26.04.1978
Efri deild: 86. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3960 í B-deild Alþingistíðinda. (3098)

286. mál, eftirlit með framleiðslu á fóðurvörum

Frsm. (Steinþór Gestsson) :

Herra forseti. Landbn. hefur haft til umfjöllunar frv. til l. um eftirlit með framleiðslu á fóðurvörum, áburði og sáðvörum og verslun með þær vörur. N. varð sammála um að mæla með því, að frv. yrði samþ. óbreytt.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um frv. Hæstv. landbrh. gerði grein fyrir því hér í d. og vísa ég til þess sem hann sagði um það mál. Ég vil þó aðeins láta það koma fram, að landbn, hafði á því fullan skilning að nauðsynjamál væri að hafa eftirlit með þessum mikilvægu vörutegundum sem eru notaðar í stórum stíl af bændum. Hefur komið í ljós að það fóðureftirlit, sem haft hefur verið með höndum á undanförnum árum, hefur hvað eftir annað komið að góðu liði, að eftirlitið hefur orðið að skerast í leikinn þegar einhverjir gallar hafa reynst á erlendu fóðri. Hið sama er að segja um hina tegundina, sem þetta frv. tekur til, sem er tilbúinn áburður bæði að því er varðar magn og efnasamsetningu, sem er mjög mikilvægt að sé rétt. Það sem gefa skal upp um sáðvörurnar gegnir alveg sama máli.

Þessi tilhögun og þetta eftirlit á ekki að skapa ríkissjóði útgjöld, því gert er ráð fyrir að þeir aðilar, sem ýmist framleiða þessa vöru til sölu hér í landi eða flytja hana inn, kosti það eftirlit sem hér er gert ráð fyrir.

Ég endurtek, að landbn. mælir með því, að frv. verði samþykkt.