24.04.1978
Neðri deild: 82. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3866 í B-deild Alþingistíðinda. (3026)

288. mál, sala jarðarinnar Staðar í Suðureyrarhreppi

Flm. (Gunnlaugur Finnsson):

Hæstv. forseti. Ég flyt hér frv. til laga um heimild fyrir ríkisstj. til að selja jörðina Stað í Suðureyrahreppi. Það fylgir með tillgr., að söluverði jarðarinnar verði varið til þess að kaupa embættisbústað fyrir prest á Suðureyri. Nú er það að vísu svo, að Staður í Súgandafirði hefur verið þekkt prestssetur um aldir. Þar hafa margir merkir prestar setið. Þó hafa þær breytingar orðið á búsetu, að eðlilegra þykir að prestur í þessu prestakalli sitji á Suðureyri.

S. l. 5–6 ár hefur prestur ekki setið á Stað. Hann hefur setið á Suðureyri, þegar prestakallinu hefur ekki verið þjónað frá aðliggjandi sóknum. Jörðin hefur um langan aldur ekki verið nytjuð af presti allar götur síðan 1940, nema að mjög litlu leyti. Allan þennan tíma hefur Þórður Ágúst Ólafsson búið á jörðinni og nytjað hana og hefur þó aldrei notið þar neinna réttinda, hefur mátt búast við því eiginlega hvenær sem er að verða að standa upp af henni. Það þótti fyrir rúmum áratug, eða 1965, bera brýna nauðsyn til að byggja embættisbústað á þessari jörð vegna þess að bæði var sá bústaður, sem var fyrir, orðinn gamall og tiltölulega lélegur sem og að bóndi á jörðinni og prestur þurftu að deila því húsi á milli sín. Svo gerðist það 1975, að íbúðarhús bónda brann og átti hann þá í ekkert hús að venda. Þá vildi svo til að húseignin eða embættisbústaðurinn var ekki nýttur af presti, og leystist þetta mál þess vegna á þann veg, að ábúandi flutti í embættisbústaðinn.

Það er langt síðan tilmæli komu frá Suðureyrarhreppi eða íbúum þar um að flytja prestssetrið að Suðureyri. Það mun og vera vilji þeirra, sem hug hafa haft á að gegna prestsþjónustu þar og hafa gegnt þar prestsþjónustu, að sitja í þorpinu sjálfu. Þar fer saman ósk heimamanna og skoðun kirkjuyfirvalda. Hins vegar hefur ekki tekist að fá fjárveitingar til þess að reisa embættisbústað á Suðureyri vegna þess að embættisbústaður er fyrir á Stað. Ég vil skjóta því inn hér, að mér hefði þótt koma til greina að leggja niður embættisbústaðinn og gera hann að hverju öðru íbúðarhúsi á ríkisjörð. Mér virðist að samkomulag hafi ekki náðst um það og verið sett það skilyrði, að embættisbústaðurinn yrði seldur eða honum komið í verð. En það hefur ekki verið fyrir hendi vilji ábúanda jarðarinnar Þórðar Ágústs, að kanna húsið eitt út af fyrir sig, nema þá fylgdi í kaupunum jörðin sjálf. Þess vegna er þetta frv. flutt, til þess fyrst og fremst að geta komið til móts við þær óskir, sem uppi hafa verið um að prestsetrið sjálft verði formlega flutt að Suðureyri. sem og hitt.: að tryggja áframhaldandi búsetu á jörðinni með því að ríkisstj. fái heimild til þess að selja þetta fornfræga setur.

Ég vil taka það fram, og tel ástæðu til þess að minnast á það sérstaklega, að Þórður Ágúst á að sjálfsögðu orðið nokkuð mikil verðmæti í þessari jörð, vegna þess að hann hefur sjálfur á eigin kostnað betrumbætt hana á marga vegu. Ég legg því til, hæstv. forseti, að þessu máli verði vísað til 2. umr. og til landbn. Mér þætti vænt um ef landbn. gæti hraðað störfum með tilliti til þess, hve skammur tími er eftir af þessu þingi.