25.04.1978
Sameinað þing: 71. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3907 í B-deild Alþingistíðinda. (3072)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég lýsi nú yfir sérstöku þakklæti við hæstv. landbrh., að hann skyldi sýna okkur þá sæmd og tillitssemi að koma aftur og vera viðstaddur síðari hluta umr. um ráðstafanir af hálfu ríkisins. í landbúnaðarmálum sem leiða til þess að það verður lagður skattur, sem nemur 600–700 þús. kr. að meðaltali, á hverja sveitafjölskyldu á landinn þetta var mjög sæmilega gert af honum að koma aftur til þess að hlusta á athugasemdir okkar við ræðu hans sem hann flutti áðan sérstaklega vegna þess að það er bráðnauðsynlegt að við göngum nú á hann og biðjum hann um frekari skýringu á því, að þessi skattheimta sé eiginlega ekki gjaldtaka. Ég veit ekki betur, hæstv. ráðh., en Kaupfélagi Þingeyinga á Húsavík hafi þegar verið send krafa upp á 45 millj. kr., þar sem náðarsamlegast er fallist á að þessi umboðsverslun bænda í Þingeyjarsýslu borgi þetta þó í þrennu lagi. Þetta er ekki gjaldtaka. Heldur hæstv. ráðh. að Kaupfélag Suður-Þingeyinga sé aflögufært um þessa peninga, eða hvarflar það að honum að greiða þurfi vexti af þeim? Hv. þm. Páll Pétursson sagði frá því áðan að víst væri þannig ástatt fyrir bændum flestum hverjum, sem í skuldum ern, að vaxtagreiðslur þeirra tækju svo að segja arðinn af búinu. Hinir væru nokkrir að vísu sem þannig væri ástatt um efnahagslega, að þeir ættu það fé, sem þeir sýsluðu með, og væru ekki skuldum vafðir og afkoma þeirra væri náttúrlega mjög góð. En hversu margir skyldu þeir vera?

Hv. þm. Ingi Tryggvason vék lauslega að því, að hann teldi að komandi alþingiskosningar kynnu að vera einhver hvati að því, að hv. þm. Ragnar Arnalds vakti máls á þessu lítilræði sem þessi gjaldtaka er fyrir bændastéttina. (Gripið fram í: Ekki orðaði ég það þannig.) Það var það sem í skyn var gefið. (Gripið fram í: Ónei.) Og nú vil ég spyrja hv. þm. Inga Tryggvason, hvort honum virðist það í hjarta sínu, að kosningarnar í júnílok í sumar séu Alþ. óviðkomandi og hæstv. landbrh. þá um leið, sem gerði þá grein fyrir atkv. sínu við atkvgr. um vegáætlun að ekki vildi hann binda komandi þingi bagga eða komandi ríkisstj. í sambandi við till, um vegagjaldið, hann vildi ekki binda komandi ríkisstj. eða komandi þingmeirihl. bagga. Hverjum finnst hæstv. ráðh., að hann sé að binda bagga með þessu loðna fyrirheiti sínu um endurgreiðslu á þeim peningum sem nú er verið að taka af bændastéttinni, þar sem miðað er að 600–700 þús. kr. gjaldtöku á ári á hvert sveitaheimili? Hverjum finnst hæstv. ráðh að hann sé að binda bagga með þessu loðna fyrirheiti sínu um að e. t. v. verði þetta greitt til baka?

