26.04.1978
Neðri deild: 85. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3987 í B-deild Alþingistíðinda. (3243)

274. mál, orlof

Karl G. Sigurbergsson:

Herra forseti. Ég lýsi yfir stuðningi mínum við frv. sem hér er til umr. Það á fullan rétt á sér og er þarft frv. En það er enginn hlutur svo að ekki megi betrumbæta. Þess vegna hef ég leyft mér ásamt 5. þm. Suðurl., Garðari Sigurðssyni, að flytja brtt. við þetta frv., svo hljóðandi, að 3. mgr. 1. gr. orðist þannig:

„Einstök stéttarfélög og samtök stéttarfélaga hafa þó óskoraðan rétt til að semja við viðsemjendur sína um annað fyrirkomulag en reglugerðin gerir ráð fyrir.“

Það er af sérstökum ástæðum, að ég og við flm. þessarar brtt. leggjum hana fram, og eins og kom fram í máli hv. flm. virðist hann vera á sömu skoðun. Það vill nefnilega þannig til, að þegar rætt er um verkalýðsfélög veldur það oft misskilningi að það er eins og eingöngu sé átt við landverkafólk. Þetta á sér orðið nokkra hefð í málinu, og þess vegna tel ég rétt að það sé kveðið þannig að orði að hér sé um stéttarfélög að ræða og samtök stéttarfélaga.

Mér finnst rétt að benda á það, að þegar orlofslögunum var breytt og horfið var frá orlofsmerkjagreiðslunni yfir í póstgírógreiðslu til Pósts og síma og orlofsféð rann allt í gegnum þá stofnun, þá var leitað samþykkis tveggja aðila aðallega, Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands, sem urðu sammála um þessa afgreiðslu málsins. Það var ekki leitað álits t. d. Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Ég vil geta þess hér, að á þessari breytingu, þó hún hafi haft ýmislegt jákvætt í för með sér, voru ýmsir annmarkar sem bitnuðu sérstaklega á sjómannastéttinni vegna hinna sérkennilegu aðferða við launagreiðslur til handa sjómönnum sem viðgengist hafa í áraraðir. Það voru gerðar lagfæringar á þessu seinna, en þær lagfæringar hafa ekki náð þeim árangri sem til var ætlast. Þess vegna endurtek ég, að ég álít að þetta frv., sem hér er flutt, sé til bóta og eigi fullan rétt á sér, því að það hlýtur að vera markmið löggjafans að koma ekki í veg fyrir að aðilar nái hagstæðari samningum um slík atriði, sem hér er um að ræða, heldur en lögin segja til um.

Ég veit nokkur dæmi þess, að atvinnurekendur hafa ekki greitt orlofsfé inn á gíróreikning, heldur lagt það inn á bankabók, ýmist — ég segi: ýmist á nafni eigenda eða eigin nafni. Þetta er náttúrlega ekki forsvaranlegt. Þess vegna held ég að það sé fyllilega rétt, sem hér er lagt til að gert verði, að einstök stéttarfélög og samtök stéttarfélaga fái tækifæri til þess að semja á annan hátt og á hagkvæmari að sínu mati um greiðslu orlofsfjárins til umbjóðenda sinna heldur en lögin hafa heimilað hingað til.