26.04.1978
Efri deild: 86. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3940 í B-deild Alþingistíðinda. (3089)

245. mál, verðlag, samkeppnishömlur og óréttmætir viðskiptahættir

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það má segja að þetta frv. eigi rætur að rekja til stefnuyfirlýsingar ríkisstj. frá því 29. ágúst 1974, en þar sagði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Undirbúin sé ný löggjöf um verðmyndun, viðskiptahætti og verðgæslu. Stefnt sé í átt til almenns eftirlits neytenda með viðskiptaháttum til að tryggja heilbrigða samkeppni og eðlilega verðmyndun verslunar- og iðnfyrirtækja til bættrar þjónustu fyrir neytendur. Haft sé samráð við hagsmunasamtök, sem hlut eiga að máli.“

Í samræmi við þessa stefnuyfirlýsingu var fljótlega hafist handa um undirbúning að frv. um þetta efni. Sá háttur var fyrst hafður á, að fenginn var dr. Magni Guðmundsson hagfræðingur, sem þá stundaði nám í þessum fræðum eða undirbjó ritgerð um þessi efni í Kanada, til þess að kanna þau og rannsaka. Hann vann nokkuð að þessum málum, sendi m. a. fyrirspurnabréf út til ýmissa aðila og fékk svör við þeim og tók svo saman skýrslu um það efni. En að því búin og þegar þessi gagnaöflun hafði farið fram var sett nefnd til þess að semja frv. um þetta efni. Í þessari nefnd áttu þeir sæti Björgvin Guðmundsson skrifstofustjóri í viðskrn., Georg Ólafsson verðlagsstjóri og Gylfi Knudsen fulltrúi í viðskrn. Þeir hafa síðan samið þetta frv. Það þótti eftir atvikum réttara að mínu mati að fela nefnd embættismanna að taka saman þetta frv. heldur en að setja stóra nefnd þeirra hagsmunasamtaka sem helst gátu komið hér til álita. Það þótti eðlilegri háttur, að þessi nefnd embættismanna hefði samband við þessi hagsmunasamtök eftir að fyrir lægju drög að frv., bæri þau frv.-drög undir þessi hagsmunasamtök og þeim væri þannig gefið færi á því að koma fram ábendingum sínum og aths. Það þótti hætta á, að ef farið væri út í að skipa fjölmenna nefnd fulltrúa þessara ýmsu hagsmunasamtaka, þá yrði niðurstaðan sú, að þeir gætu ekki náð samkomulagi og niðurstaðan mundi verða mörg nál. Þessi háttur var því hafður á.

Þessir embættismenn hafa lagt í frv. mikla vinnu. Þeir sendu það til ákveðinna hagsmunasamtaka, sem greind eru í aths. með frv. Þessi hagsmunasamtök voru: Verslunarráð Íslands, Félag ísl. stórkaupmanna, Kaupmannasamtök Íslands, Félag ísl. iðnrekenda, Vinnuveitendasamband Íslands, Samband ísl. samvinnufélaga, Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bandalag háskólamanna, Kvenfélagasamband Íslands og Neytendasamtökin. Öll þessi samtök létu að lokum í té umsagnir um þau frv.-drög, sem þeim voru send, og gerðu við þau ýmsar aths. Svörin bárust að vísu ekki öll innan þeirra tímatakmarka sem sett höfðu verið í upphafi. Þess vegna má segja að það sé ein af ástæðunum fyrir því, að dregist hefur nokkuð á langinn að koma þessu frv. á framfæri.

Þessar ábendingar og umsagnir voru, eins og ég sagði, athugaðar af þessum embættismönnum. Eitthvað af þeim var hægt að taka til greina, en annað var þess eðlis, að ekki var talið hægt að taka það inn í þetta frv.

Til þess að hv. alþm. gætu áttað sig fyllilega á því, hvaða ábendingar og aths. þessi hagsmunasamtök hefðu í té látið, eru álit þeirra birt í heilu lagi í aths. með þessu frv. Hv. þm. eiga því með auðveldum hætti að geta áttað sig á því, hvað það er, sem þeir eru annaðhvort ánægðir eða óánægðir með, og hvaða breytingar þeir vilja gera á í þessu efni. Eftir að frv. lá þannig fyrir í nokkurn veginn fullmótaðri mynd voru að minni ábendingu gerðar á því örlitlar breytingar.

