26.04.1978
Neðri deild: 85. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3984 í B-deild Alþingistíðinda. (3242)

274. mál, orlof

Flm. (Karvel Pálmason):

Hæstv. forseti. Á þskj. 549 flyt ég frv. til l. um breyt. á l. nr. 87 24. des. 1971, um orlof, sbr. lög nr. 109 31. des. 1972. Hér er lagt til að breyta 11. gr. gildandi laga um orlof. Lagt er til að sú grein orðist svo:

„Orlofsfé skal greitt á þann hátt, að tryggt sé að launþegi fái það í hendur, þegar hann tekur orlof. Félmrh. setur reglugerð um þetta atriði í samráði við Alþýðusamband Íslands, Vinnuveitendasamband íslands og Vinnumálasamband samvinnufélaganna. Einstök verkalýðsfélög hafa þó óskoraðan rétt til þess að semja við viðsemjendur sína um annað fyrirkomulag en reglugerðin gerir ráð fyrir.“

Þessi breyting, sem hér er um að ræða, er sú, að skotið er inn í 11. gr. þessu orðalagi, sem er viðbót: „einstök verkalýðsfélög hafa þó óskoraðan rétt til þess að semja við viðsemjendur sína um annað fyrirkomulag en reglugerðin gerir ráð fyrir.“ Með þessari breytingu, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, er tilgangurinn að tryggja hinum einstöku verkalýðsfélögum rótt til þess að semja um framkvæmd á greiðslu orlofsfjár eins og þau telja heppilegasta. Það skal viðurkennt, að með orlofslögunum, sem sett voru 1971, urðu veruleg umskipti í þá átt, að miklu meira fjármagn kom inn vegna orlofsgreiðslna en verið hafði meðan orlofsmerkjakerfið var. En hitt fer ekki milli mála, að því fer víðs fjarri að svo vel hafi tekist til við þá löggjöf, sem þá var sett og nú er í gildi varðandi orlofsmeðferðina, að ekki sé ástæða til breytinga með tilliti til þeirrar reynslu sem fengist hefur af þessari löggjöf sem er nú búin að vera í gildi frá því 1971.

Það hefur verið í langan tíma og er enn þó nokkuð gagnrýnt, með hvaða hætti þessi mál eru framkvæmd. Nú er það svo, að Póstur og sími hefur á hendi framkvæmd þessa. Allir fjármunir, sem inn koma vegna greiðslu orlofsfjár, fara til Pósts og síma í gegnum gírókerfi. Sú stofnun hefur það fjármagn því í veltunni svo og svo lengi og hefur eðlilega af því mikla hagræðingu fyrir rekstur sinn sem að vissu leyti er umfangsmikill. Komið hafa fram ýmis vandkvæði á þessari framkvæmd, m. a. þau, að mjög slaklega hefur í mörgum tilfellum verið staðið að innheimtu þessa fjár frá viðkomandi vinnuveitendum. Og líklega eru mýmörg dæmi þess, að sumir vinnuveitendur með mikil umsvif og háar fjárupphæðir, sem inn í þetta kerfi eiga að fara, liggja með þessa: upphæðir í veitu hjá sér eða með öðrum hætti í ávöxtun undir sinni hendi svo mánuðum skiptir án þess að þessar upphæðir séu greiddar inn í gírókerfið til þeirrar stofnunar sem þetta fjármagn á að fá og á að ávaxta það. Hefur verið slælega að innheimtunni staðið og er því full ástæða til þess, í ljósi þessarar reynslu, að breyta þessari framkvæmd og skipa málum á þann hátt, að betur sé fyrir þessu séð en nú er.

Það má kannske segja, að ætlunin sé fyrst og fremst tvíþætt með flutningi þessa frv.: Í fyrsta lagi að gefa einstökum verkalýðsfélögum ótvíræðan og frjálsan rétt til að semja um þessi mál við viðsemjendur sína á þann veg sem þau telja, eða verkalýðshreyfingin og vinnuveitendur, best í hverju tilfelli. Það er löngu ljóst, að mörg verkalýðsfélög hafa óskað eftir þeirri breytingu, að þau fái óskoraðan rétt til þess að semja um það, á hvaða hátt verði farið með þetta fjármagn.

Einnig er sá tilgangurinn með flutningi þessa frv. um breytingu á lögunum orlof, að ekki sé einvörðungu um það að ræða að þetta fjármagn fari allt til ríkisstofnunar, sem er Póstur og sími í Reykjavík, þar verði því safnað saman öllum þeim háu upphæðum, sem þar er um að ræða, og þeim aðilum, sem fjármagnið eiga, einungis greiddir tiltölulega litlir sem engir vextir af geymslu þess fjár. Það er ætlunin með þessu frv., ásamt því að félögin fái óskoraðan rétt til þess að semja um þessi mál, að það fjármagn, sem inn kemur á hverjum stað, sé ávaxtað í heimabyggð, en ekki flutt hingað suður til Reykjavíkur til ávöxtunar.

