrir, að af einhverjum ástæðum hefur sá heimaaðili, sem átti að fullgilda samninginn, aldrei gert það, hvort sem það hefur verið vegna þess, að sá aðili vildi ekki fullgilda samninginn, eða vegna þess, að ekki var eftir því leitað.

Í þriðja lagi vil ég taka fram, að hreppsnefnd Mosvallahrepps gerði fyrir ári tilraun til þess að útvega þeim bónda, sem ætlað er að svipta jarðnytjum, ef frv. þetta verður samþ., slægjuland nær jörð hans. Því tilboði, sem gert var af hreppsnefnd Mosvallahrepps í því skyni, var hafnað, að því er okkur þm. er tjáð.

Í fjórða lagi vil ég taka fram, að hér er um að ræða heimild fyrir ríkisstj. til þess að selja þessar eyðijarðir tvær. Það er að sjálfsögðu á valdi ráðh., hvenær þessi heimild verður notuð. Með því að samþ. þetta frv. er Alþ. aðeins að lýsa yfir vilja sínum um að þetta verði gert, þ. e. a. s. það er að lýsa því yfir, að stefna beri að því að selja bóndanum Bjarna Kristinssyni eyðijarðirnar sem um er að ræða, þannig að bóndi þessi geti gengið út frá því að fá þessar jarðir keyptar. Hins vegar eru mér fyllilega ljós og okkur, sem að þessu frv. stöndum, vandkvæði þess bónda sem þar mundi missa jarðnytjar. Við teljum að það eigi að leitast við heima fyrir og væntanlega ekki síður fyrir forgöngu hæstv. ráðh. að ná samkomulagi við bóndann sem hann gæti við unað. Við teljum að það sé vilji fyrir því hjá hreppsnefnd að beita sér fyrir slíku samkomulagi og ekki síður hjá hæstv. ráðh. og því sé rétt að samþ. þetta frv., samþ. þá stefnu, sem í því felst, að Bjarna Kristinssyni verði seldar þessar eyðijarðir tvær, jafnframt því sem við leggjum áherslu á það, að heimaaðilar, sem hafa ríkan áhuga á því, og hæstv. ráðh., sem hefur áhuga á því einnig, beiti sér fyrir því að leita samkomulags við þann bónda, sem þarna missir jarðnytjar, um að fá honum jarðnæði annars staðar, sem vissulega er unnt. Og ég þarf ekki að taka fram, að að sjálfsögðu erum við flm. þessa frv. reiðubúnir til þess að leggja fram okkar skerf til að auðvelda og greiða fyrir að slíkt samkomulag geti tekist.