Þetta frv. er allmikið að vöxtum. Það er í níu köflum. I. kaflinn er almenns eðlis og fjallar um markmið og gildissvið laganna. II. kaflinn fjallar um stjórnsýslu. III. kaflinn fjallar um verðákvarðanir. IV. kaflinn er um markaðsráðandi fyrirtæki og samkeppnishömlur. V. kaflinn fjallar um óréttmæta viðskiptahætti og neytendavernd. VI. kafli hefur að geyma almenn ákvæði. VII. kaflinn hefur inni að halda ákvæði um meðferð og áfrýjun mála. VIII. kaflinn er um birtingu. IX. kaflinn er um refsiákvæði, gildistöku o. fl. Að síðustu er svo ákvæði til bráðabirgða. Þessi ákvæði, sem frv. hefur að geyma, eru að mínu mati allítarleg og þeim fylgja mjög skilmerkilegar athugasemdir, bæði almenns eðlis og eins við einstakar greinar. Ég hygg því að það sé tiltölulega auðvelt fyrir hv. dm. að átta sig á frv. og þess vegna sé ekki mikil þörf á því, að ég haldi langa framsöguræðu um þetta mál.

Það hefur talsvert verið um málið rætt og menn vita nokkuð um hvað er hér að ræða að meginstefnu til. En með þessu frv. er reynt að framkvæma það stefnumið, sem sett var fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstj., sem ég byrjaði á að vitna til, þ. e. a. s. það er stefnt að því að koma versluninni og álagningarreglum og verðmyndun í verslun í frjálslegra horf, ef svo má segja, en verið hefur. Og það er stefnt að því að veita neytendum sérstaklega vernd í þessu frv.

Það er svo, eins og menn vita, að við höfum búið alllengi hér á landi við verðlagsákvarðanir í einni eða annarri mynd, allt frá því fyrir 1940 að fyrst var skipuð verðlagsnefnd hér á landi, 1937 eða 1938 ef ég man það rétt. En síðan voru völd verðlagsnefndar eða viðskiptaráðs, eins og það var kallað, allmikið aukin á styrjaldartímanum 1942 eða 1943. Síðan má segja að hafi í meginatriðum gilt svipað fyrirkomulag í þessum efnum, þó svo að það hafi verið nokkuð breytt um skipulag á stjórn verðlagsmálanna. Fyrst var þetta í höndum stjórnskipaðra nefnda, síðan í höndum nefndar kjörinnar af Alþ., en nú um nokkuð langt skeið í höndum fulltrúa, sem nefndir hafa verið af tilteknum hagsmunasamtökum, auk oddamanns, sem hefur verið skipaður af viðskrn.

Það gefur auga leið, að þeim mun lengur sem svona kerfi stendur, þeim mun hættara er við að það verði dálítið staðnað og steinrunnið, að menn festist þar í nokkuð föstum skorðum og kerfið hætti að þjóna því sem upphaflega var til ætlast, eða réttara sagt: það nái ekki þeim tilgangi fullkomlega sem upphaflega var til ætlast. Ég held að verðlagsnefnd hafi hér yfirleitt unnið gott starf og hafi gert nokkurt gagn. En það er hins vegar mín skoðun, að það sé aldrei nema að takmörkuðu leyti hægt með slíkum verðlagsákvörðunum af hálfu hins opinbera að hafa áhrif á verðlagsþróun. Það eru önnur öfl, sem þar eru að verki að verulegu leyti, og fer eftir aðstæðum í þjóðfélaginu, hversu skilvirk slík verðlagslöggjöf er og hvert gagn það verðlagseftirlit, sem uppi er haldið, gerir.

