26.04.1978
Efri deild: 87. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3969 í B-deild Alþingistíðinda. (3136)

181. mál, bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil sem 1. flm. þessa frv. þakka allshn. Ed. afgreiðslu þess. Ég fellst á brtt. frá meiri hl. allshn. um breytinguna á 5. gr., þar sem kveðið er á um viðurlög við brotum á lögunum. Að vísu er ég þeirrar skoðunar, að hér sé um að ræða svo alvarlegt og þýðingarmikið atriði, að ákvæði um refsingu við brotum á þessum lögum þurfti að vera býsna hörð, en ég set þessa breytingu ekki fyrir mig.

Af framkvæmd laganna hef ég ekki ýkjameiri áhyggjur en af framkvæmd ýmissa annarra laga. En svo er nú um löggjöfina, að hún er gjarnan byggð upp á boðum og bönnum, og vegna ummæla hv. þm. Jóns G. Sólness hefði ég gjarnan viljað að hann tilgreindi mér ein lög eða svo, þar sem það væri tryggt til hlítar að valdboð frá hinu háa Alþ. yrði ekki brotið. Hann taldi þessu lagafrv. það til lasts, að ekki væri tryggt að valdboð frá hinu háa Alþ. í þessu tilfelli yrði ekki brotið.

Ég vil, áður en ég vík nánar að ræðu hv. þm. Jóns G. Sólness, sem ég mun nú á eftir gera, víkja að ítarlegri og skynsamlegri ræðu hv, þm. Braga Sigurjónssonar um málið, þar sem hann vakti margar spurningar um það, með hvaða hætti við ættum að tryggja okkur gegn því, að erlendir fjármunir yrðu notaðir til áhrifa á íslenskt þjóðlíf yfirleitt, ekki bara í pólitíkinni, heldur einnig í íslensku menningarlífi, með hvaða hætti við gætum tryggt okkur að erlendir aðilar, sem þar vildu um hlutast, gætu ekki gert það í valdi peninga sinna. Margt af því, sem hv. þm. sagði um þessi atriði, er vissulega íhugunarvert. Ég hlýt að játa það, að á því örskamma tímabili sögunnar sem ég hef fylgst með prívat og persónulega og reynt að afla mér upplýsinga og trúrra heimilda, þá bendir t. d. ýmislegt til þess, að jafnvel í hinum hefðbundna gagnkvæma stuðningi, sem verkalýðsfélög viða um heim hafa veitt hvert öðru, hafi ekki allar fjárveitingar verið látnar í té af jafnfrómu hugarþeli. Ég minnist þess t. d., hvernig leyniþjónusta Bandaríkjanna notaði bandarísku verkalýðssamtökin til þess að koma peningum inn í Chile til að styrkja verkfall vörubilstjóra, sem háð var til þess að steypa sósíalískri ríkisstj. af stóli. Því er alls ekki hægt að neita, að það er vel hugsanlegt, að verkalýðssamtök í öðrum heimshluta kynnu að vilja fremja hagsmuni sinnar ríkisstj. með því að styðja verkföll, sem væru við það miðuð að steypa þjóðlegri íhaldsstjórn af stóli í einhverju landi. Þetta er meira en hugsanlegt. Öll þessi atriði þurfum við að hugleiða.

Hv. þm. vék að því, með hvaða hætti innlendir stjórnmálamenn þiggja boð erlendis frá um að koma í kynnisferðir. Einnig þetta atriði er nokkuð sem við hljótum að taka til íhugunar. Æ sér gjöf til gjalda. Þm. Alþfl. fluttu fyrr á þessum vetri þáltill., sem ég vitnaði í þegar ég mælti fyrst fyrir þessu frv., þar sem lagt var til að ríkisstj. léti semja frv. sem bannaði opinberum starfsmönnum að þiggja meiri háttar gjafir eða meiri háttar boð. Nú í vetur kom það upp, að Alþfl., sem eins og hv. þm. Jón G. Sólnes tók fram að er á allra vitorði að er í alþjóðasamtökum sósíaldemókratískra flokka, hefði þegið 50 heimboð erlendis á kostnað bjóðenda sinna á árinu sem leið. Sjálfur hef ég eins og hv. þm. Bragi Sigurjónsson þegið heimboð til Bandaríkjanna, að vísu ekki sem stjórnmálamaður, heldur í tíð minni sem fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu, og til Kína einnig sem starfsmaður hjá Ríkisútvarpinu, en að vísu aldrei til Sovétríkjanna, — ég minnist þess raunar ekki að mér hafi verið boðið þangað. En hér erum við að tala um allt önnur mál í raun og veru og að vissu leyti ekki náskyld því, sem er frv. þetta, sem hér liggur fyrir til umr., til laga um bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka. Við erum að tala um dálítið öðruvísi mál. Í 1. gr. frv. segir:

