26.04.1978
Neðri deild: 85. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3999 í B-deild Alþingistíðinda. (3253)

45. mál, Iðnþróunarstofnun Austurlands

Frsm. meiri hl. (Ingólfur Jónsson) :

Hæstv. forseti. Frv. um Iðnþróunarstofnun Austurlands á þskj. 46 hefur legið nokkuð lengi í iðnn. Mætti ætla að n. væri ekki fljót að afgreiða mál þegar miðað er við það, hvenær þetta frv. kom til n. En ástæðan fyrir því, að dregist hefur að afgreiða málið, er einfaldlega sú, að nm. margir voru í vafa um hvort flm. kærði sig um að fá málið afgreitt miðað við þær umsagnir sem n. bárust um málið. N. óskaði eftir umsögnum frá ýmsum aðilum sem þetta mál snertir, og þær voru yfirleitt neikvæðar, nema frá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi sem mælir eindregið með því að frv. verði samþykkt.

Þetta frv. gengur út á það að setja á stofn Iðnþróunarstofnun Austurlands sem vinni að eflingu iðnaðar á Austurlandi. Það út af fyrir sig gæti verið gott, þegar tímar líða, að setja á stofn iðnþróunarstofnanir í ýmsum landshlutum, en þó tæplega fyrr en meira fjármagn er til að spila úr en nú er eða hefur verið. Það er hætt við því, að það mundi leiða til aukins kostnaðar og minni afkasta ef farið væri að dreifa þessu á marga staði á meðan ekki er um meira fjármagn að ræða en raun ber vitni og flestum er nú kunnugt um. Þess vegna er ekki talið ráðlegt að lögfesta þetta frv., a. m. k. ekki að sinni.

Rannsóknaráð ríkisins hefur þetta um málið að segja, með leyfi hæstv. forseta: „Framkvæmdanefnd Rannsóknaráðs telur mjög nauðsynlegt að auka rannsókna- og þjónustustarfsemi fyrir íslenska atvinnuvegi um land allt. Hins vegar getur framkvæmdanefndin ekki fallist á að rétt sé að skipta þeim tiltölulega litlu stofnunum, sem starfandi eru í landinu, með því að stofnsetja sjálfstæðar stofnanir fyrir hvern landshluta. Framkvæmdanefndin telur réttara að fara þá leið að setja á fót útibú í hinum ýmsu landshlutum, eins og gert hefur verið þegar á sviði fiskiðnaðarrannsókna og hafrannsókna. Framkvæmdanefnd Rannsóknaráðs getur því ekki mælt með samþykkt umrædds frv. eins og það er.“

Þá er umsögn frá Iðnþróunarstofnun Íslands. Hún mælir einnig gegn því, að frv. verði lögfest:

„Ekki verður annað séð en í frv. þessu felist sú stefnumörkun, að iðnþróun verði sérmál einstakra landshluta eða kjördæma. Verður að telja slíka stefnu hæpna í þessu litla landi, einkum þegar haft er í huga að á yfirstandandi þingi verður fjallað um lagafrv. sem miðar að því að koma á fót tæknistofnun í þágu iðnaðar á landsvísu með heimild til að setja á stofn útibú. Virðist sú stefna eðlilegri en sú sem fólgin er í téðu frv., enda hætt við að einangruð landshlutaiðnþróunarstofnun yrði vart verkefni sínu vaxin.“

Umsögn Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins: „Við vísum til bréfs yðar, dags. 16. des. s. l., þar sem beðið er um umsögn: 1) um frv. til laga um Iðntæknistofnun Íslands, 2) um frv. til laga um Iðnþróunarstofnun Austurlands.