Ég held að mönnum hætti stundum til í umr. um þessi mál að telja valdsvið verðlagsnefndar viðtækara en það er í raun og veru og hætti til að álykta sem svo, að það sé eiginlega aðalákvörðunaraðilinn um verðlagsmál. En það er nú ekki þannig í reyndinni, að það ráði yfir öllu því sviði sem tilheyrir verðlagsmálum. Sannleikurinn er sá, að undir verðlagsnefnd falla ekki nema u. þ. b. 40 eða rúm 40% af öllum verðlagsgeiranum. Nær 40% eru landbúnaðarvörur, sem verðlagðar eru með sérstökum hætti samkv. sérstökum lögum, og um 20% eða kannske liðlega það er svo opinber þjónusta ýmiss konar. Endurgjald fyrir hana er ákveðið oftast nær í ýmsum gjaldskrám, sem settar eru stundum af lægra settum stjórnvöldum og þá oft staðfestar af stjórnarráði, en stundum stjórnarráði eða einstökum rn. beint. Þannig hafa ekki og eru ekki í raun og veru nema 40% af öllum verðlagsgeiranum, sem hafa heyrt undir þetta almenna verðákvörðunarvald og vald verðlagsnefndar, sem er stundum kallað verðlagsyfirvöld og þá stundum kannske í þeirri merkingu, að það séu einhver altæk yfirvöld á þessu sviði sem ráði þróun verðlagsmála í landinu yfirleitt. En ég hef látið þá skoðun í ljós áður, að t. d. hafi opinber þjónusta stundum verið verðlögð nokkuð á undan verðlagsþróuninni, ef svo mætti segja, og ekki hafi gætt þar fulls samræmis. Það hefur að vísu verið reynt með stjórnarsamþykkt að ráða dálitla bót á þessu, þannig að það hefur verið tekin upp sú skipan, að verðlagsstjóri og tveir alþm. skuli fjalla um allar beiðnir um hækkanir á opinberri þjónustu og láta í té álit um þær beiðnir. Ef sú nefnd og viðkomandi rn. eru sammála, þá verður hægt að gefa út gjaldskrána eða verðákvörðunina, hver sem hún er, en ef á milli ber þessara aðila, þá fer það fyrir ríkisstj.

Það hefur kannske ekki heldur alltaf komið fram í almennum umr. um verðlagsmál, hvernig verðlagsákvörðunarvaldi verðlagsnefndar er háttað, en þar er um tvenns konar fyrirkomulag að ræða. Annars vegar er það, að verðlagsnefnd hefur ákveðið og ákveður hámarksverð á vörum eða þjónustu, og hins vegar það svo, að það er ákveðin hámarksálagning. Hámarksverð hefur fyrst og fremst verið ákveðið á innlendri framleiðslu og þjónustustarfsemi, þó að þess séu dæmi, að það hafi einnig tekið til innfluttrar vöru. En aftur móti er það álagningin, sem er ákveðinn hundraðshluti af innflutningsverði, sem fyrst og fremst gildir um innfluttu vörurnar.

Því hefur verið haldið fram, en ég geri þá skoðun ekki að minni, að þetta fyrirkomulag um hámarksálagningu hvetji innflytjendur ekki til hagstæðra innkaupa, heldur þvert á móti geti það haft þær verkanir, að þeir sælist jafnvel til þess að kaupa inn dýrari vörur og fá þar með meiri álagningu. Og þeir, sem þessu halda fram, geta náttúrlega sagt sem svo, að ef þessi hámarksálagning væri afnumin, þá væru meiri líkur til þess, að innflytjendurnir gerðu hagstæðari innkaup, en tækju þá náttúrlega sjálfsagt eitthvað hærri álagningu, en þetta gæti samt haft í för með sér að verðið sjálft yrði lægra en ella. Auðvitað er það verðlagið sjálft sem máli skiptir, en ekki verðálagningarprósentan. Og það er sjálfsagt með þessi sjónarmið í huga, auk þess sem ég sagði áðan, að kerfi eins og þetta hefur tilhneigingu með aldrinum til þess að verða dálítið úrelt, að það hafa verið uppi ríkar óskir um að þessu kerfi væri breytt. Og það er ástæðan til þess, að þetta frv. er flutt.

Það var áður flutt frv. um verðgæslu á þingi 1969. Nokkrar umr. spunnust um það í hv. Nd., hvort þetta frv. væri eiginlega sama frv. og það sem þá var flutt í hv. Ed. eða ekki. Viðurkennt var þó af öllum að í þessu frv. væru nýir kaflar sem ekki hefðu verið í hinu eldra. Í sjálfu sér skiptir það nú ekki nokkru máli, hvort þetta frv. er líkt eða svipað frv. frá 1969. Það skiptir út af fyrir sig ekki neinu um kosti þess eða galla, heldur verða menn auðvitað að meta frv. eins og það liggur fyrir nú og út frá þeim aðstæðum sem hér eru fyrir hendi. Ég skal ekki fjölyrða um það, en ég vil aðeins benda á að það hefur aldrei verið farið í neinar felur með að einn kafli í lögunum, kaflinn um markaðsráðandi fyrirtæki og samkeppnishömlur, væri svipaður kafla í frv. frá 1969, enda er hann sniðinn eftir fyrirmyndum í hliðstæðum erlendum lögum. Og það segir beinlínis í aths. á bls. 11, með leyfi hæstv. forseta:

„Kaflinn um markaðsráðandi fyrirtæki og samkeppnishömlur er svipaður kafla um sama efni er var í frv. til laga um verðgæslu og samkeppnishömlur sem lagt var fyrir Alþ. 1969, en náði ekki fram að ganga. Þó eru þar nokkrar veigamiklar breytingar frá fyrri ákvæðum. T. d. eru nú ákvæði í þessum kafla um að samningar, samþykktir og annað samráð milli fyrirtækja um verð og álagningu sé óheimilt.“

Þannig hefur aldrei verið farið neitt dult með að þessi kafli frv. væri svipaður kafla í frv. frá l969. Þeir segja nú líka í aths.:

„Við samningu frv. var höfð hliðsjón af löggjöf um verðlagsmál í Noregi og Danmörku. Var m. a. rætt við fulltrúa Monopolitilsynet í Danmörku. Einnig kynntu höfundar frv. sér samkeppnislöggjöf ýmissa landa.“

Þannig hefur aldrei verið ætlunin að ræna höfundarrétti frá einum eða neinum í þessu efni. En þeim til fróðleiks, sem vildu kynna sér að hve miklu leyti þessi kafli í frv. víkur frá frv. frá 1969, vildi ég leyfa mér að benda hv. alþm. á umsögn og álitsgerð Vinnuveitendasambands Íslands, en það vill svo vel til, að þar er gerður rækilegur samanburður á þessum kafla í frv. frá 1969 og þessu frv. Þann samanburð er sem sagt að finna í þessari álitsgerð. Geta menn því, ef þeir hafa áhuga á því, borið frv. saman. Það er að vísu rétt, að þeir, sem álitsgerðina gera, telja breytingarnar yfirleitt ekki til bóta. Það er annað mál og kemur ekki þessu máli við.

Það má segja réttilega, að aðalsjónarmið laganna komi fram í 8. gr., þar sem segir:

„Þegar samkeppni er nægileg til þess að tryggja æskilega verðmyndun og sanngjarnt verðlag skal verðlagning vera frjáls. Nú hefur verðlagning verið gefin frjáls og getur verðlagsnefnd skyldað hlutaðeigandi aðila til að tilkynna stofnuninni verðhækkanir.“ — Hún getur svo gripið inn í og tekið nýja ákvörðun um þetta og ákveðið verðlag ef hún telur að það standist ekki, að samkeppnin sé nægileg.

Þetta finnst mér vera höfuðstefnumiðið sem felst í þessu frv., þ. e. að gera tilraun til þess að fá heilbrigðari verðmyndun með því að hafa álagninguna frjálsa og ákveða ekki hámarksverð, treysta á neytendur og valfrelsi þeirra í þessu efni. Menn geta haft mismunandi trú á því, hvort slík breyting leiði til verðlækkana eða verðhækkana. Ég geri mér ekki neinar gyllivonir um að það verði verðlækkanir að ráði þegar í stað. En ég held að þetta muni, þegar fram í sækir, leiða til heilbrigðari verslunarhátta. Það má þó segja að slíkt sé að vissu leyti komið undir neytendum, og að sjálfsögðu verður að taka tillit til þeirra aðstæðna, sem hér eru og eru að sumu leyti ólíkar og eru annars staðar, og auðvitað er það skilyrði, að innflutningsfrelsi, fríverslun í þeim skilningi að nægar vörur séu á boðstólum, og við skulum segja að því skilyrði sé nú fullnægt hér. En þá er á hinn bóginn að líta á það, að hér eru aðstæður aðrar að því leyti til en víðast annars staðar, að markaðurinn er miklu minni en gengur og gerist annars staðar. Þess vegna er það, að þó að ég haldi að þetta stefni í rétta átt, þá er það skoðun mín að hér sé rétt að fara með allri gát. Þess vegna er einmitt bráðabirgðaákvæðið, þar sem ákveðið er að þær ákvarðanir um hámarksálagningu og hámarksverð og aðra framkvæmd verðlagseftirlits, sem í gildi eru þegar lög þessi taka gildi, skuli halda gildi sínu áfram þar til verðlagsráð tekur afstöðu til þeirra. Enn fremur er svo það ákvæði í 54. gr., að lögin öðlist ekki gildi fyrr en eftir sex mánuði. Þar með er gefinn nauðsynlegur umþóttunartími, af því að það þarf m. a. að gera ýmsar breytingar varðandi sjálfa verðlagsstofnunina og verðlagseftirlitið.