Ég verð nú að þakka hv. þm. Inga Tryggvasyni kærlega fyrir skýringu hans á tormerkjum þess að fella niður söluskatt á kjöti. Þetta geri ég í einlægni vegna þess að hann hefur með skilningi sínum á skýringum embættismanna svo sannarlega auðveldað skilning minn á málinu. Þetta hefði enginn leikið hér nema gamall kennari, að koma þessum skilningi svo ljóst til skila. Aftur á móti gaf hv. þm. það alls ekki í skyn. að ógerlegt væri að fella niður söluskattinn af kjötinu. Enn þá síður gaf hann í skyn, að hann væri þeirrar skoðunar. að ógerlegt væri að endurgreiða söluskatt af kjöti. Og það kom aldrei til mála er rædd var till. okkar Alþb.-manna, sem hv. þm. má vel muna. hér á haustdögum um niðurfellingu á söluskatti eða endurgreiðslu. þá kom aldrei til mála að þar á móti yrðu felldar niður niðurgreiðslu sem fyrir voru. Það var alveg ljóst mál, að þetta átti hvort tveggja að ske. Enda mun það hafa verið mála sannast, að þegar hv. þm. Ingi Tryggvason og hv. þm. Jón Helgason stóðu að samþykktum bændasamtakanna um áskorun um að fella niður söluskatt af kjöti á sínum tíma, þá hafi það ekki verið með neinu slíku fororði sem sú krafa var gerð, sem þeir félagar hjálpuðu að koma á framfæri vítt um landsbyggðina, að niður yrði felldur söluskattur á kjöti. Þá mun það ekki hafa verið með því fororði, að þá yrðu felldar niður eða lækkaðar niðurgreiðslur á kjöti — víðs fjarri. (Gripið fram í: Þær voru hækkaðar í staðinn fyrir að fella niður söluskatt.) En það er alveg rétt, að á haustdögum myndaðist ríkisstj. við að láta greiða úr ríkissjóði til bænda upphæð sem ella hefði skert kjör þeirra enn þá umfram það sem fram kom á þeim sömu haustdögum og nú fyrir jólin í vetur, að launakjör bænda voru talin vera í kringum 63% af lögbundnum kjörum viðmiðunarstéttanna.

Við Alþb.-menn bárum fram till. um niðurfellingu á söluskattinum, við bárum fram um það till. hér á þingi, að látið yrði að kröfum þeirra hv. þm. Inga Tryggvasonar og Jóns Helgasonar sem þeir báru fram fyrir hönd bændastéttarinnar. Við höfðum nafnakall um þessa till. í Ed. Hv. þm. sögðu báðir nei, þeir greiddu báðir atkv. gegn till., og hv. þm. Ingi Tryggvason gerði þá grein fyrir atkv. sínu, að hann segði nei í því trausti, að ríkisstj. mundi standa við fyrirheit um að leysa þetta vandamál vegna birgðanna — yfirvofandi útflutnings — á annan hátt. Ég hygg að hv. þm. Ingi Tryggvason hafi ekki mælt um hug sér þá. Ég veit að hann gerði það ekki. Hann gerði þá grein fyrir atkv. sínu, að hann gerði þetta í því trausti að ríkisstj. mundi leysa málið á annan hátt. Nú spyr ég hv. þm. Inga Tryggvason: Var það á þennan hátt sem hann bjóst við að ríkisstj. mundi leysa málið, á þann hátt að taka 700–900 þús. kr. gjald á ári af sveitaheimilunum til þess að leysa þetta mál? Var það þess vegna sem hann greiddi atkv. við nafnakall í Ed. gegn till. sem hann hafði tekið að sér fyrir hönd bændastéttarinnar sem forustumaður þar að knýja fram?

Við höfum vitnað til þess, Alþb.- menn, sem hv. þm. Ingi Tryggvason viðurkenndi í ræðu sinni áðan og gerði prýðilega grein fyrir, að kindakjötsframleiðslan, dilkakjötsframleiðslan hefur ekki aukist síðustu 10 árin að því skapi sem fólki hefur fjölgað í landinu, en neysla á íbúa hvern hefur dregist saman. Fyrir liggja opinberar skýrslur um það, með hvaða hætti kaupgeta í landinu annars vegar og verðlag á dilkakjötinu hins vegar hefur stjórnað neyslunni á þessari vöru. Árið 1974 fór það saman, að kaupgeta var tiltölulega góð í landinu og niðurgreiðslur á dilkakjöti voru miklar. Það er alveg rétt, sem hv. þm. Ingi Tryggvason segir, að verðsveiflur á þessum vörum eru ákaflega óheppilegar fyrir markaðinn, fyrir tryggan markað. En hv. þm. virtist, að því er mér fannst, hafa mestar áhyggjur af niðursveiflunni. Þó er það staðreynd, að það er hækkað verðlag á vörunni sem dregur úr sölu á henni. Ég hygg að hv. þm. muni með glöðu geði taka undir það álit mitt, að æskilegt sé að verðlag á þessum vörum sé að verulegu leyti miðað við kaupgetu í landinu, eins og hún er á hverjum tíma. Sannleikurinn er sá, að verðlagsmál landbúnaðarins verða undir engum kringumstæðum, ef vel á að vera, slitin úr tengslum við kjaramál launamanna á þessu landi, við kaupgetu fólksins sem neytir þessa varnings.

