02.11.1977
Neðri deild: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í B-deild Alþingistíðinda. (318)

11. mál, vandamál fatlaðra

Flm. (Magnús Kjartansson):

Hæstv. forseti. Þessi till. mín til þál. um vandamál fatlaðra er í tveimur hlutum og má segja að fyrri hlutinn sé innifalinn í þeim síðari. Fyrri hlutinn hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að beita sér fyrir því í samráði við ríkisstj. að á fjárl. ársins 1978 verði fjárveiting til þess að koma fyrir lyftu í lyftugöngum þeim sem eru í Þjóðminjasafnsbyggingunni. Verði lyftan við það miðuð að fatlað fólk, m.a. í hjólastólum, eigi sem greiðastan aðgang að öllum salarkynnum hússins. Gerðar verði breytingar innanhúss í sama tilgangi, m.a. þær að ganga svo frá salernum að unnt sé að aka inn í þau í hjólastólum, fjarlægja þröskulda og skipa sýningarmunum þannig að fatlaðir eigi greiðan aðgang að þeim.“

Síðari hluti till. er svo almenns eðlis, þannig að segja má að þetta sé hluti af síðari hlutanum. Engu að síður hef ég viljað taka þetta mál út úr, vegna þess að þarna er hægt að hrinda af stað framkvæmd á mjög stuttum tíma, framkvæmd sem þýddi þá að Alþ. reyndi að hefja til vegs nýja og myndarlega stefnu á þessu sviði.

Þegar Þjóðminjasafnið var vígt 1952 var það vigt sem gjöf þjóðarinnar til sjálfrar sín, eins og minnst er á í grg. En það var ekki gengið að fullu frá því, þegar búið var að vígja það. Sá, sem teiknaði húsið, hafði gert ráð fyrir að þar yrði lyfta upp á efstu hæð hússins, og það var gert ráð fyrir því við byggingu hússins og byggð lyftugöng. En lyftan er ekki komin enn, þó að sé liðinn aldarfjórðungur. Vafalaust hefur þessi lyfta upphaflega verið hugsuð til þess að koma sýningarmunum auðveldlega upp í húsið í samræmi við þá hugsun sem þá var ríkjandi, en mér finnst að meginverkefni þessarar lyftu þurfi að vera það að auðvelda fötluðu fólki að eiga aðgang að húsinu. Eins og nú er ástatt og allir menn þekkja er aðgangurinn býsna erfiður. Það eru tvískiptar tröppur með erfiðu handriði og oft feiknarlegt rok á tröppunum, þannig að þær eru fremur til þess ætlaðar að gera menn fatlaða en að auðvelda fötluðum að fara um þær. Og að sjálfsögðu getur maður, sem er bundinn við hjólastól, með engu móti notað þessar tröppur nema með miklu umfangsmeiri aðstoð en svo, að hægt sé að ætlast til þess að þar verði starfslið til þess að bera menn upp tröppurnar. Ég tel það því vera ákaflega stórt mál, að þarna verði komið fyrir lyftu sem sé við það miðuð að fatlað fólk, í hjólastólum m.a., geti hagnýtt lyftuna til þess að koma og hafa gagn af þessum söfnum og starfsemi sem þar fer fram. Þetta er ekki mikið kostnaðarmál, að ég hygg, og þetta er sem sé hægt að framkvæma á stuttum tíma vegna þess að lyftugöngin eru þarna. Það er aðeins eftir að velja og kaupa lyftuna og gera svo þær minni háttar breytingar, sem ég minntist á, að breyta þröskuldum og salernum og tryggja að fólk í hjólastólum geti átt greiðan aðgang að sýningarmunum. Þetta væri hægt að gera í sambandi við fjárl. fyrir næsta ár, og þetta ætti að geta vel komið til framkvæmda á miðju næsta ári. Ég tek þetta út úr af þessum ástæðum, að ég tel að það sé kominn tími til þess að Alþ. geri sér ljóst að á þessu sviði er mikið verk að vinna, og lit ég þá á þetta verkefni sem upphaf að miklu viðtækari lotu.

