26.04.1978
Efri deild: 86. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3960 í B-deild Alþingistíðinda. (3100)

189. mál, búnaðarfræðsla

Frsm. (Steinþór Gestsson) :

Herra forseti. Landbn. hefur haft til athugunar frv. til l. um búnaðarfræðslu sem hefur hlotið afgreiðslu í Nd. og hæstv. landbrh. gerði grein fyrir hér í hv. Ed.

Ég held að óhætt sé að leggja á það áherslu, sem kom fram í máli hæstv. ráðh., að hér er ekki um neinar stórar breytingar að ræða frá því sem er um búnaðarfræðsluna. Aðeins er verið að hagræða lögunum miðað við þá reynslu sem fengist hefur af búnaðarfræðslumálum á síðustu árum eða eftir að framhaldsdeild á Hvanneyri var stofnuð.

Eins og kom fram í máli hæstv. ráðh., þegar hann mælti fyrir frv., þá lýsti hann því, að hann mundi leggja til lítils háttar breytingar við tvær greinar frv. Hefur landbn. Ed. fallist á þær breytingar og tekið þær upp.

Fyrri brtt., sem er við 3. gr., lýtur að svokallaðri búfræðslunefnd, sem skipuð skal samkv. þessum lögum. Skulu fulltrúar í búfræðslunefnd kosnir af vissum aðilum. Kostnaður við starf nm. greiðist af þeim stofnunum sem þeir eru fulltrúar fyrir. Það er sem sagt með þessari breytingu verið að firra ríkissjóð kostnaði af þessu starfi.

Síðari brtt., sem er við 21. gr., varðar aðeins aðferðina við skipun fastra kennara. Það var gert ráð fyrir því, að landbrh. skipaði fasta kennara að fengnum till. skólastjóra og deildarstjórnar. Svo kemur breytingin. Hún er sú, að þetta skuli gert samkv. lögum um eftirlit með ráðningu starfsmanna og húsnæðismálum ríkisstofnana, nr. 97/1974. Þetta er aðeins til þess að það fari ekki á milli mála, að þeir verði ráðnir eftir þeim reglum sem gilda um opinbera starfsmenn.

Ég held að ekki sé nein þörf að fara mörgum fleiri orðum um frv. á þessu stigi, Það var gert skilmerkilega þegar hæstv. ráðh. lagði f,v. fram. Ég ætla því ekki að endurtaka neitt af því, en ítreka að landbn. mælir með því samhljóða, allir nm., að frv. verði samþ. með þessari breyt. sem er á þskj. 670.