26.04.1978
Neðri deild: 85. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3982 í B-deild Alþingistíðinda. (3236)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Virðulegi forseti. Það er til siðs, bæði hjá stjórn og stjórnarandstöðu, að sýna mikið umburðarlyndi og hjálpa til við afgreiðslu mála fyrir þinglok, en í þetta skipti finnst mér keyra um þverbak. Það er liðin rétt ein klukkustund síðan útbýtt var frv. til l. um jöfnunargjald, sem nú er búið að setja á dagskrá og á að hefja umr. um með afbrigðum. Það er, eins og atkvgr. hafa sýnt nokkrar síðustu mínútur, rétt helmingur dm. staddur í deildinni. Hinn helmingurinn er utan deildarinnar og hefur ekki hugmynd um að þetta mál hafi verið lagt fram, hvað þá að það eigi að taka til alvarlegrar umr. á þessum fundi. Ég vil beina því til hæstv. forseta, að þetta er einum of langt gengið og að ekki er hægt að bjóða löggjafarþingi svona afgreiðslu.