Svo er að sjálfsögðu IV. kafli sem ýmsir leggja talsvert upp úr, kaflinn um markaðsráðandi fyrirtæki og samkeppnishömlur. Sá kafli er, eins og ég áðan sagði, sniðinn eftir samþykktum eða ákvæðum í erlendum lögum þar sem aðstæður eru nú e. t. v. talsvert aðrar en hér. Ég legg persónulega ekki mjög mikið upp úr þessum kafla, en tel að hann geti hins vegar áreiðanlega ekki spillt neinu og það sé gott að hafa þau ákvæði sem þar eru:

Aftur á móti legg ég mjög mikið upp úr V. kafla, sem fjallar um óréttmæta viðskiptahætti og neytendavernd. Hann er að nokkru leyti, má segja, endurskoðun á þeim lagaákvæðum sem eru í lögunum um óréttmæta viðskiptahætti frá 1933 eða 1934, en þau lög voru með þeim ein kennum að þau áttu fyrst og fremst og var fyrst og fremst ætlað að fyrirbyggja óréttmæta og óeðlilega samkeppni á milli verslana innbyrðis og voru þannig sett til verndar kaupsýslumönnum fyrst og fremst, en lutu ekki að neytendum. Við endurskoðun þessara ákvæða og samningu þeirra upp á nýtt, því hér er í raun og veru um alveg gersamlega ný ákvæði að ræða, hefur þessu alveg verið snúið við, þannig að nú er í þessum kafla um að ræða vernd fyrir neytendur og neytendasjónarmiðið fyrst og fremst haft í huga þegar ákveðið er hvað séu óréttmætir viðskiptahættir.

En það, sem ekki hvað síst er kannske meginatriðið í þessu sambandi, er að í þessum lögum frá 1933 um óréttmæta verslunarhætti er ekki séð fyrir neinni stofnun til að hafa eftirlit með þeim lögum, en það er einmitt eitt kjarnaatriðið í sambandi við neytendavernd, þ. e. að það sé til einhver stofnun sem á að hafa eftirlit með því, að ákvæðum um neytendavernd sé haldið uppi í framkvæmd. Það er líka svo, að þar sem sett hefur verið fullkomin löggjöf um neytendamálefni, eins og er reyndar á Norðurlöndunum, flestum a. m. k., ég held öllum, þá er séð fyrir sérstökum opinberum stofnunum sem hafa það hlutverk að líta eftir því, að ákvæði þessi séu ekki virt að vettugi og hagur neytenda sé ekki fyrir borð borinn. Auðvitað hefði mátt fara þá leið hér að setja upp slíka sérstaka neytendastofnun, en það varð ofan á að réttara þótti að setja ekki alveg nýja stofnun til þess að annast þetta hlutverk, heldur setja upp sérstaka deild við verðlagsstofnunina, svokallaða neytendadeild sem ákvæði er um í frv., og fela henni þetta hlutverk. Að sjálfsögðu má svo haga því eftir reynslunni sem af þessu kann að fást. Það getur verið að menn sjái við nánari athugun, að leggjandi sé í þann kostnað, sem mundi vera því samfara, að setja þannig upp alveg sérstaka stofnun, og það sé réttara að hafa þann hátt á. Þá yrði því sjálfsagt breytt. En það er a. m. k. með því fyrirkomulagi, sem er sett í þessu frv., um að tefla vísi að neytendastofnun, opinberri neytendastofnun. Hitt er svo annað mál, að eftir sem áður og þrátt fyrir þessa lagasetningu getur verið þörf á lagasetningu um neytendamálefni og ástæða til að hyggja að því og þyrfti að efla neytendasamtökin.

