26.04.1978
Efri deild: 86. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3953 í B-deild Alþingistíðinda. (3092)

245. mál, verðlag, samkeppnishömlur og óréttmætir viðskiptahættir

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég verð að segja að þetta frv. til laga um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, sem nú er lagt fram á allra síðustu dögum þessa kjörtímabils, kemur mér þannig fyrir sjónir, að hér sé verið að fullnægja ákveðnu atriði í stjórnarsáttmála. Er tæplega ætlast til að tími sé til að ræða til hlítar né heldur að þn. nái að fjalla þannig um það, að tími gefist til að gera þær aths. sem þm. vilja gera, þrátt fyrir að þó nokkur vinna hafi verið lögð í stefnumörkun þessa undanfarnar vikur — ég á þá kannske frekar við utan þn. heldur en innan þeirra. Ég lít á þetta frv. sem nokkurs konar dúsu til að halda þeim aðilum, sem hér hafa hagsmuna að gæta, í skefjum, en ekki að stefnt sé sérstaklega í einhverja frelsisátt í verðmyndun, því hömlur eru í þessum köflum og greinum, sem hér liggja fyrir, sem gefa til kynna að hér verði ekki breyting á frá því sem áður hefur verið í sams konar frv. Mun ég koma að því síðar.

Í mínum augum er þetta embættismannafrv., sem ég hef leyft mér að kalla svo í góðra vina hópi, búið til af húsmönnum viðskrh. Ég hafði gert mér vonir um að flokkarnir tveir, stjórnarflokkarnir, settu á stofn sérstaka nefnd til að fjalla um þetta mál í byrjun kjörtímabils, en það varð ekki. Þetta frv. var fyrst samið af starfsmönnum viðskrh. Það fékk ekki hljómgrunn hjá aðilum. Síðan er því frv. breytt lítils háttar, en þær umsagnir, sem voru gefnar af viðkomandi aðilum um fyrsta frv., sem lagt var fram, eru notaðar og prentaðar með því frv. sem hér er lagt fram, þannig að ég held því fram, að umsagnirnar, sem hér fylgja, séu að miklu leyti ekki í gildi hvað þetta frv. snertir.

Ég vil leyfa mér, að lesa upp smákafla úr ræðu minni, sem ég flutti með frv. sem ber sama nafn og var til umr. fyrir nokkru. Hann er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Aðalreglan“ — þá á ég við frv. sem hér liggur fyrir — „er að vísu sú, eins og segir í 8. gr., að verðlagning skuli vera frjáls þegar samkeppni er nægileg til þess að tryggja æskilega verðmyndun og sanngjarnt verðlag. Sá galli er hins vegar á þessu stefnuatriði, að nægilegar skilgreiningar vantar á því, hvað sé nægileg samkeppni, og einnig, hvað sé takmörkuð samkeppni og hvað teljist vera markaðsráðandi fyrirtæki. Á þessu stefnuatriði er einnig annar galli, sem er sá, að því tengist ákvæði til bráðabirgða, þar sem verðlagsráði er fengið það vald að taka afstöðu til gildandi verðlagslaga án stefnumörkunar frá Alþ. Í þessu efni eru verðlagsráði ekki sett nein tímatakmörk, innan hve langs tíma ráðið þarf að taka afstöðu til gildandi ákvæða. Það, sem ég óttast, er að framkvæmd þessa ákvæðis gæti orðið með svipuðum hætti og var á haftaárunum þegar stefnuatriðið var að innflutningur til landsins skyldi vera frjáls nema öðruvísi væri ákveðið, en eins og við munum var öðruvísi ákveðið á þeim árum.“

