25.04.1978
Sameinað þing: 70. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3881 í B-deild Alþingistíðinda. (3045)

275. mál, síldarverksmiðja ríkisins á Skagaströnd

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég neyðist til þess að blanda mér lítillega í þessar umr. Ég þarf ekki langan tíma, því að ég ætla bara að tala um eina af fsp, hv. þm. Stefáns Jónssonar.

Ég fagna þeim fréttum, sem ráðh. flutti, að búið er að panta þau tæki sem til verksmiðjunnar á Skagaströnd koma, og þakka upplýsingarnar sem þar komu fram. Í sjálfu sér fagna ég líka sérstaklega þeim áhuga hv. þm. Stefáns Jónssonar að fara að spyrja um þetta sérstaka mál. Ég hefði talið eðlilegra að flokksbróðir hans, Ragnar Arnalds, hefði óskað svara um þetta atriði. Ég vona að þessi fsp. hv. þm. sé ekki til komin af neinum hreppapólitískum sjónarmiðum eða að hann telji þessa peninga eftir á einhvern hátt. Raunar verð ég að viðurkenna, að á öðru þskj. sem hér liggur á borðum okkar, till. til þál. um könnun á atvinnu- og félagsmálum á Þórshöfn, þar sem hv. þm. Stefán Jónsson er einn af flm., segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Sú viðbára stjórnar SR á að vega þungt, að fyrirtækinu (SR) sé nauðsynlegt að ráðast í miklar framkvæmdir á Skagaströnd og að það hafi ekki bolmagn til þess að ráðast í meiri fjárfestingar.“

Ég held að óþarft sé að vera að telja eftir þessa fjárfestingu á Skagaströnd, og ég held að við eigum að hjálpast að við að endurbyggja þessa verksmiðju fremur en vera að reyna að vinna því máli ógagn.

Ég vil út af ummælum hv. þm. Jóns Árm. Héðinssonar taka fram, að að vísu verður e. t. v. ofurlítið öðruvísi hagað framkvæmdum við höfnina á Skagaströnd en annars hefði verið gert vegna þessarar sérstöku endurbyggingar verksmiðjunnar, en þar hafa staðið yfir, eins og sumir vita, umfangsmiklar hafnarframkvæmdir og eðlilegt er að taka tillit til endurbyggingar verksmiðjunnar og endurskoða áætlanir um hafnargerðina með tilliti til þess.

Skagaströnd er einmitt ákaflega gott dæmi um það, hvernig byggðastefna getur lánast í framkvæmd. Það var sannarlega ekki blómlegt um að lítast á Skagaströnd þegar hv. þm. Jón Árm. Héðinsson var einn af þeim sem fóru með stjórn landsins.