25.04.1978
Sameinað þing: 70. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3884 í B-deild Alþingistíðinda. (3049)

275. mál, síldarverksmiðja ríkisins á Skagaströnd

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það er sýnilegt, að áætlun upp á 600–700 millj. kr. um endurgerð þessarar verksmiðju hækkar í 1 milljarð eða meira á endanum. Það, sem ég er að gagnrýna hér er röðun á framkvæmdum og ákvörðunartaka. Það er það sem ég er að gagnrýna. Það er oft búið að gera það. Við höfum ekki ótakmarkað fjármagn. Ég benti á það, að fyrir rúmu ári var upphæð varðandi framkvæmdir í verksmiðjunni á Þórshöfn yfir 100 millj. Ég undirstrika að varðandi Snæfellsnes var minnst á 500–700 millj. Þar fer í súginn verðmæti sem nemur tugum millj. eða meira á þessari vertíð, og ekkert er gert. Þetta segi ég hiklaust að sé röng ákvörðunartaka. Alþm. verða að standa upp á þingi og mótmæla svona ákvörðunum.

Það hef ég líka fyrir satt, nema nýlega hafi orðið breyting á, að djúprista allra stærri skipanna sé 17 fet og meira, en hámarksdýpi átti að vera þarna 17–18 fet eftir áætluninni. Það kann þó að hafa breyst síðustu daga. Það þarf að fara upp í 20 fet til þess að þau hafi nóg dýpi, ella komast þau ekki að. Það eru einmitt þessi skip sem sækja afla á þessum árstíma og tryggja verksmiðjunni væntanlegt hráefni, svo að hér er ekki lítið mál á ferðinni.

Einnig vil ég vekja athygli á því, að til er svokölluð loðnunefndarskýrsla þar sem alfarið er lagst gegn svona fjárfestingu. Einn manna í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, sennilega formaðurinn núna, skrifar undir þessa skýrslu. Þetta er því undarleg ákvörðunartaka, vægast sagt.