25.04.1978
Sameinað þing: 70. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3885 í B-deild Alþingistíðinda. (3053)

275. mál, síldarverksmiðja ríkisins á Skagaströnd

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Í raun og veru var þetta grínræða, og þarf ekki að svara henni, hjá 3. þm. Austurl. Hann virðist vera villtur í þokunni og muni aldrei þaðan komast. En það vita allir menn, sem á sjó hafa farið, að stærri loðnuskipin hafa djúpristuna 17–18 fet og fara ekki að bryggju nema þar sé aðdýpi meira en nemur 17–18 fetum. Það liggur fyrir, að slíkt er ekki fyrir hendi og verður ekki fyrir hendi nema leggja í tugmilljóna framkvæmdir. Og arðsemisútreikningar liggja fyrir varðandi þessa verksmiðju eins og aðrar í loðnuskýrslunni og eru mjög gaumgæfilega gerðir. Hins vegar liggur ljóst fyrir núna, að þessi ákvörðunartaka hefur verið einhver sú vitlausasta hjá stjórn SR sem um getur, því menn muna það sumir, að í fyrra lá smátæki, lífsnauðsynlegt í reksturinn, vikum saman á hafnarbakka og var ekki hægt að leysa það út, en það kostaði fáeina tugi millj. kr.