Ég vil fagna því, sem kom fram hjá hæstv. ráðh., að hann álítur hámarksálagningu, ef ég hef ekki misskilið hann, hvetjandi til óhagstæðra innkaupa. Ég skal ekki um þetta dæma. En fyrirtæki fólksins, þá á ég við Sambandið, kaupfélögin og þá sérstaklega kannske, úr því það var minnst á það áðan af hv. síðasta ræðumanni, KRON, sem ekki hefur neinar skyldur við landsbyggðina og ekki neinar skyldur umfram sína viðskiptavini fram yfir aðrar verslanir á þeim markaði, sem þeir einbeita sér að, og það er Reykjavíkurmarkaðurinn, selja á sama verði og kaupmenn. Og ég get ekki ímyndað mér að hæstv. ráðh. geri því skóna, að þessi fyrirtæki fólksins, en KRON er t. d. alfarið stjórnað af Alþb.-mönnum, taki þátt í slíkum leik að gera óhagstæð innkaup viljandi.

Ég vil halda því fram, að verðlag sé hátt m. a. vegna þeirra gríðarlegu gjalda, hárra tolla og opinberra gjalda sem ríkisstj. hafa, ekki bara þessi ríkisstj. heldur ríkisstj. undanfarna tíma og kannske nokkuð langt aftur í tímann, talið sig þurfa að leggja á innflutning ofan á eðlilegt innkaupsverð; sem margfaldast í prósentum við álagningu. M. a. er á lokastigi 20% söluskattur, sem gerir verðið náttúrlega óbærilegt öllum sem í einhverju magni þurfa að kaupa inn, og á ég þá við stærri fjölskyldur.

Ég vitnaði í 8. gr. og er hræddur um hún geri þetta frv. að sýndarmennskufrv., einungis sömdu til að stinga upp í þá aðila sem héldu í upphafi stjórnarferils þessarar ríkisstj. að nú ætti að taka föstum tökum á því ófrelsi sem ríkt hefur í verðlagsmálum, stinga upp í þá dúsu, því varla verður ætlast til þess, að verðlagsráð telji ríkjandi aðstæður eða ástand í viðskiptamálum nægjanlegt til þess að samkeppni eða verðmyndun geti verið frjáls, úr því að ríkisstj. telur sér ekki fært að leggja það fyrir Alþ., að verðlag skuli vera frjálst við gildistöku þessara laga. Hvers vegna segi ég þetta? Vegna þess að í 8. gr. er upptalið, hvaða aðgerðum megi beita. Með leyfi forseta er best að ég lesi a. m. k. part af greininni. Gríp ég þá inn í hana miðja:

„Reynist samkeppni takmörkuð, eins og nánar er greint í IV. kafla, eða samkeppni er ekki nægileg til að tryggja sanngjarnt verðlag eða horfur eru á ósanngjarnri þróun verðlags og álagningar, getur verðlagsráð ákveðið eftirtaldar aðgerðir til að ná því takmarki, sem getur í 1. gr.:

1. Hámarksverð og hámarksálagningu.

2. Gerð verðútreikninga eftir nánar ákveðnum reglum.

3. Verðstöðvun í allt að sex mánuði í senn.

4. Aðrar reglur“ — ég bið hv. þdm. að taka eftir — „um verðlagningu og viðskiptakjör, sem verðlagsráð telur nauðsynlegar hverju sinni.“