Ég sé nú ekki beint þörf á því, að ég fari út í önnur sérstök ákvæði eða aðra kafla frv., þar sem líka fylgja þeim ítarlegar skýringar. En eins og ég hef áður fram tekið, þá eru birtar með sem fskj. umsagnir allra þeirra hagsmunasamtaka sem þetta frv. var sent til umsagnar, og geta menn kynnt sér þau álit án þess að ég fari að rekja þau hér. Því miður og verður að segja eins og er, eru þau álit ekki eins jákvæð og maður hefði vonað. Kannske má segja að það sé ekki nema eitt álit sem er alveg skilyrðislaust jákvætt með frumvarpsdrögunum eins og þau voru. En það er líka aðili sem ég fyrir mitt leyti vil leggja mikið upp úr að taka tillit til, aðili sem ég held að hafi æðimikla reynslu í sambandi við þetta. Það er Kvenfélagasamband Íslands sem mælir eindregið með þessu, en ég býst við að konurnar séu ýmsum fróðari um þessi mál. Neytendasamtökin óska að vísu eftir því, að sett verði upp sérstök neytendastofnun, en að öðru leyti vil ég skilja umsögn þeirra á þá lund, að þau séu hlynntust frv. Fleiri eru hlynntir frv., en telja þó að ýmsar breytingar þurfi á því að gera.

Þetta frv. hefur gengið í gegnum hv. Nd. Þar voru gerðar nokkrar breyt. á því. Aðalbreytingin laut að skipun verðlagsráðs. Gert hafði verið ráð fyrir því í frv., að ráðið yrði aðeins skipað sjö mönnum: fjórum tilnefndum af sérstökum aðilum, einum tilnefndum af viðskrh., sem yrði formaður, og svo tveimur sem eiga að sitja í þessari svokölluðu samkeppnisnefnd og eiga að vera tilnefndir af Hæstarétti. Þessu var breytt í hv. Nd. á þá lund, að gert er ráð fyrir því nú í frv., að ráðið sé skipað níu mönnum, eins og verðlagsnefnd er nú, og tekið fram hvaða aðilar það eru sem eiga að tilnefna þá fulltrúa sem tilnefndir eru af sérstökum aðilum, en Hæstiréttur tilnefni tvo og þeir séu í samkeppnisnefndinni og eiga að fullnægja vissum hæfnisskilyrðum.

Auðvitað er það alltaf fullkomið álitamál, hvernig verðlagsnefnd skuli skipuð, hvort hana skuli skipa sjö menn eða níu. Það er kannske ekki mikið mál í sjálfu sér. Manni finnst nú stundum nefndir vera þeim mun skárri sem þær eru fáliðaðri, en það er engin regla án undantekningar. Þarna hafa menn verið níu, og það sjónarmið kom fram í Nd., að þau samtök, sem höfðu nefnt — t. d. launþegasamtökin — fulltrúa í nefndina, mundu taka það óstinnt upp ef taka ætti af þeim fulltrúa. Var því gengið til móts við þau sjónarmið með því að fjölga í nefndinni.

Annað atriði, sem skiptir sáralitlu máli, var t. d. það, að gert var ráð fyrir að í samkeppnisnefndinni sætu þessir tveir menn tilnefndir af Hæstarétti og verðlagsstjóri. Þessu er breytt aftur í það horf, að þar sitja þessir samkeppnisnefndarmenn tilnefndir af Hæstarétti og formaður verðlagsráðsins, sem er tilnefndur af viðskrh.

Aðrar þær breyt., sem gerðar voru á frv. í Nd., eru að verulegu leyti aðeins orðalagsbreytingar og skipta ekki máli. Sé ég því ekki ástæðu til þess að gera þær að umræðuefni.

Ég skal svo, herra forseti, ekki lengja mál mitt um þetta, heldur vísa til þeirra ítarlegu aths. sem frv. fylgja. Að sjálfsögðu eru þeir embættismenn, sem frv. hafa samið, reiðubúnir til þess að mæta hjá hlutaðeigandi þn. og gefa þær upplýsingar sem eftir kynni að vera óskað, og auðvitað er það á valdi viðkomandi þn. að kalla fyrir sig fulltrúa þeirra, sem álit hafa gefið þarna, og kanna hver afstaða þeirra er. Um það hef ég ekki neitt að segja. Það verður auðvitað að vera á valdi þn., hvernig hún vill vinna að þessu máli.

Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv fjh.- og viðskn.