Í síðari hluta till. er skorað á ríkisstj. að skipa nefnd sem í eigi sæti fulltrúar fatlaðra og sérfræðingar. Skal hlutverk nefndarinnar vera að endurskoða lög, reglugerðir og samþykktir um samgöngumál, skipulagsmál, byggingarmál og önnur hliðstæð verkefni í því skyni að tryggja fötluðum sem mest jafnrétti í þjóðfélaginu. Nefnd þeirri skal veitt fjármagn til þess að ráða sér starfsmann og leita til sérfræðinga.

Hér er um ákaflega stórt mál að ræða, en það hefur því miður ekki verið á dagskrá, — ja, hvergi í heiminum fyrr en síðustu 30 árin eða svo. Þetta kemst á dagskrá í síðustu heimsstyrjöld, þegar margir fatlast af völdum styrjaldar, og kannske hafa einhverjir hermálasérfræðingar haft áhuga á því, að hægt væri að lækna fatlaða svo að þeir gætu farið út í styrjöldina á nýjan leik. En sem betur fer hefur þetta þróast þannig að það hefur verið tekið á vandamálum fatlaðra á allt annan hátt en áður var gert, fyrir 20–30 árum eða svo, og af því starfi hefur orðið ákaflega mikill árangur, ótrúlega mikill árangur.

Við verðum að gera okkur ljóst, að það er ákaflega stór hluti hverrar þjóðar sem á við fötlun að stríða af ýmsum ástæðum. Þar koma til slys, þar koma til sjúkdómar. Ég sá það í skýrslu frá landssambandi fatlaðra í Finnlandi, að talið er að hvorki meira né minna en 15% þjóðarinnar, eða rúmlega sjöundi hver maður, eigi við slíka fötlun að stríða að þeir eigi erfitt með að nota sér almenningsfarartæki. Í þeirri tölu eru andlega fatlaðir og einnig börn á aldrinum 0–3 ára. Þetta er ákaflega stór þjóðfélagshópur, og að sjálfsögðu á þjóðfélag, sem stefnir að jafnrétti, að setja sér það mark að þetta fólk geti lifað sem eðlilegustu lífi þrátt fyrir fötlun sína.

Í þessu efni hefur æðimikið verið gert annars staðar á Norðurlöndum. Ef við tökum Norðurlöndin í heild til samanburðar, erum við á þessu sviði orðnir miklir eftirbátar annarra. Í sumar tóku gildi lög í Svíþjóð sem mæla svo fyrir, að allar opinberar byggingar, allir vinnustaðir og öll íbúðarhús hærri en tvær hæðir verði að hafa þannig tilhögun að fatlað fólk geti athafnað sig þar til jafns við heilbrigða. Þetta er orðið að lögum í Svíþjóð. En hér á Íslandi hefur þessu því miður verið allt of lítið sinnt. Þó hér séu starfandi mörg öflug samtök fatlaðs fólks á ýmsum sviðum og hafi unnið ákaflega mikil störf, þá höfum við á hinu háa Alþ. ekki gert okkur ljóst hvað þessi vandi er mikill, og málum, sem flutt hafa verið hér á þingi, hefur því miður ekki verið framfylgt. Ég vil minna á það, að á 92. löggjafarþingi flutti hv. þm. Oddur Ólafsson þáltill. um ráðstafanir til að auðvelda umferð fatlaðra. Þáltill. var á þessa leið:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að skipa nefnd, er kanni leiðir, sem tryggi, að byggingar og umferðaræðar framtíðarinnar, er njóta fjárhagslegrar fyrirgreiðslu opinberra aðila, verði hannaðar þannig, að fatlað fólk komist sem greiðlegast um þær.

