26.04.1978
Efri deild: 86. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3961 í B-deild Alþingistíðinda. (3101)

189. mál, búnaðarfræðsla

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég gat því miður ekki verið viðstaddur þegar hæstv. landbrh. mælti fyrir frv. þessu á sínum tíma, hef ekki heldur haft tóm til þess að kynna mér af hálfu fulltrúa Alþb. í landbn. umfjöllun málsins. En það er eitt atriði, sem að vísu kann nú fljótt á lítið ekki miklu að varða í vitund sumra, í 6. gr., II. kafla laganna, sem ég vildi gjarnan fá skýringu á. Það er þetta: Hvers vegna er kveðið á um að búnaðarskólinn á Suðurlandi skuli vera í Odda? Ég held að hin sögulegu rök fyrir staðarvalinu ein saman nægi ekki, og þangað til ég hef heyrt gildari rök er ég þeirrar skoðunar, að hæfilegra væri að kveða á um að hinn þriðji yrði á Suðurlandi. Ef ekki koma fram önnur en hin sögulegu rök, hin fornsögulegu rök fyrir staðarvalinu, að skólinu skuli vera á Odda á Rangárvöllum, þá mun ég bera fram till. um að við bætist á eftir „Odda á Rangárvöllum“: enda heiti skólastjórinn Sæmundur.