„Íslenskum stjórnmálaflokkum er óheimilt að taka við gjafafé eða öðrum fjárhagslegum stuðningi til starfsemi sinnar hérlendis frá erlendum aðilum.“

Í seinni greinum frv. er kveðið nánar á um þessi atriði. Í 2. gr. segir:

„Lög þessi taka til stjórnmálaflokka og félagasamtaka þeirra, svo og til hvers konar stofnana, sem starfa á þeirra vegum, beint eða óbeint, þ. á m, blaða.“

Ég hirði ekki að lesa grg. að þessu sinni, en mun þó aðeins víkja að síðari mgr. hennar vegna ummæla hv. þm. Jóns G. Sólness. Hann sagði, eða eins og hann orðaði það beint: „ég þykist fylgjast jafnvel með og hver annar“. Ég leyfi mér nú rétt á eftir að víkja að því, hversu vel hann fylgist með, en hann telur að hér sé það einsdæmi hversu spjótum sé beint að Alþfl. sérstaklega. Tilefni þessa lagafrv. er beinlínis sú staðreynd, sem fram kemur í þessari mgr., sem ég mun nú lesa:

„Orsök þess, að flm. flytja nú þetta sérstaka frv., sem varðar einn þátt málsins, er hins vegar sú að upp komst nú í vetur og fyrir liggur játning eins stjórnmálaflokks, Alþfl., að hann hafi leitað fjárframlaga erlendis frá og fái nú þaðan peninga til þess að kosta útgáfu blaðs síns og standa straum af annarri stjórnmálastarfsemi á landi hér. Skiptir hér ekki máli að dómi flm. þótt gjafafé þetta sé sótt til Norðurlanda. Þarf ekki að rökstyðja það álit í grg. því að alls ekki verður við það unað, að neinir erlendir aðilar fái að gera út stjórnmálaflokka á Íslandi.“

Hér er kveðið alveg skýlaust að orði. Þetta er tilefni frv. Og þá komum við að því, hversu Jón er glöggt dæmi í þessu, að þykjast fylgjast jafnvel með og hver annar. Hann leggur þetta til í dagskrártill, sinni:

„Starfandi er 7 manna mþn. til að undirbúa frv. til laga um réttindi og skyldur stjórnmálaflokka. N. hefur verið falið að hraða störfum. Ed. telur að ekki sé óeðlilegt, að um bann gegn fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka og ýmis félög, stofnanir og samtök á þeirra vegum, hverju nafni sem nefnast, verði fjallað af fyrrgreindri mþn., og telur d. því ekki ástæðu til þess að samþykkja nú frv. sem að mjög takmörkuðu leyti kveður á um þau málefni.“

Sannleikurinn er sá, að þessi nefnd, sem hv. þm. vill nú vísa málinu til, hefur þegar lokið störfum og er ekki til lengur. Formaður í þessari nefnd var flokksmaður hans, Ellert B. Schram. Þessi nefnd hefur þegar skilað lagafrv. Og svo að ég fræði hv. þm. sem þykist þó fylgjast jafnvel með og hver annar þótt honum sé allóljóst hvernig fjallað hefur verið um mál í þinginu, sem hann lætur þó að sér kveða, þá var í þessari nefnd fjallað um þetta atriði, um fjárhagsstuðning erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka, og þar var borin fram till. nokkurn veginn shlj. þeirri sem fram kemur í þessu lagafrv. Hún mætti andstöðu eins nm., eins og einnig hefur komið fram, Gylfa Þ. Gíslasonar. Því ákvað nefndin. fremur en að klofna og skila tveimur álitum, að leggja slíkt í vald Alþ. með sérstöku tilliti til þess, að þetta lagafrv. var komið fram. Ég vil ekki leiða raunverulega neinum getum að neinu slíku, en maður getur rétt ímyndað sér, hvort hugsast geti að einn fyrrv. ráðh., sem á hugsjónalegan aðgang að einum núv. ráðh. í öðrum stjórnmálaflokki, sem virðist eiga opna gátt í hjarta hv. þm. Jóns G. Sólness, hafi tekið það að sér að reyna að koma því til leiðar, að hv. þm. reyndi að tefja fyrir framgangi þessa máls í Ed. En ég segi eins og Ludvig Storr hefði orðað það: Þetta er bara fsp. mín.

