25.04.1978
Sameinað þing: 70. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3874 í B-deild Alþingistíðinda. (3034)

357. mál, símamál

Fyrirspyrjandi (Friðjón Þórðarson) :

Herra forseti. Á þskj. 440 hef ég leyft mér að bera fram tvær fsp. til hæstv. samgrh. um símamál. Svo sem kunnugt er hafa margar till. komið fram í þessum málum á liðnum árum og fjöldi fsp. Leitað hefur verið að leiðum til að auka og endurbæta þjónustu Pósts og síma úti um byggðir landsins, einnig reynt eftir föngum að finna ráð til þess að landsmenn allir geti haft sem jafnasta aðstöðu að þessu leyti, bæði hvað þjónustu, gæði og kostnað snertir. Enn er langt í í land að svo sé, þó nokkuð þokist í áttina eftir því sem tímar líða.

Fsp. lýtur að því, hvenær komið verði á fót örbylgjusambandi milli Ólafsvíkur og Stykkishólms eða m. ö. o. frá Stykkishólmi út á nesið. Örbylgjusímasamband er að sjálfsögðu best, bæði hvað snertir öryggi og gæði þjónustunnar. Einföld örbylgja er nú komin til Stykkishólms. Athygli mín var sérstaklega vakin á því, að oft kæmi fyrir að bátar af Snæfellsnesi væru taldir vanrækja tilkynningarskylduna. Við nánari athugun var þetta talið koma til af því, að bátar á Breiðafjarðarmiðum ættu sérstaklega erfitt um vik að koma boðum frá sér til að fullnægja tilkynningarskyldunni, eins og mér hafa verið tjáð dæmi um. Eins hefur komið fyrir að tekið hefur langan tíma að koma boðum í land ef slys hafa orðið um borð í bátum. Þetta mun vera að færast í eitthvað betra horf núna, en þó er ástæða til þess að fá um þetta skýr svör hvers sé að vænta á þessum efnum.

Nýlega voru ræddar hér á Alþ. fsp. um símamál frá hv. 2. þm. Reykn. og hv. 5. þm. Norðurl. v. Fram kom hjá fyrirspyrjendum að stefna bæri að því við gjaldskrárgerð, að sömu gjöld giltu innan sama númerasvæðis, þ. e. a. s. að þeir símnotendur, sem hafa sama svæðisnúmer gætu talað sín á milli í einu „skrefi“, eins og er í höfuðborgarsvæðinu. Af svörum hæstv. ráðh. kom fram að stefnt væri í þessa átt og nokkuð hefur þegar áunnist. Nú hagar svo til um Dalasýslu, að hún er eina héraðið í Vesturlandskjördæmi sem er á svæði nr. 95. Að öðru leyti er Vesturland allt á svæði nr. 93. Það gefur auga leið, að Dalasýsla hefur mun meira samband við önnur byggðarlög á Vesturlandi auk höfuðborgarsvæðisins en aðra landshluta. Nýtur hún því ekki góðs af því, þó að gjöld verði jöfnuð innan sama svæðis, sem nú er stefnt að, enda hef ég heyrt að símgjaldakostnaður væri óvíða svo hár sem í Dalahéraði, þótt ég hafi ekki kannað það sérstaklega. Það er því vert að spyrja um og kanna, hvort það hérað gæti ekki tengst númerasvæði Vesturlands þar sem það á í raun og veru heima.

Ég endurtek fsp. mínar til hæstv. ráðh.:

„1. Hvenær er áformað að koma á fót örbylgjusambandi frá Stykkishólmi til Ólafsvíkur?

2. Hvaða ráðstafanir þarf að gera til að tengja Dalahérað símasvæði Vesturlands, nr. 93?“