25.04.1978
Sameinað þing: 70. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3878 í B-deild Alþingistíðinda. (3041)

275. mál, síldarverksmiðja ríkisins á Skagaströnd

Fyrirspyrjandi (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Ég ber fram á sama þskj. þrjár fsp. í nokkrum liðum til hæstv. sjútvrh. Að höfðu samráði við hann og með leyfi forseta vildi ég gjarnan í tímasparnaðarskyni fá að gera grein fyrir þessum fsp. öllum í einni ræðu. Ég bið hæstv. forseta endilega að minnast þess í sambandi við bjölluna sína, að ég tilskil mér þá e. t. v. örlítið lengri tíma, en þó mun embætti forseta græða á þessu fyrirkomulagi.

Í fyrsta lagi leyfi ég mér að spyrja hæstv. sjútvrh. hversu hár sé áætlaður kostnaður við endursmíði Skagastrandarverksmiðju SR. Í öðru lagi, hvernig ætlunin sé að fjármagna fyrrnefndar framkvæmdir á Skagaströnd. Ég er ekki með þessari fsp. á neinn hátt að gagnrýna fyrirhugaðar framkvæmdir á Skagaströnd, en gjarnan vildi ég að menn gerðu sér grein fyrir því: 1) hversu mikið fé á að leggja í endursmið hinnar fornu síldarverksmiðju á Skagaströnd þannig að hún verði hæf til þess að vinna loðnu, og 2) hvaðan þeir peningar koma sem eiga að fara í þetta fyrirtæki. Þær upplýsingar gætu menn síðan lagt til grundvallar umþenkingu sinni um þann raunverulega ávinning sem það er fyrir sjávarpláss, þar sem fyrir er þróttmikill útvegur og sæmilega vel rekinn, að fá til viðbótar stórar fiskmjölsverksmiðjur sem kalla til sín vinnuafl á ákveðnum tímum árs, en láta síðan hlé verða á á milli.

Önnur fsp., sem ég ber fram í tveimur liðum, varðar útgerð á vélskipinu Ísafold, sem eins og kunnugt er var gert út á loðnuvertíðinni hér við land s. l. vetur með sérstakri heimild Alþ. Fsp. hljóðar um það, hvar Ísafold hafi landað afla í vetur. Hv. þm. má vera það minnisstætt, að ein af forsendunum fyrir samþykktinni á því, að þetta erlenda skip veiddi í landhelgi okkar í vetur, var sú, að skipið mundi landa afla sínum í verksmiðjur fjarri loðnumiðunum — verksmiðjur sem yfirleitt væru settar hjá við löndun á loðnunni.

Síðari liður þessarar fsp. er um það, hvar útgerðarmenn og áhöfn Ísafoldar greiði opinber gjöld af feng sínum á Íslandsmiðum í vetur. Heyrst hefur, svo að maður leyfi sér nú að nota dálítið almennt orðalag, að þeir Ísafoldarmenn hafi fengið mjög svo riflegar yfirfærslur af hlut sínum á loðnuvertíðinni hérna í danskar krónur nú í vetur. Má rifja upp í tengslum við þessa fsp. um opinber gjöld þeirra, útgerðarmanna og áhafnar á Ísafold, að svo mun vera um sjávarfang, sem á íslensk skip gefur hér við land, að a. m. k. 75 kr. af hverjum 100 í verðgildi, miðað við verðlag hér, renni í sameiginlega sjóði landsmanna á einn eða annan hátt í gegnum opinber gjöld og óbeina skatta.

Þriðja fsp., sem einnig er í tveimur liðum, varðar síðan bræðsluskipið Norglobal. Spurt er um, hversu háa leigu hinir erlendu eigendur Norglobals fengu frá íslenskum leigutökum í vetur og hvort hægt sé að draga ályktun um hagnað loðnubræðslnanna hér við land af afgreiðslugetu leigutaka Norglobals í þessu sambandi.

Um fsp. vil ég svo ekki orðlengja fremur að sinni.