26.04.1978
Neðri deild: 85. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3983 í B-deild Alþingistíðinda. (3239)

Umræður utan dagskrár

Forseti (Ragnhildur Helgadóttir) :

Ég vil í tilefni af orðum hv. þm. taka fram, að ég hef ekki orðið annars vör en að hið besta samstarf hafi verið milli stjórnarliðs og stjórnarandstöðu um að koma áfram málum. Að því leyti tek ég undir orð hv. þm. En um það, sem hv. 2. landsk. þm. sagði áðan, að störf þingsins í dag hafi verið á nokkurn hátt óeðlileg, vil ég segja að það tel ég engan veginn rétt. Vissulega hafa mörg mál verið afgreidd hér með shlj. samþykki allra viðstaddra þdm., þeirra sem þátt tóku í atkvgr. Afbrigði voru veitt, ef ég man rétt, með 26 atkv. fyrir því, að öll dagskrármálin væru afgreidd við lokaafgreiðslu úr þd. Enginn einasti hv. þm. hreyfði mótmælum við því. Ég vil því algerlega vísa því á bug, að nokkur óeðlilegur hraði hafi verið við afgreiðslu mála, heldur hafi hann þvert á móti verið fullkomlega eðlilegur eins og á stendur.

En út af umkvörtunum hv. þm. um þetta sérstaka stjfrv. vil ég taka fram að það skal ekki verða tekið til umr. fyrr en klukkan hálfsex nú í dag. Og ef menn óska þess, get ég ákaflega vel frestað atkvgr. um afbrigði. Mér sýndist það einungis vera til hagræðis fyrir alla hv. þdm., að afbrigðanna væri leitað strax, og er slíkt alltítt. Er þess óskað, að atkvgr. um afbrigðin verði frestað? (Gripið fram í.)