Við teljum það ekki í okkar verkahring að gefa umsögn um frv. um Iðntæknistofnun Íslands frá tæknistofnunarsjónarmiði, enda mun um það fjallað af öðrum aðilum. Á hinn bóginn tökum við undir það sjónarmið, sem kemur fram í 11. gr., þar sem kveðið er á um að tengja skuli saman tækniþjónustu og markaðsstarfsemi með því að kveða á um að Útflutningsstofnun iðnaðarins eigi fulltrúa í framkvæmdanefnd iðntæknistofnunar. Hvað viðkemur frv. til laga um Iðnþróunarstofnun Austurlands, þá teljum við það ekki í okkar verkahring að gefa umsögn um það mál.“

Umsögn Félags ísl. iðnrekenda:

„Stjórn Félags ísl. iðnrekenda fjallaði á fundi sínum um frv. til laga um Iðnþróunarstofnun Austurlands. Varðandi umsögn um frv. þetta vill stjórn félagsins vísa til umsagnar sinnar um shlj. frv. frá síðasta þingi, sem fylgir hjálagt í ljósriti.

Stjórn Félags ísl. iðnrekenda vill nota þetta tækifæri til að koma því á framfæri við iðnn. Nd. Alþ.,n. beiti sér fyrir því að efld verði starfsemi þjónustustofnana iðnaðarins með því að samhæfa starfsemi þeirra og tryggja þeim fjármagn til þess að þær geti betur valdið hlutverki sínu.“

En umsögn Félags ísl. iðnrekenda frá fyrra ári endar svona:

„Að því er varðar iðnþróun á landsbyggðinni sérstaklega gæti vel komið til greina, ef ástæða þætti til, að stofna sérstakar deildir eða útibú frá slíkri stofnun úti um land, sem hefði með höndum sérstök hlutverk í þessu sambandi, enda hefur verið gert ráð fyrir því í þeim frumdrögum um tæknistofnun, sem lögð hafa verið fram á Alþ.“ — En áður er búið að segja í þessu bréfi, að það sé ekki vænlegt til árangurs nema með stórauknu framlagi og fjármagni til starfseminnar.

Þá er umsögn Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins um frv. um Iðnþróunarstofnun Austurlands. Þetta er nokkuð langt bréf. Það segir m. a.:

„Ef stofnuninni er ætlað að sinna verkefnum af sama toga og Iðnþróunarstofnun Íslands, ætti að vera auðveldara og árangursríkara að byggja upp og þróa iðnað á Austfjörðum með aðstoð Iðnþróunarstofnunar Íslands í stað þess að setja á laggirnar nýja stofnun.“

Það eru sem sagt borin fram mótmæli í þessu bréfi, m. a. vegna fjárskorts.

Fleiri umsagnir er nú ekki um að ræða. En ég held að það hæfi að segja að þetta er fremur neikvætt, þegar frá er tekin umsögn sveitarstjórnarsambands Austurlands. Meiri hl. iðnn. hefur þess vegna ekki treyst sér til þess að mæla með frv. Í meiri hl. eru Ingólfur Jónsson, Lárus Jónsson, Ingvar Gíslason, Pétur Sigurðsson, og Þórarinn Þórarinsson, en þessi meiri hl. vill afgreiða frv. eins og hér segir:

N. hefur rætt frv. og fengið umsögn aðila, sem málið snertir sérstaklega, m. a. sveitarstjórnarsambands Austurlands og Félags ísl. iðnrekenda.

Meiri hl., undirritaðir nm., leggur til að málinu verði vísað til ríkisstj. Vilborg Harðardóttir vill samþ. frv. og skilar séráliti.“

Hv. þm. Benedikt Gröndal er ekki með, ég held vegna þess að hann var fjarverandi þegar málið var afgreitt.

Ég sé ekki ástæðu til, hæstv. forseti, að fara fleiri orðum um málið. Það má vel vera að þróunin verði sú, og verður vonandi sú, að ástæða þyki til að auka starfsemina með því. að færa hana út í landshlutana, en það verður tæplega fyrr en þjóðin í heild hefur treyst sér til þess að auka verulega og mjög mikið fjármagn til rannsóknastarfsemi og tækniþróunar í landinu.