Enn fremur athugi nefndin, hvort ekki sé ástæða til þess að veita úr ríkissjóði nokkra fjárhæð árlega, gegn jafnháu framlagi frá sveitarfélögum, til þess að bæta umferðarmöguleika fyrir fatlað fólk um þær byggingar, sem nú eru í notkun.“

Þessi þáltill. var samþykkt einróma hér á hinu háa Alþ. En hvað gerðist síðan? Það er ekki annað að sjá en félmrn., sem væntanlega hefur fengið þessa þál., hafi stungið henni í einhverja skjalahirslu og ekki sinnt henni nokkurn skapaðan hlut meir. Vera má, að þetta hafi borist til allra rn., en þá er það eins með þau. Við sjáum það ákaflega vel af tveimur frv. til laga, sem liggja fyrir þessu þingi. Annað er frv. til byggingarlaga og þar er ekki að finna ákvæði sem þetta varðar, annað en eina mjög loðna setningu: „Í byggingarreglugerð skal setja ákvæði varðandi umbúnað bygginga til þess að auðvelda ellihrumu og fötluðu fólki að komast leiðar sinnar.“ Þetta er mjög loðið. Í skipulagslögum er ekki að finna eitt einasta orð. Nefnd sú, sem skipuð var í áframhaldi af tillögugerð hv. þm. Odds Ólafssonar, kom með alveg ákveðnar till. um það, hvernig ætti að breyta byggingarlögum og skipulagslögum til þess að tryggja að fatlað fólk gæti komist um á eðlilegan hátt. Það var ekkert tillit tekið til starfa þessarar nefndar þegar þessi frv., sem ég hef vikið að, voru lögð fram hér á þingi, nema þessi eina loðna setning. Og það gerist, sé ég, að hv. þm. Oddur Ólafsson verður að flytja brtt. við skipulagslög, vegna þess að það hefur ekkert mark verið tekið á því starfi sem unnið hafði verið af sérfróðum mönnum — það hefur ekkert mark verið tekið á því. Hv. þm. Oddur Ólafsson verður að taka málið upp á sama hátt og hann gerði á þinginu 1971–1972, og vinnubrögð af þessu tagi eru náttúrlega algerlega ósæmileg. Og þau mættu vera okkur þm, til nokkurrar umhugsunar. Það er æðimikið um að slíkir hlutir gerist, að við samþykkjum hér á þingi, tökum ákvarðanir sem geta skipt miklu máli, en fylgjum þeim svo ekkert eftir og ráðh. leggist á þau og hafi engan áhuga á þeim.

Ég held, að ástæða væri til þess að við hér á Alþ. færum að hyggja að því, hvort ekki ætti að breyta starfsháttum Alþ., t.a.m. í samræmi við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum, þannig að n. þingsins starfi allt árið, líka utan þess tíma sem þing situr. Alþm. hafa orðið sæmilegar árstekjur, og það er ekki ofætlun þeirra að vinna allt árið. Annars staðar á Norðurlöndum hafa slíkar nefndir það verkefni að fylgjast með því, hvernig staðið er að framkvæmd ákvarðana sem teknar eru á þingum, og enn fremur að kanna víss vandamál, reyna að komast til botns í þeim og flytja till. á grundvelli þess. Hér hefur það gerst, að vilji Alþ., sem var samþykktur á þingi 1972, hefur ekki verið að neinu hafður í Stjórnarráðinu, og slík vinnubrögð eru auðvitað algerlega ósæmileg.