Hæstv. ríkisstj. er að fara fram á við Alþ. samþ. verði alræðisvald embættismanna, sem ekki er ákveðið enn þá hverjir eru, í öllu því sem lýtur að verðlagsmálum. En ég vil leyfa mér að halda því fram, að samkeppnin um verðmyndun sé nægjanleg þegar og það sé rangt af Alþ. samþ. lög sem færa það alfarið í hendur embættismanna að ákveða hvort eða hvenær verðmyndun skuli vera frjáls. Þessi samkeppni, sem ég er með í huga, er að í Reykjavík, eins og ég gat um áðan, er Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis, undir stjórn Alþb. alfarið með 12 útsölustaði og stórverslanir. Ég giska á að Sláturfélag Suðurlands sé með álíka margar verslanir og stórmarkaði. Samband ísl. samvinnufélaga með stærsta innflutningsfyrirtæki landsins staðsett í Reykjavík, stærstu vörudreifingarstöð landsins, staðsett í Reykjavík, er að fá eigin hafnaraðstöðu. Það gerir innkaup sín í samkeppni við stór norræn samvinnufélög og hlýtur þar af leiðandi að ná þeim magnafslætti er getur verið hvað hæstur. Það flytur vörur sínar með eigin skipum. Það hefur eigið vátryggingafélag, eigin banka og talsvert stóran hóp neytenda sem eigin viðskiptavini. Allan þennan milliliðakostnað verður viðkomandi kaupmaður, skulum við kalla hann, eða innflytjendur að greiða með álagningu. Hvernig stendur þá á því, að verðmyndun er ekki miklu lægri hjá þessum aðilum, sem hvergi þurfa að borga aukamilliliðakostnað, en hjá þeim sem þurfa að borga að fullu allan milliliðakostnað? Ég álít að þarna sé þegar komið fullgilt svar við því, að samkeppni í verslun og viðskiptum er nægileg til þess, að Alþ. geti tekið ákvörðun um að verðlag skuli vera frjálst við gildistöku þessara laga. En til viðbótar þessari upptalningu er vitað, að á mörgum stöðum á landinu eru þessi fyrirtæki fólksins einu viðskiptaaðilarnir. Sem sagt, ég lít á þetta frv. sem einhvers konar fullnægingu á málefnasamningi, en ekki sem raunhæft plagg um væntanlega frjálsa verðmyndun, meðan það er sett í hendur embættismanna að ákveða, hvenær eða hvort verðlagning skuli vera frjáls. Ég óttast að þetta fari á sama hátt og áður, þegar lögin sögðu til um að stefnuatriðið væri að innflutningur til landsins skyldi vera frjáls nema öðruvísi væri ákveðið, en ég tók fram áðan að það var bara öðruvísi ákveðið á þeim tíma.

Ég ætla ekki að fara — þetta er nú 1. umr. um þetta frv. — á þessu stigi að lengja umr. um of með því að fara yfir greinar. Ég áskil mér í n. rétt til þess að koma með brtt. og ræða þær nánar, hvort sem þær verða samþ. eða samþ. ekki. Ég reikna með að það sé rétt hjá þeim hv. þm., sem hér töluðu á undan mér, en á eftir ráðh., að fyrir fram sé ákveðið að frv. skuli ná fram að ganga með þeim breyt. sem áorðnar eru í meðferð Nd.

Ég vil þó víkja nokkrum orðum að ummælum hv. þm. Braga Sigurjónssonar. Ég fagna því, að hann telur að frelsi eigi að ríkja í verslunarháttum þegar þjóðfélagið er í jafnvægi. En eins og ég hef áður sagt, þá held ég að eitt af því, sem kemur þjóðfélaginu eða efnahagsmálum úr jafnvægi, sé einmitt þessi mikla álagning á hinum ýmsum stigum, bæði frá ríki og öðrum aðilum, og kannske líka þessi óhagstæðu innkaup, sem mér er ekki kunnugt um, en hæstv. ráðh. gat um áðan. Ég held því, að það sé tími til þess að breyta þessu og skapa það frelsi í verslunarháttum sem gæti orðið liður í því að koma jafnvægi á í þjóðfélaginu.

