25.04.1978
Sameinað þing: 70. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3883 í B-deild Alþingistíðinda. (3048)

275. mál, síldarverksmiðja ríkisins á Skagaströnd

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég heyrði því miður ekki þegar þessar umr. hófust, en það, sem ég hef heyrt, gaf mér tilefni til þess að fara hér upp og segja örfá orð.

Ég tel að það þurfi alls ekki að vera af neinni andstöðu við þetta mál að spurt sé um það, og þetta mál er auðvitað ekkert einkamál okkar Húnvetninga eða þeirra sem næst standa. Þetta er framkvæmd sem er ákveðin af stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, og sú stjórn er ekki skipuð af Húnvetningum. Það er vegna þess, hve Skagaströnd liggur vel við miðum á sumarvertíð og haustvertíð og fram yfir áramót, að það fyrirtæki telur mikla nauðsyn á að endurbyggja loðnubræðsluna á Skagaströnd. Það eru þær röksemdir sem til liggja. Verksmiðjubyggingin verður auðvitað fjármögnuð af eigin fé þeirrar stofnunar, Síldarverksmiðja ríkisins. Sú stofnun á ekki mikinn kost á lánsfé og fjármagnar það af eigin fé. Ég er ekki með hér við höndina kostnaðaráætlanir um þetta verk, en þær hafa farið nokkuð hækkandi við endurskoðaða áætlun. Af þeim sökum kann að þurfa að fara þarna nokkru hægar en fyrst var stefnt að, en þá var gert ráð fyrir að verkinu yrði lokið fyrir 1. ágúst.

Hér hefur verið talað um hafnarmálin í sambandi við þessa framkvæmd. Nú er unnið að því verki og hefur verið gert frá því um áramót með þeim hætti að dýpka höfnina, þannig að loðnuskipin gætu lagst að.(StJ: Það er langt í Grundartanga.) Kemur það lítið Grundartanga við, þó að það mannvirki virðist vera á heilanum á hv. þm. sem situr hér beint fyrir framan mig. Hafnarmannvirkin verða gerð með það fyrir augum, að loðnuskipin geti lagst þarna að, enda er það nauðsyn til þess að loðnubræðslan sem slík komi að fullum notum.

Ég skal svo ekki lengja þetta að öðru leyti en því, að ég tel raunar ástæðu til að fagna því, að hv. þm. úr öðrum kjördæmum sýna þessu máli áhuga og virðast vilja styðja framgang þess.