Ég minntist á það áðan, að það hefði ekki verið tekið af alvöru á málefnum fatlaðra í heiminum fyrr en upp úr síðustu heimsstyrjöld. En síðan hafa orðið óhemjulega miklar framfarir. Ég hef dvalist á endurhæfingarstofnun sjálfur og hef haft fyrir augunum ýmsa atburði sem ég vildi jafna til kraftaverka, þar sem menn hafa fengið að heita má algeran bata af meinsemdum sem áður höfðu þjáð þá alla ævi. Og ákaflega stór hluti fatlaðra nær þeim styrk sem fatlaðir geta unnið á eðlilegan hátt í þjóðfélaginu við hlið þeirra sem heilbrigðir eru. En þar vantar mikið á í skipan þjóðfélagsins, að fatlaðir geti hagnýtt styrk sinn á þennan hátt. Það er svo til enginn vinnustaður á Íslandi sem er þannig hannaður að fatlaðir geti starfað þar við hlið heilbrigðra. Það eru til vinnustaðir á vegum SÍBS, sem eru sérstaklega gerðir handa mjög illa fötluðu fólki, en það er eina undantekningin. Ég tel hitt hins vegar skipta ákaflega miklu máli, að fatlað fólk, sem hefur þrek til þess, geti unnið á vinnustöðum við hlið heilbrigðs fólks og lifað sem eðlilegustu lífi þrátt fyrir þá örðugleika.

Við skulum íhuga það í sambandi við t.a.m. húsbyggingar, verksmiðjur, söfn, íbúðarhús, að það er ekki vitund dýrara að byggja þessi hús þannig, að fatlaðir geti haft full not af þeim. Það þarf bara að ákveða það fyrir fram, að þannig skuli þetta gert. Hér á Íslandi er komið fyrir tröppum í tíma og ótíma, þar sem þeirra er engin þörf, og það væri hægt að haga flestum byggingum þannig, að fatlaðir gætu athafnað sig þar alveg til jafns við heilbrigt fólk. Þess vegna er ákaflega mikilvægt, að um þetta verði sett algerlega bindandi löggjöf og menn vinni verk sín, byggingarfræðingar, skipulagsfræðingar og aðrir slíkir, með tilliti til þess, að sjöundi hver maður í landinu er fatlaður og við getum búist við því að það ástand standi alllengi. Og þjóðfélagið verður að skipuleggja þannig að þetta fólk hafi jafnrétti á við aðra. Það er augljóst lýðræðismál, það er augljóst mannréttindamál. Og ég flyt till. mína í því skyni að vekja athygli á þessu stórfellda vandamáli.

Sú varanlega nefnd, sem ég geri þarna till. um, ég tel að hún muni þurfa að starfa um alllangt skeið, vegna þess að það er ekki fyrr en nýlega, eins og ég segi, sem menn hafa áttað sig á því, að það er ekki gert ráð fyrir því að fatlað fólk athafni sig í þjóðfélaginu. Það er gert ráð fyrir því að það feli sig, að það sýni sig ekki á almannafæri. Í sambandi við það get ég sagt dálítið skemmtilega sögu sem kom fyrir mig í sumar úti í Kaupmannahöfn. Ég var þar og langaði til að skreppa í Tívoli, eins og ég er vanur þegar ég kem í þá ágætu borg. Ég hringdi í Tívolí og spurði hvort hægt væri að fá léðan hjólastól þar, og konan, sem svaraði, svaraði auðheyrilega bæði undrandi og hneyksluð, að ekki væri um slíka þjónustu að ræða. Ég fékk þá léðan hjólastól hjá landssambandi fatlaðra og fór þangað sjálfur með hjólastól um hádegisbil. og ég sá þá mér til ánægju að þangað kom mjög mikið af fötluðu fólki. Það kom auðsjáanlega af stofnunum, í stórum bílum með hjólastóla með sér. Ég spurði einn af starfsmönnum Tívolís um það, hvers vegna þetta væri, að Tívolí hefði ekki þessa þjónustu við fatlað fólk, að geta lánað því hjólastóla. Hann sagði mér að til skamms tíma hefði verið bannað að fólk í hjólastólum færi í Tívoli. Það var ekki bannað af umbyggju fyrir fötluðu fólki. Það var bannað vegna þess að þetta var skemmtistaður og þegar heilbrigt fólk er að skemmta sér átti það ekki að þurfa að verða fyrir þeim leiðindum að sjá fatlaða í námunda við sig. Þetta sjónarmið hefur verið ákaflega ríkt, og því vitum við að þannig er ástatt að ákaflega stór fjöldi fatlaðra vill helst ekki sýna sig á almannafæri, vegna þess að menn verða þar fyrir — ja, annaðhvort ótímabærri meðaumkun eða fyrirlitningu. Það er ákaflega mikið af fötluðu fólki sem lokar sig inni af þessum ástæðum. Það er óhemjulegt jafnréttismál að þessu fólki sé tryggður sami réttur og öðrum í þjóðfélaginu.