Hæstv. landbrh. gat þess á sínu létta svifi yfir staðreyndum þessa alvarlega máls íslensks landbúnaðar, að það hefði setið nefnd að störfum síðan í fyrra að fjalla um markaðsmálin, t. d. um það, hversu vel málum hefði verið sinnt í tíð núv. ríkisstj., samtímis því sem hann kom inn á þetta, að afurðalán hefðu stórhækkað. Það veit hver maður, sem rætt hefur þessi mál við þá aðila sem þetta hvílir mest á, þar sem eru forstöðumenn umboðsverslana bænda, kaupfélagsstjórarnir, að afurðalán hafa ekki stórhækkað. Myndum þeirra fyrirbrigða hefur hins vegar fjölgað. Það eru komin fleiri heiti á þessi fyrirbæri, en þau hafa svo sannarlega ekki stórhækkað. Kaupfélögin eru í svelti. Langsamlega erfiðust er rekstrarfjárstaðan hjá þeim sölustofnunum bænda sem starfa á sauðfjárræktarsvæðunum, beinlínis vegna þess að lánamálin eru í ólestri.

Hæstv. ráðh. sagði í ræðu sinni fyrir stundu, að hagur bænda hefði samkv. upplýsingum Þjóðhagsstofnunar stórbatnað á árunum 1976–1977. Með rökum hefur hæstv. ráðh. ekki svarað þeim staðhæfingum forustumanna bændastéttarinnar, að á s. l. hausti og um síðustu áramót hafi skort allt að því 40% upp á það, að bændur hefðu sambærileg laun við viðmiðunarstéttirnar, svo sem kveðið er á um í lögum. Ég reyndi að afla mér upplýsinga um það í dag, hverju þessi gjaldtaka, sem hæstv. fjmrh. segir að sé ekki gjaldtaka, — við skulum þá segja: hverju þessi innheimta á 630–700 þús. á meðalsveitaheimili muni nema í tekjum bóndans, ef við miðum enn við viðmiðunarstéttirnar. Ég get ekki fengið ljós svör um það, en þeir aðilar, sem um fjölluðu og gerst eiga að vita, leiddu getum að því, að þetta mundi leiða til þess, að að þessu áfalli fengnu til viðbótar undir stjórn hæstv. landbrh. yrðu laun bænda komin ofan í eitthvað frá 43 til 50% af launum viðmiðunarstéttanna. Þetta skeður á þeim sömu dögum þegar tilkynnt er nýtt verð á áburði, hækkun um 32%. Nú munu menn vitaskuld koma hér upp á eftir og tilkynna svo það, að það sé allt í lagi vegna þess að þessi hækkun á áburði reiknast inn í grundvallarverðið. Hvaða grundvallarverð? Það grundvallarverð, sem kemur fram á pappírnum, eða hið raunverulega grundvallarverð, sem gildir?