En það er eitt sem ég vil svara, bæði hv. þm. Braga Sigurjónssyni og eins hv. 7. landsk. þm. Ég held að það sé hættulegt og meira en hættulegt, ég veit að það er hættulegt, ef áhrifamiklir hópar utan Alþ., hvort sem það eru launþegasamtök eða atvinnurekendasamtök, eiga að ráða því, hvort hér eru samþ. lög, sem þm., ef á annað borð er þingmeirihl., telja rétt að samþ. — þau lög séu þá ekki samþ. bara vegna þrýstings utan frá. Það er kominn tími til þess, að við áttum okkur á því, að þessi þrýstingur utan frá er að skemma þjóðfélagið. Hann er gjörsamlega að eyðileggja þjóðfélagið. Það er nú orðið svo, að framkvæmdavald er ekki til í höndum ríkisstj., en verkalýðshreyfingin hefur framkvæmdavald, eins og hefur komið fram undanfarið þegar hún lokar fyrirtækjum sem annars hefðu mátt vera opin. En ég held að það eigi bæði við atvinnurekendur og launþega, að hvorugir eigi að hafa áhrif á ákvarðanir Alþ., hvorki í þessu máli né öðru.

Þetta frv. líkist að mínu mati því, að mönnum er gefið frelsi, en þó eru þeir bundnir með teygjubandi. Það er hægt að kippa í hvenær sem er. Ég ítreka það, sem ég vitnaði í áðan um þær ráðstafanir, sem verðlagsráði er heimilað að gera hvenær sem því þóknast. Ég tel að það sé alvarlegt, ef frelsi í athöfnum á sér minnihlutafylgi á Alþingi.

Hæstv. viðskrh. talaði um að V. kaflinn væri að því leytinu til betri en till., sem áður hafa komið fram, að verið væri að vernda neytendur fremur í þessu frv. en öðrum. Ég tek undir það, að þessi kafli er einmitt það sem hann sagði, en ekki „fremur“ en í öðrum till. sem komið hafa fram. Kaflanum um neytendavernd og óréttmæta viðskiptahætti var einmitt beint gegn fyrirtækjum sem hugsanlega gátu náð samkomulagi og komið sér saman um hátt verð. Það var einmitt hugsað til þess að gæta hagsmuna neytenda. En ég vil taka undir það með hv. þm. Braga Sigurjónssyni, að vafasamt er hvort neytendakaflinn á að vera í þessu frv., hvort ekki ætti að setja sérstök lög um neytendavernd.

Ég vil að lokum leyfa mér að vitna til aths. við lagafrv. þetta, á bls. 10. Neðst á bls. stendur það sem eiginlega segir allt um þetta frv. Með leyfi forseta, þá hljóðar það svo:

„Frv. gerir ráð fyrir frjálsri álagningu, þegar samkeppni er nægileg til þess að tryggja æskilega verðmyndun og sanngjarnt verðlag. Hins vegar er jafnframt bráðabirgðaákvæði um það, að öll verðlagsákvæði haldi gildi sínu við gildistöku laganna þar til verðlagsráð hefur tekið afstöðu til þeirra.“

Í þessari tilvitnun er samandregið það sem ég vildi segja um þetta frv. Ég tel alveg fráleitt að Alþ. skuli afsala sér ákvörðunarrétti um það hvenær verðlag skuli vera frjálst eða hvort það skuli vera frjálst, yfir í hendur embættismanna, sem líklega verða að sumu leyti, eins og kom fram hjá hæstv. ráðh., þeir sömu og eru að matreiða þetta frv. fyrir hv. Alþ. Þar kom fram að form. verðlagsnefndar, sem er skipaður af ráðh., skuli vera einn af þremur í samkeppnisnefnd.

Ég hef ekki meira um þetta frv. að segja á þessu stigi. Ég vona að það taki breytingum í meðferð n. þessarar hv. d. að því leyti til sem snertir 8. gr. a. m. k. En ég fagna því, að ýmsu hefur verið breytt til bóta. Á ég þar sérstaklega við 48. gr., þar sem áfrýjunarvaldið er ekki tekið frá þessari stétt manna í þjóðfélaginu. Þar stóð áður, að ákveðnum hluta í 17. eða 18. gr. mátti ekki áfrýja, en nú er þó komið inn í brtt., að það eiga sömu lög að gilda um þessa stétt manna og aðrar hvað það snertir.