Þetta eitt út af fyrir sig er ekkert smámál. Ég gæti t. d. trúað því, að í landshluta eins og Vestfjörðum hafi verið um að ræða einhvers staðar á bilinu frá 260–280 millj. sem greiddar voru í orlofsfé á árinu 1977. Hér er því um að ræða upp undir 300 millj. kr. sem safnast saman í þessum eina landshluta á ári. Það er því ekkert lítils um vert að það fé, sem greitt er í svo háum upphæðum, sé ávaxtað á þeim stöðum þar sem fjárins er aflað, en ekki flutt í sérstaka stofnun suður í Reykjavík til ávöxtunar og útdeilingar að hluta.

Einnig er gert ráð fyrir með þeirri breytingu, sem hér er lagt til að gerð verði, að þetta fé sé ávaxtað á bankabók viðkomandi einstaklings sem orlofsféð er greitt inn vegna, ávaxtað á bankabók í þeirri stofnun í heimabyggð viðkomandi einstaklings sem hann sjálfur kýs, en að sjálfsögðu með þeim hætti að hér væri um að ræða eins árs bók sem yrði bundin á þann veg, að út úr þeirri bók fengist ekki tekið þetta fé nema á orlofsárinu, þegar viðkomandi einstaklingur óskar þess að fara í orlof.

Með þessum breytingum, sem hér er verið um að tala, er ekki einungis horfið að því að ávaxta féð heima fyrir, heldur einnig því, og það er líka mikilvægt atriði, að viðkomandi einstaklingur geti með þessum hætti fengið miklum mun betri ávöxtun fjár síns með því að eiga það inni á bankabók í viðurkenndri fjármálastofnun, lánastofnun, og fengið af því hæstu vexti á hverjum tíma í stað þess að fá einungis í besta tilfelli líklega 5% vexti með því að greiða það Pósti og síma. Hér er því um mjög mikilvægt og nauðsynlegt mál að ræða að mínu viti og ætti að breyta í þá veru sem hér er lagt til.

Ég hef leitað mér um það upplýsinga, að engin tæknileg vandkvæði eru á því að breyta í þá átt sem hér er lagt til að gert verði. Það hlýtur að teljast óeðlilegt, að löggjöf standi í vegi fyrir því, að verkalýðsfélögin og viðsemjendur þeirra semji um það fyrirkomulag, sem þau telja að best þjóni hagsmunum sinna umbjóðenda á hverjum tíma, en það er það sem hér er um að ræða að gert verði. Auk þess hefur það heyrst, án þess að ég vilji neitt fullyrða um réttmæti þeirra sagna, að framkvæmd sú eða hliðstæð því sem hér er lagt til að verði höfð varðandi þetta mál sé til sums staðar í kerfinu.

Ég tel að hér sé um stórkostlegt byggðamál að ræða, ef fjármagnið yrði geymt á heimaslóðum í stað þess að flytja það til Reykjavíkur, en það yrði óneitanlega lyftistöng fyrir þær byggðir sem þess nytu á hverjum tíma. Í öðru lagi er stefnt að því að ávaxta féð á þann veg fyrir viðkomandi einstaklinga, sem það eiga, að þeir njóti bestrar og hagkvæmastrar ávöxtunar sem fyrir hendi er á hverjum tíma á fé sínu. Hér er um fullkomið réttlætismál að ræða. Þessi mál eiga að mínu viti að vera í höndum verkalýðsfélaganna og viðsemjenda þeirra og þau eiga að geta haft óskoraðan ákvörðunarrétt um það, með hvaða hætti þau telja best að haga meðferð þessara mála hverju sinni, sem þjóna fyrst og fremst sjónarmiðum þeirra umbjóðenda sem hér eiga hlut að máli.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa um þetta öllu fleiri orð. Ég held að hér sé um tiltölulega mjög einfalt mál að ræða, einfalda breytingu, en þó nauðsynlega, sem reynslan hefur sýnt að verður að gera. Ég vænti þess því, að þetta frv. fái jákvæðar undirtektir. Æskilegast þætti mér, þó langt sé liðið þinghalds, að það fengi afgreiðslu á þessu þingi. Hér er verið að ræða og á sjálfsagt enn eftir að ræða miklu, miklu flóknari frv. um breytingar á gildandi lögum og ný frv. til laga en hér er um að ræða, þannig að ekkert á að geta komið í veg fyrir að þess vegna sé hægt að afgreiða þetta mál. Ég vænti þess líka, að almennt séu þm. sammála um að þessa breytingu sé ekki einungis æskilegt að gera, heldur og að nauðsynlegt sé með hliðsjón af fenginni reynslu að breyta í þessa átt. Ég vænti þess því fastlega, að frv. þetta fái afgreiðslu á þessu þingi. Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og félmn.

Ég vil, áður en ég lýk máli mínu, aðeins víkja að brtt. sem hér er komin fram. Ég geri þó ráð fyrir því, að fyrir henni verði mælt sérstaklega á eftir. Ég vil fyrir mitt leyti taka það fram, að í mínum huga er ekkert óeðlilegt við að þessi breyting yrði gerð á frvgr., með þessu sé einungis verið hugsanlega að taka inn fleiri aðila úr launþegasamtökum og kæmu þeir til með að hafa þennan ákvörðunarrétt einnig. Það er a. m. k. mín skoðun, að sem flest stéttarfélög í landinu ættu að fá óskoraðan rétt til þess að ákvarða um þessi mál.