Það er rétt, svo ég víki enn að því sem hv. þm. Páll Pétursson sagði, að til eru bændur á landinu sem vel standa, tiltölulega fáir, sem höfðu ágætisafkomu á árinu sem leið. En ég hef fullgilda ástæðu til þess að ætla að það séu nú ekki þeir sem hv. þm. Páll Pétursson ber helst fyrir brjósti í þessu sambandi, ekkert fremur en ég. Þeir eru fáir og þeir standa vel og þeir bjarga sér. Það er hagur hinna sem við berum fyrir brjósti og við erum uggandi út af honum, miklu fremur uggandi heldur en hæstv. landbrh., eins og fram kom í ræðu hans áðan. Og nú er það spurningin: Er hægt að búast við því, að þessir bændur, sem hv. þm. Páll Pétursson talaði um áðan, sem standa þannig fjárhagslega að arður af búinu nægir tæpast fyrir vöxtum af áhvílandi lánum, haldi áfram búskap eftir þetta áfall? Ef arðurinn af búinu nægir ekki nema rétt fyrir vöxtum, hvaðan eiga þeir þá að taka þessar 630–700 þús. kr. sem nú eru á þá lagðar? Og þá eiga þeir eftir að borga áburðinn núna í vor, sem ekki kemur til arðs fyrr en eftir tvö ár, ef mér skilst rétt. Það eru þessir menn, sem svo er ástatt fyrir, sem við höfum áhyggjur af, við Páll Pétursson, í þessu sambandi og raunar, það hvarflar ekki að mér nokkur efi um það, líka mennirnir sem hv. þm. Ingi Tryggvason ber fyrir brjósti ekkert síður en við Páll Pétursson. Hvaða hlutskipti ætlið þið þessum mönnum? Það hvarflar ekki einu sinni að ykkur að trúa hæstv. landbrh., sem þið berið þó ábyrgð á, þegar hann gefur í skyn að næsta ríkisstj. kunni e. t. v. að endurgreiða þessa peninga. Í fyrsta lagi hefur hæstv. ráðh. ekkert umboð til þess að tala fyrir komandi ríkisstj. eða gefa neitt í skyn um það, hvað hún muni gera, og í öðru lagi, jafnvel þó hann gegndi nú embætti landbrh. í þeirri ríkisstj., þá gefur ferill hans í þessari ríkisstj. okkur enga ástæðu til þess að ætla að hann hefði þrek til þess að framkvæma slíkt. Og ef þessir menn flosna nú upp frá búum sínum, sem virðist viðbúið, þá er það spurningin, hvar ríkisstj. ætlar með stuðningi hv. þm. Inga Tryggvasonar, Jóns Helgasonar, Pálma Jónssonar og Páls Péturssonar að koma þessum mönnum fyrir í starfi. Kannske í frystihúsum á Suðurnesjum eða álverinu eða á vellinum eða á Grundartanga eða í einhverju öðru álíka starfi sem yrði þá að mati þessara manna þjóðhagslega hagkvæmara að láta þessa menn stunda heldur en að framleiða þessi matvæli?

Það er illa gert að telja úr bændum kjarkinn núna og að eggja þá á að draga úr framleiðslu sinni, vinna minna þegar harðnar á dalnum. Það er illa gert vegna þess, að við glímum ekki í kjötframleiðslunni og mjólkurframleiðslunni hérna við það sem hægt er að nefna offramleiðslu. Við glímum við efnahagsmálastefnu, kolranga efnahagsmálastefnu á þessu sviði eins og á öðrum sviðum íslenskra atvinnumála. Við þurfum á því dilkakjöti að halda, sem framleitt hefur verið að meðaltali síðustu 10 árin, handa fólkinu okkar, ef við sjáum til þess að fólkið okkar hafi efni á því að kaupa nægju sína af því. En til þess að fyrir þeirri nauðsyn verði séð og þar með fundin leið til þess a1 leysa þennan aðsteðjandi vanda bændastéttarinnar, þá þurfum við nú kosningar í sumar, hvort sem hv. þm. Inga Tryggvasyni er það ljúft eða leitt, og við þurfum að stappa stáli fyrst og fremst í bændastéttina að kjósa nú ekki öðru sinni á þingi þá menn sem hamskipti hafa á milli sætanna í Framleiðsluráði landbúnaðarins og sætanna hér á þingi.

Og svo vildi ég gjarnan aðeins í lokin fá skýringu á því, hvers vegna hamrað er á því, að þetta sé ákvörðun framkvæmdastjórnar Framleiðsluráðs landbúnaðarins: Það var fjallað um þetta í Framleiðsluráði og Framleiðsluráð er æðsti aðilinn, ákvörðunartökuaðilinn í þessu tilefni. — Hvers hendur er verið að þvo með því að orða það á þennan hátt: Það er Framleiðsluráð landbúnaðarins sem að þessu stendur?