26.04.1978
Efri deild: 86. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3959 í B-deild Alþingistíðinda. (3096)

184. mál, réttur til fiskveiða í landhelgi

Frsm. (Oddur Ólafsson) :

Herra forseti, Frv. það, sem hér um ræðir, fjallar um breyt. á lögum um rétt til fiskveiða í landhelgi og að gefa ráðh. heimild til þess að leyfa undir vissum kringumstæðum íslenskum aðilum, sem útgerð stunda hér á landi, að taka á leigu um takmarkaðan tíma erlent skip til veiða hér. Heimildin er þröng. Þó ekki sé beinlínis takmörkuð lengd á leigutíma, þá gat ráðh. þess í framsögu, að það, sem um væri að ræða, væri að skip væru tekin á leigu, t. d. ef skip bilaði eða strandaði og þá væri þar fyrst og fremst um að ræða leigu út vertíðina eða á meðan viðgerð færi fram. Það hefur komið í ljós, að skapast geta þær aðstæður, að um algjöra nauðsyn geti verið að ræða. Eftir að þetta frv. kom inn í þingið hefur einmitt sú aðstaða skapast, að sýnt þykir að fullkomin ástæða er til að hafa slíka heimild sem þessa í lögum. Þess vegna hefur n. komist að þeirri einróma niðurstöðu að leggja til að frv. verði samþ. óbreytt.