26.04.1978
Neðri deild: 85. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3996 í B-deild Alþingistíðinda. (3248)

268. mál, Iðntæknistofnun Íslands

Gunnar J. Friðriksson:

Herra forseti. Ég fagna hví, að þetta frv. skuli vera fram komið, þó seint sé. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um nauðsyn tæknilegrar þjónustu í þágu iðnaðar, þýðing iðnaðar er orðin það mikil í atvinnulífi okkar. En hins vegar hefur tækniþjónusta við hann ekki þróast að sama skapi og iðnaðurinn hefur vaxið. Það eru að vísu þrjár stofnanir sem hafa það hlutverk að veita iðnaðinum þessa þjónustu, en bæði er það að fjármagn til starfsemi þessara stofnana hefur verið mjög takmarkað og lítillar samræmingar hefur gætt í starfi þessara stofnana, þannig að það fjármagn og þeir starfskraftar, sem við þetta hafa fengist, hafa ekki nýst iðnaðinum eins og skyldi.

Hér hafa komið fram brtt. við frv., eins og það kemur frá iðnn. Nd., frá hv. þm. Vilborgu Harðardóttur og Benedikt Gröndal. Þar leggja þau til að nafninu sé breytt frá því sem það er í frv., að í stað þess að stofnunin sé nefnd Tæknistofnun Íslands sé hún nefnd Iðntæknistofnun Íslands. Ég er þessu andvígur. Mér finnst að tæknistofnunarnafnið sé að öllu leyti mikið þjálla og eðlilegra, sérstaklega með tilliti til þess, að hliðstæðar stofnanir á Norðurlöndum eru nefndar „Teknologisk institut“ og þessari stofnun er ætlað að gegna hliðstæðu hlutverki. Þess vegna sé ég ekki ástæðu til að í nafninu sé hún kennd sérstaklega við iðnað. Það fer ekki milli mála að hún muni þjóna iðnaðinum þar sem stofnunin heyrir undir iðnrn. og stjórn hennar er skipuð fulltrúum iðnaðarins, þ. e. a. s. bæði framleiðendanna og þeirra sem við framleiðsluna vinna. Þess vegna er ég andvígur till. um breytingu á nafninu.

Þá er í brtt. líka lagt til að kveðið sé sérstaklega á um stofnun fræðsludeildar. Í frv. er sérstaklega tekið fram að stofnunin skuli fást við fræðslu. Það er svo, að hliðstæðar stofnanir stunda í mjög ríkum mæli námskeiðahald og fræðslu og þær stofnanir, sem hér á að slá saman, gera það nú reyndar þegar. Þar að auki fer ekki á milli mála að seta fulltrúa iðnverkafólks og iðnaðarmanna í stjórn stofnunarinnar muni tryggja að fræðslumál muni verða á öllum tímum ofarlega á starfsskrá slíkrar stofnunar. Það segir sig líka sjálft þar sem tækniþróun er ör og iðnaðinum er nauðsyn á vel þjálfuðu fólki sem fylgist með tækninýjungum. Þess vegna álit ég óþarfa að sérstaklega sé tekið fram í lögunum að þessi deild skuli sett á stofn frekar en aðrar deildir sem gert er ráð fyrir að verði við stofnunina.

Um þriðju brtt., að starfsfólk stofnunarinnar skuli tilnefna mann í stjórn, vil ég segja það, að í stofnun eins og þessari, og reyndar í flestum íslenskum fyrirtækjum, þar sem starfsmenn skipta aðeins nokkrum tugum, álít ég óþarft að fulltrúar starfsfólks eigi aðild að stjórninni, þar sem dagleg samskipti starfsmanna og stjórnenda eru það náin að formleg stjórnaraðild er að mínu mati ekki til bóta.

Um brtt. hv. þm. Vilborgar Harðardóttur um tekjustofn fyrir stofnunina get ég aftur á móti verið sammála. Það er grundvallarskilyrði fyrir svona stofnun, að hún hafi tryggan tekjustofn. Er þessari stofnun nauðsynlegt að vita hverju sinni hvaða fjármunum hún hefur úr að spila. Ég álít þess vegna að mjög eðlilegt sé að tekjur hennar séu miðaðar við framleiðslumagn eða framleiðsluverðmæti í iðnaði. Ég mun því fylgja þessari brtt. hennar.

Hv. þm. Benedikt Gröndal minntist á jöfnunargjaldið, að þar væri um að ræða skattlagningu á neytendur. Ég vil benda hv. þm. á að hér er að mínu mati ekki um skattlagningu að ræða, þar sem á boðstólum eru hliðstæðar innlendar vörur sem ekki munu hækka í verði við þetta gjald, og náttúrlega munu þær, sem út eru fluttar, lækka. Þeim, sem vilja endilega kaupa erlendar vörur sem þó eru fáanlegar framleiddar hér á landi, er þá í sjálfsvald sett hvort þeir vilja borga þetta gjald í ríkissjóð. Ég álít því að hér sé ekki um skattlagningu á neytendur að ræða.