Hv. þm. Bragi Sigurjónsson kvað það vera trú meiri hluta manna á Íslandi og sjálfur tryði hann því, að Alþb. fengi fé eftir neðanjarðarleiðum erlendis frá. Ég ætla mér nú ekki þá dul að hlýða hv. þm. yfir þau trúaratriði sem persónuleiki hans er byggður upp af, enda er ég hreint ekki svo viss um að hv. þm. trúi þessu sjálfur en ýmislegt hafa menn uppi. Fyrir liggur játning af hálfu forustumanna Alþfl. á því, að þeir báðu um frá Norðurlöndum og fengu milljónatug í gjöf í formi pappírs og að parti í formi peninga til stjórnmálastarfsemi sinnar á landi hér. Hv. þm. sagði með sínu heiða yfirbragði: Þótt Alþfl. hafi fengið einu sinni eða tvisvar sinnum, ef ekki þrisvar sinnum slíka stoð í pappír frá Norðurlöndum. — Síðan spurði hann, hvort hægt væri að nefna dæmi þess, að flokkurinn hefði verið hallari undir hagsmuni þessara norrænu þjóða en aðrir flokkar á Íslandi. Nú vil ég ekki í líkingu við það sem hv. þm. Bragi Sigurjónsson gerði áðan, þegar hann lýsti yfir ekki aðeins trúarskoðun sinni, heldur meiri hluta Íslendinga varðandi það, að Alþb. fengi fé erlendis frá, fara að leiða getum að einu eða neinu í þessu sambandi. En hitt má okkur vera minnisstætt, hv. þm., þegar í lok fyrri vinstri stjórnar að brast samstarfið, þá var gerður að forgöngu fyrrv. þm. Alþfl. og fyrrv. þm. gamla Sósíalistaflokksins sérstakur samningur við skandinavíska jafnaðarmenn um styrk til Alþýðublaðsins. Beint ofan í þá fjárveitingu gerðist Alþfl. aðili að 12 ára samstarfi við Sjálfstfl. og í því 12 ára samstarfi þróuðust þess háttar skoðanaskipti hjá ýmsum af forustumönnum Alþfl , sem telja mátti að væru ákaflega hagkvæm t. d. fyrir Bandaríkjamenn, fyrir Atlantshafshandalagið. Ég hygg að það hafi verið eitthvað um þetta leyti sem hv. þm. Bragi Sigurjónsson, sem var mjög eindreginn herstöðvarandstæðingur áður, skipti um skoðun og alveg örugglega sem form. þingflokks Alþfl., Gylfi Þ. Gíslason, sem einnig hafði verið mjög eindregið herstöðvarandstæðingur, skipti um skoðun.

Ég get nefnt dæmi þess, að erlendis er litið á peningamiðlunina hjá jafnaðarmönnum sem býsna vafasamar tiltektir. Það þótti Finnum, þegar upp komst að smyglað var peningum frá Svíþjóð til Finnlands til þess að styrkja jafnaðarmannaflokkinn þar. Þá kom það fram í sænskum blöðum, að grunur lék á því, að jafnaðarmenn í Vestur-Þýskalandi miðluðu peningum til Skandinavíu og jafnvel kynni eitthvað af þeim að vera komið frá erlendum ríkisstjórnum. Var ekki bandaríska leyniþjónustan ein tilnefnd í því sambandi.

Ég er þeirrar skoðunar, að það sé alveg efalaust að við verðum að kveða á um það með lögum, eins og segir í 1. gr. frv., að íslenskum stjórnmálaflokkum sé óheimilt að taka við gjafafé eða öðrum fjárhagslegum stuðningi til starfsemi sinnar hérlendis frá erlendum aðilum. Fyrir liggur frv. frá fyrrnefndri 7 manna nefnd, sem hv. þm. Jón G. Sólnes verður endilega að trúa að hefur fyrir löngu lokið störfum og er ekki til lengur. Fyrir liggur frá henni frv. um fjárreiður stjórnmálaflokkanna, þar sem kveðið er á um að bókhald þeirra skuli vera opið og fært samkv. góðum venjum. Sjálfur var ég þeirrar skoðunar og er enn þá að æskilegt sé, og mun ég leggja slíkt til þegar það frv. kemur hér til meðferðar í Ed., að hert verði á þessum ákvæðum og gerðar strangari kröfur um að þetta bókhald verði fært nákvæmlega. Þar fáum við inn lagaákvæði um að bókhaldið sé opið og eftirlit með bókhaldi stjórnmálaflokkanna og fjárreiðum þeirra. En í þessu frv. er gert ráð fyrir að það verði klárlega bannað, að íslenskir stjórnmálaflokkar taki við gjafafé eða öðrum fjárhagslegum stuðningi til starfsemi sinnar frá erlendum aðilum.

Ég óska þess sem sagt, að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það kemur frá meiri hl. allshn. d., með þeirri breytingu sem lagt er til á sérstöku þskj. að gerð verði.