24.04.1978
Neðri deild: 82. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3863 í B-deild Alþingistíðinda. (3022)

200. mál, sala eyðijarðanna Kroppsstaða og Efstabóls í Mosvallahreppi

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Það, að ég kveð mér hljóðs aftur við þessa umr., sem ég hafði ekki hugsað mér að gera, stafar af því, að mér þótti rétt að gera tvær aths. við ræður tveggja flm. frv. sem hér hafa talað.

Annars vegar er aths. varðandi vefengingu á gildi þess samnings, sem Jón Guðjónsson á Veðrará hefur við rn., sem kom fram í ræðu hv. 8. landsk. þm. Mér er ekki fullkunnugt um það, hvort sömu ákvæði gilda, þegar jörð er byggð einhverjum ákveðnum manni, um uppáritun hreppsnefndar og e. t. v. jarðanefndar, hvort sömu ákvæða er krafist þegar jarðir eru leigðar til skemmri tíma. En allt um það hefur rn. viðurkennt samninginn í reynd með því að taka á móti árlegum greiðslum vegna afnota af jörðinni samkv. samningi. Þá kemur það líka fram sérstaklega í umsögn landbrn., þar sem segir — hún er undirrituð af Gísla Brynjólfssyni: „þar sem Kirkjuból er komið aftur í byggð virðist ástæða til að leigja jarðir þessar Bjarna ef hann óskar þess þegar þær losna úr leigu.“ Þannig staðfestir rn. í þessari umsögn sinni að þær eru í leigu. Þetta atriði er því skýrt.

Annað var það sem mér fannst vera ástæða til að gera aths. við og hv. síðasti ræðumaður vék aðeins að. Það var nokkurn veginn nákvæmlega eins orðað hjá báðum ræðumönnum, að hreppsnefnd hefði boðið jarðnæði til leigu, en því hefði verið hafnað. Er varla hægt að skilja það öðruvísi en því hafi verið hafnað af bóndanum á Veðrará. Ég vil taka sérstaklega fram, að mér er kunnugt um að hann hefur ekki hafnað neinu slíku. En úr því að farið er að ræða þetta mál svo ítarlega, þá er rétt að geta þess, að hreppsnefnd gerði á s. l. ári tilraun til að sameina tvær nálægar jarðir Ytri-Veðrará. Þær eru báðar litlar. Þær voru ekki setnar allt árið, þær voru sem sagt ekki í ábúð. En eigendur þessara jarða voru þá báðir búsettir á Flateyri, sátu þar um það bil hálft árið, nytjuðu þar hlunnindi, en fluttu báðir lögheimili á jarðir sínar og teljast þess vegna nú ábúendur. Þess vegna er ekki grundvöllur fyrir því, að þarna sé um að ræða sameiningu.

Það er hér verið að spyrja beinlínis um það, hvort hægt sé að fá jarðnæði frá ári til árs. Það, sem gerir vandamálið fyrst og fremst flókið, er það sem ég drap á áðan, að ég vildi ekki að Bjarni Kristinsson kæmist í þá aðstöðu t. d. að verða að breyta búskaparáformum sínum. Bóndinn á Veðrará stendur frammi fyrir nákvæmlega því sama, að verða að breyta búskaparáformum sínum vegna þess að hann hefur ekki jarðnæði til frambúðar.

Í sambandi við þær deilur, sem hér hafa komið upp um það, hvort menn séu einhuga í þeirri afstöðu sem hreppsnefnd og jarðanefnd mótuðu hlýtur að sjálfsögðu að verða að viðurkenna að meiri hl. ræður. Sú umsögn segir til um það, hver vilji nefndarinnar er sem heildar. Hitt er líka rétt, að ekki eru menn alveg á sama máli u,n þessa hluti. Ég hygg að rétt sé að segja, að menn eru á sama máli um það, að þeir vildu margt til vinna að menn stæðu ekki upp af búum sínum vegna þess að þarna rekast á hagsmunir manna. Ég hygg að menn séu allir sammála um það. En hins vegar eru menn ekki sammála um það, hvort það hafi verið unnið að lausn þessa máls eftir réttum leiðum og teknar ákvarðanir á réttum tíma, hvort ekki hefði verið hægt að ná vænlegri árangri með því að taka málin skipulega fyrir í heild. Um það eru skiptar skoðanir, en ekki um hitt, að menn vilji allir á eitt leggjast um að viðhalda þessari búsetu. Þess vegna er afstaða mín eins og hún var áðan. Ég tel að þegar til lengri tíma er litið þurfi tvímælalaust að stækka það land sem bóndi á Kirkjubóli hefur til nytja. Ég tel líka að leysa þurfi hitt vandamálið í leiðinni. Ég vænti þess sem sagt, að rn. gangist fyrir því, að þetta mál verði leyst í heild áður en það notar heimild sem það e. t. v. kynni að fá hér á þinginu.