Við skulum ekki gleyma því heldur, að þetta fólk getur verið ákaflega hæfur vinnukraftur. Ég minnti á það í umr. hér um daginn, að einn af frægustu stjórnmálamönnum þessarar aldar, Franklin Delano Roosevelt, lamaðist svo að hann gat ekki hreyft sig nema í hjólastól, og ég benti á að hann hefði ekki getað starfað hér á Alþingi Íslendinga ef hann hefði verið Íslendingur og þetta komið fyrir hann hér. Ég man eftir því, að hv. þm. Albert Guðmundsson stóð hér upp og vildi vefengja þessi orð mín og sagði að húsinu yrði þá breytt í samræmi við þarfir slíks manns. Ég hef fylgst með breytingum á þessu húsi síðan ég kom hingað fyrst fyrir um það bil 30 árum. Hér hafa verið gerðar ýmsar breytingar til hagræðis fyrir þm. Ég man eftir því, að þegar ég kom hingað fyrst á þing urðu þm. að skáskjóta sér meðfram fatageymslunni til þess að komast inn í húsið. Aðalinngangurinn, sá innri, var lokaður. Og ef ég man rétt, þá var þetta skáskot það erfitt að t.a.m. ég hefði ekki getað komist það með tvær hækjur. Hér hafa verið gerðar miklar breytingar til hagræðis fyrir þm., eins og ég sagði, en það hefur ekki verið gerð nein breyting hér til hagsbóta fyrir fatlað fólk.

Ég skal benda hv. þm. á atriði sem þeir kannske hafa ekki veitt athygli sjálfir. Upp að aðaldyrum þinghússins eru þrjár tröppur. Þær eru handriðslausar. Ég verð að einbeita mér til að komast upp þessar tröppur án stuðnings. Tröppurnar hér af neðstu hæð upp á aðra hæð, — það er bægt að líta á þær einhvern tíma. Handriðið nær ekki lengra en svo, að það eru tvær tröppur fyrir neðan handriðið. Ég verð að teygja mig æðimikið til að ná í handriðið svo að ég geti staulast upp tröppurnar, þannig að það hefur ekki verið tekið tillit til fatlaðra í þessari stofnun frekar en öðrum. Og ég vil biðja hæstv. forseta að gefa þessu gaum, því kannske væri ástæða til þess að stjórnendur þingsins veittu þessu vandamáli athygli. Maður í hjólastól gæti náttúrlega engan veginn starfað hér vegna þeirra miklu þrengsla, sem eru í þessu húsi.

Ég tek þetta sem dæmi vegna þess að þetta er vinnustaður okkar, en þannig er ástatt yfirleitt á öllum vinnustöðum á Íslandi, að fólk, sem er fatlað, t.a.m. það illa að það sé bundið við hjólastól, getur ekki starfað á eðlilegan hátt við hlið annarra, þó það hafi þrek til þess. Þetta er mikið jafnréttismál, þetta er mikið mannréttindamál, þetta er mál, sem er skylda okkar allra að huga að, og ég vænti þess að alþm. geri það. Það vakti athygli þm. hér fyrir nokkru þegar dálítið af fötluðu fólki kom á þingpalla. Það varð að bera það upp tröppurnar, svo að það kæmist upp á pallana til að hlusta á okkur. En þessi hópur er svona stór, eins og ég sagði áðan, og það er ekki sæmandi annað en við breytum löggjöf okkar þannig að hún tryggi þessu fólki eins mikið jafnrétti og hægt er að tryggja því í þjóðfélagi okkar.

Ég legg svo til, hæstv. forseti, að till. verði vísað til heilbr.- og trn.